1. Upphaf þings – Afgreiðsla kjörbréfa 

1.1

Forseti ASÍ setur þing og stjórnar því þar til þingforseti hefur verið kosinn. Skal forseti ASÍ standa fyrir kosningu hans.

1.2

Forseti skipar tvo skrifara, ef henta þykir, þar til skrifarar úr hópi sambandsþingafulltrúa hafa verið kjörnir. Skyldur skipaðra skrifara eru þær sömu og kjörinna.

1.3

Forseti skipar svo marga úr hópi þingfulltrúa og/eða starfsmanna sem hentugt þykir til talningar atkvæða vegna atkvæðagreiðslu um kjörbréf.

1.4

Þegar þing hefur verið sett skal kjörbréfanefnd skila tillögum sínum. Tillögur kjörbréfanefndar skulu liggja frammi og vera þingfulltrúum aðgengilegar í a.m.k. hálfa klukkustund áður en þær eru teknar til afgreiðslu.

Framsögumaður kjörbréfanefndar gerir grein fyrir tillögum nefndarinnar um hvort kosning og kjörgengi þingfulltrúa og varafulltrúa þeirra, skuli talin gild, sbr. VI. kafla laga ASÍ.

Forseti ber upp tillögu kjörbréfanefndar munnlega án þess að lesin séu einstök kjörbréf. Þó skal lesa þau kjörbréf sem lagt er til að hafnað verði og þar sem lagt er til að afgreiðslu verði frestað sbr. grein 1.7.

1.5

Einfaldur meirihluti atkvæða ræður við afgreiðslu kjörbréfa.
Minnst 10 þingfulltrúar geta skriflega krafist leynilegrar atkvæðagreiðslu um gildi eins eða fleiri kjörbréfa.

1.6

Þingfulltrúar hafa full réttindi um afgreiðslu eigin kjörbréfa.

1.7

Þingfulltrúar geta samþykkt frestun á afgreiðslu einstakra kjörbréfa sé þörf nánari athugana á þeim.
Skulu hlutaðeigandi þingfulltrúar engan þátt taka í þingstörfum á meðan athugun fer fram og þar til afgreiðslu þeirra er lokið sbr. þó grein 1.6.

1.8

Kjörbréfanefnd starfar frá því hún er skipuð samkvæmt 32. grein laga ASÍ þar til ný nefnd hefur verið skipuð vegna næsta þings.

1.9

Nú hamla lögmætar ástæður (s.s. samgöngur eða veikindi) því að kjörbréf berist skrifstofu ASÍ á réttum tíma og skal kjörbréfanefnd þá fjalla um þau strax og við verður komið og sambandsþingið síðan afgreiða þau.

1.10

Eigi þingfulltrúar lögmæt forföll eftir að kjörbréf þeirra hafa verið afgreidd, sem sannan-lega gera þeim ókleift að rækja fundarstörf, skal kjörbréfanefnd þegar í stað fjalla um kjörbréf varafulltrúa í þeirra stað og sambandsþingið síðan afgreiða þau svo fljótt sem við verður komið. Varafulltrúi gegnir að svo búnu sambandsþingstörfum til sambandsþingloka.

1.11

Kjörbréf sem sambandsþingið hefur ákveðið með atkvæðagreiðslu að taka ekki gild, verða eigi borin upp til atkvæða eða tekin til umræðu aftur á sama sambandsþingi.

1.12

Þegar kjörbréf hafa verið afgreidd skal forseti sambandsins leggja fyrir inntökubeiðnir nýrra félaga.
Fyrir skal liggja bráðabirgðaafgreiðsla miðstjórnar samkvæmt 6. grein laga ASÍ.
Þegar aðild nýs aðildarfélags hefur verið samþykkt skal bera upp og afgreiða kjörbréf fulltrúa þess.

1.13

Aðgang að þingsal eiga þingfulltrúar, starfsmenn þingsins, sérstakir gestir þess og starfslið þinghússins.

Efnisyfirlit

Var efnið hjálplegt?