5. Sjóðir og hlutverk þeirra

5.1 Meginreglur 

Verkalýðsfélög og landsambönd mynda að jafnaði þrjár megin rekstrareiningar eða sjóði en það eru félagssjóður, sjúkrasjóður og orlofssjóður. Hver þessara rekstrareininga byggir tekjugrunn sinn á ákvæðum kjarasamninga og laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980.

Hlutverk hverrar rekstrareiningar sem mynduð er með sértekjum eða framlagi frá einhverri af megin rekstrareiningum félags ber að skilgreina í reglugerð, samþykktum eða starfsreglum. 

Nánar er mælt fyrir um starfsemi stéttarfélaga og sjúkrasjóða í lögum ASÍ og fyrirmyndarreglum um lög og reglugerðir þeirra.

5.2 Tryggingar og ábyrgðir

Allar skuldbindingar og veðsetningar ber að leggja fyrir stjórn á viðkomandi stjórnstigi til samþykktar. Eigi má stjórn veðsetja öðrum tekjur einstakra rekstrareininga eða eignir þeirra umfram 30% af markaðsvirði.

Eigi má binda einstakar rekstrareiningar í ábyrgðir vegna skuldbindinga annarra, umfram það sem lög eða reglugerðir félagsins sjálfs heimila, með þeim takmörkum sem að framan greinir. Prókúruhafa félags er þó heimilt fyrir hönd félagsins að ábyrgjast með framsalsáritun greiðslu viðskiptaskjala sem félagið hefur eignast á eðlilegan hátt í tengslum við daglegan rekstur þess.

5.3 Félagssjóður

Félagssjóðir og sambandssjóðir standa undir því sameiginlega starfi sem unnið er og þeim kostnaði sem félagið ber af aðild sinni að landssambandi eða heildarsamtökum launafólks.

Félags- og sambandssjóðir heyra beint undir félags- eða sambandsstjórn og í lögum og reglugerðum er að finna nánari ákvæði um ráðstöfun til einstakra verkefna.

5.4 Sjúkrasjóður  

Sjúkrasjóður er samtryggingarsjóður þeirra sem greitt er sjúkrasjóðsiðgjald af. Megin hlutverk sjóðsins er að greiða sjóðfélögum launatap vegna veikinda eða slysa eftir að greiðslum samkvæmt kjarasamningi lýkur.

Sjúkrasjóður heyrir beint undir stjórn félagsins eða sérstaka stjórn og um hann gildir sérstök reglugerð.

5.5 Orlofssjóður

Orlofssjóði er ætlað að stuðla að töku orlofs þeirra sem greitt er orlofssjóðsiðgjald af. Orlofssjóður getur þannig staðið fyrir uppbyggingu og rekstri orlofshúsa til endurleigu eða styrkt sjóðsfélaga á annan hátt til töku orlofs.

Orlofssjóður heyrir beint undir stjórn félagsins eða sérstaka stjórn og um hann gildir sérstök reglugerð.

5.6 Vinnudeilusjóður 

Vinnudeilusjóði er ætlað að styðja félagsmenn fjárhagslega, missi þeir laun vegna löglega boðaðrar vinnustöðvunar félagsins eða löglega boðaðs verkbanns atvinnurekenda sem gera kjarasamning við félagið. 

Vinnudeilusjóður heyrir beint undir stjórn félags eða sérstaka stjórn og um hann gildir sérstök reglugerð.

Efnisyfirlit

Var efnið hjálplegt?