1. Inngangur

Öll aðildarsamtök ASÍ hafa fullt frelsi um skipulag sitt og starfsemi að svo miklu leyti sem ekki fer gegn beinum ákvæðum laga ASÍ eða landslögum. Lög ASÍ geyma m.a. ákvæði um bann við félagsskyldu og búsetu skilyrðum, hámarks lengd kjörtímabila, árlega aðalfundi og ýmis ákvæði um fjármál og endurskoðun og á grundvelli 40. gr. hafa verið settar viðmiðunarreglur um bókhald og ársreikninga. Samkvæmt 4. gr. laga ASÍ er eitt af markmiðum ASÍ „Að stuðla að lýðræðislegu starfi allra aðildarsamtaka ASÍ í þágu félagsmanna og verkalýðshreyfingarinnar í heild.“ Miðstjórn ASÍ hefur tekið saman eftirfarandi leiðbeinandi viðmiðunarreglur um helstu réttindi og skyldur stjórnarmanna í aðildarsamtökum ASÍ og starfsmanna þeirra. Reglunum er ætlað að vera stjórnum og ráðum allra aðildarsamtaka ASÍ til leiðbeiningar í lýðræðislegri starfsemi sinni. Jafnframt ber að hafa í huga að setu í stjórn félagasamtaka jafnt og félaga, getur fylgt fjárhagsleg og persónuleg ábyrgð og því mikilvægt að stjórnarmenn séu vel upplýstir um réttindi sín og skyldur. Reglur þær sem hér eru settar fram eru óskuldbindandi enda geyma lög ASÍ ekki aðra heimild til setningu þeirra en fyrrgreint ákvæði 4. gr. laga sambandsins. Það er ætlun miðstjórnar ASÍ að þær geti orðið fyrirmynd að sjálfstæðum reglum aðildarsamtakanna. Drög að reglunum voru upphaflega samin samhliða viðmiðunarreglum um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda en hlutu ekki afgreiðslu. Miðstjórn ASÍ taldi í upphafi árs 2009 ástæðu til að taka reglur þessar að nýju til umfjöllunar m.a. í ljósi umræðu um gagnsæa og opna stjórnsýslu allra stofnana og félagasamtaka sem fara með fé sem aflað er í skjóli laga og skipulagðar almannastarfsemi. Reglurnar taka til allra aðildarsamtaka ASÍ og með stjórnum þeirra er átt við stjórnir verkalýðsfélaga, landssambanda og stjórnir og ráð á þeirra vegum er  starfa í umboði þeirra eða eru kjörnar í beinni kosningu þar með talin trúnaðarráð og stjórnir sjóða. Gert er ráð fyrir því, að nýjum stjórnar- og starfsmönnum verði kynntar reglur þessar, samhliða lögum og samþykktum viðkomandi félags, og þeim gert að undirrita yfirlýsingu um að þeir hafi kynnt sér efni þeirra.

Efnisyfirlit

Var efnið hjálplegt?