Um ASÍ

01. mars 2018

98.557 kr. munur á fasteignagjöldum fyrir 100 fm íbúð í fjölbýli

Verðlagseftirlit ASÍ hefur kannað þær breytingar sem orðið hafa á álagningu á fasteignagjöldum og útsvari milli áranna 2017 og 2018 í 15 fjölmennustu sveitarfélögum landsins. Þar að auki hefur verðlagseftirlitið gert samanburð á fasteignagjöldum milli sveitarfélaga með því að reikna fasteignagjöld út frá fasteigna- og lóðamati og tekið þannig saman dæmi um fasteigangjöld í nokkrum stærðum íbúða miðað við nýjustu tölur um fasteignamat.

Niðurstöðurnar eru áhugaverðar og sýna að mikill munur getur verið á fasteignagjöldum milli ára þrátt fyrir að um sé að ræða jafn stórar íbúðir. Fasteignagjöldin leggjast misjafnlega á hópa eftir því hvort um er að ræða fjölbýli eða sérbýli og eins eftir því hversu stór eignin er og geta fasteignagjöld því komið vel út fyrir ákveðinn hóp í einhverju sveitarfélaginu en illa fyrir næsta hóp í sama sveitarfélagi.

Lægstu fasteignagjöldin fyrir 75 fm fjölbýli á Akureyri
Könnunin sýnir að munurinn á hæstu og lægstu fasteignagjöldum milli sveitarfélaga fyrir 75 fm húsnæði er 68.559 kr. eða 43%. Lægst eru þau í Glerárhverfi á Akureyri, 158.637 kr. en hæst á Reyðarfirði, 227.196 kr. Næst hæstu gjöldin fyrir þessa stærð íbúða eru í Njarðvík, 226.049 kr. en Sveitarfélagið Árborg kemur þar á eftir með 221.375 kr. Næst lægst eru gjöldin í Seljahverfi, Reykjavík, 160.997 kr. og þau þriðju lægstu eru í austurbæ Kópavogs, 161.110 kr.  

Reyðarfjörður með hæstu fasteignagjöldin fyrir 100 fm fjölbýli
Þegar 100 fm fjölbýli er skoðað er mesti munur á fsteignagjöldum 98.557 kr. eða 54%. Þau eru hæst á Reyðarfirði 280.224 kr en lægst í Glerárhverfi á Akureyri 181.667 kr. Næst hæstu gjöldin eru í Keflavík á 279.224 kr. en næst lægstu í Seljahverfi, Reykjavík á 185.223 kr.

140.194 kr. munur á fasteignagjöldum fyrir 120 fm fjölbýliseign
Þetta breytist nokkuð ef horft er til fasteignagjalda fyrir 120 fm fjölbýlis eign en lægstu fasteignagjöldin fyrir slíka stærð af húsnæði eru í Mosfellsbæ á 204.322 kr. en þau hæstu eru í Keflavík á 344.517 kr. Munurinn á hæstu og lægstu gjöldunum í þessu tilfelli er 140.194 kr. eða 69%. Næst lægstu gjöldin eru í Seljahverfi, Reykjavík á 208.824 kr. en þau næst hæstu í Njarðvík á 314.633 kr.

Meiri munur á fasteignagjöldum í sérbýli en fjölbýli
Meiri munur er á fasteignagjöldum milli sveitarfélaga í sérbýli en munurinn á hæstu og lægstu gjöldunum fyrir 150 fm sérbýli er til að mynda 194.466 kr. eða 76%. Þannig eru fasteignagjöld í Keflavík fyrir þessa gerð af húsnæði hæst á 450.207 kr. en lægst í Seljahverfi í Reykjavík 255.741 kr. Næst lægst eru þau í Vestmanneyjum á 260.787 kr. en næst hæst á Seltjarnarnesi á 419.003 kr.

212.047 kr. munur á fasteignagjöldum í 200 fm sérbýli
Fyrir 200 fm sérbýli er Keflavík með hæstu gjöldin 508.052 kr. en Vestmannaeyjar með þau lægstu 296.005 kr. Þetta gerir mun upp á 212.047 kr. eða 72%. Næst lægstu gjöldin eru í Seljahverfi, Reykjavík á 312.915 kr. en þau næst hæstu á Selfossi, 473.263 kr.

Hækkanir á fasteigna- og lóðamati hafa áhrif á fasteignagjöld
Á síðasta ári hækkaði fasteignamat mikið um land allt eða frá 2% og upp í 27% í fjölbýli og frá 3,7% upp í næstum 21% í sérbýli en hækkanir yfir 10-15% voru algengastar. Miklar hækkanir á fasteignamati hafa haft þau áhrif að fasteignagjöldin hækka þrátt fyrir að sveitarfélögin hækki ekki álagningarprósentu hjá sér en fasteignagjöld eru í flestum tilfellum innheimt sem hlutfall af fasteignamati. Sum sveitarfélögin hafa tekið ákvörðun að lækka álagningarprósentuna og koma þannig til móts við mikla hækkun á fasteignamati á meðan önnur halda henni óbreyttri og hækkar þá krónutalan sem fólk borgar vegna hækkana á fasteigna- og lóðamati. Fasteignagjöld eru gjöld sem eru lögð á allar fasteignir af sveitarfélögum landsins og skiptast þau í fasteignaskatt, lóðaleigu, vatnsgjöld, fráveitugjöld og sorphirðugjöld en gjöldin eru misjafnlega há á milli sveitarfélaga.

Einungis Reykjanesbær gerir breytingar á útsvari milli ára
Útsvarsprósentan helst óbreytt síðan í fyrra í öllum sveitarfélögum nema einu. Reykjanesbær er eina sveitarfélagið sem breytir útsvarsprósentunni og lækkar hana um 3,52%. Útsvarið hafði áður verið hækkað vegna slæmrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Lægsta útsvarið er í Garðabæ og á Seltjarnarnesi eða 13,7% í hvoru sveitarfélagi fyrir sig.

Mesta hækkun á fasteignaskatti á Sauðárkróki

Flest sveitarfélögin lækkuðu álagningarprósentu fasteignaskatts milli ára eða 10 af 15. Þegar tillit er tekið til breytinga á fasteignamati kemur hinsvegar í ljós að fasteignaskattur hækkar í flestum sveitarfélögum. Mesta hækkunin er í Skagafirði en þar nemur hækkunin 16,34% í sérbýli og í fjölbýli í Sveitarfélaginu Árborg en þar nemur hækkunin 16,39%. Fasteignaskattur hækkar einnig mikið í fjölbýli á Ísafirði eða um 13,06%. Þar á eftir kemur Reykjavík – Laugarneshverfi/Vogahverfi með 9,50% hækkun í sérbýli, Fjarðarbyggð - Reyðarfjörður með 8,65% hækkun og Kópavogsbær – austurbær með 7,88% hækkun í sérbýli. Í flestum tilfellum er almenningur að borga meira árið 2018 en 2017 í fasteignaskatt þrátt fyrir lækkun álagningarprósentu hjá mörgum sveitarfélögum.

Miklar hækkanir á lóðaleigu í mörgum sveitarfélögum
Álagningarprósenta lóðaleigu stendur í stað lang flestum bæjarfélögum eða 3 af 15. Hún lækkar mest í Vestmanneyjum eða um 64% en næstmest á Akranesi um 62%. Þegar tekið er tillit til hækkana á lóðamati hækkar hún hins vegar í flestum bæjarfélögum, mest í fjölbýli á Reykjanesi um 33,9% í Keflavík og 30,9% á í Njarðvík og Sveitarfélagið Árborg fylgir þar á eftir með 27,1% hækkun. Aðra sögu er að segja ef horft er til sérbýlis en þá hækkar lóðaleigan mest í Reykjavík miðbæ um 24,5%, um 22,2% í Laugarnes- og Vogahverfi og um 20,6% í Seljahverfi.

Mestu hækkanirnar á vatnsgjöldum í Árborg
Einungis fjögur sveitarfélög hækka álagningu á vatnsgjöldum en það eru Reykjavík (5%), Vestmanneyjar (5%),  Akraneskaupsstaður (5%) og Akureyrarkaupsstaður (3%). Álagningin lækkar hins vegar í Kópavogi um 13%, Mosfellsbæ um 12% og Hafnarfjarðarbær með 11% lækkun. Þegar tillit hefur verið tekið til breytinga á fasteigna- og lóðamati er aðra sögu að segja en þá má sjá að hækkunin hjá Sveitarfélaginu Árborg er langmest eða um 25% í fjölbýli og 16% í sérbýli. Þar á eftir kemur Skagafjörður með 16% hækkun í sérbýli og 8% hækkun í fjölbýli, Ísafjörður með 13% hækkun í fjölbýli og Seltjarnarnes með 9% hækkun fyrir sérbýli.

27% hækkun á fráveitugjöldum í fjölbýli á Reykjanesi
Álagning fráveitugjalda lækkar mest í Kópavogi eða um 17,9% en þar á eftir koma Sveitarfélagið Árborg með 12% lækkun, Hafnafjörður með 11,6% lækkun og Mosfellsbær með 10,7% lækkun. Þegar tillit hefur verið tekið til breytinga á fasteignamati má sjá mestar hækkanir í Reykjanesbæ en þar hækka fráveitugjöld í fjölbýli um 27% í Njarðvík og 28% í Keflavík. Hækkunin er öllu minna í sérbýli í Njarðvík og Keflavík eða 15%. Töluverðar hækkanir eru einnig á Reyðarfirði eða 13% í fjölbýli og 16% í sérbýli.

Mestar hækkanir á sorphirðugjöldum í Sveitarfélaginu Árborg og Seltjarnarnesi
Mesta hækkunin á sorphirðugjöldunum milli ára er í Sveitarfélaginu Árborg en þar nemur hækkunin 28%. Næst kemur Seltjarnarnes með 26% hækkun og Kópavogur með 18% hækkun. Hæstu sorphirðugjöldin eru nú hjá Sveitarfélaginu Árborg en þar greiða íbúar 56.400 kr kr. fyrir að láta hirða sorpið en Vestmanneyjabær fylgir fast á eftir með sorphirðugjöld upp á 55.581 kr.

Á myndinni má sjá allar breytingar á fasteignagjöldum í sveitarfélögunum/hverfunum sem voru í úttektinni (smellið á myndina til að stækka hana).

Ítarefni

Um úttektina
Fasteignagjöld eru gjöld sem eru lögð á allar fasteignir af sveitarfélögum landsins. Þau skiptast í fasteignaskatt, lóðaleigu, vatnsgjöld, fráveitugjöld og sorphirðugjöld. Í flestum tilfellum er upphæð gjaldanna ákveðið hlutfall af fasteigna- og lóðamati eignarinnar og hefur hækkandi fasteignamat mikil áhrif í þeim tilfellum. Í öðrum tilfellum eru gjöldin innheimt sem fast gjald og/eða gjald á fermeter. Sorphirðugjöldin eru þó föst tala í öllum sveitarfélögum. Upplýsingar um fasteignagjöld má finna á heimasíðum sveitarfélaganna.

Fasteignagjöld eru ekki sérlega gegnsæ og erfitt og tímafrekt getur verið að átta sig á hversu miklar breytingarnar eru í krónum talið. Þá getur verið flókið að bera saman fasteignagjöld milli sveitarfélaga vegna þess hversu mikill munur er á fasteignamati milli sveitarfélaga. Álagning sveitarfélaganna er til að mynda töluvert hærri úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu en þar er fasteignamat einnig mun lægra og þarf það þess vegna ekki að þýða að fólk af landsbyggðinni borgi meira en fólk á höfuðborgarsvæðinu. Vegna þessa skoðaði Verðlagseftirlit ASÍ fasteigna- og lóðamat í hverju sveitarfélagi fyrir sig og reiknaði gjöldin út í heild sinni miðað við íbúðastærðir í hverju sveitarfélagi. Með þessum hætti má sjá hver munurinn á fasteignagjöldum er hjá fólki sem býr í sömu stærð af húsnæði. Ásamt því að gera okkar árlegu úttekt á breytingum í prósentum talið höfum við því tekið saman gjöld hjá fólki í 75 fm fjölbýli, 100 fm fjölbýli, 120 fm fjölbýli, 150 fm sérbýli, 175 fm sérbýli og 200 fm sérbýli. Við útreikningana er stuðst við gögn frá Þjóðskrá um meðalfasteignamat. Fasteignagjöld voru reiknuð fyrir íbúðir í ákveðnum stærðarflokki og eiga fasteignagjöldin í dæmunum hér því við um fleiri íbúðir en þær sem eru af þessari stærð. Þannig eru meðal fasteignagjöld fyrir 100 fm íbúð t.d. reiknuð af öllum 95-105 fm íbúðum í ákveðnu bæjarfélagi eða hverfi og fasteignagjöld fyrir 200 fm sérbýli er meðaltal af íbúðum á stærðarbilinu 195-205 fm.   

 

 

 

Twitter Facebook
Til baka