6. Kosningar

6.1

Kosningar í trúnaðarstöður skulu vera leynilegar á þingum Alþýðusambandsins.

Heimilt er að viðhafa kosningar með rafrænum hætti. Kjörseðlar eru þá vistaðir á tölvu og atkvæði greidd með þar til gerðum búnaði.

Meginreglur þingskapa þessara gilda um rafrænar kosningar eftir því sem við á.

6.2

Í öllum málum ræður einfaldur meirihluti, þó með eftirfarandi undantekningum.

  • A.m.k. helming greiddra atkvæða þarf til þess að ná löglegu kjöri í miðstjórn.
  • Ákvæði um kjör þingforseta, sbr. grein 2.1.

6.3

Komi ekki fram tillögur um fleiri en kjósa skal, skulu þau sjálfkjörin.

6.4

Þegar meirihluta greiddra atkvæða er krafist vegna kosninga í trúnaðarstöður og það atkvæðamagn fæst ekki í fyrstu umferð, skal kosið að nýju um þau sem ekki náðu kosningu.

Verði kosningu þá heldur ekki lokið, skal kjósa um þau sem flest atkvæði fengu en ekki náðu kosningu í annarri umferð, þannig að tvö séu í kjöri um hvert sæti.

Ef tvö eða fleiri fá jafnmörg atkvæði, ræður hlutkesti úrslitum.

6.5

Atkvæðaseðill er ógildur, ef á honum eru nöfn einstaklinga, sem ekki eru í kjöri, eða ef ekki eru greidd atkvæði jafnmörgum og kjósa á. Auður seðill telst ekki til greiddra atkvæða en gefa skal upp fjölda auðra seðla og ógildra þegar kosningu er lýst.
Sé viðhöfð rafræn atkvæðagreiðsla er heimilt að gera ráð fyrir því að viðeigandi tölvubúnaður sé þannig úr garði gerður að ekki sé hægt að gera kjörseðil ógildan.

6.6

Við atkvæðagreiðslu fer hver þingfulltrúi með atkvæði í samræmi við 30.gr. laga ASÍ.

6.7

Þingforseti skal gera þingfulltrúum viðvart með tilkynningu áður en kosningar hefjast. Eftir hæfilegan umþóttunartíma, tilkynnir þingforseti að dreifing atkvæðaseðla hefjist og um leið ber starfsmönnum að sjá til þess að enginn gangi út eða inn í fundarsalinn þar til þingforseti hefur lýst yfir að kosningu sé lokið, atkvæðaseðlum safnað saman og athugasemdir ekki komið fram um það.

Fari kosningar eða atkvæðagreiðslur fram með rafrænum hætti skal þingforseti með sama hætti tilkynna að nú muni kosningar hefjast og gefa upp þann tíma sem áætlað er að kosning muni taka. Að svo búnu skal aðgangur að rafrænum kosningabúnaði opnaður og kosningar hefjast.

Kosning skal að minnsta kosti standa jafnlengi og þingforseti hefur áætlað. 10 mínútum áður en kosningu líkur samkvæmt ákvörðun þingforseta skal tilkynna fundinum þá ákvörðun. Að liðnum þeim fresti skal aðgangi að rafrænum kosningabúnaði lokað og lýsir þá þingforseti að kosningu sé lokið.

6.8

Um leið og talningu atkvæðaseðla við hverja atkvæðagreiðslu er lokið og niðurstaða talningar færð á skýrslu til þingforseta sem allir talningamenn hafa staðfest sem rétta, skulu atkvæðaseðlar innsiglaðir í traustan kassa eða varðveittir í lokuðum gagnagrunni hafi kosning verið rafræn og geymast þar til þingforseti hefur tilkynnt þingfulltrúum úrslit.

Komi ekki fram skrifleg krafa minnst 10 þingfulltrúa um endurtalningu atkvæða þegar eftir tilkynningu þingforseta, verður krafa um endurtalningu ekki tekin til greina.

Fyrir lok sambandsþingsins skulu atkvæðaseðlar eyðilagðir eða tölvugögnum eytt undir umsjón þingforseta.

6.9

Kjörgengir í trúnaðarstöður Alþýðusambands Íslands eru allir fullgildir félagar í aðildarsamtökum ASÍ. Tilnefningar skulu vera skriflegar og studdar með undirritun a.m.k. 15 þingfulltrúa. Skriflegar stuðningsyfirlýsingar þurfa þó ekki að fylgja tillögum kjörnefndar.

Sé á sambandsþingi stungið upp á fólki í trúnaðarstöður sem eigi situr fundinn, verða slíkar tilnefningar eigi teknar til greina nema fyrir liggi staðfest yfirlýsing um að viðkomandi taki kjöri.

Efnisyfirlit

Var efnið hjálplegt?