6. Bókhald og reikningsskil

6.1 Almennt

Stjórn verkalýðsfélags ber ábyrgð á fjárreiðum, bókhaldi og því að saminn sé ársreikningur af löggildum endurskoðenda sem leggja skal fyrir árlegan aðalfund til samþykktar.

Um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda ASÍ gilda sérstakar reglur settar samkvæmt 40 gr laga ASÍ.

6.2 Fjárhagsáætlun

Til að hafa heildaryfirsýn yfir fjármál er æskilegt að gera fjárhagsáætlun fyrir hvert rekstrarár og leggja hana fyrir stjórn eigi síðar en fyrir lok janúarmánaðar.

Við gerð fjárhagsáætlunar ber að sýna tekjuöflun, ráðstöfun fjármuna, framkvæmdir og fjármálastjórn á viðkomandi reikningsári Við gerð fjárhagsáætlunar ber einnig að hafa hliðsjón af fjárhagslegri stöðu hverrar rekstrareiningar fyrir sig.

Stjórn ber að gæta þess svo sem kostur er, að heildarútgjöld fari ekki fram úr heildartekjum á hverju reikningsári.

Í fjárhagsáætlun skal koma fram efnahagur í upphafi árs og áætlun um efnahag við lok árs, auk áætlaðra fjármagnshreyfinga.

Form fjárhagsáætlunar skal vera í samræmi við form ársreiknings.

6.3 Ársreikningur

Semja skal ársreikning fyrir félagið í heild, einstakar rekstrareiningar þess eða stofnanir og fyrirtæki samkvæmt lögum, reglum og góðri reikningsskilavenju.

Gera skal sérstaka grein fyrir verulegum skuldbindingum til lengri tíma í ársreikningi Ársreikning ber að endurskoða af löggiltum endurskoðanda, í samræmi við góða endurskoðunarvenju Með endurskoðuðum ársreikningi ber að fylgja endurskoðunarskýrsla sem leggja á fyrir stjórn.

Ársreikningur á að sýna glöggt yfirlit um rekstur og framkvæmdir á reikningsárinu og efnahagsreikning í lok reikningsárs ásamt skýringum Í ársreikningi ber að sýna meginniðurstöðu fjárhagsáætlunar reikningsársins, hafi stjórn samþykkt gerð hennar til samanburðar ásamt yfirliti um fjárhagslegar skuldbindingar félagsins.

Sérstakar viðmiðunarreglur gilda um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda.

6.4 Endurskoðun ársreiknings

Aðalfundur, ársfundur eða þing, allt samkvæmt reglum hvers félags, velur félaginu löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki sem vinna ber að endurskoðun.

Endurskoðanda félagsins ber að haga störfum sínum í samræmi við lög og reglur og góðar endurskoðunarvenjur í samræmi við fyrirmyndarreglur ASÍ varðandi bókhald og endurskoðun.

Með endurskoðun sinni ber honum að komast að rökstuddri niðurstöðu um áreiðanleika ársreiknings og ganga úr skugga um að fylgt hafi verið ákvæðum laga, reglna og samþykkta um meðferð fjármuna hverrar rekstrareiningar.

6.5 Skoðunarmenn

Ef ákvæði er í lögum aðildarsamtaka um kjörna skoðunarmenn skal kynna þeim ársreikninga og skýrslu löggilts endurskoðana tímanlega fyrir áritun ársreiknings.

Skoðunarmenn skulu í áritun sinni staðfesta að þeir hafi yfirfarið ársreikninginn og jafnframt greina frá niðurstöðum, ábendingum og upplýsingum sem þeir telja að eigi við og ef við á um það sem þeir telja að hafi farið úrskeiðis í starfsháttum eða stjórnsýslu.

Aðal- og varamenn í stjórnum, sem og starfsmenn félags eða rekstrareininga eru ekki kjörgengir sem skoðunarmenn.

6.6 Áritun ársreiknings

Stjórn félags ber ábyrgð á fjármálum þess og þess vegna undirritar hún ársreikning og leggur hann fram á aðalfundi Ef starfandi er framkvæmdastjóri undirritar hann einnig ársreikninginn.

Áritun endurskoðanda felur í sér yfirlýsingu um að hann hafi verið endurskoðaður og saminn í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga og laga og reglna viðkomandi rekstrareiningar Endurskoðandi lætur enn fremur í ljós skriflegt álit sitt á ársreikningnum og greinir frá niðurstöðu endurskoðunar sinnar að öðru leyti.

Ábendingar og athugasemdir, sem endurskoðandi og/eða skoðunarmenn vilja koma á framfæri við félagsstjórn eða framkvæmdastjóra félagsins, ber að setja fram skriflega og aðilum veittur hæfilegur frestur til svara.

Ef endurskoðanda og/eða skoðunarmönnum þykir ástæða til, gera þeir tillögur til félagsstjórnar um endurbætur varðandi meðferð fjármuna hjá félaginu, um breytingar á innra eftirliti, stjórnsýslu og öðru því sem þeir telja að geti verið til bóta í rekstri félagsins.

Stjórn skal varðveita á öruggan hátt öll gögn um endurskoðunina og samskiptin við endurskoðanda og skoðunarmenn.

Endurskoðanda og skoðunarmönnum er ekki heimilt að gefa óviðkomandi upplýsingar um hag félagsins, stofnana þess eða fyrirtækja, né annað það er þeir komast að í starfi sínu.

6.7 Afgreiðsla stjórnar á ársreikningi

Ársreikning ber að fullgera, endurskoða og hafa tilbúinn til afgreiðslu í stjórn og á aðalfundi fyrir lok maímánaðar Stjórn skal taka til umfjöllunar og afgreiðslu álit, greinargerðir og tillögur endurskoðanda og skoðunarmanna fyrir þessi tímamörk.

Samþykkta ársreikninga félags ber að senda skrifstofu ASÍ fyrir lok júnímánaðar ár hvert, ásamt greinargerð endurskoðanda og skoðunarmanna.

Vanræki stjórn að afgreiða eða skila ársreikningum sínum innan tilskilins frests, ber miðstjórn ASÍ að bregðast við í samræmi við starfsreglur sínar þar að lútandi, en senda jafnframt öllum stjórnarmönnum bréf þar sem tilgreint er að ekki hafi verið staðið við ákvæði reglna ASÍ um gerð og skil á ársreikningum.

Samþykki aðalfundar á ársreikningi felur í sér endanlega afgreiðslu þeirra og þeirra félagslegu ákvarðana sem eru forsendur hans.

Staðfest í miðstjórn ASÍ 7.10 2009

Efnisyfirlit

Var efnið hjálplegt?