27. mars 2013

4,7% atvinnuleysi í febrúar

Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar mældist atvinnuleysi 4,7% í febrúar mánuði. Atvinnulausir voru 8400 og fækkar atvinnulausum milli mánaða um tvö þúsund. Á vinnualdri eru áætlaðir 226 þúsund einstaklingar en þar af eru 178 þús á vinnumarkaði en tæplega 48 þúsund utan hans. 

Undanfarið ár hefur orðið nokkur fjölgun á starfandi einstaklingum og samhliða því hefur dregið úr atvinnuleysi og einstaklingum fækkað utan vinnumarkaðar. Í febrúar á síðasta ári voru 12.600 einstaklingar án atvinnu sem er 7,3% atvinnuleysi. Atvinnuleysið hefur því dregist saman um 2,6%. Að sama skapi mælist atvinnuþátttaka nú 78,9% miðað við 77,5% í febrúar á síðasta ári.

Aftur á móti getur verið töluverð sveifla í vinnumarkaðskönnun milli mánaða en sé horft til árstíðarleiðréttingar og leitninnar má sjá að þróun á flestum mælikvörðum hefur batnað, fjöldi starfandi hefur þokast upp á við og einstaklingum utan vinnumarkaðar fækkar. Undantekningin er hins vegar vinnutíminn sem hefur ekki batnað í takt við aðra mælikvarða. Meðalfjöldi vinnustunda hefur dregist saman séu síðustu sex mánuðir bornir saman við sama tímabil árið á undan, eða úr 39,5 klst á viku niður í 38,4 klst.

Twitter Facebook
Til baka