2. Stjórn þingsins

2.1

Að lokinni afgreiðslu kjörbréfa og inntöku nýrra félaga skal kjósa þingforseta, 1. varaþingforseta og 2. varaþingforseta.

Fyrst skal kjósa þingforseta sem gengst fyrir kosningu varaþingforseta og fjögurra skrifara.

Rétt kjörinn þingforseti þarf að hljóta meira en helming greiddra atkvæða þeirra sem á fundi eru.

Verði þeim atkvæðafjölda eigi náð við fyrstu kosningu skal kosið að nýju um þau tvö  sem flest atkvæði hlutu í fyrri umferð og ræður hlutkesti ef þau sem til greina koma hafa hlotið jafnmörg atkvæði við fyrri umferð.

Verður það þeirra þingforseti sem fleiri atkvæði fær þá.

Fái bæði jafnmörg atkvæði ræður hlutkesti hvort verður þingforseti.

Sömu reglu skal fylgt við kosningu varaþingforseta.

Minnst 10 þingfulltrúar geta skriflega krafist leynilegrar atkvæðagreiðslu við kosningu þingforseta.

2.2

Þingforseti stjórnar fundi og sér um að allt fari fram með góðri reglu, tekur við öllum erindum til þingsins og skýrir frá þeim,dreifir til þingfulltrúa eða birtir á aðgengilegan hátt með rafrænum hætti.

2.3

Vilji þingforseti taka þátt í umræðum frekar en þingforsetastaða krefur þá víkur hann þingforsetasæti, en varaþingforseti tekur forsæti á meðan.

2.4

Hlutverk skrifara er að halda gerðarbók undir umsjón þingforseta og skal í henni getið allra mála, er rædd eru á fundum og úrslita þeirra.

Skrifarar skrá atkvæði við atkvæðagreiðslur og kosningar.

Sömuleiðis sjá þeir með þingforseta um að ályktanir séu skrásettar og áritar þingforsetinn eitt eintak hverrar ályktunar sem frumheimild.

Skrifarar skipta störfum á milli sín eftir samkomulagi við þingforseta.

2.5

Þingforseti skipar fólk til að annast dreifingu atkvæðaseðla.

Þingforseti skipar teljara úr hópi þingfulltrúa og/eða starfsmanna svo sem  þykir þurfa á hverjum tíma.

2.6

Allt talað orð á fundum skal hljóðritað í umsjón skrifara. Upptökurnar skulu varðveittar þar til fundargerð þings og samþykktir hafa verið gefnar út. Þá skulu upptökurnar afhentar Sögusafni verkalýðshreyfingarinnar.

Efnisyfirlit

Var efnið hjálplegt?