Um ASÍ

23. desember 2016

Bjarg - íbúðafélag var besta nafnið

Á 100 ára afmælisdegi ASÍ þann 12. mars 2016 ákvað ASÍ með stuðningi BSRB að standa fyrir stofnun almenns íbúðafélags sem mun bjóða upp á ódýrt leiguhúsnæði fyrir tekjulágar fjölskyldur og einstaklinga. Reykjavík, Hafnarfjörður og ýmis sveitarfélög á landsbyggðinni munu leggja til lóðir vegna uppbyggingarinnar. Félagið hefur þegar tekið til starfa og standa vonir til að fyrstu íbúðirnar verði teknar í notkun á seinni hluta ársins 2018.

Í haust var efnt til samkeppni um nafn á félagið og bárust 356 tillögur. Stjórn félagsins valdi 52 nöfn úr þeim hópi og sendi Gallup sem var fengið til að leiða nafnavalið til lykta. Gallup fækkaði nöfnunum niður í 26 áður en þau voru sett í hendurnar á tveimur rýnihópum. Niðurstaðan var að velja nafnið Bjarg - íbúðafélag. Tveir þátttakendur stungu upp á því nafni og var dregið um hvor skyldi hljóta 50 þús kr. verðlaunaféð og kom það í hlut Helga Birks Þórissonar.

Hér á síðunni má einnig sjá nýtt merki Bjargs - íbúðafélags en höfundur þess er Ólafur Kristjánsson hjá Dynamo Reykjavík.

Helgi Birkir Þórisson (t.v.) ásamt Birni Traustasyni framkvæmdastjóra Bjargs - íbúðafélags.

Twitter Facebook
Til baka