5. Tillögur, lagabreytingar og atkvæðagreiðsla

5.1

Engar tillögur um mál á sambandsþingi er hægt að bera upp til atkvæða nema þeim hafi verið dreift skriflega til þingfulltrúa eða þær verið birtar á aðgengilegan hátt með rafrænum hætti. Í öllum málum samkvæmt kafla þessum ræður einfaldur meirihluti atkvæða nema lög ASÍ eða þingsköp þessi mæli fyrir á annan veg.

5.2

Um þau mál sem berast sambandsþingi skv. 24. og 50. gr. laga ASÍ skulu fara fram tvær umræður. Við fyrri umræðu skal gera grein fyrir tillögum og leggja fram og gera grein fyrir tillögum til breytinga á þeim ef einhverjar eru. Að svo búnu skal öllum tillögum vísað til viðeigandi málefnanefndar. 

5.3

Miðstjórn er heimilt að efna til umræðu og ákvarðanatöku um tiltekin málefni án þess að bera fram tillögu eins og mælt er fyrir um í 5.1. Skal þá við fyrri umræðu fara fram opin hringborðsumræða þingfulltrúa. Starfsmenn þingsins skulu taka saman niðurstöður hringborðsumræðu. Sérstakri ritnefnd kjörinni af þinginu skal síðan falið að setja niðurstöður fram í ályktunar- eða tillöguformi sem kynntar verði í viðeigandi málefnanefnd þingsins og afgreiddar þar til annarrar umræðu.

5.4

Drög að ályktun eða tillaga sem málefnanefnd á sambandsþingi sendir frá sér til síðari umræðu telst ekki breytingartillaga heldur aðaltillaga og samhliða teljast allar tillögur úr fyrri umræðu niður fallnar.

Við síðari umræðu er þingfulltrúum heimilt í samræmi við gr. 5.5. að flytja breytingatillögur við drög að ályktun eða tillögu málefnanefndar. 

Við síðari umræðu skal þingforseti bera tillögur upp í þeirri röð sem hann ákveður.

Séu fleiri en ein tillaga í sama máli skal þó fyrst bera upp þá tillögu sem lengst gengur.

5.5

Undir liðnum önnur mál er þingfulltrúum heimilt að taka upp hvert það mál sem þeir óska eftir umræðu um, önnur en þau sem þegar hafa hlotið afgreiðslu þingsins. Ekki er þeim þó undir þessum lið heimilt að bera fram tillögur til ályktunar um annað en að fela miðstjórn og/eða forsetum ASÍ að vinna að tilteknum verkefnum eða málefnum milli sambandsþinga. Um heimildir miðstjórnar fer skv. 24.gr. laga ASÍ.

Allar tillögur sem bornar eru fram skulu vera skriflegar, undirritaðar af tillöguflytjendum og skriflega studdar af ekki færri en 15 þingfulltrúum að tillöguflytjendum meðtöldum.

Ekki er heimilt að taka tillögu til umræðu fyrr en þingforseti hefur lýst henni. Komi upp ágreiningur um í hvaða nefnd ákveðin tillaga skuli rædd skal þingforseti leysa úr þeim ágreiningi með úrskurði.

5.6

Séu fleiri en einn flytjandi að tillögu getur hver og einn þeirra dregið sig til baka af tillögunni í heyranda hljóði.

Fari svo að  tillaga sé í heild sinni dregin til baka, getur hver sem er úr hópi þingfulltrúa gert slíka tillögu að sinni í heyranda hljóði á sama fundi og undirritað hana síðan til staðfestingar, enda sé aflað stuðnings úr hópi þingfulltrúa við hana að nýju sbr. gr. 5.5.

5.7

Ákvæði greinar 5.6. gilda ekki um tillögur þær sem tilskilinn stuðning þarf skv. þingsköpum þessum.

5.8

Efnislegar tillögur eru þessar:

  1. Aðaltillaga
  2. Breytingartillaga
  3. Viðaukatillaga

5.9

Við atkvæðagreiðslu skal fyrst bera upp breytingartillögu við aðaltillögu. Síðan skal bera upp aðaltillögu með áorðnum breytingum hafi breytingartillögur verið samþykktar.

Að öðrum kosti er aðaltillaga borin upp í upphaflegri mynd.

Þá skal bera upp viðaukatillögur.

5.10

Þær breytingartillögur sem lengra ganga skal bera upp á undan þeim sem ganga skemur.

Breytingartillögu sem kollvarpar eða breytir aðaltilgangi annarrar tillögu eða sem varðar önnur efnisatriði en tillaga hefur verið gerð um breytingu á, má þingforseti ekki taka til greina en því áliti sínu skal þingforseti lýsa fyrir fundi.

Til að breytingatillaga nái fram að ganga þarf hún að hljóta sama fjölda atkvæða eins og aðaltillagan þarf til þess að teljast samþykkt.

5.11

Forgangstillögur eru í þessari röð:

  1. Tillaga um að ganga þegar til atkvæða, sbr. þó grein 4.5.
  2. Tillaga um að vísa máli frá.
  3. Tillaga um að taka fyrir næsta mál á dagskrá.
  4. Tillaga um að fresta máli.
  5. Tillaga um að vísa máli til annars valds.

Tillögur undir 1. tl. má ekki ræða.

Um tillögur undir 2., 3. og 4. tl. má gera stuttar athugasemdir.

Um tillögur undir 5. tl. má gera stuttar athugasemdir en um málið sjálft gilda sömu reglur og um önnur efnisleg mál sem koma fyrir sambandsþingið.

5.12

Þingforseta er heimilt að bera tillögu upp í tveimur eða fleiri liðum en þó því aðeins að hver liður sé sjálfstæður og að skiptingin geri tillöguna ekki óljósa.

5.13

Tillögu, sem hefur verið felld, má ekki bera upp á sama fundi.

Með samþykki minnst hluta atkvæða þingfulltrúa má þó taka málið upp á ný síðar á sambandsþinginu enda séu ¾ hlutar þingfulltrúa, þeirra sem eigi hafa boðað forföll til þingforseta, viðstaddir á fundi þegar slík tillaga er til afgreiðslu.

5.14

Ákvæði greinar 5.13. eiga ekki við um afgreiðslu kjörbréfa.

5.15

Atkvæðagreiðsla um tillögur fer fram með handauppréttingu.

Leynileg atkvæðagreiðsla fer fram ef þess er óskað skriflega og tillagan skriflega studd af minnst 10 þingfulltrúum.

Atkvæðagreiðslur við nafnakall leyfast ekki.

Heimilt er að viðhafa atkvæðagreiðslur með rafrænum hætti. Atkvæðaseðlar eru þá vistaðir á tölvu og atkvæði greidd með þar til gerðum búnaði. Meginreglur þingskapa þessara gilda um atkvæðagreiðsluna eftir því sem við á.

5.16

Engar atkvæðagreiðslur geta farið fram um tillögur nema á fundi sé staddur minnst helmingur þingfulltrúa sem ekki hafa boðað forföll sín til þingforseta sbr. þó grein 5.14.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er atkvæðagreiðslan lögmæt með þeim þingfulltrúum sem mættir eru til fundar, hafi þingforseti tiltekið og tilkynnt sérstakan tíma fyrir viðkomandi atkvæðagreiðslu með að a.m.k. 30 mínútna fyrirvara.

5.17

Þingforseti skipar teljara til talningar atkvæða úr hópi þingfulltrúa og/eða starfsmanna, svo marga sem henta þykir.
Jafnan skulu teljarar úr hópi þingfulltrúa, allt eftir því sem við á, vera skipaðir úr hópum andstæðra fylkinga á fundum.

5.18

Breyting á lögum ASÍ telst ekki samþykkt nema hún hljóti atkvæða á fundi.

Efnisyfirlit

Var efnið hjálplegt?