Reglugerð fyrir starfsemi skrifstofu ASÍ
1. gr.
Skrifstofa Alþýðusambands Íslands skal undirbúa og hrinda í framkvæmd ákvörðunum sambandsþinga ASÍ og kjörinnar forystu sambandsins, miðstjórnar og forseta.
2. gr.
Miðstjórn samþykkir starfs- og fjárhagsáætlun fyrir skrifstofu ASÍ fyrir hvert starfsár.
Miðstjórn skipar starfsnefndir sem vinna með skrifstofunni að undirbúningi og framkvæmd stefnu Alþýðusambands Íslands á milli sambandsþinga. Miðstjórn skipar fulltrúa úr sínum hópi til starfa með nefndunum í samræmi við nánari reglur sem miðstjórn setur.
Við skipan í nefndir og ráðningu starfsmanna á skrifstofu skal leitast við að hlutdeild karla og kvenna verði sem jöfnust.
3. gr.
Forseti er fulltrúi miðstjórnar á skrifstofu ASÍ og starfar í umboði hennar.
Varaforseti er staðgengill forseta.
4. gr.
Stjórnun á daglegri starfsemi skrifstofu ASÍ skal vera í höndum forseta og framkvæmdastjóra í umboði miðstjórnar.
Forseti kemur fram fyrir hönd Alþýðusambandsins innan og utan hreyfingarinnar í stærri málum.
Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegri starfsemi skrifstofunnar sem byggir á starfs- og fjárhagsáætlun sem samþykkt er af miðstjórn.
5. gr.
Ramminn fyrir skipulag starfsemi skrifstofu ASÍ skal vera með þeim hætti sem sýnt er á eftirfarandi skipuriti.
6. gr.
Miðstjórn setur nánari reglur um skipulag og starfsemi skrifstofu ASÍ.