Verklag við rafrænar atkvæðagreiðslur

Rafrænar atkvæðagreiðslur stéttarfélaganna byggja á ákvæðum um leynilegar atkvæðagreiðslur í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 og reglugerð ASÍ um leynilegar allsherjaratkvæðagreiðslur meðal félagsmanna aðildarsamtaka ASÍ.

Í ofangreindri reglugerð er tekið fram að heimilt sé að framkvæma allsherjaratkvæðagreiðslu með atkvæðagreiðslu á kjörstað/kjörstöðum, með póstatkvæðagreiðslu eða rafrænt.

Til að tryggja að rafræn atkvæðagreiðsla sé leynileg og uppfylli skilyrði laga og reglugerða skal viðhafa eftirfarandi verklag. Um framkvæmdina fer að öðru leyti skv. reglugerð ASÍ þ.m.t. hvað varðar framlagningu kjörskrár.

Kjörskrá

1. Kjörstjórn útbýr kjörskrá.

2. Kjörstjórn sendir þjónustufyrirtæki sem annast vistun kosningar kjörskrána í excel-skrá eða á öðru því formi sem nauðsynlegt er þar sem fram kemur a.m.k. kennitala kjósenda.

3. Þjónustufyrirtækið útbýr lykilorð fyrir hvern kjósanda og vistar með öruggum hætti.

4. Kjörskrá ásamt lykilorðum skal einungis vistuð hjá þjónustufyrirtækin þar sem hún er varin fyrir aðgangi annarra en þeirra sem setja upp aðgang fyrir kjósendur á vefnum.

5. Í stað þess að lykilorð sé útbúið er getur kjörstjórn ákveðið að heimilt sé kjósa með rafrænum skilríkjum.

Kjörgögn

6. Kjörstjórn samþykkir kynningarefni og útbýr önnur kjörgögn sem send verða kjósendum.

7. Kjörstjórn prentar eða sendir kjörgögn til prentunar. Samkvæmt gögnum frá þjónustufyrirtækinu eru gögnin prentuð og merkt nafni. Lykilorð komi fram í texta.

8. Kjörgögn send út eða til prentsmiðju sem hefur milligöngu um útsendingu kjörgagna.

9. Þess skal gætt að kjörseðill sé stuttur og skýrt orðaður þannig að engum dyljist til hvers tekin er afstaða. Gefinn skal möguleiki á að taka ekki afstöðu en jafnframt upplýst að slík atkvæði teljist með greiddum atkvæðum. Í leiðbeiningum vegna afgreiðslu kjarasamninga eða vegna verkfalla skal taka fram hver áhrif það hefur ef ekki er tekin afstaða.

Vefaðgangur

10. Kjörstjórn sendir þjónustufyrirtækinu upplýsingar um uppsetningu, kynningu, spurningu á „kjörseðli“ og valkosti fyrir rafræna kosningu á heimasíðu stéttarfélagsins.

11. Þjónustufyrirtækið útbýr vefaðgang inni á vef stéttarfélagsins. Enginn hefur aðgang að upplýsingum um notendur/kjósendur nema þeir starfsmenn þjónustufyrirtækisins sem vinna við uppsetninguna og tæknilega útfærslu kosninganna.

12. Þess skal gætt að ekki fleiri en tveir starfsmenn þjónustufyrirtækisins hafi slíkan aðgang og skal aðgengi takmarkað með lykilorðum.

13. Tryggja verður að ekki sé hægt að rekja greidd atkvæði til tiltekins eða tiltekinna kjósenda þ.e. skilja ber að notendanafn og greitt atkvæði þannig að ekki sé hægt að rekja saman.

14. Rafræn atkvæði skulu ekki sett í sameiginlegt safn til talningar fyrr en kosningu og afgreiðslu kjörskrárkæra er lokið.

15. Atkvæði greidd á pappír utan kjörfundar verði geymd þar til talning fer fram. Komi í ljós að atkvæði hafi áður verið greitt rafrænt þá gildir það.

16. Kjörstjórn tekur við kærum inn á kjörskrá og úrskurðar þær. Sé félagsmaður úrskurðaður inn á kjörskrá, setur þjónustufyrirtækið viðkomandi inn á kjörskrá, útbýr lykilorð fyrir kjósanda eða gerir aðrar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að hann geti kosið.

17. Kjörstjórn eða starfsfólk stéttarfélagsins sem alla jafna hafa aðgang að stýrikerfi félagsins skulu ekki hafa aðgang að notendaupplýsingum eða öðrum upplýsingum sem varða kosninguna beint inni á vef félagsins eða í stýrikerfi heimasíðunnar fyrr en að aflokinni kosningu.

18. Þegar uppgefinn tími kosningarinnar er liðinn skal þjónustufyrirtækið loka fyrir möguleika á kosningu. Þeim sem hafið hafa rafræna kosningu fyrir lokun skal gefinn 10 mínútna frestur til þess að klára hana.

19. Þjónustufyrirtækið veitir kjörstjórn eða tilnefndum starfsmanni þess aðgang að niðurstöðum kosninganna í gegnum stjórnborð heimasíðu félagsins þegar kosningu er lokið eða kemur niðurstöðu til þeirra með öðrum hætti.

20. Gögnum vegna kosningar skal ekki eytt fyrr en að liðnum a.m.k. 6 mánuðum frá kosningu.

Kosning í gegnum þjónustusíður stéttarfélaganna

21. Þau stéttarfélög sem bjóða uppá þjónustusíður geta nýtt sér eftirfarandi verklag við framkvæmd kosninga rafrænna kosninga að breyttu breytanda. Aðgangur að þjónustusíðunni skal vera bundinn við notendanafn og lykilorð, rafræn skilríki, auðkennislykil skattstjóra eða sambærilega auðkenningu. Þegar kjörskrá er útbúin skal einnig útbúa einkvæman aðgangslykil að kjörseðli fyrir þá sem eru á kjörskrá. Aðgangur að kjörseðlinum skal þá vera í gegnum þjónustusíðurnar og skal þess gætt að hvert auðkenni/kennitala geti aðeins kosið einu sinni og aðeins þeir sem eru á kjörskrá. Valkvætt er hvort kjörseðill er hýstur á sjálfum þjónustusíðum stéttarfélaganna eða hjá þjónustuaðila aðgangur að honum skal þó vera bundin við innskráningu á þjónustusíðu félagsins.

Samþykkt í Skipulags- og starfsháttanefnd 28.1 2016 sbr. 5.mgr. 11.gr. reglugerðar um framkvæmd allsherjaratkvæðagreiðslu sbr. og 11.mgr. 33.gr. laga ASÍ.

Aðrar reglugerðir og reglur

Var efnið hjálplegt?