I. Kafli – Skil á reglugerðum og reglugerðarbreytingum

1. gr.

Aðildarfélögum ASÍ ber að senda miðstjórn ASÍ til staðfestingar, frumreglugerð fyrir sjúkrasjóði sína en síðari breytingar ber þeim að senda skrifstofu ASÍ.

2. gr.

Frumreglugerð skal lögð fyrir miðstjórn svo fljótt sem við verður komið ásamt umsögn Skipulags- og starfsháttanefndar og tillögu um afgreiðslu.

3. gr.

Breytingar á reglugerðum skulu lagðar fyrir Skipulags- og starfsháttanefnd svo fljótt sem við verður komið, ásamt umsögn skrifstofunnar. Séu breytingar ekki skýrt greindar skal reglugerðin í heild sinni skoðuð eins og um nýja reglugerð sé að ræða.

4. gr.

Tilkynna skal viðkomandi sjúkrasjóði um afgreiðslu Skipulags- og starfsháttanefndar og eftir atvikum um afgreiðslu miðstjórnar svo fljótt sem verða má.

5. gr.

Komi í ljós að einhver ákvæði sjúkrasjóðsreglugerðar aðildarfélags eru í andstöðu við lög ASÍ skal Skipulags- og starfsháttanefnd óska eftir nánari skýringum viðkomandi sjóðs, komi þær ekki fram í þeim gögnum sem þegar liggja fyrir.

Telji Skipulags- og starfsháttanefnd reglugerðina eða einstök ákvæði hennar ekki standast lágmarksákvæði laga ASÍ skal hún leggja málið fyrir miðstjórn ásamt umsögn sinni og tillögu um afgreiðslu.

Miðstjórn skal í afgreiðslu sinni taka afstöðu til þess hvort reglugerðin eða einstök ákvæði hennar standist lög ASÍ eða ekki.

Séu einhver ákvæði reglugerðarinnar ekki staðfest skal miðstjórn tilkynna viðkomandi sjúkrasjóði og öllum stjórnarmönnum viðkomandi aðildarfélags, að um þau tilteknu atriði gildi lög ASÍ þar til úr hafi verið bætt. Afrit slíkrar tilkynningar skal jafnframt send viðkomandi landssambandi.

Efnisyfirlit

Var efnið hjálplegt?