Fara yfir á efnissvæði

Almennar Fréttir

Fyrsta maí yfirlýsing Alþjóðasambands verkalýðsfélaga (ITUC)

Bindum enda á græðgi fyrirtækjanna - heimurinn þarfnast hærri launa 

Árangurinn, sem margar kynslóðir starfandi stétta hafa skilað og fagnað er fyrsta maí, sætir kerfisbundnum og linnulausum atlögum, þar sem valdamikil fjölþjóðleg fyrirtæki og fáeinir gríðarlega auðugir einstaklingar ráða lögum og lofum um hagkerfi heimsins. Stjórnvöld hörfa hvarvetna, eru leiksoppar þeirra ofurríku og bregðast skyldu sinni að tryggja mannsæmandi vinnu fyrir alla og binda enda á fátækt. Þjóðernishyggja og útlendingahatur vega að rótum samstöðunnar, nú þegar heimurinn stendur frammi fyrir stærsta flóttamannavandamáli í 70 ár og troðið er á réttindum farandvinnufólks sem er svipt þeirri reisn að fá jafna meðferð.

Tugir milljóna karla og kvenna eru föst í nútíma þrælahaldi og enn fleiri mynda falið vinnuafl í aðfangakeðjum framleiðenda sem spanna heiminn allan. Þeim er neitað um réttinn til að stofna stéttarfélög, fá greitt lágmarkskaup sem dugar fyrir framfærslu og eru iðulega föst í hættulegri og niðurlægjandi vinnu. 40% af vinnuafli heimsins er bundið á klafa óformlegs hagkerfis, býr við réttleysi og á varla til hnífs og skeiðar. Hið eitraða kreddukerfi efnahagsþrenginga, sem er gert til að flytja enn meiri auð til þess 1% sem mest á, kemur verst niður á konum og kemur í veg fyrir nokkurn möguleika á að takast á við þau miklu vandamál sem við stöndum frammi fyrir.

Á meðan meira en milljarður manna býr við ofbeldi eða óöryggi og hundruðir þúsunda eru í framlínu vopnaðra átaka, er hættan á nýju stríði aldrei langt undan. Það verður enginn friður án mannréttinda og aðeins með því að tryggja mannréttindi, þar með talin grundvallarréttindi vinnandi stétta, næst hagsæld og friður.

Hið hagræna samhengi er úr lagi gengið, fjöldinn þarf að taka höndum saman, búa til nýjar reglur fyrir sig en ekki fyrir hina fáu.

Launafólk um víða veröld er að berjast fyrir rétti sínum, skipuleggja stéttarfélög frammi fyrir ofbeldisfullri kúgun, berjast fyrir mannsæmandi vinnu og fara jafnvel í verkfall þar sem enginn réttur er til slíks. Í verksmiðum Austur-Asíu og á plantekrum Mið-Ameríku, í bæjum og borgum Afríku og um allan heim stendur vinnandi fólk upp gegn hótunum fyrirtækja og fer fram á að réttur þess til að stofna stéttarfélög, réttur til almennra kjarasamninga og félagslegrar verndar sé virtur og að þau fái trausta og örugga vinnu. Konur segja „þið skuluð reikna með okkur“ þegar kemur að jafnrétti á vinnustöðum, fjárfestingu í samfélagsverkefnum, endalokum launamuns kynjanna og réttmætri þátttöku kvenna í framvarðasveit stéttarfélaga.

Þessi dagur hefur verið tækifæri í 130 ár til að fagna samstöðu og votta virðingu þeim sem fórnuðu svo miklu til að styðja málstað félagslegs réttlætis. Fyrsti maí 2017 er enn og aftur dagur til að sýna styrk og staðfestu vinnandi stétta, í baráttu þeirra gegn kúgun, til að sýna samstöðu heima og milli landa og vinna áfram að því verkefni að búa til betri heim.

Það steðja að okkur ný og ögrandi viðfangsefni, tæknin gerbreytir starfsumhverfinu, hætta er á að loftslagsbreytingar af mannavöldum valdi enn meiri eyðileggingu og popúlismi ásamt öfga hægri stefnum verða sífellt vinsælli. Við köllum eftir því að stjórnvöld bregðist við ógnun og áþján elítunnar, sem rígheldur í stjórnartauma valdsins, og taki sér stöðu með vinnandi stéttum. Við erum áfram staðföst í samstöðu okkar með öllum þeim sem sæta undirokun, búa við fátækt og misneytingu og hættum aldrei að vinna að hagsæld, jafnrétti og virðingu fyrir alla.

Ávarp forseta ASÍ á 1. maí (1)

HÚSNÆÐISÖRYGGI - SJÁLFSÖGÐ MANNRÉTTINDI

Ég óska launafólki um allt land til hamingju með baráttudag verkafólks og hvet alla til þess að leggja baráttu okkar lið með þátttöku á þeim fundum sem haldnir eru vítt og breitt um landið í dag. Samhliða því sem við rifjum upp áræði og dug íslensks verkafólks í baráttunni fyrir bættum kjörum og meiri réttindum, er ljóst að verkalýðshreyfingin stendur nú árið 2017 frammi fyrir gamalkunnugri áskorun. Húsnæðismálin voru eitt fyrsta stefið í kröfugerð verkafólks fyrir 100 árum þegar heilsuspillandi húsnæði og gríðarlegur húsnæðisskortur þrengdu að möguleikum alþýðunnar til betra lífs.

Verkalýðshreyfingunni tókst í samstarfi við bandamenn sína á Alþingi að ná góðum árangri í þessum málaflokki á ýmsum skeiðum á síðustu öld. Fyrst með stofnun verkamannabústaðakerfisins árið 1929 sem rekið var til síðustu aldamóta og stóð að byggingu á hagkvæmu og hentugu húsnæði fyrir tekjulágar fjölskyldur, en Byggingafélag alþýðu reisti fyrstu íbúðirnar í þessu kerfi upp úr 1930 í vesturbæ Reykjavíkur. Síðar beitti verkalýðshreyfingin  sér fyrir því að ríkið kæmi að málum til að auðvelda almenningi kaup á eigin húsnæði og til að koma í veg fyrir að braskarar gerðu húsnæðisskort að féþúfu.

Húsnæðismálastofnun ríkisins var stofnuð á sjötta áratugnum sem veitti almenningi lánafyrirgreiðslu til  kaupa á eigin íbúð og var með öfluga hönnunar- og teiknideild þar sem almenningur gat fengið hagkvæmar teikningar. Því miður fór það svo skömmu eftir aldamótin síðustu að stjórnvöld tóku þá upplýstu ákvörðun að eyðileggja verkamannabústaðakerfið og leggja af hönnunar- og teiknideildina. Síðan hefur horft til verri vegar í húsnæðismálum mikils fjölda okkar félagsmanna. Ætla má að ríflega 13 þúsund íbúðir hafi verið í verkamannabústaðakerfinu þegar það var lagt af og þeim sem þar bjuggu gefin kostur á að kaupa íbúðirnar með láni á markaðskjörum. Þegar í byrjun lenti þorri kaupenda í vanda með greiðslubyrði þessara lána – þrátt fyrir að hafa fengið að eignast verulegan eignarhlut – og  kannanir Hagstofu Íslands sýna að greiðsluvandi þessa hóps hófst þegar árið 2004 en ekki í kjölfar hrunsins.

Það er enginn vafi á því að ef verkamannabústaðakerfið hefði fengið að þróast áfram í friði fyrir pólitískri þröngsýni hægri aflanna væru um 20 þúsund íbúðir í þessu kerfi í dag og aðstæður bæði tekjulægri fjölskyldna og ungs fólks allt aðrar og betri. Nú er svo komið að ungt fólk sem ekki hefur sterkt fjárhagslegt bakland á litla sem enga möguleika á að hefja búskap. Tekjulágar fjölskyldur þurfa að nota allt að helmingi tekna sinna til að greiða leigu og búa samt við mjög mikið húsnæðisóöryggi. Verulegur skortur er á húsnæði og bæði fasteignaverð og leiguverð eru í hæstu hæðum. Ástandið er grafalvarlegt og það mun ekki lagast nema að ráðist verði hratt og af festu í uppbyggingu á miklum fjölda hagkvæmra íbúða.

Verkalýðshreyfingin hefur ávalt litið svo á að húsnæðisöryggi séu sjálfsögð mannréttindi og það var af þessari ástæðu sem ASÍ og BSRB réðust í að stofna sjálfseignastofnunina Bjarg – íbúðafélag á 100 ára afmæli ASÍ á síðasta ári. Það var af þessari sömu ástæðu sem aðildarfélög ASÍ settu uppbyggingu leiguíbúða fyrir tekjulægri félagsmenn sem forsendu inn í kjarasamninga sína í maí 2015 og fengu þannig ríkið til að leggja til fjármagn fyrir byggingu 600 íbúða á ári næstu fjögur árin. Jafnframt er vaxandi umræða innan hreyfingarinnar um að hún ætti einnig að beita sér fyrir því að verja okkar fólk gagnvart misnotkun fasteignabraskara, líkt og gert var um miðbik síðustu aldar þegar Smáíbúðahverfið var byggt upp og hönnunar- og teiknideild Húsnæðismálastofnunnar var stofnuð.

Verkalýðshreyfingin hefur áður staðið að stofnun byggingarsamvinnufélaga með það að markmiði að auðvelda félagsmönnum að eignast íbúð á hagkvæmari hátt. Nú þarf að hefjast handa ekki seinna en strax til að félagsmenn okkar komist út úr þeim ógöngum sem stjórnvöld hafa att þeim út í í húsnæðismálum. Við viljum byggja upp réttlátt samfélag þar sem gott og öruggt húsnæði þykir sjálfsögð mannréttindi – ekki forréttindi.

Gylfi Arnbjörnsson

1. maí ávarp Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík

Tími hinna glötuðu tækifæra á að vera liðinn

 Því er haldið fram að Ísland hafi nú risið úr efnahagslægðinni og það drjúpi smjör af hverju strái í landinu. Húsnæðisverð hafi stöðugt hækkað undanfarin misseri og sé að ná fyrri hæðum fyrir hrun. Fjöldi ferðamanna er að nálgast tveggja milljóna markið og fer yfir það á þessu ári. Sagt er að kaupgleði landans hafi aftur tekið við sér enda verðgildi íslensku krónunnar stigið þannig að kaupmáttur hefur vaxið síðastliðin tvö ár meira en dæmi eru um í langan tíma. Innflutningur nýrra bifreiða er sagður slá aftur gamalkunnug met. Fyrirtækin eru farin að skila hagnaði og færa eigendum sínum himinháar fúlgur í arð á hverju ári. Á nokkurra mánaða fresti berast okkur fréttir frá erlendum matsfyrirtækjum um að Íslendingar séu einstakir í samfélagi þjóðanna sem fóru í gegnum efnahagskreppuna haustið 2008. Landið sé að rísa hraðar en dæmi eru um meðal annarra þjóða. Því er haldið fram nú að íslenska ríkið með sína þrjá gjaldþrota banka haustið 2008, uppurinn gjaldeyrisforða og ógjaldfæran Seðlabanka, sé nú á árinu 2017 að verða skuldlaust.

Þegar skyggnst er bak við þetta meinta veisluborð, þá koma samt ýmsir váboðar í ljós, sérstaklega gagnvart okkur, þessu venjulega íslenska launafólki sem ber alltaf á endanum ábyrgð á sameiginlegum sjóðum ríkisins og þjóðarbúinu.

Við tökum öll eftir því sem ökum um göturnar í borgarlandinu eða á þjóðvegum landsins, að stofnbrautir um allt land eru meira og minna ónýtar. Grunnþjónusta sem almenningur þarf að geta treyst á, á borð við löggæslu, dómstóla og ýmsa opinbera þjónustu, hefur tekið á sig svo miklar skerðingar að öryggi borgaranna er í hættu. Í hinu norræna velferðarkerfi er heilbrigðisþjónustan gjaldfrjáls, en á Íslandi eru sjúklingar blóðmjólkaðir og tekjulind bæði ríkis og einkarekinna heilbrigðisfyrirtækja. Í hverri einustu viku heyrum við af fárveiku fólki sem þarf að greiða svimandi reikninga fyrir læknisþjónustu sem væri þeim að kostnaðarlausu ef það byggi í öðrum Evrópulöndum. Þjóðarsjúkrahúsið er í stöðugum vandræðum að fjármagna þjónustu sína ár eftir ár á meðan stöðug umræða er um að afhenda hluta hennar til einkaaðila. Eldri borgurum landsins, sem við eigum allt að þakka fyrir að hafa byggt upp þetta land, þökkum við nú með því að stía jafnvel hjónum sundur og flytja annað þeirra í fjarlægan landshluta. Ríkið þar sem allt gengur svona vel hefur ekki efni á því að greiða samningsbundinn kostnað hjúkrunarheimila, þannig að mörg þeirra hafa orðið að draga saman þjónustu eða varpa fjárhagsábyrgðinni á sveitarfélögin. Allt skólakerfi landsins ber sig illa undan niðurskurði og fjárskorti. Þúsundir íbúða eru í smíðum í landinu en hinn almenni launamaður og launakona eiga ekki möguleika á því að kaupa eða leigja.

Það er undarleg hagfræði hjá stjórnmálamönnum, í landi þar sem allt flýtur í peningum, ríkið að verða skuldlaust og atvinnuvegirnir hafa blómstrað undanfarin ár, að halda því fram að ekki sé hægt að standa undir gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi, skólakerfi, vegum landsins og öryggi landsmanna.

Verkalýðshreyfingin hlýtur að staldra við í þessu ástandi og spyrja áleitinna spurninga um hvort það sé eðlilegt að misjafnir sauðir í atvinnurekendastétt eigi að hafa öll ráð í hendi sér gagnvart því fólki sem heldur uppi þjóðfélaginu með vinnu sinni.

 • Er eðlilegt að atvinnurekendur geti með einföldum ákvörðunum stjórna sjávarútvegsfyrirtækja svipt fólk í heilu byggðarlögum atvinnu og lífsviðurværi?
 • Er líðandi að sömu sægreifum í sjávarútvegi hafi liðist að neita sjómönnum um sanngjarnan kjarasamning í sex ár og að það skyldi taka 10 vikna verkfall til að koma vitinu fyrir atvinnurekendur.
 • Er ásættanlegt að stjórnvöld hafi með fullri vitund og ásetningi búið til aðstæður sem einkafyrirtæki í heilbrigðiskerfinu geti nýtt sem gróðalind eigendanna? Eigum við að líða það að sjúkdómar fólks og veikindi séu grundvöllur arðgreiðslna til lækna og eigenda einkafyrirtækja?
 • Er það eðlilegt að ríkisstofnanir og jafnvel ráðuneytin séu mönnuð af ræstingarfyrirtækjum í eigu einkaaðila sem hagnast á sölu á vinnu margra þeirra sem bera minnst úr býtum fyrir vinnu sína? Er það siðlegt að þeir sem sitja í æðstu stöðum ríkisins með sín fínu laun í boði kjararáðs standi síðan fyrir því að starfsmenn í sömu stofnunum séu arðrændir?
 • Er eitthvað eðlilegt við það að fyrirtæki hér á landi, annað hvort innlend eða erlend, geti flutt inn erlenda starfsmenn og greitt þeim laun jafnvel langt undir lágmarkslaunum? Síðan veita þessi fyrirtæki starfsmönnum sínum engar upplýsingar, hvorki um vinnumarkaðinn, tungumálið eða menningu Íslands og senda þá síðan úr landi þegar upp kemst um glæpinn.
 • Er það í lagi þegar mansalsmál koma upp hér í samfélaginu, að fólkið sem lendir undir stjórn misindismanna í atvinnurekendastétt eigi það eitt úrræði að lokum að flýja til útlanda á vald fyrrum kvalara sinna? Er þetta í lagi?
 • Er það í lagi að hálfri öld frá því að sett voru lög í landinu um jöfn laun karla og kvenna skuli enn ríkja hér ójöfnuður í launum sem einungis verður skýrður með launamun kynjanna? Er í lagi að viðhorf atvinnurekenda og stjórnenda hafa staðið í vegi fyrir árangri á þessu sviði? Nú segja stjórnmálamenn að „jafnlaunavottun“sé lykillinn að lausninni. Við munum fylgjast grannt með því.
 • Eigum við áfram að sætta okkur við það að lögin í landinu og skattlagning eigna og tekna séu ætíð með þeim hætti að eignir Íslendinga safnist á færri og færri hendur? Meðan frítekjumark eldri borgara er lækkað um rúmar 100 þúsund kr. á mánuði lifir fjöldi Íslendinga í Florida góðu lífi á arðgreiðslum og fjármagnstekjum ævilangt.

Íslendingar hafa lengi alið með sér þann draum að komast í stöðu hinna Norðurlandaþjóðanna í félags- og efnahagsmálum. Þar er byggt á stöðugleika í efnahagsmálum og félagslegu réttlæti. Þeim fjölgar sem betur fer Íslendingum sem búið hafa á Norðurlöndum og sjá að þar nýtur fólk réttinda í menntun, heilbrigðis- og félagsmálum og mikils öryggis sem er langt umfram það sem við þekkjum hér á landi.

Það er engin eftirspurn lengur eftir sveiflukenndum lífskjörum, þar sem atvinnurekendur og stjórnvöld ræna okkur lífsviðurværinu, atvinnunni og félagslegri stöðu einu sinni á áratug. Þess vegna var það svívirða að stjórnmálamenn og embættismenn skyldu komast upp með það, með verkfærinu kjararáði og lagasetningu á Alþingi, að stöðva þessa miklu umbótaaðgerð sem fólst í nýju íslensku samningalíkani að norrænni fyrirmynd. Verkalýðshreyfingin hefur oft sýnt, nú síðast með áformuðu átaki í húsnæðismálum, að afl hennar getur riðið baggamuninn þegar á reynir.

Er ekki kominn tími til að kreppa hnefana og láta finna fyrir sér?

Er tími hinna glötuðu tækifæra ekki orðinn nógu langur?

Er ekki tími til að launafólk skerpi átakalínur svo um munar?

Baráttudagur launafólks 1. maí er sannarlega dagurinn til að vinna ný heit um umbætur í þágu launafólks.

                                                                                                                     

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar veitir þrjá styrki

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar veitir þrjá styrki

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar hefur veitt Ragnheiði Pálsdóttur styrk að fjárhæð kr. 750.000 vegna verkefnisins „Ritun sögu Listasafns ASÍ í bókina Saga listasafna á Íslandi“.  Um er að ræða rannsókn og skrásetningu á sögu Listasafns ASÍ. Skoðaður verður aðdragandi og tilurð safnsins, tíðarandinn og hugsjónir Ragnars í Smára sem lagði til stofngjöfina í safnið. Þá verður fjallað um hlutverk og starfsemi safnsins, safnkostinn og uppbyggingu hans og sýningarsaga safnsins skoðuð. Leitast verður við að varpa ljósi á ríka sögu safnsins, verðmæti safnkostsins og hugmyndafræðina sem lá að baki í upphafi en Ragnar í Smára hafði miklar hugsjónir varðandi það að færa listina til almennings í landinu „til íslenzkra erfiðisvinnumanna“ eins og segir í stofnskrá.

Þá hefur minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar veitt Vilhelm Vilhelmssyni styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna útgáfu á bókinni „Sjálfstætt fólk: Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld“ sem byggir á doktorsritgerð hans. Fjallað er um líf og kjör verkafólks til sveita á Íslandi á 19. öld fyrir tíma verkalýðshreyfingarinnar. Sér í lagi er fjallað um vistarbandið sem einn af grunnþáttum félagsgerðar íslensks samfélags. Horft er á valdaafstæður samfélagsins samfélagsins neðan frá með augum vinnuhjúa, flakkara og lausamanna og með atbeina þeirra að leiðarljósi. Einblínt er á þann núning sem óhjákvæmilega fylgdi vistarbandinu og höftum á atvinnu-, búsetu og ferðafrelsi alþýðufólks.

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar hefur veitt Önnu Sigurjónsdóttur, styrk að fjárhæð 250.000 vegna gagnaöflunar í tengslum við rannsóknarverkefnið „Hagsmunir ungs fólks, þekking á réttindum sínum og verkalýðshreyfingunni.“ Verkefnið felur í sér rannsókn á hagsmunum ungs launafólks, þekkingu þess á réttindum á vinnumarkaði og verkalýðshreyfingunni. Í rannsókninni verður notast við megindlega rannsóknaraðferð, þar sem dreift er spurningalistum á nemendur í framhaldsskólum landsins í samstarfi við skólana. Greining og niðurstöður verða settar fram í fræðigrein.

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar var stofnaður árið 1983 til minningar um Eðvarð Sigurðsson, formann Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Sjóðurinn er í umsjá Alþýðusambands Íslands.

Sjóðurinn veitir styrki til að efla rannsóknir og útgáfu á verkum sem varða sérstaklega vinnumarkaðinn, hagsmuni launafólks og starfsemi verkalýðshreyfingarinnar. Einnig veitir hann styrki til að sækja námskeið eða afla sér með öðrum hætti þekkingar á verkalýðshreyfingunni og málefnum launafólks, innanlands eða erlendis.

Óþolandi óvissa um orlofsuppbót eldri borgara og öryrkja

ASÍ lýsir yfir miklum áhyggjum af þeirri óvissu sem uppi er um orlofsuppbót almannatrygginga til lífeyrisþega. Venjan er að ráðherra gefi út reglugerð um áramót um orlofs- og desemberuppbót á komandi ári. Reglugerðin fyrir árið 2017 hefur enn ekki verið undirrituð. Þessi óvissa fyrir eldri borgara og öryrkja er algjörlega óþolandi og ráðherra verður að kippa þessu í liðinn strax.

Allt að 158% verðmunur er á þjónustu við dekkjaskipti

Allt að 158% verðmunur getur verið á þjónustu við dekkjaskipti á Jeppa af stærri gerðinni með dekkjastærð 265/60R18. Þetta kemur fram í verðkönnun sem Verðlagseftirlitið gerði á dekkjaverkstæðum víðsvegar um landið þann 26. apríl sl. Hjólbarðaverkstæði Kaldasels, Dekkjahöllin, Gúmmívinnustofan SP dekk, N1, Hjólbarðaverkstæði Grafarvogs, Barðinn og Hjólbarða og smurþjónustan Klöpp neituðu að upplýsa fulltrúa verðlagseftirlitsins um verð á þeirri þjónustu sem þeir selja neytendum.

Fulltrúum verðlagseftirlitsins var hins vegar vel tekið hjá flestum dekkjaverkstæðum og hvetur verðlagseftirlitið neytendur til að beina viðskiptum sínum til þeirra aðila sem virða sjálfsögð réttindi neytenda á samkeppnismarkaði til að fá verðupplýsingar og gera verðsamanburð.

Verðlagseftirlitið skoðaði verð á þjónustu við skiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu dekkja á ákveðnum dekkjastærðum fyrir nokkrar tegundir bíla. Titancar var í öllum tilfellum með lægsta verðið í könnuninni en Höldur með hæsta verð í flestum tilfellum.

Munurinn á lægsta og hæsta verði var mestur á þjónustu við dekkjaskipti á jeppa af stærri gerðinni (t.d. Mitshubishi Pajero instyle dekkjastærð 265/60R18) sem var ódýrust á  6.000 kr hjá Titancar en dýrust 15.497 kr. hjá Höldur sem gerir 158% verðmun.

Allt að 81% verðmunur var á dekkjaskiptum á smábílum (t.d. Toyota Yaris Terra), minni meðalbíl (t.d. Ford Focus Trend) og meðalbíl (t.d. Subaru Legacy station) með 14“ – 16“ stálfelgur. Lægsta verðið fyrir þessa þjónustu var 5.000 kr hjá Titancar og hæsta verðið 9.045 kr hjá Höldur með. Titancar var einnig með lægsta verðið fyrir dekkjaskipti á dekkjum sömu stærðar á álfelgum eða 5.000 kr en  Max1 með hæsta verðið, 9.121 kr sem er 82% verðmunur.

Þjónusta við dekkjaskipti fyrir jeppling t.d Toyota Rave (225/70/R16) kostaði 6.000 kr hjá Titancar sem var með lægsta verðið en hæsta verðið 10.999 kr  hjá Höldur þar sem verðið var hæst, það gera 4.999 króna verðmun eða 83%.

Sjá nánar niðurstöður í töflu.

Annað árið í röð var hópur fyrirtækja sem neitaði að upplýsa verðlagseftirlitið um verð á þjónustu sinni. Eftirfarandi þjónustuaðilar neituðu þátttöku annað árið í röð: Hjólbarðaverkstæði Kaldasels, Dekkjahöllin, Gúmmívinnustofan SP dekk, N1, Hjólbarðaverkstæði Grafarvogs, Barðinn

Eftirfarandi þjónustuaðilar vildu ekki upplýsa verðlagseftirlitið um verð á þjónustunni að þessu sinni: Hjólbarða og smurþjónustan Klöpp.

Kannað var verð á þjónustu við dekkjaskiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu á álfelgum og stálfelgum af stærðum 14“,15“, 16“ og 18´ á 26 hjólbarðaverkstæðum í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Ísafirði, Akureyri, Borgarnesi og Akranesi. Verðin í könnuninni eru án afsláttar en verkstæðin bjóða upp á margskonar afsætti t.d. fyrir félagsmenn FÍB, eldri borgara og staðgreiðsluafslátt, viðskiptavinir eru því hvattir til að spyrja um afslátt.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð á þjónustu að ræða en ekki var lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

 

Nýtt fréttabréf ASÍ (3)

Við höldum alþjóðlegan baráttudag verkafólks þann 1. maí að þessu sinni í skugga mikilla umbrota og ógnanna á alþjóðavísu. Viðvörunarbjöllur eru farnar að hljóma á húsnæðismarkaði. Alþjóðasamband verkalýðsfélaga (ITUC) hefur birt skýrslu með nöfnum 50 alþjóðlegra stórfyrirtækja sem þurfa að taka til í sínum ranni og ASÍ er aðili að Global Deal verkefninu. Lestu meira um þetta í nýju fréttabréfi ASÍ.

Hátíðarhöldin á landinu 1. maí 2017

Alþýðusambandi Íslands hafa borist tilkynningar um 1. maí hátíðarhöld í meira en 30 sveitarfélögum á landinu. Þar fyrir utan eru stóru stéttarfélögin í Reykjavík öll með vegleg kaffisamsæti víðsvegar um borgina eftir að útifundinum á Ingólfstorgi líkur.


Reykjavík
Dagskrá 1. maí hátíðarhaldanna í Reykjavík 2017 verður sem hér segir: Safnast saman á Hlemmi kl. 13.00 en gangan hefst kl. 13.30. Lúðrasveitir leika í göngunni.
Útifundur á Ingólfstorgi settur klukkan 14:10

Dagskrá:
Söngfjelagið
Ræða: Lilja Sæmundsdóttir, formaður félags hársnyrtisveina
Söngfjelagið
Ræða: Garðar Hilmarsson, formaður starfsmannafélags Reykjavíkurborgar
Amabadama flytur 2 lög
Söngfjelagið/samsöngur – Maístjarnan og Nallinn
Fundarstjóri: Þórarinn Eyfjörð
Öll dagskráin verður táknmálstúlkuð og Hulda M. Halldórsdóttir mun syngja á táknmáli í tónlistaratriðum

Byggiðn og FIT bjóða félagsmönnum sínum og fjölskyldum þeirra til kaffisamsætis í Grand hóteli við Sigtún að loknum útifundi á Ingólfstorgi.

Efling – stéttarfélag býður félagsmönnum sínum upp á kaffi í Valsheimilinu að Hlíðarenda að hátíðarhöldunum loknum kl. 15.00.

Baráttukaffi Rafiðnaðarsambands Íslands, MATVÍS og Grafíu verður á Stórhöfða 27, 1 hæð gengið inn Grafarvogsmegin og hefst kl. 15.00.

VM - Félag vélstjóra og málmtæknimanna býður félagsmönnum sínum upp á kaffiveitingar að útifundum loknum í Gullhömrum milli kl. 15:00 og 17:00.

VR hitar upp fyrir gönguna í Reykjavík með fjölskylduhlaupi og skemmtun á Klambratúni. Hlaupið hefst kl. 11:00. VR verður svo með verkalýðskaffi eins og venja og verður það haldið í anddyri Laugardalshallarinnar að loknum útifundinum kl. 15:00.

 

Hafnarfjörður
Baráttutónleikar verða haldnir í Bæjarbíó að Strandgötu 6, Hafnarfirði, í húsi Menningar- og listafélags Hafnarfjarðar milli kl. 13 og 15
Kynnir: Kolbeinn Gunnarsson, formaður Hlífar
Karl Rúnar Þórsson, formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar, flytur 1. maí ávarp verkalýðsfélaganna í Hafnarfirði
At-Breakpoint  - Jóhanna Guðrún og Davíð - Jón Jónson og Margrét Eir troða upp

 

Akranes
Safnast verður saman við Kirkjubraut 40, kl. 14:00 og genginn verður hringur á neðri-Skaga. Undirleik í göngu annast Skólahljómsveit Akraness
Að göngu lokinni verður hátíðardagskrá í sal Verkalýðsfélags Akraness á 3ju hæð Kirkjubrautar 40
Fundarstjóri: Vilhjálmur Birgisson
Ræðumaður dagsins: Ólafur Arnarson
Kvennakórinn Ymur syngur nokkur lög
Kaffiveitingar. Frítt í bíó fyrir börnin í Bíóhöllinni kl. 15:00

Borgarnes
Hátíðar- og baráttufundur hefst í Hjálmakletti kl. 11.00
Hátíðin sett: Signý Jóhannesdóttir formaður Stéttarfélags Vesturlands
Ræða dagsins: Arna Jakobína Björnsdóttir formaður Kjalar stéttarfélags í almannaþjónustu
Boðið upp í dans, tvö pör sýna dans
Atriði frá Grunnskólanum í Borgarnesi
Egill Ólafsson stuðmaður með meiru tekur lagið
Internasjónalinn
Félögin bjóða samkomugestum í súpu og brauð að fundi loknum 
Kvikmyndasýning fyrir börn verður í Óðali kl. 13:30, boðið verður upp á popp og ávaxtasafa

 

Stykkishólmur
Kynnir: Dallilja Inga Steinarsdóttir
Ræðumaður: Dröfn Haraldsdóttir, sérfræðingur í félagsmáladeild ASÍ
Sigga Eyrún og Kalli Olgeirs
Stórsveit Snæfellinga
Ka­ffiveitingar

 

Grundarfjörður
Kynnir: Helga Hafsteinsdóttir
Ræðumaður: Dröfn Haraldsdóttir, sérfræðingur í félagsmáladeild ASÍ
Sigga Eyrún og Kalli Olgeirs
Stórsveit Snæfellinga
Ka­ffiveitingar

 

Snæfellsbær
Kynnir: Guðmunda Wíum
Ræðumaður: Dröfn Haraldsdóttir, sérfræðingur í félagsmáladeild ASÍ
Sigga Eyrún og Kalli Olgeirs
Stórsveit Snæfellinga
Ka­ffiveitingar
Sýning eldriborgara
Bíósýning

Búðardalur
Dagskrá í Dalabúð kl. 14:30
Kynnir: Kristín G. Ólafsdóttir, stjórnarmaður SDS
Ræðumaður: Eiríkur Þór Theódórsson varaformaður ASÍUng og stjórnarmaður í Stétt Vest
Skemmtiatriði: Stórsöngvarinn og leikarinn Egill Ólafsson
Kaffiveitingar að lokinni dagskrá

 

Ísafjörður
Kröfugangan leggur af stað frá Baldurshúsinu, Pólgötu kl. 14.00
Dagskráin í Edinborgarhúsi:
Lúðrasveit tónlistarskólans: Stjórnandi Madis Maekalle
Ræðumaður dagsins: Bergvin Eyþórsson sjómaður
Söngatriði: Sigrún Pálmadóttir, undirleikur Beata Joó
Pistill: Kolbrún Sverrisdóttir verkakona
Leikatriði: Dýrin í Hálsaskógi
Tónlistaratriði: Sigurvegarar Músíktilrauna Between Mountains
Kaffiveitingar í Sindragötu 6, að hátíðarhöldum loknum
Kvikmyndasýningar fyrir börn í Ísafjarðarbíói kl. 14:00 og 16:00

Bolungarvík
Bolvíkingum er boðið í kaffi og meðlæti 1. maí  kl. 14:30
Dagskrá: Tónlistarskóli Bolungarvíkur skemmtir af sinn alkunnu snilld
Hjörtur Traustason og Bjarki Einarsson taka nokkur lög

Suðureyri
Kröfuganga frá Brekkukoti kl. 14. Boðsund barna í Sundlaug Suðureyrar.
Ræða dagsins: Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Tónlist og söngur barna. Dúettinn Between Moutains.
Kaffiveitingar í félagsheimili Súgfirðinga.

 

Blönduós
Dagskráin hefst kl. 15:00 í félagsheimilinu
Ræðumaður dagsins: Hólmfríður Bjarnadóttir, fyrrum stjórnarkona í Stéttarfélaginu Samstöðu
Afþreying fyrir börnin
Kaffiveitingar

 

Sauðárkrókur
Hátíðarsamkoma stéttarfélaganna verður haldin kl. 15 í sal Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra
Ræðumaður dagsins: Ásgerður Pálsdóttir, fyrrverandi formaður Stéttarfélagsins Samstöðu
Nemendur úr Grunnskólanum austan Vatna munu skemmta veislugestum
Sigfús Arnar Benediktsson og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir leika nokkur lög
Geirmundur Valtýsson leikur á nikkuna
Kaffiveitingar

 

Fjallabyggð
Dagskrá verður í sal félaganna,  Eyrargötu 24b Siglufirði milli kl. 14:30 og 17:00      
Ávarp 1. maínefndar stéttarfélaganna flytur Margrét Jónsdóttir
Kaffiveitingar

 

Akureyri
Göngufólk safnast saman við Alþýðuhúsið Kl. 13:30 og kröfugangan leggur af stað kl. 14 við undirleik Lúðrasveitar Akureyrar
Hátíðardagskrá í HOFI að lokinni kröfugöngu:    
Ávarp 1. maínefndar stéttarfélaganna: Brynjar Karl Óttarsson kennari                  
Aðalræða dagsins: Aðalheiður Steingrímsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands Skemmtidagskrá: Norðlenskar konur í tónlist Ásdís Arnardóttir kontrabassi, Helga Kvam píanó, Kristjana Arngrímsdóttir söngur og Þórhildur Örvarsdóttir söngur
Eyþór Ingi Gunnlaugsson
Kaffiveitingar að lokinni dagskrá

 

Húsavík
Hátíðardagskrá í Íþróttahöllinni kl. 14:00.
Dagskrá:
Ávarp: Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar stéttarfélags
Hátíðarræða: Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar stéttarfélags
Sálubót: Söngfélagið Sálubót syngur nokkur lög. Stjórnandi Jaan Alavere
Hjalti Jónsson og Lára Sóley Jóhannsdóttir spila og syngja þekkt dægurlög
Ari Eldjárn skemmtir gestum
Guðrún Gunnarsdóttir og Sigríður Beinteinsdóttir heiðra minningu Ellýjar Vilhjálms með því að syngja lögin hennar
Kaffiveitingar

 

Vopnafjörður
Hátíðardagskrá  verður í Félagsheimilinu Miklagarði kl.  14:00
Ræðumaður: Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir
Tónlistaratriði
Kaffiveitingar

 

Borgarfjörður eystri
Hátíðardagskrá verður í Álfheimum kl. 12.00
Ræðumaður: Reynir Arnórsson
Súpa og meðlæti.

 

Seyðisfjörður
Hátíðardagskrá verður í Félagsheimilinu Herðubreið kl. 15:00
Ræðumaður: Pálína Margeirsdóttir
Kaffiveitingar og skemmtiatriði

 

Egilsstaðir
Hátíðardagskrá verður á Hótel Héraði  kl. 10.30
Ræðumaður: Pálína Margeirsdóttir
Morgunverður  og tónlistaratriði

 

Reyðarfjörður
Hátíðardagskrá verður í Safnaðarheimili Reyðarfjarðar kl. 15:30
Ræðumaður: Grétar Ólafsson 
Kaffiveitingar og tónlist

 

Eskifjörður
Hátíðardagskrá verður í Melbæ Félagsheimili eldri borgara kl. 14:00
Ræðumaður: Grétar Ólafsson
Tónskóli Reyðarfjarðar
Kaffiveitingar og tónlistaratriði

 

Neskaupstaður
Hátíðardagskrá verður á Hildibrand hótel kl. 14:00
Ræðumaður: Sverrir Kristján Einarsson
Tónlistaratriði: Félag harmonikkuunnenda Neskaupstað
Kaffiveitingar

 

Fáskrúðsfjörður
Hátíðardagskrá verður í Félagsheimilinu Skrúð kl. 15:00
Ræðumaður: Jökull Fannar Helgason
Tónlistarskóli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar
Kaffiveitingar

 

Stöðvarfjörður
Hátíðardagskrá í Saxa Guesthouse kl. 15:00
Ræðumaður: Sigurður Hólm Freysson 
Tónlistarskóli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar
Kaffiveitingar

 

Breiðdalsvík
Hátíðardagskrá verður  á Hótel Bláfelli  kl. 14:00
Ræðumaður: Sigurður Hólm Freysson
Kaffiveitingar og tónlistaratriði

 

Djúpavogur
Hátíðardagskrá verður á Hótel Framtíð  kl. 11:00
Ræðumaður: Sverrir Mar Albertsson
Morgunverður og tónlistaratriði

 

Hornafjörður
Hátíðardagskrá á Z Bistro kl. 14:00
Ræðumaður: Sverrir Mar Albertsson
Lúðrasveit Hornafjarðar, leikhópur FAS, tónlistaratriði
Kaffiveitingar

 

Selfoss
Kröfuganga við undirleik Lúðrasveitar Selfoss kl. 11:00. Félagar úr Sleipni fara fyrir göngunni á hestum. Lagt verður af stað frá húsi stéttarfélaganna Austurvegi 56 og gengið að Hótel Selfoss þar sem hátíðardagskráin verður haldin innandyra.
Dagskrá á Hótel Selfossi
Kynnir: Hjalti Tómasson
Ræður dagsins: Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands og Freydís Ösp Leifsdóttir, námsmaður
Skemmtiatriði: Karitas Harpa syngur nokkur lög. Leikhópur Menntaskólans á Laugarvatni sýnir atriði úr Konungi ljónanna. Félagar úr Bifreiðaklúbbi Selfoss sýna stórglæsilega bíla sína. Teymt undir börnum í Sleipnishöllinni frá kl. 12:30 til 14:30. Marie Valgarðsson verður með blöðrur fyrir börnin

 

Vestmannaeyjar
Dagskrá í Alþýðuhúsinu, húsið opnar kl. 14 og baráttufundur hefst kl. 14:30
Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins flytur 1. maí ávarpið Nemendur Tónlistarskóla Vestmannaeyja sjá um tónlistina
Kaffisamsæti í boði stéttarfélagana

 

Reykjanesbær
Hátíðardagskrá í Stapa, húsið opnar Kl.13:45 - Guðmundur Hermannsson leikur létt lög
Kynnir - Guðbrandur Einarsson formaður VS og LÍV
Setning kl.14:00: Guðbjörg Kristmundsdóttir, varaformaður VSFK
Leikfélag Keflavíkur – Litla Hryllingsbúðin
Ræða dagsins: Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður RSÍ
Söngur – Jóhanna Guðrún og Davíð Sigurgeirsson
Sönghópurinn Víkingarnir
Kl.13:00 er börnum boðið á bíósýningu í Sambíói Keflavík

 

 

 

Ályktun miðstjórnar ASÍ um fjármálaáætlun fyrir árin 2018-2022

Ályktun miðstjórnar ASÍ um fjármálaáætlun fyrir árin 2018-2022

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir harðlega nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem felur í sér alvarlega aðför að velferðarkerfinu. Þar á meðal má nefna:

 • Skerða á réttindi atvinnuleitenda og stytta á bótatímabil atvinnuleysistrygginga úr 30 mánuðum í 24 mánuði. Þetta er alvarleg aðför að grundvallar réttindum launafólks.
 • Þrátt fyrir ítrekuð loforð um aukin framlög til heilbrigðisþjónustunnar er rekstur hennar áfram vanfjármagnaður.
 • ASÍ tekur undir mikilvægi þess að setja þak á greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni en ítrekar mótmæli sín gegn því að sú breyting sé fjármögnuð að stærstum hluta með hækkun á kostnaði hjá megin þorra notenda og krefst þess að staðið verði við 50 þúsund króna árlegt kostnaðarþak.
 • Áformuð fjölgun hjúkrunarrýma fram til ársins 2022 nemur einungis rúmlega helmingunum af áætlaðri viðbótarþörf fyrir ný hjúkrunarrými til ársins 2020.
 • Þrátt fyrir stöðuga fækkun barneigna undanfarin ár eru stuðningskerfi við ungt fólk ekki efld.
 • Barna- og húsnæðisbótakerfin sem eru mikilvæg tekjujöfnunartæki eru áfram veikt og fjölskyldum sem fá stuðning úr þessum kerfum mun að óbreyttu halda áfram að fækka.
 • ASÍ fagnar áformaðri hækkun á hámarksgreiðslum til foreldra úr Fæðingarorlofssjóði í 600 þúsund krónur á mánuði í áföngum fram til ársins 2020 en telur jafnframt nauðsynlegt að tekjur upp að 300.000 krónum á mánuði skerðist ekki og að fæðingarorlof verði lengt úr 9 mánuðum í 12 í áföngum.
 • Vegna ástandsins á húsnæðismarkaði er nauðsynlegt að auka stofnframlög til byggingar hagkvæmra leiguíbúða í almenna íbúðakerfinu úr 600 í 1.000 á ári næstu árin.
 • Ekki stendur til að gera löngu tímabærar breytinga á réttindum örorkulífeyrisþega í almannatryggingakerfinu til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið á réttindum ellilífeyrisþega, fyrr en á árinu 2019. Á meðan búa örorkulífeyrisþegar áfram við flókin, ógagnsæ réttindi almannatrygginga með krónu á móti krónu skerðingum á þann hóp sem verst stendur.

Skrifstofa ASÍ lokuð föstudaginn 21. apríl

Skrifstofa Alþýðusambands Íslands verður lokuð á föstudaginn vegna helgarferðar starfsfólks ASÍ til Hamborgar í Þýskalandi. Ferðin er á vegum starfsamannafélags ASÍ sem hefur safnað fyrir henni í þrjú ár og bera starfsmennirnir sjálfir allan kostnað af ferðinni.

Full starfsemi verður aftur á skrifstofunni mánudaginn 24. apríl.

Gleðilegt sumar!

Endurskoðuð hagspá ASÍ 2017-2019

ASÍ spáir áframhaldandi kröftugum hagvexti á þessu ári og að uppsveiflan sé í hámarki. Ákveðin hættumerki eru til staðar og óvissa hefur aukist frá síðustu spá hagdeildar m.a. vegna þeirra aðstæðna sem hafa myndast á húsnæðismarkaði og mögulegra áhrifa úrskurðar kjararáðs. Ennfremur eru efnahags- og verðlagshorfur háðar þróun ferðaþjónustunnar í meira mæli en áður. Spáin gerir ráð fyrir auknum fjölda ferðamanna þó hægja muni á vextinum en sú forsenda ræður miklu um þróunina framundan.

Hagspá ASÍ 2017-2019 - myndræn framsetning

Helstu atriði
Við spáum kröftugum vexti þjóðarútgjalda á þessu ári þar sem einkaneysla eykst um 7,2% og fjármunamyndun um 13,5%. Vöxtur einkaneyslunnar skýrist af auknum kaupmætti og traustari fjárhagsstöðu heimilanna sem hafa nýtt svigrúmið til að greiða niður skuldir, endurnýja varanlegar neysluvörur og bíla og ferðast erlendis. Það hægir á fjárfestingu atvinnuveganna en aukin íbúðafjárfesting og opinber fjárfesting styðja við fjárfestingastigið á spátímanum.

Við væntum styrkingar krónunnar yfir spátímabilið og að verðbólga verði 1,9% á þessu ári. Hægari styrking krónunnar síðari hluta spátímans eykur verðbólguþrýsting og að óbreyttu verður verðbólga um 2,4% á næsta ári og 2,6% árið 2019. Styrking krónunnar þrengir að útflutningsgreinum og við teljum brýnt að áhrif styrkingar krónunnar á samkeppnisstöðu annarra atvinnugreina verði metin.

Viðvörunarbjöllur eru farnar að hringja á húsnæðismarkaði en viðvarandi skortur á húsnæði hefur leitt til þess að sölutími eigna hefur sjaldan verið skemmri og æ fleiri dæmi heyrast um að kaupendur bjóði upp verð fasteigna sökum skorts eða væntinga um framtíðarhækkun fasteignaverðs. Aðstæður sem þessar geta hæglega leitt til þess að verð vaxi umfram það sem hefðbundnir ákvörðunarþættir gefa tilefni til og því full ástæða til viðbragða að hálfu stjórnvalda.

ASÍ telur mikilvægt að bregðast við á leigumarkaði þar sem of stór hluti fólks býr við ótryggt húsnæði og íþyngjandi húsnæðiskostnað. Tryggja þarf ungu fólki og tekjulágu öruggt leiguhúsnæði og gera leiguhúsnæði að raunverulegum valkosti í búsetu. Til þess er brýnt að hraða uppbyggingu leiguíbúða í nýja Almenna íbúðakerfinu enn frekar og fjölga íbúðum um a.m.k. 1.000 á ári næstu árin í stað þeirra 600 sem nú eru áformuð á ári fram til ársins 2019.

Aðstæður á vinnumarkaði eru ekki ólíkar þeim sem uppi voru á toppi síðustu hagsveiflu, þó samsetning starfa og atvinnugreina hafi breyst með tilkomu ferðaþjónustunnar. Þeirri sviðsmynd sem birtist í spá ASÍ fylgir aukin eftirspurn eftir starfsfólki og ljóst er að mannvirkjagerð og ferðaþjónusta munu áfram þurfa að reiða sig á erlenda starfsmenn til að geta vaxið. Við höfum þó áhyggjur af stöðu erlendra starfsmanna en vísbendingar eru um að töluverður fjöldi óskráðra starfsmanna starfi hér á landi.

Flest páskaegg hafa lækkað í verði síðan í fyrra

Páskaegg hafa í flestum tilvikum lækkað í verði frá því í fyrra að því er fram kemur í samanburði á verðkönnunum verðlagseftirlits ASÍ milli ára. Dæmi eru þó um allt að 10% hækkun á eggjum frá því í fyrra.

Mesta lækkunin milli ára á páskaeggjum var hjá Iceland þar sem verð hefur ýmist staðið í stað milli ára eða lækkað um allt að 15%. Í Fjarðarkaupum lækkar einnig verð á flestum páskaeggjum sem til voru í báðum könnunum, um allt að 11% að undanskyldu Góu páskaeggi nr. 3 sem hækkar um 10% frá fyrra ári. Í Nettó lækkar verð á öllum þeim eggjum sem til voru í báðum könnunum, en þess má geta að engin egg frá Freyju voru fáanleg í Nettó þegar verðkönnunin var framkvæmd í fyrra og því nær samanburðurinn til fárra vöruliða. Í Bónus og Krónunni lækka flest egg sem til voru í báðum könnun um allt að 6% að undanskyldum eggjum frá Góu sem hækka í báðum verslunum sem og Draumaegg nr. 9 frá Freyju. Í Hagkaupum ýmist hækkar eða lækkar verðið milli ára en einungis reyndist unnt að bera saman verð á 7 af þeim 10 eggjum sem fáanleg voru í báðum könnunum vegna ófullnægjandi verðmerkinga.

Samanburður á páskaeggjum milli verslana.

Borið var saman verð í verðkönnunum verðlagseftirlits ASÍ þann 6. apríl 2017 og þann 9. mars 2016. Kannanirnar ná til eftirtalinna verslana Bónus, Krónunnar, Nettó, Fjarðarkaupa, Hagkaupa, Iceland og Víðis.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

ASÍ sendir samúðarkveðjur til Svíþjóðar

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ hefur sent fulltrúum stærstu samtaka launamanna í Svíþjóð samúðarkveðjur vegna hryðjuverksins í miðborg Stokkhólms í gær þar sem hann hvetur til þess að áfram verði staðinn vörður um þau gildi sem Norðurlöndin standa fyrir. Það voru Karl-Petter Thorwaldsson forseti LO í Svíþjóð (Alþýðusamband Svíþjóðar), Eva Nordmark formaður TCO (systursamtök BSRB) og Göran Arrius formaður SACO (systursamtök BHM) sem fengu eftirfarandi kveðju frá ASÍ.

 

Käre venner

Det var fruktansvärda nyheter vi fik i går om dådet i Stockholm. Våra tankar går först och främst till de skadade, utsatta och de omkomna och deras nära och kära. Ved sådana händelser er det viktigt at bevara vore nordiske idealet och de frie demokratiske traditioner og icke lade det skubba os i negativ retning.

Gode tanker fra ASI

Gylfi Arnbjörnsson

Allt að 44% verðmunur á páskaeggjum

Mesta úrval páskaeggja var í Iceland og í Fjarðarkaup en lægsta verðið var oftast í Bónus þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á páskaeggjum í gær. Hæsta verðið var oftast í Hagkaup en hlutfallslegur munur á hæsta og lægsta verði var á bilinu 4-44% eða um 20% að meðaltali.

Lægsta verðið í könnuninni var oftast í Bónus og hæsta verðið oftast í Hagkaup. Verðmunurinn var mjög misjafn eftir tegund páskaeggja og verðmunurinn milli hæsta og lægsta var á bilinu 4-44%. Minnstur var verðmunurinn á Risapáskaeggi frá Nóa Síríus sem var ódýrast á 5.298 kr. í Fjarðarkaupum og dýrast 5.499 kr. í Iceland. Mesti verðmunurinn var hins vegar á Freyju Ævintýraeggi með smartís sem var ódýrast i Iceland á 2.499 kr. en dýrast á 3.599 kr. í Hagkaupum, sem gerir hlutfallslegan verðmun 44%. Mikill munur var einnig á Góu Páskaeggi nr. 3 sem var ódýrast á 598 kr. í Bónus og dýrast á 859 kr. í Hagkaupum, sem sömuleiðis er 44% verðmunur.

Verðsamanburður á páskaeggjum eftir verslunum (tafla)

Verðsamanburður á páskaeggjum eftir verslunum (súlurit)

Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á páskaeggjum frá Nóa Síríus, Freyju og Góu þann 6. apríl og voru skoðaðar 38 tegundir páskaeggja. Mesta úrvalið var hjá Iceland og hjá Fjarðarkaup, en þar fengust 37 af 38 tegundum en minnst var úrvalið í Víði sem skýrist af því að verslunin lagði áherslu á eigin páskaegg í ár og þegar verðkönnunin var gerð voru einungis Góu páskaegg fáanleg.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum; Bónus Borgarnesi , Krónunni Lindum, Nettó Fiskislóð, Fjarðarkaupum, Iceland Engihjalla, Víði Skeifunni, og Hagkaupum Skeifunni.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

 

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar - ekki tekið á mikilvægum málum

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar - ekki tekið á mikilvægum málum

Ríkisstjórnin hefur nú lagt fram fjármálastefnu og fjármálaáætlun á grunni hennar fyrir árin 2018-2022 þar sem fram kemur forgangsröðun stjórnvalda í ríkisfjármálum. Að mati ASÍ skapar fyrirliggjandi stefna hvorki grundvöll að efnahagslegum né félagslegum stöðugleika og velferð. Skattalækkanir undanfarinna ára hafa veikt tekjustofna ríkisins og dregið úr aðhaldi ríkisfjármálanna í miðri uppsveiflu. Afleiðingarnar verða þær að tekjustofnar ríkisins nægja ekki til að fjármagna nauðsynleg útgjöld til velferðar og innviða þrátt fyrir uppsveiflu. Aðhaldið í stefnunni byggir þannig að mati ASÍ á því að nota velferðarkerfið sem helsta hagstjórnartækið til aðhalds í gegnum ófjármagnaðar brýnar velferðarúrbætur og innviðaframkvæmdir ásamt veikingu á barna- og vaxtabótakerfunum. Fyrirséð er að þegar dregur úr umsvifum muni blasa við niðurskurður í opinberum rekstri og/eða skattahækkanir, þvert á hagsveifluna.

Meðal alvarlegra athugasemda ASÍ við efnisatriði fjármálaáætlunar má nefna:

 • Þó fagna beri framlögum til byggingu á nýjum Landspítala á síðari hluta tímabils fjármálastefnunnar er rekstur spítalans enn alvarlega vanfjármagnaður.
 • ASÍ tekur undir mikilvægi þess að setja þak á greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni en ítrekar mótmæli sín gegn því sú breyting sé fjármögnuð að stærstum hluta með hækkun á kostnaði hjá allflestum notendum heilbrigðisþjónustunnar. Langflestir greiða nú of mikið fyrir heilbrigðisþjónustu hér á landi og mikil hætta er á að þessi breyting leiði til þess að enn fleiri neiti sér um heilbrigðisþjónustu en nú er.
 • Áformuð fjölgun hjúkrunarrýma fram til ársins 2022 nemur einungis rúmlega helmingunum af áætlaðri viðbótarþörf fyrir ný hjúkrunarrými til ársins 2020. Ekki er að sjá þess merki að gert sé ráð fyrir viðbótarfjármagi til reksturs hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu á tímabilinu þrátt fyrir fyrirséða fjölgun aldraðra og viðvarandi rekstarvanda margra stofnanna.
 • Skerða á réttindi atvinnuleitenda og stytta á bótatímabil atvinnuleysistrygginga úr 30 mánuðum í 24 mánuði. ASÍ lýtur á þetta sem alvarlega aðför að grundvallar réttindum launafólks.
 • Barna- og vaxtabótakerfin sem eru mikilvæg tekjujöfnunartæki, ekki síst fyrir ungt fólk, eru áfram veikt og fjölskyldum sem fá stuðning úr þessum kerfum mun að óbreyttu halda áfram að fækka.
 • Hámarksgreiðslur til foreldra úr Fæðingarorlofssjóði hækka í 600 þúsund krónur á mánuði í áföngum fram til ársins 2020 en engin áform eru um að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði líkt og ASÍ hefur lagt áherslu á.
 • Ekki stendur til að gera löngu tímabærar breytinga á réttindum örorkulífeyrisþega í almannatryggingakerfinu til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið á réttindum ellilífeyrisþega, fyrr en á árinu 2019. Á meðan búa örorkulífeyrisþegar áfram við flókin, ógagnsæ réttindi almannatrygginga með krónu á móti krónu skerðingum á þann hóp sem verst stendur.

 

 

 

Vörukarfa ASÍ hefur lækkað í öllum verslunum síðan í haust

Vörukarfa ASÍ hefur lækkaði frá því í september 2016 hjá öllum þeim 10 verslununum sem skoðaðar voru vikuna 20.–24. mars 2017. Mest er lækkunin 5,6% hjá Hagkaup og 5,5% hjá Krónunni. Minnsta lækkunin er hjá Samkaup-Strax, 0,2% og Víði 0,4%.

Á umræddu tímabili má sjá verðbreytingar í öllum vöruflokkum bæði hækkanir og lækkanir. Grænmeti og ávextir hafa lækkað töluvert í verði hjá öllum verslununum og brauð og kornvörur hjá öllum nema hjá Víði.   

Á meðfylgjandi súluriti má sjá verðbreytingar á vörukörfu ASÍ frá september 2016 til mars 2017. Lækkunin er sem fyrr segir 0,2%-5,6%.

Brauð og kornvörur hækkuðu í Víði

Í töflunni hér að neðan má sjá verðbreytingar á milli mælinga í einstaka vöruflokkum. Grænmeti og ávextir lækkuðu í öllum verslunum og var lækkunin á bilinu 2,7% hjá Samkaup-Strax til 13,7% í 10-11. Brauð og kornvörur lækkuðu í níu af tíu verslunum sem skoðaðar voru og var lækkunin á bilinu 0,7% til 7,4% en hjá Víði hækkuðu þessar vörur um 1,6%.

Kjötvörur hækkuðu í sjö af tíu verslunum á bilinu 0,7% til 7,15%, mest hjá Samkaup-Úrvali en minnst hjá Nettó. Vörur í þessum flokki lækkuðu hins vegar í verði hjá þremur verslununum Krónunni (10,9%), Iceland (9,3%) og Hagkaup (6%). Mjólkurvörur, ostar og egg hækkuðu í sex af tíu verslunum og var hækkunin á bilinu 0,3%-6,4%, hins vegar lækkuðu fjórar verslanir sömu vöru um 2,3%-4,3%.

Verðlagseftirlitið mælir breytingar á verði vörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðalheimilis. Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar matar- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, safa, auk hreinlætis- og snyrtivara. Við samsetningu vörukörfunnar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af neyslukörfu meðal heimilis.

Verðbreytingar voru skoðaðar í eftirfarandi verslunum: Í lágvöruverðsverslununum Bónus, Krónunni, Nettó og Iceland; í almennu matvöruverslununum Hagkaupum, Samkaup-Úrvali, Tíu-ellefu, Samkaupum-Strax, Víði og Kjarval.  

Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar milli verðmælinga. Ekki er því um beinan verðsamanburð að ræða  þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna er að finna. Einnig er rétt að athuga að skoðuð eru þau verð sem eru í gildi í verslununum á hverjum tíma og geta tilboð á einstaka vöruliðum því haft áhrif á niðurstöðurnar.

Óheimilt er að vitna í niðurstöðurnar í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Nýtt fréttabréf ASÍ (2)

Í nýju fréttabréfi ASÍ er bent á að þrátt fyrir stöðugar fréttir af hagsæld í efnahagslífinu þarf að styrkja félagslegt og fjárhagslegt öryggi. Það er ljóst að mikill fjöldi fólks býr við fátækt hér á landi. Einnig kallar ASÍ eftir því að staðið verði við fyrirheit um 50 þúsund króna kostnaðarþak sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Nýr varaforseti ASÍ var kjörinn á dögunum og fulltrúi ASÍ sat fund kvennanefndar Sameinuðu Þjóðanna sem fram fór í New York.

Framtíð vinnunnar – ILO í lykilhlutverki

Luc Cortebeeck, talsmaður verkalýðshópsins í stjórnarnefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), lætur af störfum á þingi ILO í sumar en hann hefur verið talsmaður alþjóðlegrar verkalýðshreyfingar hjá ILO frá 2011. Af þessu tilefni var nýlega tekið viðtal við Luc þar sem hann fer yfir mikilvægi ILO og samþykkta stofnunarinnar í veruleika vinnandi fólks í dag. Hann varar við því að við endurtökum mistök fortíðarinnar og rökstyður hvers vegna alþjóðleg reglusetning um réttindi vinnandi fólks leiki lykilhlutverk í allri umræðu um framtíð vinnunnar í alþjóðavæddum heimi og eigi að leika lykilhlutverk í alþjóðsamningum um verslun og viðskipti.

Viðtalið við Luc Cortebeeck

Enn um laun forseta ASÍ

Í umfjöllun Stundarinnar í dag um launakjör formanna verkalýðsfélaga er gefið í skyn að laun forseta ASÍ hafi hækkað langt umfram almenna launaþróun frá því að Gylfi Arnbjörnsson tók við embættinu af Grétari Þorsteinssyni í október 2008. Er þar horft til þróunar launa forseta ASÍ frá árinu 2000 til 2016. Meðfylgjandi tafla sýnir að þetta er ekki rétt.

Taflan og myndin hér fyrir neðan voru búnar til vegna fyrirspurnar Upplýsinga- og rannsóknarþjónustu Alþingis í ágúst 2016 um launaþróun forseta ASÍ sem sett var í samhengi við meginhópana á vinnumarkaði. Hér er svo bætt við upplýsingum um árið 2016 sem Hagstofa Íslands vann í febrúar 2017.

Ingibjörg Ósk kjörin nýr varaforseti ASÍ

Ingibjörg Ósk Birgisdóttir var í dag einróma kjörin nýr varaforseti Alþýðusambands Íslands á fundi miðstjórnar sambandsins. Hún tekur sæti Ólafíu B. Rafnsdóttur fyrrverandi formanns VR sem sagði sig frá öllum trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfingarinnar fyrr í mánuðinum. Ingibjörg Ósk hefur setið í stjórn VR undanfarin 7 ár og í miðstjórn ASÍ frá árinu 2011.

Varaforsetar ASÍ eru tveir, 1. varaforseti er Sigurður Bessason formaður Eflingar og Ingibjörg Ósk 2. varaforseti.

Ályktun miðstjórnar ASÍ um fækkun á störfum í fiskvinnslu

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir þungum áhyggjum af fyrirhugaðri fækkun á störfum í fiskvinnslu víða um land. Hótanir forsvarsmanna fyrirtækja í sjávarútvegi um flutning á störfum fiskverkafólks úr landi lýsa miklum hroka og skorti á samfélagslegri ábyrgð. Slíkar hótanir kalla á endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar þar sem tekið yrði sérstaklega á þessum vanda til að tryggja betur atvinnuöryggi í landvinnslunni. Þeim fyrirtækjum sem fara með afnotarétt af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar ber skylda til að tryggja að arðurinn af henni renni til samfélagsins en ekki eingöngu til eigenda sjávarútvegs fyrirtækjanna. Launafólk í heilu byggðarlögunum á stöðugt á hættu að missa lífsviðurværi sitt vegna tilfærslu aflaheimilda og hagræðingaraðgerða í sjávarútvegi sem hafa það eina markmið að hámarka gróða eigendanna. Mikið hefur skort á réttláta skiptingu arðs af fiskveiðiheimildum og löngu tímabært að sjávarútvegurinn greiði sanngjarnt afgjald fyrir afnotaréttinn sem m.a. nýtist til uppbyggingar í þeim byggðarlögum sem verða fyrir barðinu á breytingum í greininni.

Evrópusamband verkalýðsfélaga fordæmir félagsleg undirboð

Framkvæmdastjórn Evrópusambands verkalýðsfélaga (ETUC) fjallaði á fundi sínum á Möltu um miðjan mars m.a. um félagsleg undirboð á vinnumarkaði og baráttuna gegn þeim. Ljóst er að félagsleg undirboð eru vaxandi mein á evrópskum vinnumarkaði, eins og hér á landi, en fái slík starfsemi að vaxa óhindrað grefur hún undan heiðarlegum vinnumarkaði þar sem launafólk býr við sanngjörn laun, réttindi og tryggar vinnuaðstæður. Framkvæmdastjórnin telur því afar brýnt að bregðast af hörku gegn allri slíkri svikastarfsemi.

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ, sem á sæti í framkvæmdastjórn ETUC, kynnti átakið Einn réttur – ekkert svindl! á fundinum á Möltu en það snýr einmitt að undirboðum og svikastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði.

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar auglýsir eftir umsóknum um styrk

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar auglýsir eftir umsóknum um styrk til verkefnis sem varðar íslenskt samfélag og málefni launafólks.

Styrkurinn er ætlaður til að efla rannsóknir og útgáfu á verkum sem varða sérstaklega íslenskt samfélag, vinnumarkaðinn, hagsmuni launafólks og starfsemi verkalýðshreyfingarinnar. Hámarksfjárhæð er kr. 750.000.

Styrkurinn er veittur einu sinni á ári. Umsóknir um styrkinn þurfa að berast fyrir 21. apríl. Styrknum er úthlutað 1. maí ár hvert.

Nánari upplýsingar og umsóknareyðublöð

Laun forseta ASÍ

Fjölmiðillinn Stundin hefur sent Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, fyrirspurn þar sem spurt er um launakjör hans. Í svari Gylfa kemur fram að laun hans séu 1460 þúsund krónur á mánuði. Þó forseti fái ekki greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu er vinnutíminn nokkuð langur, en nýleg tímaskráning á starfi forsetans sýnir að hann vinnur um 60 klukkustundir á viku.

Meðaltal heildarlauna á almennum vinnumarkaði, samkvæmt könnun Hagstofu Íslands, voru 708 þúsund krónur árið 2016 (launakönnun Hagstofunnar frá 2015 hækkuð m.v. launavísitölu milli 2015 og 2016). Laun forseta ASÍ eru því ríflega tvöföld (2,4) þau meðallaun sem eru á almennum vinnumarkaði. Ef tekið er tillit til vinnutíma og vinnustundum deilt í heildarlaun þá er forseti ASÍ með 1,4 sinnum meðallaun á almennum vinnumarkaði.

Þúsund íbúðir í samstarfi verkalýðshreyfingar og Reykjavíkurborgar

Reykjavíkurborg hefur gengið frá úthlutun lóða til Bjargs íbúðafélags sem rekið er án hagnaðarsjónarmiða, en stofnendur þess eru ASÍ og BSRB. Félaginu er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að ódýru, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti Gylfa Arnbjörnssyni forseta ASÍ, Elín Björgu Jónsdóttur formanni BSRB og Birni Traustasyni framkvæmdastjóra Bjargs - íbúðarfélags lóðabréf þessu til staðfestingar í Spönginni í dag (sjá mynd).

Úthlutun byggingarréttar er á þremur stöðum í borginni:
• Í Spönginni í Grafarvogi við Móaveg 2 – 4, en nýju skipulagi Spangarinnar er gert ráð fyrir 120 íbúðum í 7 sjálfstæðum 1-4 hæða byggingum sem raðast kringum miðlægan garð.
• Í Úlfarsárdal við Urðarbrunn 33 – 35 og 130 – 134. Samkvæmt skipulagi er gert ráð fyrir 53 íbúðum í 2 sjálfstæðum byggingum.
• Á Kirkjusandi við Hallgerðargötu er gert ráð fyrir 63 íbúðum á lóðum G og H.

Leiguheimili með áherslu á hagkvæmni og gæði
Íbúðir Bjargs verða svokölluð Leiguheimili og byggja á nýjum húsnæðislögum um almennar íbúðir og verða leigðar út til fólks með lágar- og meðaltekjur. Að sögn Björns Traustasonar framkvæmdastjóra Bjargs verður lögð áhersla á hagkvæmni í byggingu, rekstri, endingu og góða nýtingu á rýmum, án þess að það verði á kostnað gæða.

Við uppbygginguna verður horft til hugmynda um Nýju Reykjavíkurhúsin um félagslega blöndun, íbúalýðræði og hönnun. Miðað er við að Félagsbústaðir Reykjavíkurborgar eignist eða fái til úthlutunar að jafnaði 10-20% íbúða í uppbyggingarverkefnum. Íbúðir á skipulagssvæðunum eru fyrir fjölbreyttan hóp íbúa og eru misstórar.


Sjálfbær rekstur íbúðafélags
Bjarg íbúðafélag er eins og áður segir rekið án hagnaðarmarkmiða, sem sjálfseignastofnun Alþýðusambands Íslands og BSRB. Félaginu er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að ódýru, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði með því að byggja, kaupa, leigja, stjórna, viðhalda og endurbyggja leiguíbúðir á grundvelli laga nr. 52-2016 um almennar íbúðir.

ASÍ og BSRB leggja fram stofnfé til þessa almenna íbúðafélags. Þá munu aðildarfélög veita íbúðafélaginu víkjandi lán til að tryggja félaginu rekstrarfjármögnun fyrstu árin, eða þar til reksturinn er orðinn að því umfangi að hann verði sjálfbær.


Viljayfirlýsing um þúsund íbúðir
Fyrir ári síðan, á 100 ára afmæli ASÍ í mars 2016, gáfu Reykjavíkurborg og ASÍ út viljayfirlýsingu og er lóðaúthlutunin nú á grunni hennar.

Reykjavíkurborg stefnir að því að úthlutað verði lóðum fyrir uppbyggingu 1.000 almennra íbúða (leiguíbúða) á grundvelli laga frá Alþingi sem jafnframt feli í sér stofnframlag Reykjavíkurborgar til uppbyggingarinnar í samræmi við ákvæði laganna.

Áætlunin er þessi:
• árið 2016 verði úthlutað lóðum fyrir 150 íbúðir
• árið 2017 verði úthlutað lóðum fyrir 250 íbúðir
• árið 2018 verði úthlutað lóðum fyrir 300 íbúðir
• árið 2019 verði úthlutað lóðum fyrir 300 íbúðir.

Ólafía segir sig frá öllum trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna

Fráfarandi formaður VR, Ólafía B. Rafnsdóttir, tilkynnti forsetum ASÍ og formanni LÍV í dag þá ákvörðun sína að segja sig frá stöðu fyrsta varaforseta Alþýðusambands Íslands og stöðu varaformanns Landsambands íslenzkra verzlunarmanna sem og að gegna ekki áfram öðrum trúnaðarstörfum á vegum verkalýðssamtakanna frá og með deginum í dag, 16. mars 2017.

Í tilkynningunni segir einnig:

„Þessi ákvörðun er tekin í kjölfar úrslita í kosningum til formanns VR og einnig með tilliti til yfirlýsinga nýkjörins formanns um að niðurstaða kosninganna feli í sér vantraust á forystu ASÍ, höfnun á SALEK samkomulaginu og öðrum meginþáttum í samstarfi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda.
Um leið og ég þakka öllu samstarfsfólki mínu á vettvangi verkalýðssamtaka ánægjulegt og gefandi samstarf óska ég samtökum launafólks farsældar og góðs gengis og vona að allir hlutaðeigendur sýni þessari ákvörðun skilning.“

Barátta íslenskra kvenna fyrir launajafnrétti vekur athygli

Í gærkvöldi var frumsýnd stikla um Kvennafríið 2016 í New York, á fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna. Stiklan var sýnd á viðburði sem skipulagður var af íslensku sendinefndinni í New York, aðgerðarhóp um launajafnrétti og Kvenréttindafélagi Íslands.

Það var Lea Ævarsdóttir sem leikstýrði og tónlistin er eftir Mammút.

Ragnar Þór Ingólfsson kjörinn nýr formaður VR

Allsherjaratkvæðagreiðslu vegna kosninga til formanns og stjórnar VR, sem stóð frá 7. mars 2017 til kl. 12:00 á hádegi þann 14. mars 2017 er nú lokið. Atkvæði greiddu 5.706. Á kjörskrá voru alls 33.383. Kosningaþátttaka var því 17,09%.

Niðurstöður kosninganna eru sem hér segir:

Formaður VR - til tveggja ára

Ragnar Þór Ingólfsson

Sjö stjórnarmenn – til tveggja ára skv. fléttulista eins og kveðið er á um í 20. gr. laga VR.

Ólafur Reimar Gunnarsson
Harpa Sævarsdóttir
Birgir Már Guðmundsson
Guðrún Björg Gunnarsdóttir
Unnur María Pálmadóttir
Helga Ingólfsdóttir
Elisabeth Courtney

Þrír varamenn í stjórn VR – til eins árs

Guðrún Björk Hallbjörnsdóttir
Kristjana Þorbjörg Jónsdóttir
Rannveig Sigurðardóttir

Þessir aðilar eru því réttkjörnir skv. 20. gr. laga félagsins og hefst kjörtímabil þeirra á aðalfundi VR fyrir árið 2017 sem haldinn verður í lok mars.

Úrslit kosninganna eru sem hér segir:


Kosning um formann

Ragnar Þór Ingólfsson 3.480 atkvæði eða 62,98%

Ólafía B. Rafnsdóttir 2.046 atkvæði eða 37,02%

Tóku ekki afstöðu 180 eða 3,15% 


Kosning til stjórnar

Ólafur Reimar Gunnarsson 2.161 eða 12,02%

Harpa Sævarsdóttir 2.124 eða 11,82%

Birgir Már Guðmundsson 1.943 eða 10,81%

Guðrún Björg Gunnarsdóttir 1.863 eða 10,36%

Unnur María Pálmadóttir 1.785 eða 9,93%

Helga Ingólfsdóttir 1.686 eða 9,38%

Elísabeth Courtney 1.530 eða 8,51%

Guðrún Björk Hallbjörnsdóttir 1.462 eða 8,13%

Kristjana Þorbjörg Jónsdóttir 1.251 eða 6,96%

Rannveig Sigurðardóttir 1.155 eða 6,42%

K. Svava Einarsdóttir 1.017 eða 5,66%

Tóku ekki afstöðu 1.533 eða 7,86% af heild

14. mars 2017
Kjörstjórn VR

Niðurgreiðsla vegna gæslu barna hjá dagforeldrum

Mikill munur er á reglum sveitarfélaganna um niðurgreiðslu vegna gæslu ungra barna hjá dagforeldrum í heimahúsum. Kostnaður foreldra er því mjög misjafn eftir búsetu og er víða á bilinu 50.000-70.000 krónur á mánuði auk fæðiskostnaðar. Einungis fjögur af 15 stærstu sveitarfélögum landsins eru með reglur um hámarksgjald fyrir þjónustu dagforeldra, í öðrum sveitarfélögum er gjaldtaka dagforeldra með þjónustusamning við sveitarfélögin frjáls.

Almenn niðurgreiðsla vegna daggæslu í heimahúsi
Mjög takmarkaðar upplýsingar er hægt að nálgast af heimasíðum sveitarfélaganna varðandi heildarkostnað fyrir gæslu hjá dagforeldrum. Þessar upplýsingar voru einungis tiltækar á heimasíðum 4 af 15 stærstu sveitarfélögum landsins og var þá um gjald án fæðis að ræða. Það má gera ráð fyrir að þjónustusamningar sem sveitarfélögin geri séu jafn mismunandi og þau eru mörg. Það sama má segja um niðurgreiðslur sem sveitarfélögin veita af þessari þjónustu. Borgarbyggð niðurgreiðir mest eða 65.270 kr. á mánuði en Sveitarfélagið Árborg minnst 30.000 kr. Engar upplýsingar var að finna á heimasíðum sveitarfélaganna varðandi kostnað foreldra vegna fæðis.

Forgangshópar
Viðbótar niðurgreiðsla er veitt til forgangshópa hjá sveitarfélögunum, en ekki var tilgreint á Akranesi og í Reykjanesbæ hvort um viðbótar niðurgreiðslur væri þar að ræða. Sveitarfélagið Árborg og Borgarbyggð greiða viðbótar niðurgreiðslu til þessara hópa en ekki var tilgreint hvert viðmiðið væri eða hve há viðbótargreiðslan er. Hæsta niðurgreiðsla hjá þeim sveitarfélögum sem birta upphæð niðurgreiðslna fyrir forgangshópa er 87.200 kr. í Hafnarfirði og lægst 43.440 kr. í Vestmannaeyjum.

Sveitarfélögin bera ábyrgð á að umsjón og eftirlit sé haft með starfssemi dagforeldra sem sjá um daggæslu barna í heimahúsum samkvæmt reglugerð frá félagsmálaráðuneytinu. Reglugerðin tekur á grundvallar umgjörð varðandi daggæslu í heimahúsum og hvernig bregðast skuli við ef skilyrði sem þar eru sett fram eru ekki uppfyllt. Sveitarfélögin setja sér reglur varðandi niðurgreiðslur á gjaldi fyrir þessa þjónustu og gera þjónustusamninga við dagforeldra. Þessar reglur geta verið mjög mismunandi eftir sveitarfélögum og þar af leiðandi mjög misjafnt hversu stóran hluta af dagvistargjaldi foreldrar bera. Fjölskyldugerð og aldur barns geta haft áhrif á hversu mikil niðurgreiðslan er, en mörg sveitarfélög veita auka niðurgreiðslu eftir að barn er orðið átján mánaða

Nánari upplýsingar um niðurgreiðslu á daggæslu í heimahúsum.

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði niðurgreiðslu, 15 stærstu sveitarfélaga landsins, á daggæslu í heimahúsum dagana 1. – 8. mars 2017.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Fundarherferð um vinnumarkaðinn hefst á Norðurlandi

Fundarherferðin Réttlátur vinnumarkaður – allra hagur! hefst á Norðurlandi í næstu viku. Um er að ræða málþing þar sem rætt verður um stöðuna á vinnumarkaði með tilliti til undirboða og brotastarfsemi á hverju svæði fyrir sig. Þá verður spurningin "hvernig samfélag viljum við vera?" rædd.

Fyrsti fundurinn verður 21. mars í Varmahlíð í Skagafirði, daginn eftir verður fundur í Hofi á Akureyri og sá þriðji verður á Húsavík fimmtudaginn 22. mars.

Dagskráin í Varmahlíð 21. mars

Dagskráin á Akureyri 22. mars

Dagskráin á Húsavík 23. mars

Forseti ASÍ fagnar afnámi hafta

Forseti Alþýðusambands Íslands segir afnám gjaldeyrishaftanna mikil tíðindi, en þau setji um leið miklar kröfur á stjórnvöld um aga í efnahagsstjórninni. Hann vonast til að væntingar um vaxtalækkun gangi eftir.

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ sagði í samtali við RÚV í morgun þetta vera mikil tíðindi.

„Jú, ég held að þetta séu auðvitað mikil tíðindi. Þó að þetta hafi ekki bein áhrif á stöðu okkar sem launamenn eða almenning, þá hafa hin undirliggjandi áhrif haftanna verið neikvæð sérstaklega varðandi atvinnuþróun og hvaða tegund atvinnurekstrar hér fæst þrifist. Þannig að ég held að þetta séu jákvæð tíðindi en um leið felst líka í þessu mikil ábyrgð sem að stjórnvöld takast á hendur og Seðlabankinn,“ segir Gylfi.

Gylfi segir ljóst að lífeyriskerfið hafi þörf fyrir að fara með fjármagn úr landi, ekki vera með öll eggin í sömu körfunni. Það hafi sýnt sig í hruninu þegar um þriðjungur fjárfestinga lífeyrissjóðanna hafi verið í útlöndum og það hafi hjálpað launamönnum að verja lífeyri sinn fyrir áfalli.

„Það er líka ljóst að með þessu verða Seðlabanki og stjórnvöld að hafa mikinn aga á stjórn efnahagsmála vegna þess að ekki viljum við að krónan okkar taki kollsteypu, höftin voru jú sett til að koma í veg fyrir það á sínum tíma.“

Hann segir aðstæður fyrir svona aðgerð núna vera hagfelldar og mikilvægt að nýta það, en að sama skapi þurfi stjórnvöld að læra af þeim atburðum sem urðu í aðdraganda hrunsins. Stjórnvöld þurfi að vera með meiri aga í efnahagsstjórninni þannig að ekki verði miklar sveiflur á krónunni.

Bent hefur verið á að aðstæður til að aflétta höftunum núna hafi verið mjög hagstæðar. Inn í það spili ákvörðun aðila vinnumarkaðarins að segja ekki upp kjarasamningum. Gylfi tekur undir það.

„Það breytir því ekki að stjórnvöld og Alþingi eru með í höndunum mikla ábyrgð hvað varðar kjararáð og það að leysa úr því. Það er ljóst að það er að verða að viðmiði um einhverja nýja og breytta launastefnu, launastefnu sem ég óttast að samræmist ekki þessum áformum. Þess vegna ítreka ég það að eftirleikurinn við svona aðgerða er í höndum stjórnvalda, með hvaða hætti þau ætla að axla þessa ábyrgð,“ segir Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands.

ASÍ 101 árs í dag

Verkalýðshreyfingin er ein öflugasta félagshreyfing þjóðarinnar. Flestir vita af hreyfingunni, margir njóta þjónustu hennar, sýna skilning á hlutverki hennar en þeir eru líklega fleiri sem gera sér ekki grein fyrir hversu stórt hlutverk hennar er í sögu þjóðarinnar síðustu 100 árin. Þess vegna er mikilvægt að rifja upp söguna og vekja athygli á framlagi verkalýðshreyfingarinnar til mótunar íslensks samfélags. Í dag, 12. mars 2017, eru 101 ár liðin frá því að 20 einstaklingar frá sjö verkalýðsfélögum bundust samtökum til að efla samtakamátt sinn í baráttunni fyrir bættum kjörum og Alþýðusambandið varð til.

Á fyrstu árum hreyfingarinnar snérust baráttumálin um að verkafólk fengi greitt fyrir vinnu í peningum, um hvíldartíma og mannsæmandi mannabústaði. Alla tíð síðan hafa réttindamál af ýmsum toga einkennt starf verkalýðshreyfingarinnar og er nú svo komið að réttindi og aðbúnaður íslensks launafólks er með því allra besta sem þekkist í heiminum. Má þar nefna veikinda- og orlofsrétt, sjúkrasjóði og lífeyrisréttindi. Það má þó ekki sofna á verðinum því stöðugt þurfa stéttarfélögin að verja það sem hefur áunnist auk þess að sækja fram til frekari sigra.

Frakkar leita í smiðju íslenskra kvenna

Franskar konur lögðu niður störf á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars sl. til að krefjast launajafnréttis. Í þeim mótmælum var horft til íslenska kvennafrídagsins 24. október og var hann í raun fyrirmyndin að mótmælum frönsku kvennanna nú í vikunni. Af þessu tilefni bauð La CGT, sem eru ein af fjölmennustu samtök launafólks á almenna vinnumarkaði í Frakklandi, Maríönnu Traustadóttur, jafnréttisfulltrúa ASÍ til Frakklands þar sem hún sagði frá því hvernig konur á Íslandi standa sama og ítreka kröfur sínar um kjarajafnréttið.

Viðtalið við Maríönnu Traustadóttur.

ASÍ mótmælir of háu kostnaðarþaki í greiðsluþátttöku sjúklinga

Í umræðu á Alþingi í liðinni viku um greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskostnaði kom fram í máli heilbrigðisráðherra að árlegt kostnaðarþak yrði á bilinu 50 til 70 þúsund ári frá og með 1. maí 2017. ASÍ kallar eftir því að staðið verði við fyrirheit um 50.000 kr. þak eins og lagt var upp með. Heilbrigðisráðherra verður að gefa út afdráttarlausa yfirlýsingu um fjárhæð þaksins á almennu gjaldi verði ekki hærri en 50.000 kr. og endurskoða þakið og reiknireglur í þeim drögum að reglugerð sem nú liggja fyrir. Samkvæmt þeim á þakið að verða 69.700 fyrir almenna sjúklinga en 45.300 kr. fyrir lífeyrisþega og börn. Þetta er allt of hátt þak.

ASÍ hefur tekið saman nokkur dæmi um breytingar á kostnaðarþátttöku ef heilbrigðisráðherra undirritar drög að reglugerð óbreytta með almennu þaki upp á 69.700 kr.
Dæmin sýna kostnað við að leita sér tilfallandi læknisþjónustu hjá sjálfstætt starfandi sérgreinalæknum ef sjúklingurinn hefur ekki náð greiðsluþátttökuþaki.

Eins og dæmin sýna mun kostnaðarþátttaka aukast um 10-40% fyrir einstaka heimsóknir almennra sjúklinga og 70-125% hjá lífeyrisþegum. Börn munu fá gjaldfrjálsa þjónustu hjá sérgreinalæknum að því gefnu að þau fái fyrst tilvísun frá heimilislækni. Að öðrum kosti mun kostnaðarþátttaka þeirra hjá t.d. háls-, nef- og eyrnalæknum aukast um rúmlega 600%.

Þessi kostnaðaraukning er óásættanleg og mun að öllum líkindum valda því að enn fleiri fresti nauðsynlegri læknisþjónustu vegna kostnaðar en þetta hlutfall er nú þegar mun hærra en á hinum Norðurlöndunum.

ASÍ studdi áform um nýtt greiðsluþátttökukerfi og taldi 50.000 kr. þak á ári fyrir almenna sjúklinga og 33.300 fyrir lífeyrisþega og börn ásættanlegt fyrsta skerf. Ný ríkisstjórn verður að standa við þau fyrirheit. Stefna ASÍ er að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls og yrði 50.000 kr. almennt þak fyrsta skrefið í þá átt.

Umsögn ASÍ um drög að reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu og drög að reglugerð um tilvísanir fyrir börn.

Hvenær kemur slökkviliðsmaðurinn?

„Hvenær kemur slökkviliðsmaðurinn?“ er spurning sem Birna Björnsdóttir slökkviliðskona fékk frá fimm ára dreng þegar hún heimsótti leikskóla til að ræða forvarnir. „Þetta sýnir hvað þessar staðalímyndir eru rótgrónar hjá okkur“ bendir Birna á.

Haldinn var hádegisverðar fundur 8. mars, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, fundurinn var tileinkaður konum sem eiga það sameiginlegt að vinna á vinnustöðum þar sem karlar eru í miklum meirihluta. Konurnar voru sex talsins, Auður Magnúsdóttir, formaður Samtaka kvenna í vísindum, Ágústa Sveinsdóttir, fulltrúi átaksins #kvennastarf, Birna Björnsdóttir, slökkviliðs- og sjúkraflutningakona, Eva Björk Sigurjónsdóttir, húsasmiður og fulltrúi Félags kvenna í karllægum iðngreinum, Eyrún Eyþórsdóttir lögreglukona og Lára Rúnarsdóttir, formaður Félags kvenna í tónlist. Þær voru allar sammála um að þær þyrftu að hafa mikið fyrir því að sanna sig í starfi og mæta oft fordómum.

„Áttu börn?“

„Þegar ég byrjaði í náminu var ég oft spurð að því hvað ég væri að pæla,“ sagði Eva Björk Sigurjónsdóttir húsasmiður. „Mér var sagt að ég myndi aldrei komast á samning. Þegar ég svo byrjaði að leita að vinnu og hringdi í vinnuveitendur voru það yfirleitt eldri karlmenn sem ég ræddi við og fyrsta spurningin var: áttu börn?“. Eva segir umhverfið oft erfitt og hennar upplifun er að hún þurfi að sanna sig tífalt meira en „strákarnir“. „Þegar ég spurði strákana, hvort þeir hefðu lent í þessu, þá fengu þeir aldrei þessa spurningu,“ segir hún.

Karlar njóta traustsins

Auður Magnúsdóttir, formaður Samtaka kvenna í vísindum, samsinnir þessu. Hún bendir á að í hennar starfi þurfi hún ekki að bera þunga hluti en það virðist sem svo að karlmönnum sé betur treyst til að bera hugsanir á milli stöðva í hausnum, „ég var komin frekar langt á veg í vísindastarfi þegar ég áttaði mig á hversu mikill kynjahalli væri þar. Það er eins og konur séu settar inn í box og við eigum að passa okkur að fara ekki út fyrir normið. Þegar við svo reynum það þá er þessi glerveggur sem stöðvar okkur,“ sagði hún.

Beðin um að dansa á nærfötunum

Lára Rúnarsdóttir, formaður Félags kvenna í tónlist, sagðist upplifa sterk karllæg viðhorf sem tónlistarkona. „Þegar ég byrjaði í tónlistinni var mér ráðlagt að segja já við öllu,“ sagði hún. Hún nefndi nokkur dæmi, „það er oft talað við mig eins og ég sé barn, sérstaklega þegar kemur að einhverju varðandi tækni,“ sagði Lára. Þá hafi hún verið beðin um að dansa á nærfötunum á tónleikum og sagt að það væri gott til að byggja upp tengslanetið. Þá fái hún oft að heyra að lögin hennar séu góð þegar karlar spili með henni. Hún sagði það oft erfitt fyrir konur að þrífast í tónlistarbransanum og félög eins og Félag kvenna í tónlist vera mikilvægan vettvang fyrir konur til að finna samstöðu.

Aðspurðar að því hvernig hægt væri að vinna gegn þessum fordómum sögðu þær að mikilvægt sé að hafa fyrirmyndir og benda ungu kynslóðinni á að það er ekkert til sem heitir kvenna- eða karlastarf. Konur eiga ekki að þurfa að berjast fyrir rétti sínum í vissum starfsstéttum og það er okkar allra að breyta því, kvenna sem og karla.

Að fundinum stóðu Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, BSRB, Jafnréttisstofa, Kvenréttindafélag Íslands og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja.

 

 

 

 

Öll störf eru kvennastörf

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna verður haldinn hádegisfundur miðvikudaginn 8. mars klukkan 11:45 á Grand hótel Reykjavík.  Tilgangur fundarins er meðal annars að vekja athygli á þeim fjölbreyttu tækifærum sem bjóðast í iðn-, tækni- og verkgreinum. Ekkert starf er kvennastarf, bæði konur og karlar geta starfað við það sem þeim sýnist!

Yfirskrift fundarins er því „Öll störf eru kvennastörf! – Brjótum upp kynbundið náms- og starfsval“.

Þátttakendur verða:

Auður Magnúsdóttir, formaður Samtaka kvenna í vísindum, Ágústa Sveinsdóttir, fulltrúi átaksins #kvennastarf, Birna Björnsdóttir, slökkviliðs og sjúkraflutningamaður, Eva Björk Sigurjónsdóttir, fulltrúi Félags kvenna í karllægum iðngreinum, Eyrún Eyþórsdóttir lögreglukona og Lára Rúnarsdóttir, formaður Félags kvenna í tónlist.

Brynhildur Björnsdóttir Fjölmiðlakona mun stýra umræðum.

Matarmikil súpa, nýbakað brauð og kaffi á 2.500 krónur. 

Hægt er að skrá þátttöku með því að merkja við sig á Facebook viðburðinum.

Af þrákelkni ríkisstjórnar og Alþingis í eigin kjaramálum

Það hefur ekki farið framhjá neinum að ákvarðanir kjararáðs á síðasta ári hafa framkallað mjög hörð viðbrögð bæði almennings og forystumanna á vinnumarkaði, enda eru þær hækkanir ekki í neinu samhengi við þá launaþróun og launastefnu sem bæði ríki, sveitarfélög og  atvinnulíf, hafa samið um við fulltrúa sinna starfsmanna. Miðstjórn og samninganefnd ASÍ hefur verið algerlega afdráttarlaus í þeirri skoðun sinni, að öll vinna við mótun nýs samningalíkans verði lögð til hliðar grípi stjórnvöld ekki inn í gagnvart ákvörðun kjararáðs. En við hvaða launaþróun á að miða í umfjöllun um launakjör æðstu embættismanna og kjörinna fulltrúa? Í fréttatilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins í gær, sem gefin var út í tilefni af (takmarkaðri) úttekt Hagstofu Íslands á launaþróun alþingismanna kemur fram að launaþróun þeirra hafi verið áþekk þróun annarra á vinnumarkaði, ef miðað er við árið 2006. ASÍ svaraði þessari frétt með ábendingu um að á grundvelli hinnar samþykktu launastefnu – sem fjármálaráðherra á beina aðild að f.h. ríkissjóðs – hafi þingmenn hækkað miklu meira en um var samið á vinnumarkaði. Það er hins vegar ekki nema von að almenningur og fjölmiðlar séu í vanda með að átta sig á því um hvað þessi deila standi – orð virðast standa gegn orði og erfitt á fóta sig á því hvað er rétt og hvað er rangt. Ekki hjálpar það til það þarf ríflega fjögurra blaðsíðna greinargerð til að útskýra málið. Þar sem málið er grafalvarlegt og  líklegt til þess að hafa verulegar afleiðingar ætla ég að freista þess að leggja þetta fram sem ítarefni fyrir þá sem áhuga hafa á efni málsins en ekki bara yfirskriftum.

Grunnviðmiðun rammasamkomulagsins við 2013

Í aðdraganda að gerð rammasamkomulags aðila vinnumarkaðar í október 2015 var tekist nokkuð á um það hvaða viðmiðun ætti að liggja til grundvallar sameiginlegri launastefnu þessara aðila. Tekist var á um það hvort árið 2006 ætti að vera til viðmiðunar, sem var það ár sem gögn Hagstofunnar náðu til, eða árið 2013 sem markar upphaf samstarfsins í þeim hópi sem nefndur hefur verið SALEK – Samstarf um launaupplýsingar og efnahagslegar forsendur kjarasamninga. Af hálfu ASÍ og BSRB var lögð mikil áhersla á að miða við árið 2013 á meðan fulltrúar BHM og KÍ vildu miða við árið 2006. Niðurstaða málsins var að miða við árið 2013, en fulltrúar BHM og KÍ vildu þegar á það reyndi ekki skrifa undir en báru þá fyrir sig vantrausti og óvissu um jöfnun lífeyrisréttinda. Lítið hefur hins vegar verið fjallað um það af hverju ASÍ og BSRB vildu miða við 2013 en ekki 2006, en að baki þessu liggur sú staðreynd að í öllum kjarasamningum á tímabilinu 2006-2015 var lögð sérstök áhersla á hækkun lægstu launa með svokölluðum krónutöluhækkunum á taxtalaun. Í þessum kjarasamningum hefur þeim sem búa við markaðslaunakerfi hins vegar verið tryggð almenn prósentuhækkun launa. Reyndar má geta þess að ASÍ náði þeim merka áfanga í samningunum í maí 2011 að skilgreina almenna launahækkun sem hluta lágmarkskjaraákvæða með þeim hætti, að markaðslaunafólk ætti beinlínis rétt á því að fá a.m.k. almenna hækkun launa.

En hverju munar þetta í kjörum fólks? ASÍ og SA hafa undanfarin ár fengið Hagstofu Íslands til þess að skipa úrtaki sínu um almenna vinnumarkaðinn í tvennt, annars vegar þá sem eru með hrein dagvinnulaun sem eru undir hæsta taxta verkafólks í Starfsgreinasambandi Íslands og hins vegar þá sem eru með hrein dagvinnulaun þar fyrir ofan. Þetta gefur okkur möguleika á að greina áhrif krónutöluhækkana á  raunveruleg kjör. Á ofangreindri mynd má sjá þessa þróun frá árinu 2006.

Á myndinni kemur glögglega fram áhrif krónutöluhækkana á tekjulægsta hópinn, en hann hefur hækkað 12,5% meira en hópurinn sem er fyrir ofan hæsta launataxta verkafólks. Fulltrúar ASÍ og BSRB töldu að það væri ekki forsvaranlegt að velja viðmiðun sem markvisst hefði þurrkað hluta af þessum árangri, við að bæta kjör láglaunahópa, út við val á viðmiðunartíma.

Skyldur kjararáðs

Þegar sú alvarlega deila sem spunnist hefur um ákvarðanir kjararáðs er skoðuð í samhengi við þessa umræðu og þá niðurstöðu sem varð í viðræðum ASÍ og BSRB við ríki, sveitarfélög og atvinnurekendur um grundvöllinn að hinni sameiginlegu launastefnu er vert að skoða 8. gr. laga um kjararáð nr. 47/2006. Í þessari grein segir annars vegar að ,,Við úrlausn mála skal kjararáð gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar.‘‘ Samkvæmt þessu ákvæði er kjararáð skuldbundið til að meta bæði launasetningu (þ.e. sjálf launin og upphæð þeirra) og launaþróun sambærilegra hópa m.t.t. starfa og ábyrgðar. Þessi skuldbinding er bæði gagnvart þeim sem taka laun samkvæmt þessu ákvæði, en þessi skuldbinding er einnig gagnvart okkur hinum, að ekki sé verið að ,,hygla‘‘ þessum hópi umfram aðra í skjóli Alþingis og laga. Á þessu er sérstaklega hnykkt í niðurlagi greinarinnar, þar sem segir að ,,Kjararáð skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.‘‘

Varðandi hið síðar nefnda, þá var það einmitt mikið deiluefni í árslok 2005 þegar Kjaradómur komst að þeirri niðurstöðu að hækka laun kjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna um 19,5% sem var langt umfram allt það sem samið hafði verið um á vinnumarkaði. Sú deila endaði með lagasetningu, þar sem Alþingi tók af umrædda hækkun og skipaði nefnd til að endurskoða lögin. Í greinargerð með lagafrumvarpinu var sérstaklega fjallað um þessa skuldbindingu sem ráðið starfaði eftir, en í fyrri lögum var ákvæði í 2. málsl. 5. gr. þágildandi laga sem sagði: „Enn fremur skal Kjaradómur taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði“ en það ákvæði varð til í sambærilegri deilu sem varð um ákvarðanir Kjaradóms árið 1992. Í athugasemdum með því frumvarpi var þetta ákvæði skýrt með því að það væri hugsað til þess „að ekki sé hætta á að úrskurðir Kjaradóms raski kjarasamningum þorra launafólks og stefni þar með stöðugleika í efnahagslífinu í hættu.  …...  Kjaradómi ber þannig að hafa hliðsjón af launastefnu á vinnumarkaðnum en ekki móta hana“. Úr því að Kjaradómi hafði tekist að misskilja eða mistúlka þetta ákvæði (sem almennt verður þó að teljast ákaflega skýrt) var í frumvarpinu um kjararáð ákveðið að ítreka þennan vilja löggjafans með því að styrkja orðalag síðari málsgreinar 8. gr. frumvarpsins og kveða enn skýrar að orði um þetta efni en þar segir: „Kjararáð skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði“ og var í greinargerðinni ,,áréttað að þessa sjónarmiðs skuli ætíð gætt‘‘.

Sambærilegir hópar

Það er því vert að skoða ákvörðun kjararáðs með þessi tvö sjónarmið að leiðarljósi, þ.e. launasetningu (þ.e. upphæð launa) og launaþróun sambærilegra hópa. Þar sem um æðstu stjórnendur ríkisins, bæði kjörna og ráðna, er að ræða er ekki óeðlilegt að taka mið af launum æðstu og næstæðstu stjórnendum í íslensku atvinnulífi. Byrjum á launasetningunni. Samkvæmt könnun Hagstofu Íslands á reglulegum heildarlaunum á vinnumarkaði var miðgildi heildartekna æðstu stjórnenda í atvinnulífinu ríflega 1.1 milljón króna á mánuði árið 2016. Eftir almenna úrskurð kjararáðs í júní 2016 voru ráðherrar með laun á bilinu 1,3-1,5 milljón króna og ráðuneytisstjórar með 1,4 milljón króna. Ef litið er á næsta lag í atvinnulífinu, þ.e. miðgildi yfirmanna framleiðslu- og rekstrardeilda í atvinnulífinu voru þeir með 725 þúsund krónur að meðaltali. Skrifstofustjórar voru þá með rúmlega 1 milljón króna í mánaðarlaun. Það er því vandséð hvernig kjararáð kemst að þeirri niðurstöðu, að hækka beri þá sem undir ráðið heyra um 35-45% í júlí í fyrra, þó tekið yrði tillit til breytinga á lífeyrisréttindum hjá hvorum aðila fyrir sig.

En hvernig hefur launaþróun þessara hópa verið undanfarin ár, hvort sem miðað er við launastefnu sem á grunn sinn í árinu 2006 eða 2013? Fullyrt hefur verið að ekki hafi verið búið að leiðrétta laun kjararáðshópsins eftir launalækkunina sem framkvæmd var árið 2009. Hagstofa Íslands var fengin til þess að stíga inn í þessa ,,deilu‘‘ og leggja fram upplýsingar um laun og launaþróun alþingismanna en ekki ráðherra og æðstu embættismanna. Ef við látum það liggja á milli hluta hvers vegna Hagstofunni var ekki falið að meta þróun hópsins í heild, þá verðum við að draga þá ályktun að launaþróun þingmanna endurspegli með sanngirni þróun hópsins í heild – a.m.k. fram til júlí 2016 því lækkun kjara þeirra náði ekki til embættismannanna! Eðlilegt hlýtur að vera að bera þessa þróun saman við sambærilegan hóp, þ.e. stjórnendur í atvinnulífinu en ekki launavísitöluna í heild, enda kveða lögin á um það.

Það er margt athyglisvert sem kemur fram í gögnum Hagstofu Íslands. Sem dæmi má sjá að lögin um lækkun launa alþingismanna voru felld úr gildi árið 2011 og við það tækifæri voru laun þeirra hækkuð aftur um sem nam lækkuninni. Þess skal geta að þessi ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur lagði mikilvægan grunn að því að breið sátt náðist í samfélaginu til að glíma við algerlega fordæmalausar aðstæður í ríkisfjármálum og efnahagsmálum almennt. Er þetta einmitt dæmi um það, hvernig leiðtogar þjóðar geta skapað mikilvægt fordæmi fyrir landsmenn til að varða leiðina í stað þess að krefjast sérkjara eða sérstaklega ívilnandi launastefnu sér til handa!

Að þessari launalækkun frátalinni má glögglega sjá að þróun launa viðmiðunarhópa kjararáðs hefur verið í góðu samhengi við þróun launa sambærilegra hópa á vinnumarkaði þangað til umræddir úrskurðir voru felldir í júlí á síðast ári.

Niðurstaðan af þessari skoðun á ákvæðum 8. gr. laganna um kjararáð sem fjalla um skuldbindingar ráðsins um bæði launasetningu og launaþróun þessara hópa er því sú, að úrskurðir kjararáðs eru ekki í neinu samhengi hvorki við launasetningu sambærilegra hópa né launaþróun þeirra hvort sem litið er til ársins 2006 eða 2013. Í stað þess að úrskurða um 35-45% hækkun launa í júlí hefði í mesta lagi verið hægt að rökstyðja 7,5% hækkun fyrir þessa hópa til að setja þá á sömu vísitölu launa og sambærilegir hópar á vinnumarkaði hafa notið, þ.e. stjórnendur.

Er kjararáð að hygla 

Í fréttatilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins um þróun launa alþingismanna segir eftirfarandi: ,,Í þessu sambandi má benda á að launaþróun alþingismanna frá árinu 2006 og fram að síðustu ákvörðun kjararáðs var mun lakari en launaþróun annarra hópa á vinnumarkaði. Heildarlaun þingmanns sem setið hefur á þingi allt tímabilið eru því mun lægri en ef þau hefðu fylgt þróun launavísitölu.‘‘  Ég hef þegar sýnt fram á, að fyrri hluti þessarar setningar er einfaldlega röng þegar litið er til sambærilegra hópa á vinnumarkaði. Hvað seinni hlutann varðar er hins vegar rétt að líta aðeins nánar á þessa framsetningu – að bera launaþróun þingmanna saman við þróun launavísitölunnar. Það er mikilvægt að átta sig á því að þróun launavísitölunnar er niðurstaða mjög margra þátta, þar sem hækkanir einstakra hópa vegast á við lækkanir annarra. T.d. var mikið um það á almennum vinnumarkaði á árinu 2009 og 2010 að fyrirtæki sem lentu í afkomuvanda semdu við sitt starfsfólk sem var á markaðslaunum að taka á sig launalækkun til þess að freista þess að tryggja sem flestum áframhaldandi starf. Á sama tíma voru í kjarasamningum tiltölulega miklar launahækkanir gagnvart þeim tekjulægstu. Eins og fram kom í upphafi þessarar greinargerðar hafa lægstu laun hækkað 12,5% meira en þeirra sem eru með laun yfir hæsta taxta verkafólks. Í þeim lögum sem kjararáð starfar eftir og þeirri greinargerð sem þáverandi fjármálaráðherra lagði fram með frumvarpi til þeirra laga, var sérstaklega áréttað að kjararáð ætti ætíð að forðast þessa viðmiðun. Það skýtur því skökku við að það ráðuneyti sem ber ábyrgð á þessum lögum skuli í raun setja þetta svona fram, því í reynd er verið að krefjast þess að þessir hópar – sem voru fyrir þessar ákvarðanir í júlí og október á síðast ári með laun á bilinu 1-1,5 milljón króna – fái í sinn vasa þann 12,5% mun sem er á milli hækkunar þeirra tekjulægstu og þeirra tekjuhærri bætt með tæplega 160 þúsund króna sérstakri launahækkun. Þess má geta að sérstök hækkun launa þessara hópa verkafólks og afgreiðslufólks umfram þá tekjuhærri var um 30 þúsund krónur. Það gefur augaleið að þetta stenst ekki neina skoðun m.t.t. þeirra laga sem kjararáð á að starfa eftir, því með þessari viðmiðun er kjararáð klárlega að hygla hópum gagnvart ákvæði sem var ætlað að verja allra tekjulægsta fólkið í landinu – aðgerð sem allir stjórnmálaflokkar stóðu að og hvöttu til!

Niðurstaða á ábyrgð stjórnvalda

Draga má þá ályktun að úrskurðir kjararáðs um laun kjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna eru algerlega á skjön við öll ákvæði þeirra laga sem ráðið starfar eftir, hvort sem um er að ræða launasetningu þessara hópa (þ.e. upphæð launanna), launaþróun sambærilegra hópa á vinnumarkaði eða ákvæði laganna um samhengi við almenna launastefnu.  Því er það niðurstaða að ríkisstjórn og Alþingi hafi í þetta sinn ekki lakari málefnagrunn til þess að grípa inn í þessa atburðarás en ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar hafði í janúar 2006 eða ríkisstjórn Davíðs Oddsonar hafði árið 1992. Kjararáð hefur ekki farið að lagatilmælum og eini aðilinn sem getur gripið inn í þetta er löggjafarvaldið, það er ekki öðrum til að dreifa. Verði það ekki gert er ekki hægt að komast að annarri skoðun en þeirri, að þessir aðilar setji eigin hagsmuni ofar þjóðarhagsmunum þrátt fyrir nokkuð skýr ákvæði og markmið þeirra laga sem um þetta gildir. Það er ekki með nokkru móti hægt að sætta sig við meiri hækkun þessara hópa en sem nemur um 7,5% í stað áðurnefndra 35-45%! Framlag forsætisnefndar Alþingis er í þessu samhengi afar léttvægt fundið.

Sérlaunastefna alþingismanna

Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti í dag samantekt frá Hagstofu Íslands um þróun launakjara alþingismanna undanfarin áratug. Í þeim tölum er staðfest að á árunum 2013-2016 hafa regluleg laun þingmanna hækkað umtalsvert meira en hjá öðrum hópum eða um 68% á sama tíma og laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 26% og laun opinberra starfsmanna um ríflega 31%. Þegar tekið hefur verið tillit til þeirra lækkunar á starfstengdum greiðslum til þingmanna, sem forsætisnefnd samþykkti í janúar, hafa launa þingmanna samt sem áður hækkað umtalsvert umfram almanna launaþróun, eða um 42,5%.

(Ath! hægt að smella á mynd til að stækka hana)

Í samanburði ráðuneytisins eru laun þingmanna borin saman við þróun launavísitölu aftur til ársins 2006. Í þeim samanburði er þannig með öllu horft fram hjá því að rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins, sem ríki og sveitarfélög undirrituðu, byggir á sameiginlegri launastefnu til ársloka 2018 um að launakostnaður aukist ekki umfram 32% á tímabilinu frá nóvember 2013 til ársloka 2018. Það tímabil sem miðað er við í rammasamkomulaginu er ekki tilviljun. Með því að horfa til tímabilsins frá 2013 var verið að verja sérstakar hækkanir lægstu launa í kjarasamningum undanfarin áratug. Þau skilaboð sem felast í því að miða launaþróun alþingismanna við tímabilið aftur til ársins 2006 eru því þau, að alþingismenn eigi að njóta þeirra sérstöku hækkana sem samið hefur verið um fyrir láglaunahópa undanfarinn áratug í sínum launum. Þetta skýtur nokkuð skökku við í ljósi þess að laun þingmanna jafngilda launum um fimm fullvinnandi verkamanna á lágmarkslaunum.

Með undirritun rammasamkomulagsins árið 2015 undirgengust ríki og sveitarfélög að fylgja ofangreindri launastefnu í kjarasamningum við sína starfmenn. Það er því sjálfsögð og eðlileg krafa að slíkt hið sama eigi við um þjóðkjörna fulltrúa. Í sameiginlegri yfirlýsingu ASÍ og SA við undirritun samkomulagsins um frestun á uppsagnarheimild kjarasamninga til loka febrúar 2018 var sérstaklega áréttuð krafa samtakanna um að æðstu embættismenn og kjörnir fulltrúar fylgi sömu launastefnu og samið var um í rammasamkomulaginu. Þessar upplýsingar sem ráðuneyti fjármála- og efnahagsmála gefa tilefni til að árétta þá kröfu. 

Viðbrögð sem vekja furðu

Við endurskoðun kjarasamninga um síðustu mánaðarmót kom fram skýr forsendubrestur hvað varðar ákvæði um launaþróun annarra hópa, þ.e. grunnskólakennarar höfðu hækkað töluvert umfram það viðmið sem lagt var upp með í kjarasamningunum ASÍ félaganna 2015. Engu að síður ákvað samninganefnd ASÍ að horfa framhjá þessum forsendubresti, en leggja þess í stað til að ákveðin sátt yrði í samfélaginu um að lyfta launum grunnskólakennara umfram aðra í þessari lotu.

Forysta KÍ brást hin versta við þessari tillögu ASÍ og formaður BHM sagði í útvarpi í morgun að það þurfi að sýna afstöðu og ólíkum hagsmunum skilning. Aðeins þannig væri hægt er að búa til nýtt vinnumarkaðsmódel á Íslandi. Viðbrögð þessara aðila vekja furðu, því það var einmitt það sem ASÍ var að leggja til í tilfelli grunnskólakennara. Ekki er hægt að skilja ummæli þeirra öðruvísi en að þeir séu að hafna tillögunni um þjóðarsátt um að hækka laun grunnskólakennara umfram aðra hópa.

Það má einnig skilja orðræðu forystumanna KÍ og BHM þannig, að almenni vinnumarkaðurinn eigi að búa til stöðugleikann hér á landi svo þeir geti bætt kjör sinna félagsmanna umfram aðra. Þannig verður það ekki. Það þurfa allir hópar að bera ábyrgð á því að hér ríki stöðugleiki. Það er rauði þráðurinn í því norræna samningalíkani sem menn hafa verið að horfa til. Það útilokar hins vegar ekki að sátt geti náðst um meiri kjarabætur einstaka hópa, enda var það tillaga ASÍ gagnvart grunnskólakennurum, sem þessir aðilar hafa hafnað.

Samstarf við ASÍ um ábyrgð fyrirtækja innan Vakans

Ferðamálastofa, fyrir hönd Vakans, og Alþýðusamband Íslands skrifuðu í dag undir samstarfssamning með það að markmiði að þátttakendur í Vakanum starfi eftir gildandi kjarasamningum. Með þessu er leitast við að styrkja það hlutverk Vakans að byggja upp samfélagslega ábyrgð innan ferðaþjónustunnar.

Þátttakendur í Vakanum virði kjarasamninga
Í samningnum er kveðið á um þegar fyrirtæki sækir um þátttöku í Vakanum, verður aflað upplýsinga hjá ASÍ um hvort alvarlegur ágreiningur sé á milli viðkomandi fyrirtækis og stéttarfélaga sem starfsmenn þess tilheyra. Jafnframt mun ASÍ  í byrjun hvers árs fara yfir þátttakendalista Vakans þannig að tryggt sé, eins og kostur er, að þátttakendur séu ekki brotlegir við kjarasamninga og lög um réttindi starfsmanna. Séu gerðar alvarlegar athugasemdir vegna brota fyrirtækis á gildandi kjarasamningum, getur það ekki verið þátttakandi í Vakanum fyrr en úr hefur verið bætt.

Yfirlýsing um sjálfboðaliðastörf
Í þessu sambandi má einnig nefna yfirlýsingu ASÍ og Samtaka atvinnulífsins frá því síðastliðið haust um sameiginlega ábyrgð á uppbyggingu vinnumarkaðarins. Þar kemur m.a. fram að það sé sameiginlegt viðfangsefni aðila að fyrirtæki í framleiðslu og þjónustu greiði laun og starfskjör í samræmi við kjarasamninga. Sérstaklega er rætt um mikilvægi þess að sameiginlegur skilningur ríki um störf sjálfboðaliða og hvar þau geti átt rétt á sér, s.s. í þágu almannaheilla að góðgerðar-, menningar- eða mannúðarmálum. Áréttað er að það sé andstætt kjarasamningum og meginreglum á vinnumarkaði að sjálfboðaliðar gangi í almenn störf launafólks í efnahagslegri starfsemi fyrirtækja, eins og það er orðað. Starfsgreinasamband Íslands og Bændasamtök Íslands hafa undirritað sambærilegt samkomulag.

Frá vinstri: Áslaug Briem, verkefnisstjóri gæðamála hjá Vakanum; Alda Þrastardóttir, verkefnisstjóri hjá Vakanum; Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður; Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri; Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ; Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ og Snorri Valsson, verkefnisstjóri hjá Vakanum.

Kjarasamningum ekki sagt upp

Niðurstaða forsendunefndar ASÍ og SA vegna endurskoðunar kjarasamninga er að tvær af þremur forsendum standast en ein gerir það ekki. Sú snýst um launaþróun annarra hópa. Samninganefnd ASÍ hefur engu að síður, m.a. að undangengnum fundarhöldum í baklandi stéttarfélaganna, ákveðið að segja ekki upp núgildandi kjarasamningi.

Forsendurnar sem voru til skoðunar eru þessar:

 1. Fjármögnun stjórnvalda á stofnframlögum ríkisins til 2.300 almennra íbúða á árunum 2016-2019 eða að hámarki 600 á ári.
 2. Mat á því hvort sú launastefna og þær launahækkanir sem í samningnum fólust hafi verið stefnumarkandi fyrir aðra á vinnumarkaði (32% hækkun frá nóvember 2013 - desember 2018).
 3. Aukinn kaupmáttur á samningstímanum.

Ljóst er að liðir 1 og 3 standast skoðun en liður 2 er forsendubrestur eins og áður segir. Er það mat samninganefndar ASÍ að ákveðin verðmæti séu í núgildandi samningi (4,5% almenn launahækkun 1. maí og hækkun á mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóð um 1,5% 1. júlí) auk þess sem lítill áhugi er á því að almenni markaðurinn fari fyrstur í þeim kjaraviðræðum sem framundan eru, en mörg opinberu félaganna eru með lausa samninga síðar á þessu ári.

Samkomulag samninganefndar aðildarsamtaka ASÍ og framkvæmdastjórnar SA vegna uppsagnarákvæða kjarasamninga 28. febrúar 2017

Niðurstaða forsendunefndar ASÍ og SA vegna endurskoðunar kjarasamninga í febrúar 2017

Yfirlýsing samninganefndar aðildarsamtaka ASÍ og framkvæmdastjórnar SA 28. febrúar 2017

Lífeyrisþegar borga fyrir mistök Alþingis

Alþingi hyggst leiðrétta afturvirkt mistök sem gerð voru við breytingar á lögum um almannatryggingar sl. haust, sem þýðir að fjöldi lífeyrisþega mun nú þurfa að endurgreiða Tryggingastofnun umtalsverðar fjárhæðir. Málið hefur verið afgreitt úr velferðarnefnd þingsins með miklu flýti án þess að nægilegt tækifæri hafi gefist til umræðu og umsagna. 

Alþýðusambandið gerir ekki efnislegar athugasemdir við þær breytingar sem í frumvarpinu felast enda eru þær í samræmi við markmið laganna en mótmælir því hins vegar harðlega að til standi að leiðrétta greiðslur almannatrygginga afturvirkt til 1. janúar sl. vegna yfirsjónar við breytingar á lögum síðastliðið haust. Slík íþyngjandi afturvirk aðgerð gagnvart lífeyrisþegum samræmist ekki reglum íslenskra laga um afturvirkni.

„Alþingi setur lög. Það geta verið ranglát lög, það geta verið lög sem ná ekki upphaflegum tilgangi. Aðal atriðið er að Alþingi setur lög og skapar með því rétt sem ekki verður aftur tekinn með afturvirkum hætti. Þingmenn verða að átta sig á þessu,“ segir Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ.

87% telja launafólk þurfa sterk verkalýðsfélög

Í nýrri alþjóðlegri skoðanakönnun um viðhorf til vinnu og vinnuaðstæðna, sem framkvæmd var hér á landi um mitt síðasta ár og kynnt í Háskóla Íslands í dag, kemur m.a. fram að 87% svarenda telja launafólk þurfa sterk verkalýðsfélög til að verja hagsmuni þess en aðeins 4% eru ósammála fullyrðingunni. 

Tekið var 3000 manna tilviljunarúrtak einstaklinga 18 ára og eldri úr Þjóðskrá. Gagnaöflun hófst 26. maí og lauk 31. ágúst 2016. Alls svöruðu 1127 könnuninni.

Þegar spurt var álits á fullyrðingunni; Sterk verkalýðsfélög eru slæm fyrir íslenskt efnahagslíf, sögðust 79% vera ósammála en aðeins 5% voru sammála henni.

Þegar spurt var hvað einkenni gott starf svöruðu 97% atvinnuöryggi og að starfið væri áhugavert. 83% nefndu möguleika á framgangi í starfi, 79% háar tekjur og 78% sögðu sjálfstæði í starfi mikilvægt þegar kæmi að góðum störfum.

Vélstjórar samþykkja kjarasamning við SFS

Atkvæðagreiðslu um kjarasamning VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), sem undirritaður var þann 18. febrúar s.l.,
lauk á hádegi 24. febrúar 2017. Á kjörskrá voru 479 félagsmenn og af þeim tóku 266 eða 55,5%, þátt í atkvæðagreiðslunni.

Já sögðu 163 eða 61,3%.
Nei sögðu 98 eða 36,8%. Fimm skiluðu auðu eða 1,9%.

Kjarasamningurinn er því samþykktur með 61,3% greiddra atkvæða.

Flóabandalagið skorar á ríkisstjórnina

Fjölmennur fundur samninganefndar Flóafélaganna og Stéttvest skorar á ríkisstjórnina að draga hækkanir kjararáðs til baka.

Á fjölmennum fundi samninganefndar Flóafélaganna og Stéttvest í kvöld var samþykkt einróma að skora á ríkisstjórnina að draga til baka ákvörðun kjararáðs um launahækkanir þingmanna og ráðherra. Formaður samninganefndar fékk umboð til að vinna áfram að sameiginlegri niðurstöðu í kjaramálum innan samninganefndar ASÍ. Tillagan fer hér á eftir:

"Samninganefnd Flóafélaganna Eflingar, Hlífar, VSFK og Stéttarfélags Vesturlands samþykkir að heimila formanni samninganefndar að vinna áfram á grundvelli þeirra forsendna kjarasamninga frá 2015 sem staðist hafa og varða húsnæðismál og þróun kaupmáttar.

Jafnframt beinir samninganefndin þeirri áskorun til stjórnvalda að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að launakjörum alþingismanna og ráðherra verði breytt þannig að þau samræmist forsendu kjarasamninganna en verði ekki stefnumarkandi fyrir samningagerð á vinnumarkaði."

Aðeins um þátttöku í atkvæðagreiðslu um kjarasamning sjómanna

Eftir atkvæðagreiðsluna um kjarasamninginn sem undirritaður var milli samtaka sjómanna og SFS þann 18. febrúar síðastliðinn hefur verið nokkur umræða um þátttökuna í atkvæðagreiðslunni. Sumir halda því fram að þátttakan hafi verið léleg þar sem 53,7% þeirra sem voru á kjörskrá tók þátt í kosningunni. Tíminn sem menn höfðu til að greiða atkvæði var stuttur, en sjómenn voru í verkfalli og því flestir tiltækir enda gat deilan leystst með stuttum fyrirvara. Eins og menn vita voru kjarasamningar felldir í tvígang í þessari deilu og því fróðlegt að skoða hvernig þátttakan var allt þetta ferli.

Kjarasamningur var undirritaður milli Sjómannasambands Íslands og SFS þann 24. júní 2016. Aðilar að þeim samningi voru öll aðildarfélög Sjómannasambandsins að VerkVest undanskildu. Sjómannafélag Íslands var ekki aðili að þeim kjarasamningi. Atkvæðagreiðslan um þennan samning fór fram ýmist með póstatkvæðagreiðslu eða á opnum kjörfundi. Atkvæðagreiðslan stóð yfir til 8. ágúst 2016 og voru atkvæði talin þann 10. ágúst 2016. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var 38,5%. Samningurinn var felldur með 66% atkvæða.

Í kjölfar þess að kjarasamningurinn frá 24. júní 2016 var felldur var farið í atkvæðagreiðslu um allsherjarverkfall á fiskiskipaflotanum. Atkvæðagreiðsla um verkfallið stóð í um mánuð og lauk henni þann 17. október 2016. Öll aðildarfélög Sjómannasambands Íslands auk Sjómannafélags Íslands tóku þátt í þeirri atkvæðagreiðslu, en þetta eru sömu félögin og töldu sameiginlega um samninginn sem undirritaður var 18. febrúar 2017. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni um verkfallið hjá aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands og Sjómannafélagi Íslands var samanlagt 54,2%. Verkfall var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða.

Kjarasamningur var undirritaður þann 14. nóvember 2016. Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur og Sjómannafélag Íslands voru ekki aðilar að þeim samningi, en þeir undirrituðu samning daginn eftir. Þessir samningar fóru í atkvæðagreiðslu og var verkfalli frestað. Atkvæðagreiðslunni um þessa samninga lauk 14. desember 2016. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni um samningana var óvenju mikil eða 60,4% þegar félög innan Sjómannasambands Íslands og Sjómannafélags Íslands eru talin saman.

Kjarasamningur var undirritaður 18. febrúar 2017 og voru aðilar að samningunum öll aðildarfélög Sjómannasambands Íslands auk Sjómannafélags Íslands. Atkvæðagreiðslunni lauk að kvöldi 19. febrúar 2017 og stóð því yfir í stuttan tíma. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var 53,4% eða sambærileg og um verkfallið og mun betri en um kjarasamninginn frá 24. júní 2016.

Samkvæmt framansögðu er hæpið að halda því fram að þátttaka í atkvæðagreiðslunni um samninginn frá 18. febrúar 2017 hafi verið léleg. Þvert á móti er hún sambærileg og alla jafna um kjarasamninga hjá sjómönnum þrátt fyrir stuttan afgreiðslutíma á samningnum.

Heimild: Sjómannasamband Íslands www.ssi.is  

Óskað eftir tilnefningum til Kuðungsins 2016

Úthlutunarnefnd á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins óskar eftir tilnefningum um fyrirtæki eða stofnun, sem vegna verka sinna og athafna á síðasta ári, er þess verðug að hljóta umhverfisviðurkenninguna Kuðunginn fyrir árið 2016.

Óskað er eftir því að stutt greinargerð fylgi með tilnefningunni. Fyrirtæki og stofnanir geta hvort heldur tilnefnt sig sjálf eða verið tilnefnd af öðrum.

Kuðungurinn er viðurkenning á framlagi fyrirtækja og stofnana til umhverfismála sem veitt er árlega. Umhverfisráðuneytið veitti Kuðunginn fyrst árið 1995, þá fyrir starf á árinu 1994. Þau fyrirtæki sem hafa hlotið viðurkenninguna hingað til eru:

2015 - ÁTVR
2014 - Landspítalinn
2013 - Kaffitár
2012 - Íslenskir fjallaleiðsögumenn
2011 - Náttúran.is
2010 - Farfuglaheimilin í Reykjavík
2009 - Oddi
2008 - Íslenska Gámafélagið
2007 - Sólarræsting
2006 - Bechtel
2005 - Línuhönnun
2004 - Orkuveita Reykjavíkur
2003 - Hópbílar
2002 - Árvakur
2000 - Íslenska álfélagið
1999 - Borgarplast
1998 - Fiskverksmiðja Haraldar Böðvarssonar á Akranesi
1997 - Olíufélagið
1996 - Fiskverkun KEA í Hrísey
1995 - Prentsmiðja Morgunblaðsins
1994 - Umbúðamiðstöðin, Gámaþjónustan og Kjötverksmiðjan Goði

Tillögur skulu berast umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eigi síðar en miðvikudaginn 17. mars n.k. merktar ,,Kuðungurinn” á póstfangið postur@uar.is eða með pósti í umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.

Sjómenn samþykktu kjarasamninginn

Sjómenn samþykktu kjarasamninginn við SFS, sem undirritaður var aðfaranótt laugardagsins, en talningu lauk um klukkan 21 í kvöld. Atkvæði skiptust þannig að 52,4% samþykktu samninginn en 46,9% höfnuðu honum. Auðir og ógildir atkvæðaseðlar voru átta.
Á kjörskrá voru 2214 og greiddu 1189 atkvæði sem er kjörsókn upp á 53,7%. Já sögðu 623 en nei sögðu 558. 

Verkfalli sjómanna, sem staðið hafði frá miðjum desember, er því lokið.

Samningar náðust í sjómannaverkfallinu í nótt

Eftir fimm klukkustunda samningafund, sem hófst hjá ríkissáttasemjara kl. 22 í gærkvöld, náðust samningar í sjómannaverkfallinu um kl. þrjú í nótt. Verkfallið hafði þá staðið í rúma tvo mánuði. Skv. heimildum RÚV verður verkfalli þó ekki aflýst fyrr en að aflokinni atkvæðagreiðslu um samninginn þar sem sjómenn hafa í tvígang á síðustu sex mánuðum fellt nýgerða kjarasamninga. Verður kynningu á samningnum hraðað þannig að hægt sé að greiða atkvæði sem allra fyrst. Konráð Alfreðsson varaformaður Sjómannasambands Íslands sagðist í samtali við mbl.is bjartsýnn á að samningurinn yrði samþykktur og að flotinn gæti lagt úr höfn strax á sunnudagskvöld.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá SFS í nótt eru talsverðar breytingar í nýja kjarasamningnum frá þeim sem felldur var í atkvæðagreiðslu sjómanna í desember. Til viðbótar við kjarasamninginn sem felldur var fyrir áramót hafi samningsaðilar náð sátt um breytingu á olíuverðsviðmiði, endurgjaldslaust fæði, að útgerðir láti sjómönnum í té allan öryggis- og hlífðarfatnað, bætta framkvæmd í fjarskiptamálum, sérstaka kaupskráruppbót og að heildarendurskoðun fari fram á kjarasamningum á samningstímanum.

Rætt hafði verið síðustu daga að ríkisvaldið hefði aðkomu að samningunum en ekki kom til þess.

Kjarasamningur sjómanna 2017 (5 Mb).

Iceland með mesta úrvalið en oftast með hæsta verðið

Mesti verðmunur reyndist 177%, í nýrri verðkönnun ASÍ á matvöru, sem gerð var í átta verslunum miðvikudaginn 15. febrúar sl. Þessi mikli verðmunur var á rauðum eplum sem voru ódýrust á 198 kr/kg í Bónus en dýrust í Iceland 549 kr/kg sem gerir verðmun upp á 177%. Verðmunurinn var mestur í flokki ávaxta (sjá töflu) en einnig var mikill verðmunur á frosnum heilum kjúklingi eða 135% þegar skoðað var ódýrasta kílóverð í hverri verslun fyrir sig. Hæsta verðið var í Krónunni út á Granda 935 kr/kg en lægst var verðið í Bónus Holtagörðum 398 kr/kg en meðalverðið var 681 kr/kg. Minnsti verðmunurinn í könnuninni var 11% á stórri dós af bláberja skyri frá Skyr.is. Hæsta verð var 399 kr í Iceland Engihjalla en lægsta verðið í Bónus Holtagörðum og í Krónunni Granda 359 kr en meðalverðið var 373 kr.

Bónus Holtagörðum átti til 56 af þeim 63 vörum sem voru kannaðar og var í 34 tilfellum með lægsta verðið. Iceland í Engihjalla átti 61 af 63 vörum sem skoðaðar voru en í 33 tilfellum var Iceland með hæsta vöruverðið í þessari könnun.

Niðurstöður könnunarinnar í töflu.

NÝTT! Gerið sjálf verðsamanburð milli verslana í þessari könnun.

 BÓNUS 

 KRÓNAN 

 NETTO 

 FJARÐARKAUP

SAMKAUP ÚRVAL 

 HAGKAUP 

 VÍÐIR 

 ICELAND 

Rauð epli

198

299

259

268

479

449

385

549

Kíwí

279

e

329

298

439

449

348

349

Perur

229

230

349

268

389

399

398

269

Appelsínur

198

199

229

208

348

349

289

309

Bananar

179

239

279

257

em

399

389

299

e = vara ekki til

Framkvæmd könnunarinnar

Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er oft skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum þann 15. febrúar 2017: Bónus Holtagörðum, Krónunni á Grands, Nettó í Mjódd, Fjarðarkaupum, Hagkaupum í Skeifunni, Víði í Skeifunni, Iceland Engihjalla og Samkaupum Úrvali á Bolungarvík.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

 

Tilkynning frá Sjómannasambandi Íslands (1)

Viðræður SFS og sjómannasamtakanna hafa gengið vel liðna daga og sameiginlegur skilningur er með aðilum um helstu kröfur. Líkt og komið hefur fram í umræðu hafa sjómenn talið að leiðréttingar sé þörf á ójafnræði í skattalegri meðferð á dagpeningum. Sjómenn telja mikilvægt að úr þessu verði bætt. Þar sem um réttlætismál er að ræða hefur þetta veruleg áhrif í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir. Ráðherra hefur lagt til að fram fari heildstæð greining og skoðun á fæðis- og dagpeningum almennt á vinnumarkaði. Greining þessi er vafalaust jákvæð. Enn stendur þó útaf að fá viðurkenningu stjórnvalda á skattalegri meðferð á dagpeningagreiðslum til sjómanna.

Samiðn skorar á ríkisstjórnina að draga úr tekjutengingum almannatrygginga

Miðstjórn Samiðnar samþykkti ályktun á fundi sínum nýverið þar sem skorað er á ríkisstjórnina að draga verulega úr tekjutengingum í almannatryggingakerfinu.
Að mati miðstjórnar hafa breytingarnar á lögum um almannatryggingar sem samþykktar voru á síðasta ári hafa komið mjög illa við marga lífeyrisþega vegna mikilla skerðinga og minnkað hvata þeirra til atvinnuþátttöku. Skorað er á ríkisstjórnina að gera nauðsynlegar breytingar svo samspil almannatrygginga við aðrar tekjur verði með þeim hætti að fólk njóti eðlilegs ávinnings af því að greiða í lífeyrissjóð og afla sér atvinnutekna samhliða töku lífeyris.

Meðfylgjandi er ályktun miðstjórnar Samiðnar í heild sinni.

Miðstjórn Samiðnar skorar á ríkisstjórnina að draga verulega úr tekjutengingum almannatrygginga
Á síðasta ári voru gerðar breytingar á lögum um almannatryggingar þar sem tekjutenging var hækkuð úr 38,38% í 45% og felld voru niður frítekjumörk vegna atvinnutekna og lífeyris frá lífeyrissjóðum. Þessar breytingar hafa komið mjög illa við marga lífeyrisþega vegna lækkunar lífeyris. Einstaklingur sem hefur t.d. 100.000 kr. í atvinnutekjur fær einungis um rúmar 30.000 kr. til ráðstöfunar og eigi hann rétt á heimilisuppbót verður skerðingin enn meiri.

Miklar tekjutengingar draga úr vilja fólks til að greiða í lífeyrissjóði og hvatinn til atvinnuþátttöku minnkar verulega vegna mikilla skerðinga. Miðstjórn Samiðnar skorar á Alþingi að bregðast fljótt við og gera nauðsynlegar breytingar og tryggja að samspil almannatrygginga við aðrar tekjur verði með þeim hætti að fólki njóti eðlilegs ávinnings af því að greiða í lífeyrissjóð og afla sér atvinnutekna samhliða töku lífeyris.

Núverandi samspil lífeyris frá almannatryggingum við aðrar tekjur er lítilsvirðing við eldra fólk sem er búið að standa skil á sköttum alla sína starfsævi. Miðstjórn Samiðnar krefst þess að nú þegar verði brugðist við og tekjutengingar almannatrygginga lækkaðar og tryggt verði að lífeyrisþegar hafi skýran fjárhagslegan ávinning af því að fá lífeyri frá lífeyrissjóði og afla atvinnutekna. 

Evrópa þarf launahækkun

Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC) blæs í dag til átaksins Evrópa þarf launahækkun (Europe needs a pay rise) og mun það standa allt árið 2017. Og ástæðan er ærin. Evrópsk fyrirtæki hafa verið að rétta úr kútnum að undanförnu en víða hefur launafólk í álfunni ekki fengið launahækkun svo árum skiptir. Hér þurfa verkalýðsfélögin að draga vagninn. Það þarf að slá á þá möntru atvinnurekenda að launahækkanir leiði til atvinnuleysis, þannig er það ekki. Auknar ráðstöfunartekjur gagnast ekki bara launafólki sjálfu heldur munu þær auka neyslu og eftirspurn í samfélaginu sem styrkir efnahaginn almennt. Og þar með hag fyrirtækjanna. Launafólk í Evrópu hefur unnið fyrir launahækkununum, það á hana skilið.

Að auki horfir ETUC til þess að það þurfi auka launajafnrétti í Evrópu. Þannig að t.d. starfsmaður í bílaverksmiðju VW í Tékklandi nálgist verkamann í sömu stöðu í verksmiðju VW í Þýskalandi í launum. Þess vegna þurfa þeir sem vinna á láglaunasvæðum að hækka meira en hinir.

Sem betur fer hafa laun á Íslandi hækkað reglulega á síðustu árum og ef kjarasamningum verður ekki sagt upp í lok þessa mánaðar, munu félagsmenn í stéttarfélögum innan ASÍ fá almenna launahækkun upp á 4,5% 1. maí 2017 og framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð mun hækka úr 8,5% í 10% þann 1. júlí 2017.

Verður kjarasamningum sagt upp í lok mánaðarins?

Báðir varaforsetar ASÍ hafa ýjað að því í viðtölum síðustu daga að kjarasamningum kunni að vera sagt upp í lok mánaðarins. Forsendunefnd þarf að skila sinni niðurstöðu í síðasta lagi 28. febrúar. Að því gefnu að forsendur kjarasamninga á almenna markaðnum haldi þá gilda samningarnir til loka árs 2018.

Sigurður Bessason formaður Eflingar og 2. varaforseti ASÍ sagði í viðtali við Spegilinn á miðvikudag að í fjárlögum fyrir árið 2017 vanti fjármagn fyrir 300 félagslegum íbúðum en í kjarasamningnum sé gert ráð fyrir að ríkið komi með fjármagn fyrir 600 íbúðum á ári næstu árin. Ef þetta verður ekki lagað er um kláran forsendubrest að ræða.

Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR og 1. varaforseti Alþýðusambands Íslands, sagði í samtali við Viðskiptablaðið ljóst að forsendan um aukinn kaupmátt standist. Aftur á móti sé verið að bíða eftir tölum frá Hagstofunni um launaþróun og því sé enn óvíst hvort sú forsenda standist.

„Það sem liggur fyrir í dag er að það er forsendubrestur hvað varðar loforð stjórnvalda um að fjármagna byggingu 600 íbúða í almenna íbúðakerfinu. Það finnst ekkert um þetta í fjárlögum og ef ekki verður bætt við auknu fé í þessa uppbyggingu þá eru forsendur kjarasamninga brostnar,"segir Ólafía og bætti við

"Síðan er náttúrlega mikil óánægja hjá okkar félagsmönnum með niðurstöðu kjararáðs. Það gengur náttúrulega ekki að fjármálaráðherra fari í pontu á Alþingi og segist styðja ákvörðun kjararáðs en nánast í næstu setningu segir hann að aðilar vinnumarkaðarins verði að halda að sér höndum og megi ekki gera of háa samninga."

Hvernig breytist kostnaður þegar barn fer úr leikskóla í grunnskóla?

Kostnaður, vegna dagvistunnar og fæðis, sem foreldrar greiða samkvæmt almennri gjaldskrá lækkar hjá flestum sveitarfélögum þegar börn fara úr leikskóla yfir í 1. bekk grunnskóla. Hjá forgangshópum (einstæðum foreldrum og námsmönnum) hækkar þessi kostnaður hins vegar en einungis tvö af fimmtán stærstu sveitarfélögum landsins, Kópavogur og Seltjarnarnes, veita áfram afslátt til þessara hópa þegar börn fara í grunnskóla.

Verðlagseftirlit ASÍ skoðaði hvernig kostnaður foreldra í 15 stærstu sveitarfélögum landsins breytist við að barn færist frá leikskóla yfir í grunnskóla. Miðað var við eitt barn í vistun í 8 tíma á leikskóla með mat og í 3 tíma í skóladagvist með hádegismat og síðdegishressingu.

Gjaldskrár fyrir leikskóla voru bornar saman við gjaldskrá skóladagvistunar, en ekki var tekið tillit til neinna gjalda sem gætu verið innheimt aukalega eða mat lagt á gæði þjónustunnar.

Kostnaður lækkar víðast en hækkar um 27% á Seltjarnarnesi
Kostnaður vegna gæslu eins barns með fæði lækkar um 3-62% í 13 af 15 stærstu sveitarfélögunum þegar barnið flyst frá leikskóla yfir í grunnskóla hjá þeim sem greiða samkvæmt almennri gjaldskrá. Mest lækkar hann í Vestmannaeyjum um 15.218 kr. eða 62%, Sveitarfélaginu Skagafirði um 11.980 kr. eða 49% og í Reykjanesbæ um 10.020 kr. eða 32%. Kostnaðurinn hækkar hins vegar á Seltjarnarnesi um 9.702 kr. á mánuði eða 27% og í Kópavogi um 1.371 kr. eða um 4%.

Kostnaður forgangshópa hækkar í flestum sveitarfélögum
Þegar sami kostnaður er skoðaður fyrir forgangshópa, sem eru í flestum sveitarfélögum námsmenn og einstæðir foreldrar, kemur annað mynstur í ljós þar eð kostnaður þessa hóps hækkar í flestum tilfellum talsvert þegar barn fer á milli skólastiga. Einungis tvö sveitarfélög, Seltjarnarnes og Kópavogur, tilgreina afslátt fyrir þennan hóp í gjaldskrá sinni fyrir skóladagvistun, en öll sveitarfélög veita afslátt fyrir þennan hóp af leikskólagjöldum.

Í 6 af 15 sveitarfélögum sem skoðuð eru lækkar kostnaður forgangshópa. Mesta lækkunin er í Vestmannaeyjum en þar lækkar kostnaður foreldra um 6.386 kr., hjá Sveitarfélaginu Skagafirði nemur lækkunin 4.844 kr., á Seltjarnarnesi munar 4.392 kr. og hjá Reykjanesbæ  3.620 kr. Hlutfallslega lækkar kostnaður mest á Seltjarnarnesi um 31%, í Vestmannaeyjum 26% og Sveitarfélaginu Skagafirði um 20%.

Hins vegar hækkar kostnaður mest í Garðabæ eða um 10.403 kr, í Reykjavík um 8.573 kr og á Akureyri um 8.336 kr. Hjá öðrum sveitarfélögum er munurinn minni. Hlutfallslega hækkar kostnaðurinn mest í Reykjavík eða um 33%, hjá Garðabæ um 29% og á Akureyri um 24%.

Sjá nánari samanburð í meðfylgjandi töflu.

Mjög misjafnt er á milli sveitarfélaga hvernig gjaldskráin fyrir þjónustu við grunnskólabörn er uppbyggð. Til dæmis er hámarksgjald, mánaðargjald, aukagjald fyrir gæslu á starfsdögum, aukagjald fyrir að aðstoð við heimanám  og skráningargjald. Einnig er hádegismatur seldur í formi annaráskriftar, mánaðargjalds, klippikorts eða sem stakar máltíðir. Til að einfalda samanburð milli sveitarfélagana miðar verðlagseftirlitið samanburð sinn við 21 virkan dag í mánuði, vistun í þrjá tíma á dag ásamt hressingu í síðdegisvistinni. Fyrir leikskólabörn er miðað við 8 stunda vistun með fæði.

Einungis er um verðsamanburð að ræða, ekki er lagt mat á gæði þjónustunnar.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Skólamatur og gæsla 51% dýrari í Garðabæ en Skagafirði

Allt að 51% munur er á kostnaði foreldra við hádegisverð og síðdegisvistun grunnskólabarna meðal stærstu sveitarfélaga landsins samkvæmt nýrri samantekt verðlagseftirlits ASÍ. Gjald fyrir hádegisverð, 3 tíma síðdegisvistun og hressingu fyrir barn í neðri bekkjum grunnskólans er hæst í Garðabæ kr. 36.484 á mánuði en lægst í Sveitarfélaginu Skagafirði kr. 24.234. Heildarkostnaður foreldra vegna þessarar þjónustu hefur hækkað í öllum 15 sveitarfélögunum sem til skoðunar eru undanfarið ár. Mesta hækkunin milli ára er í Reykjavík, þar sem heildarkostnaður vegna þessarar þjónustu hækkar úr kr. 23.530 í kr. 26.100 á mánuði eða um 11% sem er að mestu tilkomið vegna hækkunar á hádegisverði. Minnsta hækkunin milli ára er hjá Ísafjarðarbæ þar sem heildarkostnaður foreldra fer úr 31.267 kr. á mánuði í kr. 31.603 kr. sem er 1% hækkun.

Samantektin nær til 15 fjölmennustu sveitarfélaga landsins. Uppbygging gjaldskráa sveitarfélaganna er mjög mismunandi, en í þessum samanburði er miðað við þriggja tíma dagleg vistun eftir skóla ásamt síðdegishressingu og hádegismat í 21 dag á mánuði.  Ekki er tekið tillit til seðilgjalda eða annarra innheimtugjalda sem kunna að leggjast ofan á gjöldin og eru í sumum tilvikum innheimt í tvennu lagi. Í sumum sveitarfélögum er einnig í boði ávaxtastund og mjólkuráskrift á skólatíma sem er ekki er hluti af samanburðinum.  

Allt að 41% verðmunur á hádegisverði
Ef eingöngu er skoðuð gjaldskrá fyrir hádegisverð sem í boði er fyrir grunnskólabörn á öllu aldri má sjá að allt að 41% verðmunur milli sveitarfélaga. Hæsta verðið er á Ísafirði þar sem máltíðin kostar 492 kr. eða 10.332 krónur á mánuði ef gert er ráð fyrir 21. vikum degi í mánuði. Lægsta verðið er hins vegar í Sveitarfélaginu Árborg, 349 kr. máltíðin eða 7.329 krónur á mánuði.

Hlutfallslega hækkar verð á hádegismat grunnskólabarna mest í Reykjavík milli ára eða um 30%, máltíðin fór úr 338 kr. í 441 kr. Í Reykjanesbæ nemur hækkunin 10% en þar hækkar máltíðin úr 350 kr. í 385 kr. Í Hafnarfirði hækkar máltíðin um ríflega 8% milli ára, í Sveitarfélaginu Skagafirði um 6% og í Kópavogi, Mosfellsbæ og á Akranesi um 4%. Akureyri og Vestmannaeyjar eru einu sveitarfélögin þar sem gjald fyrir hádegisverð grunnskólabarna er óbreytt milli ára.  

Systkinaafslættir misjafnir
Systkinaafslættir eru misjafnir eftir sveitarfélögum. Afslátturinn fyrir annað barn er frá 25% upp í 75% og afslátturinn fyrir þriðja barnið er frá 25% upp í 100%. Aðeins er veittur afsláttur af skóladagvistun ekki fæði.

Samanburðartafla á kostnaði við skólavistun og hádegismat.

Mjög misjafnt er á milli sveitarfélaga hvernig gjaldskráin fyrir þjónustu við grunnskólabörn er uppbyggð. Til dæmis er hámarksgjald, mánaðargjald, aukagjald fyrir gæslu á starfsdögum, aukagjald fyrir að aðstoð við heimanám  og skráningargjald. Einnig er hádegismatur seldur í formi annaráskriftar, mánaðargjalds, klippikorts eða sem stakar máltíðir. Til að einfalda samanburð milli sveitarfélagana miðar verðlagseftirlitið samanburð sinn við 21 virkan dag í mánuði, vistun í þrjá tíma á dag ásamt hressingu í síðdegisvistinni.

Einungis er um verðsamanburð að ræða, ekki er lagt mat á gæði þjónustunnar.

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði breytingar á gjaldskrám sveitarfélaga fyrir ofangreinda þjónustu hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins milli janúar 2016 og janúar 2017.

 

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Til upplýsingar fyrir bæjarstjóra Kópavogs

Bæjarstjórinn í Kópavogi, sem jafnframt er formaður samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, lýsti í gær grundvallar skilningsleysi á nýja almenna íbúðakerfinu sem tryggja á tekjulágum fjölskyldum öruggt leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum. Ármann Kr. Ólafsson vændi ASÍ, í ummælum sínum í fréttum RÚV, um tvöfeldni þar sem samtökin fari fram á stofnframlög frá ríki og sveitarfélögum til Bjargs íbúðafélags á sama tíma og þau sætu í stjórnum lífeyrissjóða sem fjárfesti í leigufélögum á markaði. Þess má geta að Bjarg íbúðafélag var stofnað fyrir tæpu ári af ASÍ og BSRB og er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

 • Í fyrsta lagi skal tekið fram að ASÍ á enga aðild að stjórnum lífeyrissjóða, þar sitja fulltrúar launafólks úr þeim stéttarfélögum sem aðild eiga að viðkomandi sjóði.
 • Í öðru lagi ætti bæjarstjórinn að þekkja grundvallarlögmál frjáls markaðar betur en svo að setja fram fullyrðingar sem þessar. Lífeyrissjóðir veita einstaklingum og fyrirtækjum lán á markaðsforsendum með það markmið að ávaxta iðgjöld sjóðfélaga sinna og tryggja þeim góðan lífeyri. Það er ekki þeirra að taka að sér hlutverk ríkisins við að tryggja öllum landsmönnum grundvallar velferð. Það er hluti af jöfnunarhlutverki hins opinbera og á að fjármagna í gegnum skattkerfið.

Eins og bæjarstjóranum ætti að vera kunnugt er staða tekjulágra heimila á húsnæðismarkaði óviðunandi og í aðgerðum stjórnvalda undanfarin ár hafa þau með öllu verið skilin eftir. Það er alþekkt að óheftur frjáls húsnæðismarkaður leysir ekki af sjálfsdáðum þennan vanda, síst af öllu í ástandi eins og nú þegar mikill skortur er á húsnæði.

 • Þess vegna hefur hið opinbera mikilvægu hlutverki að gegna við að styðja við uppbyggingu á húsnæði fyrir þessa hópa.
 • Þess vegna var á sínum tíma byggt hér upp öflugt verkamannabústaðakerfi með aðkomu hins opinbera.
 • Þess vegna hafa frændur okkar á Norðurlöndunum byggt upp almennt leiguíbúðakerfi sem tryggir húsnæðisöryggi og viðráðanlegan húsnæðiskostnað.
 • Þess vegna gerði ASÍ það að kröfu sinni í kjarasamningum að hið opinbera stigi inn og styddi við uppbyggingu á leiguhúsnæði í félögum sem hafa langtímamarkmið um rekstur án hagnaðarsjónarmiða. Fáir aðilar hafa litið á það sem hlutverk sitt að reka slík félög fyrir tekjulágt launafólki og alveg ljóst að hinn frjálsi markaður mun ekki niðurgreiða húsaleigu svo hún verði þessum hópum viðráðanleg.
 • Þess vegna stofnaði ASÍ á 100 ára afmæli sínu húsnæðisfélag ásamt félögum okkar í BSRB til að vinna að þessu markmiði og stuðla með því að félagslegu- og fjárhagslegu öryggi fjölskyldna.

Það væri því nær að bæjarstjórinn styddi ASÍ í viðleitni sinni til að gera úrbætur á þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er í húsnæðismálum og kemur verst niður á ungu fólki og tekjulágum.

Nýtt Alþingi fellur á fyrsta prófinu - ályktun miðstjórnar ASÍ

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands telur forsætisnefnd Alþingis hafa fallið á fyrstu prófraun sinni og sýnt að Alþingi skortir jarðsamband og tengsl við almenning í landinu. Sl. haust ofbauð landsmönnum ákvörðun kjararáðs um fordæmalausa hækkun launa og fastra greiðslna til alþingismanna. Síðan þá er búið að skipta um helming þingmanna og snérust kosningarnar í haust ekki síst um breytt siðferði.

Nýir þingmenn höfðu tækifæri til að beita sér og sýna í verki að alvara lá að baki kosningaloforðum og taka til baka hækkun þingfaralauna umfram það sem hinn almenni launamaður hefur fengið í sitt umslag.

Miðstjórn Alþýðusambandsins mótmælir hálfkáki forsætisnefndar þingsins og krefst þess að Alþingi taki málið upp og afturkalli hækkanir kjararáðs. Miðstjórn ASÍ minnir á að forsenduákvæði kjarasamninga eru til endurskoðunar nú í febrúar og hækkanir til alþingismanna og æðstu embættismanna geta sett framhald kjarasamninga alls þorra landsmanna í uppnám.

Saga ASÍ á rafrænt form

Alþýðusamband Íslands og hugbúnaðarfyrirtækið Kosmos og kaos hafa undirritað samning um að Kosmos og kaos komi sögu ASÍ á rafrænt form þannig að hún verði aðgengileg almenningi á netinu. Farin verður ný leið í miðlun á efninu þar sem sagan verður sett upp sem sérstök vefsíða með öllum þeim kostum sem slíku fylgir, þ.e. leit að efnisatriðum og nöfnum í texta verður einföld, deilingar á efninu þægileg á samfélagsmiðlum og Google mun auðveldlega finna og vísa á efni í rafbókinni. Ekki er vitað til að þessi leið við rafræna bókaútgáfu hafi verið farin áður hér á landi. Búist er við að vinnu við yfirfærslu á sögu ASÍ á rafrænt form ljúki með vorinu.

Verkið sem hér er sett í rafbókarform kom upphaflega út árið 2013 í tveimur bindum en höfundur þess er Sumarliði Ísleifsson sagnfræðingur.

Mynd:
Það voru Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri ASÍ og Inga Birna Ragnarsdóttir framkvæmdastjóri Kosmos og kaos sem undirrituðu samninginn.

Leiðrétting húsnæðislána jók ójöfnuð

Leiðrétting húsnæðislána var ein stærsta aðgerð síðustu ríkisstjórnar og líklega ein sú umdeildasta. Skýrsla sem fjármála- og efnahagsráðherra lagði fyrir Alþingi í síðustu viku staðfestir í raun flestar þær áhyggjur sem uppi voru um fyrirkomulag leiðréttingarinnar. Í skýrslunni kemur fram að fjöldi skuldara á hverju tekjubili vex með hækkandi tekjum. Sé leiðréttingin skoðuð eftir eignastöðu sést að megnið af þeim 72 milljörðum sem fóru í leiðréttinguna runnu til framteljenda með sterka eignastöðu. Efsta eignatíundin, sem eru framteljendur sem eiga 82,6 milljónir að meðaltali í hreina eign, hlaut um 13,3% af leiðréttingunni.  Tæplega 75% af heildarfjárhæð leiðréttingarinnar fór til eignameiri helmings samfélagsins.

Þeir ríkustu fengu langmest

Af þeim fjármunum sem settir voru í lækkun höfuðstóls íbúðalána má sjá að tæplega þriðjungur fór til tekjuhæstu tíundarinnar og um 86% til tekjuhærri helmings þeirra sem skulda íbúðalán, eða um 62 milljarðar. Yfirgnæfandi meirihluti leiðréttingarinnar rann þannig til eignamestu og tekjuhæstu heimila landsins.

              

Bæði greiðslu- og skuldavandi heimila var vel kortlagður í kjölfar efnahagshrunsins. Í greiningu Seðlabankans á umfangi greiðsluvanda var áætlað að um 21 þúsund heimili væru í greiðsluvanda í lok árs 2010. Greiðsluvandinn var mun meiri hjá heimilum í lægri tekjuhópum og voru um 50% heimila í lægsta tekjufimmtung í greiðsluvanda á árunum 2009-2010, um þriðjungur í næst lægsta tekjufimmtung og rúmlega fimmtungur í mið tekjufimmtungi. Þar kemur einnig fram að greiðsluvandi væri mun umfangsmeiri meðal barnafjölskyldna heldur en heimila án barna. Hvað skuldavandann varðar kemur fram að hlutfall húseigenda með neikvætt eigið fé hafi hæst verið um 40% og að umfangið hafi verið meira hjá tekjuhærri heimilum. En þegar heimili í bæði skulda- og greiðsluvanda voru skoðuð sérstaklega kemur í ljós að þau voru flest í tekjulægri hópum (sjá greinagerð Seðlabanka Íslands). Verst staddi hópurinn fékk lítið sem ekkert.

Umtalsverðar upplýsingar lágu fyrir um umfang skulda- og greiðsluvanda íslenskra heimila fyrir leiðréttinguna. Þær upplýsingar sem nú liggja fyrir um ráðstöfun leiðréttingarinnar benda til þess að leiðréttingin hafi að litlu leyti runnið til þess hóps keypti húsnæði á árunum 2006-2008 og lenti  verst í raunlækkun húsnæðis. Ennfremur hafi sá hópur sem lenti í greiðsluvanda í kjölfar hrunsins að miklu leyti ekki fallið undir leiðréttinguna og því aldrei átt von á að hljóta stóra leiðréttingu húsnæðislána. Aðgerðin hefur leitt til aukins ójöfnuðar með tilfærslu á skattfé til vel stæðra hópa með sterka eiginfjárstöðu. Niðurstaðan er fyrst og fremst áfellisdómur yfir aðgerðinni sem var bæði ómarkviss og slæm ráðstöfun á ríkisfjármagni sem rann að langstærstu leyti til einstaklinga sem hvorki glímdu við greiðslu- né skuldavanda. Tímasetning aðgerðarinnar var einnig óheppileg því slaki var að hverfa í hagkerfinu þegar hún kom til framkvæmda sem leiddi til aukinnar eftirspurnar eftir húsnæði.

Nú er komið að leigjendum

Á síðasta kjörtímabili stóðu húsaleigubætur í stað þrátt fyrir að margir leigjendur væru í greiðsluvanda og leiguverð hafi hækkað mikið vegna vaxandi eftirspurnar eftir húsnæði samfara húsnæðisskorti. Á sama tíma var 72 ma. kr. veitt úr ríkissjóði til að niðurgreiða húsnæðisskuldir og  runnu þeir fjármunir fyrst og fremst til  tekju- og eignameiri húsnæðiseigenda. Alþýðusamband Íslands hefur barist fyrir húsnæðisöryggi launafólks um árabil. Sú barátta skilaði loks árangri þegar ríkisstjórnin lofaði innleiðingu almenns íbúðakerfis með yfirlýsingu í tengslum við gerð kjarasamninga vorið 2015. Almenna íbúðakerfið nýtur stofnframlaga frá ríki og sveitarfélögum og er ætlað að tryggja tekjulægra fólki leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum. Það var mat Alþýðusambandsins að þörfin væri a.m.k. 1.000 íbúðir á ári, næstu fimm árin. Ríkisstjórnin var ekki tilbúin til að mæta þeirri þörf en sættist á 600 íbúðir árlega í fjögur ár. Það eru því veruleg vonbrigði að ekki sé staðið við loforð um stofnframlög til 600 íbúða í fjárlögum 2017 og leggur Alþýðusambandið ríka áherslu á að þeir 2 milljarðar  sem upp á vantar verði tryggðir á þessu ári. Að öðrum kosti eru forsendur kjarasamninga í uppnámi.

Verðlag lækkaði um 0,57% í janúar

Verðlag lækkaði um 0,57% í janúar og mælist ársverðbólga óbreytt frá fyrra mánuði 1,9% samkvæmt nýrri mælingu Hagstofunnar sem birt var í morgun. Að húsnæði undanskyldu lækkað verðlag um 1,2% í mánuðinum og hefur undanfarið ár lækkað um 0,9%.

Lækkun á verðlagi í janúar er einkum tilkomin vegna útsöluáhrifa og lækkana á verði nýrra bíla og flugfargjalda. Á mót vegur hækkun á húsnæðisverði og hækkanir á ýmsum liðum, sem rekja má til hækkana á opinberum álögum á m.a. bensíni, áfengi, tóbaki, sorphreinsun, leikskólagjöldum og skólamat.  Í heild má má áætla að hækkanir á opinberum álögum og þjónustugjöldum hafi samtals um 0,4% áhrif til hækkunar á verðlagi í mánuðinum.

Gjaldskrár leikskóla hækka enn eitt árið

Öll stærstu sveitarfélög landsins nema Mosfellsbær hafa hækkað leikskólagjaldskrár sínar frá því í upphafi árs 2017 að því er fram kemur í nýrri úttekt verðlagseftirlits ASÍ. Mesta hækkunin er í Reykjavík, sem rekja má til ríflega fjórðungs hækkunar á fæðisgjaldi. Gjald fyrir 8 tíma leikskólavistun með fæði er lægst á Seltjarnarnesi og í Reykjavík en hæst í Vestmannaeyjum og Garðabæ.


Mikill verðmunur á almennri gjaldskrá
Mikill verðmunur er á hæstu og lægstu gjaldskrá sveitarfélagana fyrir 8 tíma vistun ásamt fæði. Hæsta gjaldið fyrir þessa þjónustu er 39.578 kr. í Vestmannaeyjum en lægst á 25.760 kr. á Seltjarnarnesi og er munurinn 13.818 kr. eða tæp 54%.

Hlutfallslega var mesta hækkunin í Reykjavík 8,6% úr 25.280 kr í 27.447 kr eða um 2.167 kr. á mánuði, í Vestmannaeyjum var hækkunin 2,8% úr 36.260 kr. í 37.270 kr eða 1.010 kr. Hækkunin hjá Sveitarfélaginu Árborg og Garðabæ var 2,4% og 2,3% á Akureyri. Önnur sveitarfélög hækkuðu gjaldskránna minna og var hækkun þeirra á bilinu 0,5% - 1,8%. Þegar könnunin var gerð hafði Mosfellsbær ekki sett fram nýja gjaldskrá fyrir árið 2017.

Níundi tíminn dýrari
Hjá flestum sveitarfélögum er níundi tíminn með hærra tímagjald en hinir átta. Hæsta gjaldið fyrir 9. tímann er greitt í Kópavogi 13.698kr , Reykjavík 11.750kr og Vestmannaeyjum 10.130kr. Lægsta gjaldið er hjá Sveitarfélaginu Skagafirði 2.977kr og á Ísafirði 3.039kr. Akureyri er eina sveitarfélagið í samanburðinum sem býður ekki upp á vistun í níu klukkustundir.

Forgangshópar
Rúmlega 75% verðmunur er á hæsta og lægsta mánaðargjaldi fyrir forgangshópa fyrir 8 tíma vistun ásamt fæði, en lægsta gjaldið fyrir þessa þjónustu greiða foreldrar í Reykjavík 17.527 kr. Hæsta gjaldið greiða foreldrar í Vestmannaeyjum 30.746 kr. sem er 12.764 kr. verðmunur.

Hlutfallslega hækkaði mánaðargjald fyrir 8 tíma vistun meira hjá forgangshópum og skýrist það af hækkun á fæði, en afsláttur þessara hópa nær ekki til fæðis. Á milli ára hækkaði gjald fyrir 8 tíma vistun hlutfallslega mest í Reykjavík eða um 14,1%, úr 15.360 kr. í 17.527 kr. og í Sveitarfélaginu Árborg um 10,1%. Í Garðabæ, Sveitarfélaginu Skagafirði og í Borgarbyggð hækkaði gjaldið fyrir þessa þjónustu um 2 -3% prósent en um minna en 2% hjá öðrum sveitarfélögum í þessum samanburði.

Systkinaafsláttur er mjög misjafn milli sveitarfélaga, frá 25-75% fyrir annað barn og 50-100% fyrir það þriðja, en aðeins er veittur afsláttur af tímagjaldi en ekki fæði.

Nánari upplýsingar um verð á dagvistun má sjá með því að smella hér.

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði breytingar á gjaldskrám leikskóla og fæðis hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins frá 1. janúar 2016 til 1. janúar 2017. Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Innbyggður forsendubrestur í fjárlögum

Ný ríkisstjórn hefur nú tekið við stjórnartaumunum og líkt og áður væntir forysta Alþýðusambandsins þess að eiga gott og árangursríkt samstarf við hana um kjör og velferð félagsmanna sinna. Ein fyrsta prófraun nýrra ríkisstjórnar verður að tryggja sátt á vinnumarkaði. Endurskoðun kjarasamninga launafólks á almennum vinnumarkaði stendur fyrir dyrum. Undir lok febrúarmánaðar mun liggja fyrir niðurstaða forsendunefndar og mat samningsaðila um framhaldið. Stjórnvöld hafa að miklu leyti í hendi sér hver niðurstaðan verður. Efndir á loforðum í húsnæðismálum og afstaða til úrskurða kjararáðs ráða þar miklu.

Tryggja átti framlög til uppbyggingar á 600 leiguíbúðum

Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana í maí 2015 á að tryggja árlega framlög til uppbyggingar á allt að 600 almennum leiguíbúðum fyrir tekjulægri heimili á árunum 2016-2019. Í fjárlögum ársins og fimm ára fjármálaáætlun til ársins 2021 er hins vegar aðeins gert ráð fyrir 1,5 milljarði króna til stofnframlaga til almennra íbúða. Það fjármagn dugar einungis fyrir stofnframlögum frá ríkinu til innan við 300 almennra íbúða á ári. Þannig er innbyggður forsendubrestur í fjárlögum og ríkisfjármálaáætlun til næstu ára upp á rúmar 300 íbúðir á ári. Fyrir liggur að ófremdarástand ríkir í húsnæðismálum tekjulægri félaga okkar og fjöldi fjölskyldna býr við mikið óöryggi og hefur óásættanlega háan húsnæðiskostnað.  Frekari málamiðlanir varðandi þau áform verkalýðshreyfingarinnar að tryggja þessum hópum húsnæðisöryggi eru því ekki inn í myndinni.

Tug prósenta launahækkanir 

Kjararáð úrskurðaði í haust hækkun á launum æðstu ráðamanna og þingmanna sem tryggja þessum hópum tug prósenta launahækkanir. Þingfararkaup alþingismanna hefur samkvæmt úrskurðum ráðsins  hækkað síðastliðið hálft ár um 55%, laun ráðherra um 46% og laun forseta Íslands um 29%. Þessar hækkanir eru allt aðrar og miklu meiri  en þær almennu launahækkanir sem samið hefur verið um á vinnumarkaði og ganga þvert gegn þeirri sameiginlegu launastefnu sem lá til grundvallar rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins frá október 2015. Miðstjórn Alþýðusambandsins hefur í ályktunum sínum áréttað að engin sátt muni verða um að tekjuhæstu hópar samfélagins fái sérstaka meðferð og deili ekki kjörum með almenningi í landinu. Félagsmenn muni einfaldlega ekki sætta sig við að hafa það hlutverk að skapa jarðveg fyrir stöðugleika og aukna verðmætasköpun með ábyrgum launahækkunum til þess eins að hátekjuhópar geti á einu bretti fengið hækkanir sem nema mánaðarlaunum margra félaga okkar. Ábyrgð nýkjörins Alþingis og nýrrar ríkisstjórnar er því mikil og mun móta verulega hvaða skref verða stigin á næstu vikum og mánuðum.

Í nýgerðum stjórnarsáttmála lýsir ríkisstjórnin yfir vilja sínum til að styðja við aðila vinnumarkaðarins í frekari umbótum á íslenska vinnumarkaðslíkaninu. Óljóst er hver afdrif þeirrar samræðu verða en ljóst má vera að viljinn til áframhaldandi samtals ræðst að miklu leyti af niðurstöðum stjórnvalda varðandi kjararáð en ekki síður af því hvernig og hvaða hagstjórnartækjum verði beitt. Upp er kom