Reglugerðir og reglur

Á þessari síðu er hægt að nálgast reglugerðir sem settar hafa verið skv. lögum ASÍ og ýmsar reglur sem varða starfsemi sambandsins og aðildarsamtaka þess. Hér að neðan er yfirlit yfir reglurnar og með því að smella á fyrirsögn birtast viðeigandi reglur.

Þingsköp ASÍ

Efnisyfirlit

1.0. Upphaf þings – Afgreiðsla kjörbréfa 
2.0. Stjórn þingsins 
3.0. Nefndir 
4.0. Umræður 
5.0. Tillögur, lagabreytingar og atkvæðagreiðsla 
6.0. Kosningar 
7.0. Afgreiðsla og breyting fundarskapa 
 Atriðisorðaskrá

1.0. Upphaf þings – Afgreiðsla kjörbréfa

1.1  Forseti ASÍ setur þing og stjórnar því þar til þingforseti hefur verið kosinn. Skal forseti ASÍ standa fyrir kosningu hans.

1.2.  Forseti skipar tvo skrifara, ef henta þykir, þar til skrifarar úr hópi sambandsþingafulltrúa hafa verið kjörnir. Skyldur skipaðra skrifara eru þær sömu og kjörinna.

1.3.  Forseti skipar svo marga úr hópi þingfulltrúa og/eða starfsmanna sem hentugt þykir til talningar atkvæða vegna atkvæðagreiðslu um kjörbréf.

1.4.  Þegar þing hefur verið sett skal kjörbréfanefnd skila tillögum sínum.
Tillögur kjörbréfanefndar skulu liggja frammi og vera þingfulltrúum aðgengilegar í a.m.k. hálfa klukkustund áður en þær eru teknar til afgreiðslu.
Framsögumaður kjörbréfanefndar gerir grein fyrir tillögum nefndarinnar um hvort kosning og kjörgengi þingfulltrúa og varafulltrúa þeirra, skuli talin gild, sbr. VI. kafla laga ASÍ.
Forseti ber upp tillögu kjörbréfanefndar munnlega án þess að lesin séu einstök kjörbréf. Þó skal lesa þau kjörbréf sem lagt er til að hafnað verði og þar sem lagt er til að afgreiðslu verði frestað sbr. grein 1.7.

1.5.  Einfaldur meirihluti atkvæða ræður við afgreiðslu kjörbréfa.
Minnst 10 þingfulltrúar geta skriflega krafist leynilegrar atkvæðagreiðslu um gildi eins eða fleiri kjörbréfa.

1.6.  Þingfulltrúar hafa full réttindi um afgreiðslu eigin kjörbréfa.

1.7.  Þingfulltrúar geta samþykkt frestun á afgreiðslu einstakra kjörbréfa sé þörf nánari athugana á þeim.
Skulu hlutaðeigandi þingfulltrúar engan þátt taka í þingstörfum á meðan athugun fer fram og þar til afgreiðslu þeirra er lokið sbr. þó grein 1.6.

1.8.  Kjörbréfanefnd starfar frá því hún er skipuð samkvæmt 32. grein laga ASÍ þar til ný nefnd hefur verið skipuð vegna næsta þings.

1.9.  Nú hamla lögmætar ástæður (s.s. samgöngur eða veikindi) því að kjörbréf berist skrifstofu ASÍ á réttum tíma og skal kjörbréfanefnd þá fjalla um þau strax og við verður komið og sambandsþingið síðan afgreiða þau.

1.10. Eigi þingfulltrúar lögmæt forföll eftir að kjörbréf þeirra hafa verið afgreidd, sem sannan-lega gera þeim ókleift að rækja fundarstörf, skal kjörbréfanefnd þegar í stað fjalla um kjörbréf varafulltrúa í þeirra stað og sambandsþingið síðan afgreiða þau svo fljótt sem við verður komið. Varafulltrúi gegnir að svo búnu sambandsþingstörfum til sambandsþingloka.

1.11. Kjörbréf sem sambandsþingið hefur ákveðið með atkvæðagreiðslu að taka ekki gild, verða eigi borin upp til atkvæða eða tekin til umræðu aftur á sama sambandsþingi.

1.12. Þegar kjörbréf hafa verið afgreidd skal forseti sambandsins leggja fyrir inntökubeiðnir nýrra félaga.
Fyrir skal liggja bráðabirgðaafgreiðsla miðstjórnar samkvæmt 6. grein laga ASÍ.
Þegar aðild nýs aðildarfélags hefur verið samþykkt skal bera upp og afgreiða kjörbréf fulltrúa þess.

1.13. Aðgang að þingsal  eiga þingfulltrúar, starfsmenn þingsins, sérstakir gestir þess og starfslið þinghússins.

2.0. Stjórn þingsins

2.1  Að lokinni afgreiðslu kjörbréfa og inntöku nýrra félaga skal kjósa þingforseta, 1. varaþingforseta og 2. varaþingforseta.
Fyrst skal kjósa þingforseta sem gengst fyrir kosningu varaþingforseta og fjögurra skrifara.
Rétt kjörinn þingforseti þarf að hljóta meira en helming greiddra atkvæða þeirra sem á fundi eru.
Verði þeim atkvæðafjölda eigi náð við fyrstu kosningu skal kosið að nýju um þau tvö  sem flest atkvæði hlutu í fyrri umferð og ræður hlutkesti ef þau sem til greina koma hafa hlotið jafnmörg atkvæði við fyrri umferð.
Verður það þeirra þingforseti sem fleiri atkvæði fær þá.
Fái bæði jafnmörg atkvæði ræður hlutkesti hvort verður þingforseti.
Sömu reglu skal fylgt við kosningu varaþingforseta.
Minnst 10 þingfulltrúar geta skriflega krafist leynilegrar atkvæðagreiðslu við kosningu þingforseta.

2.2. Þingforseti stjórnar fundi og sér um að allt fari fram með góðri reglu, tekur við öllum erindum til þingsins og skýrir frá þeim,dreifir til þingfulltrúa eða birtir á aðgengilegan hátt með rafrænum hætti.

2.3.  Vilji þingforseti taka þátt í umræðum frekar en þingforsetastaða krefur þá víkur hann þingforsetasæti, en varaþingforseti tekur forsæti á meðan.

2.4.  Hlutverk skrifara er að halda gerðarbók undir umsjón þingforseta og skal í henni getið allra mála, er rædd eru á fundum og úrslita þeirra.
Skrifarar skrá atkvæði við atkvæðagreiðslur og kosningar.
Sömuleiðis sjá þeir með þingforseta um að ályktanir séu skrásettar og áritar þingforsetinn eitt eintak hverrar ályktunar sem frumheimild.
Skrifarar skipta störfum á milli sín eftir samkomulagi við þingforseta.

2.5.  Þingforseti skipar fólk til að annast dreifingu atkvæðaseðla.
Þingforseti skipar teljara úr hópi þingfulltrúa og/eða starfsmanna svo sem  þykir þurfa á hverjum tíma.

2.6.  Allt talað orð á fundum skal hljóðritað í umsjón skrifara. Upptökurnar skulu varðveittar þar til fundargerð þings og samþykktir hafa verið gefnar út. Þá skulu upptökurnar afhentar Sögusafni verkalýðshreyfingarinnar.

3.0. Nefndir

3.1.  Á sambandsþingum starfar dagskrárnefnd sem skipuð er forseta og varaforsetum sambandsins auk þingforseta  og varaþingforsetum.
Forfallist forsetar sambandsins tilnefnir miðstjórn fulltrúa úr sínum hópi í dagskrárnefndina.
Dagskrárnefnd undirbýr dagskrá funda sem byggð skal á þeim málum sem lögð eru fyrir þing skv. 24 og 50. gr. laga ASÍ og gerir tillögur um þær málefnanefndir sem starfa á sambandsþinginu. Jafnframt skal hún gera tillögu um hver skuli stjórna störfum hverrar nefndar og um nefndarritara. Þingfulltrúar skrá sig starfa í einstökum nefndum og fara með atkvæðisrétt í störfum þeirra.


3.2    Á sambandsþingi skal kjósa kjörnefnd skipaða 9 fulltrúum, sem starfi milli sambandsþinga og þar til kosningu er lokið. Kjörnefnd skal leggja fram tillögur um uppstillingu til þeirra starfa sem þing kýs til nema annað sé tekið fram í þingsköpum þessum.

3.3.  Sambandsþingið stofnar aðrar nefndir á hvaða stigi máls sem er, gefist tilefni til. Sé það gert áður en umræðum er lokið, skal umræðum frestað.

3.4. Nefndir skili skriflegu áliti sínu til þingsins og skal því dreift til þingfulltrúa skriflega eða það  birt á aðgengilegan hátt með rafrænum hætti.

Sé ekki eining um niðurstöðu nefndar geta þau sem að séráliti standa skipað sér frummælanda sem hefur sama rétt og frummælandi meirihluta við umræður á fundum, enda sé séráliti skilað skriflega og það stutt skriflega af ekki færri en 15 þingfulltrúum sbr. gr. 5.5.

4.0. Umræður

4.1.  Hver þingfulltrúi sem taka vill til máls skal óska heimildar þingforseta samkvæmt þeim reglum sem þingforseti ákveður.
Ef tveir eða fleiri þingfulltrúar kveða sér hljóðs samtímis ákveður þingforseti í hvaða röð þeir tala.

4.2.  Þingfulltrúi skal ávallt mæla úr ræðustól og jafnan víkja ræðu sinni til þingforseta og fundarins.

4.3. Forseti má taka til máls eins oft í umræðum um skýrslu forseta og hann óskar. Frummælendur meiri- eða minnihluta nefndar mega taka til máls þrisvar sinnum um málefni það er þeir flytja, að hámarki 10 mín. í senn.
Aðrir þingfulltrúar mega ekki tala oftar en tvisvar við sömu umræðu um sama mál og í 10 mínútur í senn.
Þó er jafnan heimilt að gera stutta athugasemd um atkvæðagreiðslu, fundarstjórn eða þingsköp.
Tillöguflytjanda er heimilt að taka til máls í lok umræðu um viðkomandi tillögu, þó ekki lengur en í 5 mínútur. Regla þessi gildir um einn einstakling úr hópi tillöguflytjenda séu tillöguflytjendur fleiri en einn.

4.4.  Ef þingforseti telur umræðu dragast úr hófi fram getur hann lagt til að ræðutími frummælanda meiri- eða minnihluta nefndar verði eigi lengri en 5 mínútur.
Þá getur þingforseti hvenær sem er lagt til að umræðum skuli lokið á ákveðnum tíma.
Sambandsþingið afgreiðir tillögur þingforseta í þessu efni umræðulaust.
Þingfulltrúar geta borið fram slíka tillögu enda sé hún skriflega studd með undirritun ekki færri en 10 þingfulltrúa. Skal tillagan afgreidd umræðulaust.

4.5. Skylt er þingfulltrúum að lúta valdi þingforseta í hvívetna er að því lýtur að gætt sé góðrar reglu. Láti þingfulltrúar sem vikið hafa frá góðri reglu eigi segjast skal þingforseti víta þá og nefna til ástæður. Ef þingfulltrúi er víttur tvisvar á sama fundi getur þingforseti lagt til við fundinn að hann verði sviptur málfrelsi það sem eftir lifir fundar. Skal sú tillaga afgreidd umræðulaust.

5.0. Tillögur, lagabreytingar og atkvæðagreiðsla

5.1. Engar tillögur um mál á sambandsþingi er hægt að bera upp til atkvæða nema þeim hafi verið dreift skriflega til þingfulltrúa eða þær verið birtar á aðgengilegan hátt með rafrænum hætti. Í öllum málum samkvæmt kafla þessum ræður einfaldur meirihluti atkvæða nema lög ASÍ eða þingsköp þessi mæli fyrir á annan veg.

5.2. Um þau mál sem berast sambandsþingi skv. 24. og 50. gr. laga ASÍ skulu fara fram tvær umræður. Við fyrri umræðu skal gera grein fyrir tillögum og leggja fram og gera grein fyrir tillögum til breytinga á þeim ef einhverjar eru. Að svo búnu skal öllum tillögum vísað til viðeigandi málefnanefndar. 

Miðstjórn er heimilt að efna til umræðu og ákvarðanatöku um tiltekin málefni án þess að bera fram tillögu eins og mælt er fyrir um í 5.1. Skal þá við fyrri umræðu fara fram opin hringborðsumræða þingfulltrúa. Starfsmenn þingsins skulu taka saman niðurstöður hringborðsumræðu. Sérstakri ritnefnd kjörinni af þinginu skal síðan falið að setja niðurstöður fram í ályktunar- eða tillöguformi sem kynntar verði í viðeigandi málefnanefnd þingsins og afgreiddar þar til annarrar umræðu.

5.3. Drög að ályktun eða tillaga sem málefnanefnd á sambandsþingi sendir frá sér til síðari umræðu telst ekki breytingartillaga heldur aðaltillaga og samhliða teljast allar tillögur úr fyrri umræðu niður fallnar.
Við síðari umræðu er þingfulltrúum heimilt í samræmi við gr. 5.5. að flytja breytingatillögur við drög að ályktun eða tillögu málefnanefndar. 
Við síðari umræðu skal þingforseti bera tillögur upp í þeirri röð sem hann ákveður.
Séu fleiri en ein tillaga í sama máli skal þó fyrst bera upp þá tillögu sem lengst gengur.

5.4. Undir liðnum önnur mál er þingfulltrúum heimilt að taka upp hvert það mál sem þeir óska eftir umræðu um, önnur en þau sem þegar hafa hlotið afgreiðslu þingsins. Ekki er þeim þó undir þessum lið heimilt að bera fram tillögur til ályktunar um annað en að fela miðstjórn og/eða forsetum ASÍ að vinna að tilteknum verkefnum eða málefnum milli sambandsþinga. Um heimildir miðstjórnar fer skv. 24.gr. laga ASÍ.

5.5.  Allar tillögur sem bornar eru fram skulu vera skriflegar, undirritaðar af tillöguflytjendum og skriflega studdar af ekki færri en 15 þingfulltrúum að tillöguflytjendum meðtöldum.
Ekki er heimilt að taka tillögu til umræðu fyrr en þingforseti hefur lýst henni. Komi upp ágreiningur um í hvaða nefnd ákveðin tillaga skuli rædd skal þingforseti leysa úr þeim ágreiningi með úrskurði.

5.6.  Séu fleiri en einn flytjandi að tillögu getur hver og einn þeirra dregið sig til baka af tillögunni í heyranda hljóði.
Fari svo að  tillaga sé í heild sinni dregin til baka, getur hver sem er úr hópi þingfulltrúa gert slíka tillögu að sinni í heyranda hljóði á sama fundi og undirritað hana síðan til staðfestingar, enda sé aflað stuðnings úr hópi þingfulltrúa við hana að nýju sbr. gr. 5.5.

5.7.  Ákvæði greinar 5.6. gilda ekki um tillögur þær sem tilskilinn stuðning þarf skv. þingsköpum þessum.

5.8. Efnislegar tillögur eru þessar:
1) Aðaltillaga
2) Breytingartillaga
3) Viðaukatillaga

5.9.   Við atkvæðagreiðslu skal fyrst bera upp breytingartillögu við aðaltillögu. Síðan skal bera upp aðaltillögu með áorðnum breytingum hafi breytingartillögur verið samþykktar.
Að öðrum kosti er aðaltillaga borin upp í upphaflegri mynd.
Þá skal bera upp viðaukatillögur.

5.10. Þær breytingartillögur sem lengra ganga skal bera upp á undan þeim sem ganga skemur.
Breytingartillögu sem kollvarpar eða breytir aðaltilgangi annarrar tillögu eða sem varðar önnur efnisatriði en tillaga hefur verið gerð um breytingu á, má þingforseti ekki taka til greina en því áliti sínu skal þingforseti lýsa fyrir fundi.
Til að breytingatillaga nái fram að ganga þarf hún að hljóta sama fjölda atkvæða eins og aðaltillagan þarf til þess að teljast samþykkt.

5.11. Forgangstillögur eru í þessari röð:
1) Tillaga um að ganga þegar til atkvæða, sbr. þó grein 4.5.
2) Tillaga um að vísa máli frá.
3) Tillaga um að taka fyrir næsta mál á dagskrá.
4) Tillaga um að fresta máli.
5) Tillaga um að vísa máli til annars valds.
Tillögur undir 1. tl. má ekki ræða.
Um tillögur undir 2., 3. og 4. tl. má gera stuttar athugasemdir.
Um tillögur undir 5. tl. má gera stuttar athugasemdir en um málið sjálft gilda sömu reglur og um önnur efnisleg mál sem koma fyrir sambandsþingið.

5.12. Þingforseta er heimilt að bera tillögu upp í tveimur eða fleiri liðum en þó því aðeins að hver liður sé sjálfstæður og að skiptingin geri tillöguna ekki óljósa.

5.13. Tillögu, sem hefur verið felld, má ekki bera upp á sama fundi.
Með samþykki minnst 2/3 hluta atkvæða þingfulltrúa má þó taka málið upp á ný síðar á sambandsþinginu enda séu 3/4 hlutar þingfulltrúa, þeirra sem eigi hafa boðað forföll til þingforseta, viðstaddir á fundi þegar slík tillaga er til afgreiðslu.

5.14. Ákvæði greinar 5.13. eiga ekki við um afgreiðslu kjörbréfa.

5.15. Atkvæðagreiðsla um tillögur fer fram með handauppréttingu.
Leynileg atkvæðagreiðsla fer fram ef þess er óskað skriflega og tillagan skriflega studd af minnst 10 þingfulltrúum.
Atkvæðagreiðslur við nafnakall leyfast ekki.
Heimilt er að viðhafa atkvæðagreiðslur með rafrænum hætti. Atkvæðaseðlar eru þá vistaðir á tölvu og atkvæði greidd með þar til gerðum búnaði. Meginreglur þingskapa þessara gilda um atkvæðagreiðsluna eftir því sem við á.

5.16. Engar atkvæðagreiðslur geta farið fram um tillögur nema á fundi sé staddur minnst helmingur þingfulltrúa sem ekki hafa boðað forföll sín til þingforseta sbr. þó grein 5.14.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er atkvæðagreiðslan lögmæt með þeim þingfulltrúum sem mættir eru til fundar, hafi þingforseti tiltekið og tilkynnt sérstakan tíma fyrir viðkomandi atkvæðagreiðslu með að a.m.k. 30 mínútna fyrirvara.

5.17. Þingforseti skipar teljara til talningar atkvæða úr hópi þingfulltrúa og/eða starfsmanna, svo marga sem henta þykir.
Jafnan skulu teljarar úr hópi þingfulltrúa, allt eftir því sem við á, vera skipaðir úr hópum andstæðra fylkinga á fundum.

5.18. Breyting á lögum ASÍ telst ekki samþykkt nema hún hljóti 2/3 atkvæða á fundi.

6.0. Kosningar

6.1.  Kosningar í trúnaðarstöður skulu vera leynilegar á þingum Alþýðusambandsins.
Heimilt er að viðhafa kosningar með rafrænum hætti. Kjörseðlar eru þá vistaðir á tölvu og atkvæði greidd með þar til gerðum búnaði. Meginreglur þingskapa þessara gilda um rafrænar kosningar eftir því sem við á.

6.2.  Í öllum málum ræður einfaldur meirihluti, þó með eftirfarandi undantekningum.
a. A.m.k. helming greiddra atkvæða þarf til þess að ná löglegu kjöri í miðstjórn.
b. Ákvæði um kjör þingforseta, sbr. grein 2.1.

6.3.  Komi ekki fram tillögur um fleiri en kjósa skal, skulu þau sjálfkjörin.

6.4.  Þegar meirihluta greiddra atkvæða er krafist vegna kosninga í trúnaðarstöður og það atkvæðamagn fæst ekki í fyrstu umferð, skal kosið að nýju um þau sem ekki náðu kosningu.
Verði kosningu þá heldur ekki lokið, skal kjósa um þau sem flest atkvæði fengu en ekki náðu kosningu í annarri umferð, þannig að tvö séu í kjöri um hvert sæti.
Ef tvö eða fleiri fá jafnmörg atkvæði, ræður hlutkesti úrslitum.

6.5.  Atkvæðaseðill er ógildur, ef á honum eru nöfn einstaklinga, sem ekki eru í kjöri, eða ef ekki eru greidd atkvæði jafnmörgum og kjósa á. Auður seðill telst ekki til greiddra atkvæða en gefa skal upp fjölda auðra seðla og ógildra þegar kosningu er lýst.
Sé viðhöfð rafræn atkvæðagreiðsla er heimilt að gera ráð fyrir því að viðeigandi tölvubúnaður sé þannig úr garði gerður að ekki sé hægt að gera kjörseðil ógildan.

6.6.  Við atkvæðagreiðslu fer hver þingfulltrúi með atkvæði í samræmi við 30.gr. laga ASÍ.

6.7.  Þingforseti skal gera þingfulltrúum viðvart með tilkynningu áður en kosningar hefjast. Eftir hæfilegan umþóttunartíma, tilkynnir þingforseti að dreifing atkvæðaseðla hefjist og um leið ber starfsmönnum að sjá til þess að enginn gangi út eða inn í fundarsalinn þar til þingforseti hefur lýst yfir að kosningu sé lokið, atkvæðaseðlum safnað saman og athugasemdir ekki komið fram um það.
Fari kosningar eða atkvæðagreiðslur fram með rafrænum hætti skal þingforseti með sama hætti tilkynna að nú muni kosningar hefjast og gefa upp þann tíma sem áætlað er að kosning muni taka. Að svo búnu skal aðgangur að rafrænum kosningabúnaði opnaður og kosningar hefjast. Kosning skal að minnsta kosti standa jafnlengi og þingforseti hefur áætlað. 10 mínútum áður en kosningu líkur samkvæmt ákvörðun þingforseta skal  tilkynna fundinum þá ákvörðun. Að liðnum þeim fresti skal aðgangi að rafrænum kosningabúnaði lokað og lýsir þá þingforseti að kosningu sé lokið.

6.8.  Um leið og talningu atkvæðaseðla við hverja atkvæðagreiðslu er lokið og niðurstaða talningar færð á skýrslu til þingforseta sem allir talningamenn hafa staðfest sem rétta, skulu atkvæðaseðlar innsiglaðir í traustan kassa eða varðveittir í lokuðum gagnagrunni hafi kosning verið rafræn og geymast þar til þingforseti hefur tilkynnt þingfulltrúum úrslit.
Komi ekki fram skrifleg krafa minnst 10 þingfulltrúa um endurtalningu atkvæða þegar eftir tilkynningu þingforseta, verður krafa um endurtalningu ekki tekin til greina.
Fyrir lok sambandsþingsins skulu atkvæðaseðlar eyðilagðir eða tölvugögnum eytt undir umsjón þingforseta.

6.9.  Kjörgengir í trúnaðarstöður Alþýðusambands Íslands eru allir fullgildir félagar í aðildarsamtökum ASÍ. Tilnefningar skulu vera skriflegar og studdar með undirritun a.m.k. 15 þingfulltrúa. Skriflegar stuðningsyfirlýsingar þurfa þó ekki að fylgja tillögum kjörnefndar.
Sé á sambandsþingi stungið upp á fólki í trúnaðarstöður sem eigi situr fundinn, verða slíkar tilnefningar eigi teknar til greina nema fyrir liggi staðfest yfirlýsing um að viðkomandi taki kjöri.

7.0. Afgreiðsla og breyting þingskapa

7.1.  Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður um afgreiðslu þingskapa.

7.2.  Komi fram tillögur um fundarstjórn eða meðferð mála sem þessi þingsköp ná ekki til, þá ræður einfaldur meirihluti enda sé fundur löglegur.

Þingsköp þinga ASÍ þannig samþykkt á ársfundi ASÍ 2006 með síðari breytingum, síðast á 42. þingi ASÍ 2016.


Atriðisorðaskrá
Aðgangur að fundarsal: 
Aðgangur að fundarsal.   1.13
Sérstakir gestir.   1.13

Afgreiðsla og breyting þingskapa:
Ákvæði vantar í þingsköp.   7.2
Einfaldur meirihluti ræður.   7.1
Fundur lögmætur.   7.2

Forseti ASÍ, réttindi og skyldur:
Dagskrárnefnd, þátttaka í störfum dagskrárnefndar.  3.1
Þingforseti, kosning þingforseta.  1.1
Inntökubeiðnir nýrra félaga.  1.12
Kjörbréf, skipun manna til talningar atkvæða. . 1.3
Kjörbréfanefnd,
afgreiðsla tillagna kjörbréfanefndar.  1.4
Setning sambandsþings.  1.1
Stjórnun sambandsþings.  1.1
Skrifarar, skipun skrifara til bráðabirgða.  1.2
Skýrsla forseta, ræðufjöldi um skýrslu.  4.3

Inntökubeiðnir:
Bráðabirgðaafgreiðsla miðstjórnar.  1.12
Inntökubeiðnir nýrra félaga.  1.12

Kjörbréf og kjörbréfanefnd:
Afgreiðsla þingfulltrúa á eigin kjörbréfum 1.6
Afgreiðsla kjörbréfa aðalfulltrúa .  1.5
Atkvæðagreiðslu krafist.  1.5
Áliti kjörbréfanefndar skilað.  1.4
Einfaldur meirihluti.  1.5
Framsögumaður kjörbréfanefndar.  1.4
Frestun á afgreiðslu kjörbréfa.  1.7
Kjörbréf varafulltrúa  1.10
Lögmæt forföll þingfulltrúa.. 1.10
Ógild kjörbréf ekki borin upp aftur.  1.11
Seinkun á að kjörbréf berist.  1.9
Starfstímabil kjörbréfanefndar.  1.8
Tillögur kjörbréfanefndar bornar upp.  1.4

Kosningar:
Aðal- og varamenn í miðstjórn.  6.2
Atkvæðamagn næst ekki í annarri umferð.  6.4
Atkvæðamagn næst ekki í fyrstu umferð.  6.4
Atkvæðamagn þingfulltrúa við
atkvæðagreiðslu.  6.6
Atkvæðaseðlar eyðilagðir, gögnum eytt.  6.8
Auðir seðlar.  6.5
Dreifing atkvæðaseðla hefst.  6.7
Einfaldur meirihluti.  6.2
Einfaldur meirihluti – undantekningar.  6.2
Endurtalningar krafist.  6.8
Fjarstödd í kjöri.  6.9
Framkvæmd kosninga.  6.7
Fundarsal lokað.  6.7
Þingforseti kjörinn.  2.1
Hlutkesti ræður.  6.4
Jafnmörg atkvæði falla.  6.4
Kjörgengi í trúnaðarstöður.  6.9
Kosningar hefjast.  6.7
Krafa um endurtalningu ekki tekin til greina.  6.8
Leynilegar kosningar í trúnaðarstöður.  6.1
Lögleg kosning fengin í miðstjórn.  6.2
Niðurstöður atkvæðagreiðslu færðar þingforseta.  6.8
Niðurstöður atkvæðagreiðslu staðfestar.  6.8
Ógildir atkvæðaseðlar.  6.5
Rafræn kosning hefst 6.7
Rafrænni kosningu lokið 6.7
Sjálfkjörið.  6.3
Skrifari kjörinn.  2.1
Tilkynning um niðurstöðu talningar.  6.8

Lögmæti fundar:
Lögmæti fundar.  5.15

Nefndir:
Atkvæðisréttur í nefnd  3.1
Dagskrárnefnd. 3.1
Kjörnefnd 3.2
Málefnanefndir 3.1
Sérálit úr nefnd  3.4
Skráning í nefndir 3.1
Stofnun nefnda 3.3

Tillögur og atkvæðagreiðsla:
Aðaltillaga í upphaflegri mynd.  5.9
Aðaltillaga með áorðnum breytingum.  5.9
Aðaltillaga með viðaukatillögu  5.9
Breyting á lögum 2/3 hlutar atkvæða.  5.18
Breytingartillaga borin upp.  5.10
Breytingartillaga sem kollvarpar.  5.10
Breytingartillaga við aðaltillögur.  5.9
Breytingartillaga við aðaltillögur – sama hlutfall atkvæða. 5.10
Dreifing tillagna til þingfulltrúa.  5.1
Efni tillagna.  5.10
Einfaldur meirihluti.  5.1
Endurflutningur felldrar tillögu.  5.13
Felld tillaga.  5.13
Forgangstillögur - fresta máli.  5.11
Forgangstillögur - ganga þegar til atkvæða.  5.11
Forgangstillögur - næsta mál á dagskrá. 5.11
Forgangstillögur - vísa máli frá.  5.11
Forgangstillögur - vísa máli til annars valds.  5.11
Fresta máli - stuttar athugasemdir.  5.11
Handaupprétting.  5.15
Leynilegrar atkvæðagreiðslu óskað.  5.15
Lýsing á tillögu, þingforseti.  5.5
Löglegur fundur, atkvæðagreiðsla.  5.16
Nafn dregið til baka.  5.16
Nafnakall leyfist ekki.  5.15
Nefndir ræða tillögur.  5.2
Nýir flutningsmenn að afturkallaðri tillögu.  5.6
Ólöglegur fundur, atkvæðagreiðslu frestað.  5.16
Rafræn atkvæðagreiðsla 5.15
Skipting tillagna við atkvæðagreiðslu.  5.12
Skriflegar tillögur.  5.5
Teljarar skipaðir.  5.17
Teljara úr hópi andstæðra fylkinga.  5.17
Tillaga sem gengur lengst.  5.3
Viðaukatillögur.  5.8
Vísa máli frá - stuttar athugasemdir.  5.11
Vísa máli til annars valds - efnisleg umfjöllun.  5.11
Vísa máli til annars valds - stuttar athugasemdir.  5.11

Umræður, þátttaka og stjórnun:
Athugasemd um fundarstörf.  4.3
Þingfulltrúar, ræðufjöldi.  4.3
Beðið um orðið.  4.1
Forseti ASÍ, ræðufjöldi.  4.3
Frummælendur, ræðufjöldi.  4.3
Góð regla á fundum.  4.5
Lok umræðna.  4.4
Lúta ber valdi þingforseta.  4.5
Ræðulengd.  4.3
Röð ræðumanna.  4.1
Takmarkanir á ræðutíma.  4.4
Talað skal úr ræðustóli.  4.2
Vítur á þingfulltrúa.  4.5

Þingforsetar, réttindi og staða:
Atkvæðagreiðslur, þátttaka þingforseta.  2.3
Umræður, þátttaka þingforseta.  2.3
Varaþingforsetar.  2.1

Viðmiðunarreglur um réttindi og skyldur stjórnarmanna í aðildarsamtökum ASÍ

Efnisyfirlit

1. Inngangur 
2. Réttindi og skyldur stjórnarmanna 
2.1. Mæting á fundi o.fl. 
2.2. Afstaða til einstakra mála, hæfi o.fl.
2.3. Aðgangur að gögnum 
2.4. Fundargerðir 
2.5. Réttindi og skyldur varamanna 
3. Um framkvæmdastjóra og starfsmenn 
3.1. Almennt 
3.2. Laun stjórnarmanna 
3.4. Sé ráðinn framkvæmdastjóri 
3.5. Starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna
4. Siðareglur, þagnarskylda og persónuvernd 
4.1. Setning almennra siðareglna 
4.2. Gjafir 
4.3. Boðsferðir 
4.4. Þagnarskylda 
4.5. Meðferð persónuupplýsinga 
5. Sjóðir og hlutverk þeirra 
5.1. Meginreglur 
5.2. Tryggingar og ábyrgðir 
5.3. Félagssjóður 
5.4. Sjúkrasjóður 
5.5. Orlofssjóður 
5.6. Vinnudeilusjóður 
6. Bókhald og reikningsskil 
6.1. Almennt 
6.2. Fjárhagsáætlun 
6.3. Ársreikningur 
6.4. Endurskoðun ársreiknings 
6.5. Skoðunarmenn 
6.6. Áritun ársreiknings 
6.7. Afgreiðsla stjórnar á ársreikningi 

1. Inngangur 

Öll aðildarsamtök ASÍ hafa fullt frelsi um skipulag sitt og starfsemi að svo miklu leyti sem ekki fer gegn beinum ákvæðum laga ASÍ eða landslögum. Lög ASÍ geyma m.a. ákvæði um bann við félagsskyldu og búsetu skilyrðum, hámarks lengd kjörtímabila, árlega aðalfundi og ýmis ákvæði um fjármál og endurskoðun og á grundvelli 40. gr. hafa verið settar viðmiðunarreglur um bókhald og ársreikninga. Samkvæmt 4. gr. laga ASÍ er eitt af markmiðum ASÍ „Að stuðla að lýðræðislegu starfi allra aðildarsamtaka ASÍ í þágu félagsmanna og verkalýðshreyfingarinnar í heild.“ Miðstjórn ASÍ hefur tekið saman eftirfarandi leiðbeinandi viðmiðunarreglur um helstu réttindi og skyldur stjórnarmanna í aðildarsamtökum ASÍ og starfsmanna þeirra. Reglunum er ætlað að vera stjórnum og ráðum allra aðildarsamtaka ASÍ til leiðbeiningar í lýðræðislegri starfsemi sinni. Jafnframt ber að hafa í huga að setu í stjórn félagasamtaka jafnt og félaga, getur fylgt fjárhagsleg og persónuleg ábyrgð og því mikilvægt að stjórnarmenn séu vel upplýstir um réttindi sín og skyldur. Reglur þær sem hér eru settar fram eru óskuldbindandi enda geyma lög ASÍ ekki aðra heimild til setningu þeirra en fyrrgreint ákvæði 4. gr. laga sambandsins. Það er ætlun miðstjórnar ASÍ að þær geti orðið fyrirmynd að sjálfstæðum reglum aðildarsamtakanna. Drög að reglunum voru upphaflega samin samhliða viðmiðunarreglum um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda en hlutu ekki afgreiðslu. Miðstjórn ASÍ taldi í upphafi árs 2009 ástæðu til að taka reglur þessar að nýju til umfjöllunar m.a. í ljósi umræðu um gagnsæa og opna stjórnsýslu allra stofnana og félagasamtaka sem fara með fé sem aflað er í skjóli laga og skipulagðar almannastarfsemi. Reglurnar taka til allra aðildarsamtaka ASÍ og með stjórnum þeirra er átt við stjórnir verkalýðsfélaga, landssambanda og stjórnir og ráð á þeirra vegum er  starfa í umboði þeirra eða eru kjörnar í beinni kosningu þar með talin trúnaðarráð og stjórnir sjóða. Gert er ráð fyrir því, að nýjum stjórnar- og starfsmönnum verði kynntar reglur þessar, samhliða lögum og samþykktum viðkomandi félags, og þeim gert að undirrita yfirlýsingu um að þeir hafi kynnt sér efni þeirra.

2. Réttindi og skyldur stjórnarmanna

2.1. Mæting á fundi o.fl. 
Stjórnarnarmanni ber skylda til að sækja alla boðaða fundi, nema lögmæt forföll hamli. Stjórnarmanni ber að sinna þeim störfum sem hann hefur verið kjörinn til eða stjórn felur honum og varða verkefni á viðkomandi stjórnstigi nema vanhæfi eða óviðráðanlegar ástæður hamli.

2.2. Afstaða til einstakra mála, hæfi o.fl.
Stjórnarmaður er einungis bundinn af landslögum sem og lögum þeirra félagseiningar sem hann sinnir stjórnarstörfum í,  sannfæringu sinni um afstöðu til einstakra mála. Honum ber að gegna störfum af alúð og samviskusemi.
Um hæfi í einstökum málum fer skv. almennum hæfisreglum stjórnsýslulaga.

2.3. Aðgangur að gögnum
Stjórnarmenn í aðalstjórn hafa vegna starfa sinna aðgang að fjárhagslegum upplýsingum, skuldbindingum, fundargerðarbókum og skjölum stjórnar nefnda og ráða á vörslustað þeirra. Stjórnarmenn einstakra eininga hafa sambærilegan aðgang að gögnum sem tilheyra stjórnstigi þeirra. 

2.4. Fundargerðir 
Að jafnaði skal færa fundargerðir af fundum í þar til gerða fundargerðarbók. Heimilt er þó að færa fundargerðir rafrænt enda séu pappírseintök þeirra varðveitt með öruggum hætti. 
Telji stjórnarmaður það nauðsynlegt á hann rétt á að athugasemdir og afstaða hans sé færð til bókar. 
Fundargerðir stjórnar-, félags-, aðal- og ársfunda eða þinga skulu undirritaðar og staðfestar í samræmi við fundarsköp.

2.5. Réttindi og skyldur varamanna
Öll ofangreind ákvæði, nema annað sé sérstaklega tekið fram, eiga einnig við um varamann sem tekur sæti aðalmanns í forföllum hans. Taki varamenn reglulega þátt í störfum stjórnar fer um réttindi þeirra og skyldur með sama hætti og aðalmanna.


3. Um framkvæmdastjóra og starfsmenn 

3.1. Almennt
Aðildarsamtökin geta ráðið sér framkvæmdastjóra og/eða aðra starfsmenn eða aðildarsamtök til þess að annast rekstur, framkvæmd ákvarðana sinna og til að sinna daglegum verkefnum. Skriflegir ráðningarsamningar skulu gerðir við alla starfsmenn. 
Formaður stjórnar hefur með höndum daglega stjórn, undirbúning funda, annast framkvæmd ákvarðana og annarra málefna svo sem bréfasamskipti, samskipti við félagsmenn og atvinnurekendur.
Varaformaður er staðgengill formanns. Gjaldkeri hefur eftirlit með fjárreiðum félagsins en annast ekki bókun reikninga. Ritari ber ábyrgð á færslu fundargerða.

3.2. Laun stjórnarmanna 
Laun og starfskjör formanns og annarra stjórnarmanna skulu ákveðin með formlegum hætti.  
Þóknun vegna sérstakra, umfangsmikilla eða tímabundinna verkefna skal ákveðin með sama hætti.

3.3. Launanefnd stjórnar
Stjórn skal skipa sérstaka 3ja manna launanefnd sem fer með ákvarðanir um laun og starfskjör formanns og annarra stjórnarmanna. Nefndin skal jafnframt leggja til við stjórn almenna starfskjarastefnu félagsins vegna annarra starfsmanna.

3.4. Sé ráðinn framkvæmdastjóri 
Við ráðningu framkvæmdastjóra skal stjórn fjalla um og ákveða starfssvið hans og valdheimildir. Í starfslýsingu skal m.a. fjallað um:
- Seturétt á stjórnarfundum, félags– og aðalfundum og hvaða réttindi framkvæmdastjóri fer með á þeim, þ.m.t. málfrelsi og tillögurétt. 
- Undirbúning funda og framkvæmd ákvarðana og hvernig samráði skuli hagað í því efni við formann og/eða stjórn. 
- Prókúru fyrir félagið og framsal hennar. 
- Hvernig staðið skuli að undirritun skjala varðandi kaup og sölu fasteigna, lántökur og ábyrgðir, svo og önnur skjöl sem fela í sér skuldbindingar eða ráðstafanir sem samþykktar hafa verið í stjórn.
- Stjórnun á daglegri starfsemi, þ.m.t. starfsmannastjórn.
- Ráðningu annarra starfsmanna í samráði við formann og í samræmi við reglur stjórnar og heimiluð starfsgildi. Gerir við þá ráðningarsamning sem kveður á um starfssvið þeirra sem og ráðningarkjör enda falli þau innan samþykkts fjárhagsramma og starfskjarastefnu stjórnar félagsins. Sömu reglur gilda um slit ráðningarsamnings. 
- Störf í þágu þriðja aðila, þ.m.t. setu í stjórnum og ráðum stofnana og fyrirtækja.

3.5. Starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna
Um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna fer eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og ákvæðum ráðningarsamninga.

4. Siðareglur, þagnarskylda og persónuvernd   

4.1. Setning almennra siðareglna 
Stjórn skal setja starfsemi félags og starfsmönnum sínum og allra sjóða og fyrirtækja sem sinna starfsemi þess almennar samskipta og siðareglur.

4.2. Gjafir 
Starfs- og stjórnarmönnum er óheimilt að þiggja eða sækjast eftir gjöfum eða fjármunum frá viðskiptavinum eða væntanlegum viðskiptamönnum sem á einn eða annan hátt tengjast starfi þeirra. Undanteknar eru jóla- og afmæliskveðjur, sem eru að fjárhagslegu verðmæti innan marka sem teljast algeng í slíkum tilvikum skv. nánari reglum stjórnar eða um er að ræða persónuleg tengsl sem ekki verða rakin til viðskipta við félagið. 

4.3. Boðsferðir 
Starfs- og stjórnarmönnum er óheimilt að þiggja boðsferðir af viðskiptavinum, innanlands sem utan, hvort sem um er að ræða skemmtiferðir, svo sem veiðiferðir og golfferðir, eða kynnisferðir vegna einstakra fyrirtækja eða viðskiptakosta. Undanteknar eru ferðir sem talið er að hafi upplýsingagildi fyrir félagið eða gera þá hæfari til að sinna hlutverki sínu. Í slíkum tilvikum skal metið af yfirmanni eða stjórn eftir atvikum hvort svo sé, enda greiði félagið sjálft kostnað við ferðina nema annað sé sérstaklega ákveðið og formleg heimild veitt til þess. Stjórn skal reglulega gerð grein fyrir öllum ferðum skv. framansögðu. 
Í þeim tilvikum þegar um er að ræða ferðir sem standa stjórnarmanni til boða á vegum fyrirtækis sem hann starfar hjá og öðrum starfsmönnum stendur einnig til boða, gildir ofangreind regla ekki.

4.4. Þagnarskylda 
Stjórnar- og starfsmönnum ber að gæta þagnarskyldu um það sem þeir kunna að verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst áfram eftir að látið er af störfum.

4.5. Meðferð persónuupplýsinga 
Þegar unnið er með persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem rekja má beint eða óbeint til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, í starfsemi stéttarfélaga eða sjóða á þeirra vegum skal með þær upplýsingar farið skv. lögum um persónuvernd þ.m.t. hvað varðar viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar öryggisráðstafanir til að vernda þær gegn óleyfilegum aðgangi, ólöglegri eyðileggingu og gegn því að þær glatist eða breytist fyrir slysni. 
Slíkra upplýsinga skal einungis aflað í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi, þær ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi og þess gætt að afla ekki eða óska eftir frekari upplýsingum og gögnum en nauðsynlegt er hverju sinni. Með vinnslu er t.d. átt við söfnun, skráningu, geymslu, breytingar, leit, miðlun, dreifingu eða aðrar aðferðir til að gera upplýsingarnar tiltækilegar.
Ef um er að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar, t.d. um heilsuhagi, skal aflað sérstakra, ótvíræðra og skriflegra yfirlýsinga um heimild til vinnslu þeirra. Þær upplýsingar sem teljast viðkvæmar í skilningi laga og varðað geta félagsmenn og starfsemi stéttarfélaga eru:

• Upplýsingar um uppruna, litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir svo og trúar- eða aðrar lífsskoðanir. 
• Upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað 
• Upplýsingar um heilsuhagi, þ. á m. um erfðaeiginleika, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun 
• Upplýsingar um kynlíf manna og kynhegðan

Þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita persónuupplýsingar skal  eyða þeim. Málefnaleg ástæða til varðveislu upplýsinga getur m.a. byggst á fyrirmælum í lögum eða á því að enn sé unnið með upplýsingarnar í samræmi við upphaflegan tilgang með söfnun þeirra.

5. Sjóðir og hlutverk þeirra  

5.1. Meginreglur 
Verkalýðsfélög og landsambönd mynda að jafnaði þrjár megin rekstrareiningar eða sjóði en það eru félagssjóður, sjúkrasjóður og orlofssjóður. Hver þessara rekstrareininga byggir tekjugrunn sinn á ákvæðum kjarasamninga og laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980. 
Hlutverk hverrar rekstrareiningar sem mynduð er með sértekjum eða framlagi frá einhverri af megin rekstrareiningum félags ber að skilgreina í reglugerð, samþykktum eða starfsreglum. 
Nánar er mælt fyrir um starfsemi stéttarfélaga og sjúkrasjóða í lögum ASÍ og fyrirmyndarreglum um lög og reglugerðir þeirra.

5.2. Tryggingar og ábyrgðir
Allar skuldbindingar og veðsetningar ber að leggja fyrir stjórn á viðkomandi stjórnstigi til samþykktar. Eigi má stjórn veðsetja öðrum tekjur einstakra rekstrareininga eða eignir þeirra umfram 30% af markaðsvirði.
Eigi má binda einstakar rekstrareiningar í ábyrgðir vegna skuldbindinga annarra, umfram það sem lög eða reglugerðir félagsins sjálfs heimila, með þeim takmörkum sem að framan greinir. Prókúruhafa félags er þó heimilt fyrir hönd félagsins að ábyrgjast með framsalsáritun greiðslu viðskiptaskjala sem félagið hefur eignast á eðlilegan hátt í tengslum við daglegan rekstur þess.

5.3. Félagssjóður
Félagssjóðir og sambandssjóðir  standa undir því sameiginlega starfi sem unnið er og þeim kostnaði sem félagið ber af aðild sinni að landssambandi eða heildarsamtökum launafólks.
Félags- og sambandssjóðir heyra beint undir félags- eða sambandsstjórn og í lögum og reglugerðum er að finna nánari ákvæði um ráðstöfun til einstakra verkefna. 

5.4. Sjúkrasjóður  
Sjúkrasjóður er samtryggingarsjóður þeirra sem greitt er sjúkrasjóðsiðgjald af. Megin hlutverk sjóðsins er að greiða sjóðfélögum launatap vegna veikinda eða slysa eftir að greiðslum samkvæmt kjarasamningi lýkur. 
Sjúkrasjóður heyrir beint undir stjórn félagsins eða sérstaka stjórn og um hann gildir sérstök reglugerð.

5.5. Orlofssjóður  
Orlofssjóði er ætlað að stuðla að töku orlofs þeirra sem greitt er orlofssjóðsiðgjald af. Orlofssjóður getur þannig staðið fyrir uppbyggingu og rekstri orlofshúsa til endurleigu eða styrkt sjóðsfélaga á annan hátt til töku orlofs. 
Orlofssjóður heyrir beint undir stjórn félagsins eða sérstaka stjórn og um hann gildir sérstök reglugerð.

5.6. Vinnudeilusjóður 
Vinnudeilusjóði er ætlað að styðja félagsmenn fjárhagslega, missi þeir laun vegna löglega boðaðrar vinnustöðvunar félagsins eða löglega boðaðs verkbanns atvinnurekenda sem gera kjarasamning við félagið. 
Vinnudeilusjóður heyrir beint undir stjórn félags eða sérstaka stjórn og um hann gildir sérstök reglugerð.

6. Bókhald og reikningsskil 

6.1. Almennt
Stjórn verkalýðsfélags ber ábyrgð á fjárreiðum, bókhaldi og því að saminn sé ársreikningur af löggildum endurskoðenda sem leggja skal fyrir árlegan aðalfund til samþykktar.
Um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda ASÍ gilda sérstakar reglur settar samkvæmt 40. gr. laga ASÍ.

6.2. Fjárhagsáætlun
Til að hafa heildaryfirsýn yfir fjármál er æskilegt að gera fjárhagsáætlun fyrir hvert rekstrarár og leggja hana fyrir stjórn eigi síðar en fyrir lok janúarmánaðar.
Við gerð fjárhagsáætlunar ber að sýna tekjuöflun, ráðstöfun fjármuna, framkvæmdir og fjármálastjórn á viðkomandi reikningsári. Við gerð fjárhagsáætlunar ber einnig að hafa hliðsjón af fjárhagslegri stöðu hverrar rekstrareiningar fyrir sig.
Stjórn ber að gæta þess svo sem kostur er, að heildarútgjöld fari ekki fram úr heildartekjum á hverju reikningsári.
Í fjárhagsáætlun skal koma fram efnahagur í upphafi árs og áætlun um efnahag við lok árs, auk áætlaðra fjármagnshreyfinga. 
Form fjárhagsáætlunar skal vera í samræmi við form ársreiknings.

6.3. Ársreikningur
Semja skal ársreikning fyrir félagið í heild, einstakar rekstrareiningar þess eða stofnanir og fyrirtæki samkvæmt lögum, reglum og góðri reikningsskilavenju.
Gera skal sérstaka grein fyrir verulegum skuldbindingum til lengri tíma í ársreikningi. Ársreikning ber að endurskoða af löggiltum endurskoðanda, í samræmi við góða endurskoðunarvenju. Með endurskoðuðum ársreikningi ber að fylgja endurskoðunarskýrsla sem leggja á fyrir stjórn. 
Ársreikningur á að sýna glöggt yfirlit um rekstur og framkvæmdir á reikningsárinu og efnahagsreikning í lok reikningsárs ásamt skýringum. Í ársreikningi ber að sýna meginniðurstöðu fjárhagsáætlunar reikningsársins, hafi stjórn samþykkt gerð hennar til samanburðar ásamt yfirliti um fjárhagslegar skuldbindingar félagsins.
Sérstakar viðmiðunarreglur gilda um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda.

6.4. Endurskoðun ársreiknings
Aðalfundur, ársfundur eða þing, allt samkvæmt reglum hvers félags, velur félaginu löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki sem vinna ber að endurskoðun.
Endurskoðanda félagsins ber að haga störfum sínum í samræmi við lög og reglur og góðar endurskoðunarvenjur í samræmi við fyrirmyndarreglur ASÍ varðandi bókhald og endurskoðun.
Með endurskoðun sinni ber honum að komast að rökstuddri niðurstöðu um áreiðanleika ársreiknings og ganga úr skugga um að fylgt hafi verið ákvæðum laga, reglna og samþykkta um meðferð fjármuna hverrar rekstrareiningar.

6.5. Skoðunarmenn
Ef ákvæði er í lögum aðildarsamtaka um kjörna skoðunarmenn skal kynna þeim ársreikninga og skýrslu löggilts endurskoðana tímanlega fyrir áritun ársreiknings. 
Skoðunarmenn skulu í áritun sinni staðfesta að þeir hafi yfirfarið ársreikninginn og jafnframt greina frá niðurstöðum, ábendingum og upplýsingum sem þeir telja að eigi við og ef við á um það sem þeir telja að hafi farið úrskeiðis í starfsháttum eða stjórnsýslu.
Aðal- og varamenn í stjórnum, sem og starfsmenn félags eða rekstrareininga eru ekki kjörgengir sem skoðunarmenn.

6.6. Áritun ársreiknings
Stjórn félags ber ábyrgð á fjármálum þess og þess vegna undirritar hún ársreikning og leggur hann fram á aðalfundi. Ef starfandi er framkvæmdastjóri undirritar hann einnig ársreikninginn. 
Áritun endurskoðanda felur í sér yfirlýsingu um að hann hafi verið endurskoðaður og saminn í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga og laga og reglna viðkomandi rekstrareiningar. Endurskoðandi lætur enn fremur í ljós skriflegt álit sitt á ársreikningnum og greinir frá niðurstöðu endurskoðunar sinnar að öðru leyti.
Ábendingar og athugasemdir, sem endurskoðandi og/eða skoðunarmenn vilja koma á framfæri við félagsstjórn eða framkvæmdastjóra félagsins, ber að setja fram skriflega og aðilum veittur hæfilegur frestur til svara. 
Ef endurskoðanda og/eða skoðunarmönnum þykir ástæða til, gera þeir tillögur til félagsstjórnar um endurbætur varðandi meðferð fjármuna hjá félaginu, um breytingar á innra eftirliti, stjórnsýslu og öðru því sem þeir telja að geti verið til bóta í rekstri félagsins.
Stjórn skal varðveita á öruggan hátt öll gögn um endurskoðunina og samskiptin við endurskoðanda og skoðunarmenn.
Endurskoðanda og skoðunarmönnum er ekki heimilt að gefa óviðkomandi upplýsingar um hag félagsins, stofnana þess eða fyrirtækja, né annað það er þeir komast að í starfi sínu.

6.7. Afgreiðsla stjórnar á ársreikningi
Ársreikning ber að fullgera, endurskoða og hafa tilbúinn til afgreiðslu í stjórn og á aðalfundi fyrir lok maímánaðar. Stjórn skal taka til umfjöllunar og afgreiðslu álit, greinargerðir og tillögur endurskoðanda og skoðunarmanna fyrir þessi tímamörk.
Samþykkta ársreikninga félags ber að senda skrifstofu ASÍ fyrir lok júnímánaðar ár hvert, ásamt greinargerð endurskoðanda og skoðunarmanna.
Vanræki stjórn að afgreiða eða skila ársreikningum sínum innan tilskilins frests, ber miðstjórn ASÍ að bregðast við í samræmi við starfsreglur sínar þar að lútandi, en senda jafnframt öllum stjórnarmönnum bréf þar sem tilgreint er að ekki hafi verið staðið við ákvæði reglna ASÍ um gerð og skil á ársreikningum. 
Samþykki aðalfundar á ársreikningi felur í sér endanlega afgreiðslu þeirra og þeirra félagslegu ákvarðana sem eru forsendur hans.

Staðfest í miðstjórn ASÍ 7.10 2009

Reglugerð um bókhald og ársreikninga aðildarsamtaka ASÍ

Reglugerð um bókhald og ársreikninga aðildarsamtaka ASÍ

 

I. Kafli

Bókhald og áætlanagerð

 1. gr.

Skilgreiningar

Aðildarsamtök: Í reglugerð þessari merkir hugtakið aðildarsamtök, landssambönd, öll félög einstakra sambanda og félög með beina aðild að ASÍ Hugtakið aðildarfélög merkir öll félög einstakra sambanda og félög með beina aðild. 

Rekstrargrunnur: Samkvæmt rekstrargrunnsreglu eru gjöld færð þegar til þeirra er stofnað, hvort sem þau hafa verið greidd eða ekki. Með hliðstæðum hætti eru tekjur færðar þegar til þeirra er unnið, hvort sem þær hafa verið innheimtar eða ekki. Með rekstrargrunnsreglu fæst betri mæling á afkomu en þegar miðað er við innheimtu tekna og útborganir gjalda. Hið sama gildir um mælingu á efnahag og skýrari mynd fæst af eignum og skuldum. 

Rekstrareining: Bókhaldslega aðskilinn þáttur í starfsemi og rekstri hvort sem um er að ræða fjárhagslega sjálfstæða einingu eða ekki. 

Starfsdeild: Starfsleg eining innan rekstrareiningar sem sinnir sérstökum verkefnum. 

Stofnanir aðildarsamtakanna: Rekstrareiningar sem lúta sérstakri stjórn eða hafa sér lög / reglugerð um starfsemi sína.

Þjónustueining: Rekstrareining sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með sértekjum eða þjónustugjöldum (svo sem sameiginleg þjónustuskrifstofa) skal hafa aðskilinn rekstrarreikning.[1]

Fyrirtæki aðildarsamtakanna: Fjárhagslega sjálfstæðar rekstrareiningar sem falla undir skilgreiningu sem rekstraraðili samkvæmt lögum um bókhald, nú lög nr. 145/1994 eða lögum um hlutafélög, nú lög nr. 2/1995.

Samstæða: Samanlagðir ársreikningar allra sjóða og fyrirtækja er viðkomandi aðildarsamtök eiga aðild að, þar sem innbyrðis staða og millivelta hafa verið nettuð út en sýnd í millireikningi.

Stofnverð: Kostnaðarverð mannvirkja og annarra varanlegra rekstrarfjármuna. 

 2. gr.

Uppbygging ársreikninga

Aðildarsamtök  ASÍ færa bókhald samkvæmt lögum um bókhald eins og þau eru á hverjum tíma, nú lög nr. 145/1994. 

Þau byggja upp bókhald og ganga frá ársreikningi samkvæmt rekstrargrunnsreglu fyrir hvert reikningsár og lögum um ársreikninga eins og þau eru á hverjum tíma, nú nr. 3/2006 og reglugerð um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga, eftir því sem við á.

  3. gr.

Bókhald aðildarsamtakanna, skyldra aðila og fyrirtækja

 Aðildarsamtökin og allar skilgreindar rekstrareiningar, stofnanir, og fyrirtæki þeirra, hér eftir nefnd félögin, eiga að haga bókhaldi sínu á skýran og aðgengilegan hátt.

 

4. gr.

Flokkun og greining í bókhaldi

Flokka skal og greina tekjur og gjöld, eignir og skuldir í bókhaldi, þannig að upplýsingar úr því séu í samræmi við reglugerð þessa og tilvitnuð lög.

  

5. gr.

Skipting á beinum rekstrarkostnaði

Í bókhaldi á að leggja áherslu á að leiða fram beinan rekstrarkostnað einstakra rekstrareininga á reikningsárinu.

Gera ber reikninga fyrir hlutdeild í sannanlegum beinum rekstrarkostnaði svo og vöru og þjónustu, sem einstakar rekstrareiningar fá frá öðrum rekstrareiningum. Reikningar þessir eiga ekki að nema hærri fjárhæð en sem nemur sannanlegum kostnaði vegna viðkomandi rekstrarþáttar og þeir eiga að vera færðir í bókhaldi viðkomandi rekstrareiningar.

 

6. gr.

Skipting á sameiginlegum rekstrarkostnaði

Sameiginlegan rekstrarkostnað, þ.e. kostnað sem ekki telst til beins rekstrarkostnaðar einstakra rekstrareininga, á að færa á sérstakan málaflokk í bókhaldi þeirra. Til frádráttar á sama málaflokk á að færa reikninga sem gerðir eru vegna hlutdeildar rekstrareininga með sjálfstætt reikningshald í sameiginlegum rekstrarkostnaði. Reikningar þessir eiga ekki að vera hærri en sem nemur sannanlegu kostnaðarverði og þeir eiga að færast í bókhaldi viðkomandi rekstrareiningar.

7. gr.

Rekstur þjónustueininga

Bókhald á að leiða fram með glöggum hætti tekjur og gjöld þeirra rekstrareininga sem fjármagnaðar eru af sérgreindum tekjum eða með þjónustugjöldum. Sérstaklega ber að gæta þess að tekjur af þjónustugjöldum reynist ekki umfram heildarkostnað rekstrareininga, þegar til lengri tíma er litið.

8. gr.

Eignaskrá

Til að halda utan um rekstrarfjármuni ber að halda sérstaka skrá um þá hluti sem ekki eru færðir meðal eigna í bókhaldi. Eignaskráin skoðast sem hluti af bókhaldsgögnum.

 

9. gr.

Ábyrgða- og skuldbindingaskrá

Til að hafa heildaryfirsýn yfir allar fjárhagsábyrgðir og þær skuldbindingar sem teknar hafa verið samkvæmt lögum og eigin reglum  og ekki eru færðar meðal skulda í bókhaldi, ber að skrá þær sérstaklega um leið og þær hafa verið samþykktar. Í skránni á að koma fram hvenær stofnað var til viðkomandi ábyrgðar eða skuldbindingar, í hve langan tíma og hverjum hún er veitt. Þegar ábyrgð eða skuldbindingu lýkur, skal það fært í viðkomandi skrá. Skrá þessi skoðast sem hluti af bókhaldsgögnum og hana ber að tilgreina í reikningum. 

 

10. gr.

Fjárhagsáætlun

Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að fram komi allir helstu tekju- og rekstrarliðir og að henni sé hagað á þann hátt, að hún gefi glögga mynd af áformum um tekjur, rekstur, framkvæmdir og efnahag. Þannig framsett fjárhagsáætlun er meginregla um tekjuöflun, ráðstöfun fjármuna og fjármálastjórn í heild á viðkomandi reikningsári.

Ef samþykkt er að gerð skuli og lögð fram fjárhagsáætlun skal hún lögð fyrir stjórn til samþykktar árlega.

Fjárhagsáætlun miðist við annað af tvennu, starfsár stjórnar eða reikningsár og er hún þannig uppsett og unnin, að gerð er sérstök áætlun fyrir hverja rekstrareiningu fyrir sig, sem síðan er dregin saman í eina megináætlun.

Haga skal áætlanagerð þann hátt, að hún gefi glögga mynd af áætluðum iðgjaldatekjum, rekstrarkostnaði og framkvæmdum sem áætlað er að fara í á því tímabili sem áætlunin nær til.

Við gerð fjárhagsáætlunar ber að hafa hliðsjón af fjárhagslegri stöðu í heild þ.m.t. allra rekstrareininga og fyrirtækja. Stjórn ber að gæta þess svo sem kostur er að heildarútgjöld hverrar rekstrareiningar fyrir sig fari ekki fram úr heildartekjum hennar. Form fjárhagsáætlunar sé í samræmi við form ársreiknings.

 

11. gr.

Fjárfestingarstefna

Móta skal fjárfestingarstefnu í heild eða fyrir einstakar rekstrareiningar, skal hún lögð fram í stjórn til samþykktar árlega og til kynningar á aðalfundi. Fjárfestingarstefnan byggi á lögum félagsins og taki mið af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma, með tilliti til ávöxtunar og áhættu. 

Við mótun fjárfestingu bera huga sérstaklega að því  að breyta megi fjárfestingum í laust fé á tiltölulega skömmum tíma gerist þess þörf.

Góð og traust fjárfestingarstefna byggist m.a. á því:

• að skuldabréf séu stöðluð og tryggð með veði í fasteign að hámarki 65% af metnu markaðsvirði, nema þegar um er að ræða sérhæft atvinnuhúsnæði. Þá er æskilegt hámark 35%. Þessi regla á hins vegar ekki við um félög sem stofnuð eru utan um ákveðna þætti í starfsemi aðildarsamtaka.

• að við fjárfestingu í hlutabréfum fyrirtækja  séu sett mörk á það hversu mikið af heildar eign félags megi vera í hlutabréfum. Hlutabréf í óskráðum fyrirtækjum ættu t.d. aldrei nema hærri upphæð en sem nemur 15% af heildareign í hlutabréfum. Einnig er æskilegt að hámark sé sett á eignarhluta í einstökum hlutafélögum. Þessi regla á hins vegar ekki við um félög sem stofnuð eru utan um ákveðna þætti í starfsemi aðildarsamtaka.

• að við fjárfestingu í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða sé hún miðuð við þær takmarkanir sem hér að framan eru tilgreindar og í samræmi við heildarfjárfestingarstefnu á hverjum tíma.

 

 

II. Kafli

Ársreikningur, endurskoðun og aðrar fjárhagslegar upplýsingar

 

12. gr.

Reikningsskil

Reikningsskil eiga að gefa glögga mynd af rekstri og efnahag. 

Reikningsár er almanaksárið.

 

13. gr.

Flokkun í reikningsskilum

Í reikningsskilum á að gera greinarmun á rekstri annars vegar og bótum, styrkjum og framlögum hins vegar og starfsemi þeirra skipt þannig eftir því sem við á:

a) Félagssjóður - sjóður sem myndaður er af félagsgjöldum skv. ákvæðum kjarasamninga og laga.

b) Sambandssjóður - aðalsjóður landssambands sem myndaður er af skatttekjum frá aðildarfélögum þess. 

c) Vinnudeilusjóður - sjóður sem myndaður er af árlegu framlagi frá félagssjóði, hluta af tekjuafgangi félagssjóðs eða sem hlutfall af félagsgjaldi samkvæmt félagslögum.

d) Fræðslusjóður - sjóður sem myndaður er af hlutfallslegu framlagi af félagsgjaldi, samkvæmt félagslögum, eða með framlagi sem ákveðið er af aðalfundi á hverju ári.

e) Sjúkrasjóður - sjóður sem myndaður er af iðgjöldum sem greidd eru sem hlutfall af launum í samtryggingarsjóð með samningsbundnum hætti af atvinnurekendum, eða sem hluti af félagsgjaldi hvort heldur um er að ræða tímabundið eða varanlegt framlag. Sjúkrasjóður getur haft sértekjur samkvæmt samþykktum.

f) Orlofssjóður - sjóður sem myndaður er af iðgjaldi sem er greitt sem hlutfall af launum í sameiginlegan fjárfestingar–, rekstrar-, eða styrktarsjóð til að auðvelda töku orlofs fyrir greiðendur og fjölskyldur þeirra, eða sem hluti af félagsgjaldi hvort heldur um er að ræða tímabundið eða varanlegt framlag. Orlofssjóður getur haft sértekjur vegna endurgjalds af orlofsaðstöðu.

g) Stofnanir, fyrirtæki og aðrar rekstrareiningar sem eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar, að hálfu eða meirihluta í eigu verkalýðsfélags / landssambands innan ASÍ. Beitt skal hlutdeildaruppgjöri ef eignarhlutur eru verulegur þ.e. 20-50%.

  

14. gr.

Fasteignir

Fasteign sem er í eigu einstakra rekstrareininga ber að færa í efnahagsreikning þeirrar rekstrareiningar. Að sama skapi er gjaldfærsla færð meðal afskrifta hjá viðkomandi rekstrareiningu.

Ef eign einstakrar rekstrareiningar í fasteign er umfram það sem hún þarf til skilgreindrar starfsemi sinnar, ber að gera leigusamning við aðrar þær rekstrareiningar sem nýta viðkomandi eign, eða óskyldan aðila sem nýtir eignina.

Ef leigutaki er skyldur rekstraraðili, er gerður við hann leigusamningur samkvæmt óskum hans og þörfum og innheimt leiga (svokölluð innri leiga) í samræmi við raunverulegan kostnað sem viðkomandi fjárfesting ber með sér, þ.e. fjármagnskostnað vegna viðkomandi fasteignar, afskriftir, skatta og tryggingar, viðhaldskostnað fasteignar og lóðar, auk eðlilegrar þóknunar til eignaraðila fyrir umsýslu. 

Greiði skyldur rekstraraðili kaupverð að hluta eða að öllu leyti með skuldaviðurkenningu, ber að miða við að hún lúti eigi lakari ávöxtunarkröfu en lán sjóðfélaga frá lífeyrissjóði viðkomandi félags gera. 

 

15. gr.

Lausafjármunir — eignfærsla á áhöldum og tækjum og leiga

Kaup á smááhöldum skulu gjaldfærð á viðkomandi rekstrareiningar í samræmi við almenna reikningsskilavenju. 

Afskriftartími lausafjármuna tekur mið af góðri reikningsskilavenju.

 

16. gr.

Ársreikningar

Stjórn  og framkvæmdastjóri semja ársreikning og samstæðureikning fyrir hvert reikningsár. Meginniðurstöður ársreiknings skulu liggja frammi í starfsstöð  og vera aðgengilegar félagsmönnum fyrir og að loknum aðalfundi.

Ársreikningur og samstæðureikningur gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu og breytingu á hreinni eign og vera í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju.

Ársreikningur geymi rekstrarreikning, efnahagsreikning, yfirlit um sjóðstreymi, skýringar, ásamt áritun stjórnar og löggilts endurskoðenda. Þannig ársreikning ber að semja fyrir hverja rekstrareiningu fyrir sig og/ eða tilgreina rekstrarafkomu hverrar starfsdeildar í skýringum með ársreikningum. 

Samstæðureikningur fyrir aðildarsamtök í heild og fyrirtæki þess sem hafa sjálfstætt reikningshald geri grein fyrir samanlögðum eignum og skuldum, tekjum og gjöldum félagasamstæðunnar í heild, niðurbrotið á hverja rekstrareiningu. Hann sýni innbyrðis viðskipti einstakra rekstrareininga í millireikningi.

Árs- og samstæðureikninga fyrir hvert reikningsár ber að leggja árlega fram til samþykktar á aðalfundi. Ef landssamband heldur ekki aðalfund, ber árlega að leggja fram samstæðureikning eða ársreikning á sambandsstjórnarfundi, undirritaðan af stjórn sambandsins, framkvæmdastjóra og endurskoðanda þess.

Hafi einstakir stjórnarmenn eða framkvæmdastjóri athugasemdir eða fyrirvara gegn ársreikningi, ber þeim að gera formlega grein fyrir því í áritun sinni.

 

17. gr.

Skýringar í ársreikningi

Í skýringum með ársreikningi sem lagður er fram á aðalfundi ber m.a. að gera grein fyrir þeim reikningsskilaaðferðum sem beitt er við gerð ársreikningsins og öðrum þeim atriðum sem nauðsynleg eru við mat á afkomu og fjárhagsstöðu, þar með talið yfirlit um fjárhagslegar skuldbindingar.

Ef hluti af tekjum félagssjóðs er endurgreiddur t.d. vegna þess að lög félagsins kveða á um hámarksiðgjald skal gera grein fyrir því í skýringum þannig að fram komi hverjar tekjurnar eru fyrir endurgreiðslu og heildarupphæð endurgreiðslnanna.

Ef tekjur félagssjóðs ráðast af fastri krónutöl á félagsmann skal gera grein fyrir því í skýringum með ársreikningi þannig að fram komi upphæð iðgjaldsins á mann. Ef félagið innheimtir mismunandi upphæð eftir hópum innan félagsins skal gera sérstaklega grein fyrir því og reikna út vegið meðal krónutöluiðgjald félagsins.

 

18. gr.

Skýrsla stjórnar

Í skýrslu stjórnar komi fram yfirlit um starfsemi á árinu, svo og upplýsingar um atriði sem eru mikilvæg við mat á fjárhagslegri stöðu  og afkomu á reikningsárinu og koma ekki fram annars staðar í ársreikningnum.

Skýrsla stjórnar veiti yfirlit um fjölda iðgjaldagreiðenda á árinu, m.a. fjölda félagsmanna sem að jafnaði greiða iðgjöld með reglubundnum hætti, fjölda lífeyrisþega og annarra er hafa réttindi í félaginu, en greiða ekki iðgjöld. Fjölda starfsmanna, heildarfjárhæð launa, þóknana eða annarra greiðslna til starfsmanna, stjórnar og annarra.

 

19. gr.

Endurskoðun

Endurskoðun ber að framkvæma af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi í samræmi við góða endurskoðunarvenju sem í gildi er á hverjum tíma.

Um tengsl endurskoðanda og félags vísast til laga um um löggilta endurskoðendur eins og þau eru á hverjum tíma, nú lög nr. 79/2008. 

Telji stjórn, trúnaðarráð eða aðalfundur þörf á rekstrarráðgjöf, úttekt á rekstri eða starfsemi ber að fela öðrum þá framkvæmd en löggiltum endurskoðanda aðildarsamtakanna eða því fyrirtæki sem hann starfar fyrir enda sé um umfangs meiri og stærri úttektir að ræða. 

Um endurskoðun hjá félagi gilda ákvæði laga um ársreikninga, nú lög nr. 3/2006 eftir því sem við á.

Verði endurskoðandi var við verulega ágalla í rekstri eða atriði er varða iðgjaldainnheimtu þess, greiðslutryggingar, getu til þess að standa undir skuldbindingum samkvæmt eigin lögum eða reglugerðum, meðferð fjármuna eða önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu, ber honum þegar í stað að gera stjórn viðvart. Það sama á við ef hann hefur ástæðu til að ætla að lög sem fjalla um bókhald og ársreikninga eða reglugerðir er byggja á þeim lögum, eða eigin lög eða reglugerðir  sem starfsemin byggir á hafi verið brotin. Ábendingar og athugasemdir, sem endurskoðendur eða skoðunarmenn vilja koma á framfæri við stjórn eða framkvæmdastjóra, skal skrá í sérstaka endurskoðunarbók eða færa fram skriflega á annan hátt. Stjórnin skal varðveita gögn þessi á öruggan hátt. 

Ákvæði þetta brýtur ekki í bága við þagnarskyldu endurskoðanda.

 

20. gr.

Skoðunarmenn reikninga

Ef ákvæði er í eigin lögum eða reglum um skoðunarmenn ársreikninga eru reikningarnir lagðir fyrir þá ásamt endurskoðunarskýrslu löggilts endurskoðanda til skoðunar og undirritunar áður en stjórn áritar reikninginn. Með áritun sinni á ársreikning skulu skoðunarmenn staðfesta að þeir hafi yfirfarið hann. Þar skal koma fram að eignir þær og skuldir, sem tilgreindar eru í efnahagsreikningi, séu fyrir hendi og að breytingar á eigin fé séu í samræmi við bókhaldið. Þá skulu skoðunarmenn ganga úr skugga um að á reikningsárinu hafi verið farið eftir ákvörðunum félagsfunda og stjórnar um öflun, ráðstöfun og ávöxtun fjármuna og önnur atriði í rekstrinum. Telji skoðunarmaður að svo hafi ekki verið skal hann árita ársreikninginn með viðeigandi athugasemdum. Um skyldur þeirra fer að öðru leyti eftir bókhaldslögum.

 

21. gr.

Skilaskylda til ASÍ

Fyrir lok maímánaðar skulu aðildarsamtökin senda skrifstofu ASÍ ársreikninga sína og sjóða í vörslu þeirra næsta ár á undan, áritaða af löggiltum endurskoðendum í samræmi við góða endurskoðunarvenju. 

 

22. gr.

Gildistaka og heimild

Reglugerð þessi er sett af miðstjórn skv. heimild í 4.mgr. 47.gr. laga ASÍ og gilda í fyrsta sinn um bókhald og ársreikninga aðildarsamtaka ASÍ vegna reikningsársins 2016.

 

Þannig samþykkt á fundi miðstjórnar ASÍ 17.2 2016 eftir kynningu á formannafundi ASÍ 28.10 2015 og umsagnarferli innan aðildarsamtakanna.  

 

 [1] Tilgangur þessa ákvæðis er að gerð sé skýr grein fyrir rekstri (tekjum og gjöldum) þjónustueininga sem ákvæðið tekur til. Ákvæðið á ekki við um að gerður sé sérstakur endurskoðaður ársreikningur vegna þeirra og rekstraryfirlit í skýringum gæti dugað til. 

Reglugerð um leynilega allsherjar atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna aðildarsamtaka ASÍ

I. Kafli

Hvenær er skylt að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu

1. gr. 

Gildissvið

Allsh­erjar­at­kvæða­greiðsla skal fara fram ef:

 

a) fé­lags­fundur sam­þykkir ályktun þar um,

b) fundur fé­lags­stjórnar og trúnaðar­ráðs sam­þykkir ályktun þar um,

c) minnst 1/10 hluti full­gildra fé­lags­manna krefst þess skriflega,

d) við­komandi lands­sam­band eða mið­stjórn ASÍ fyrir­skipar það eða

e) lög ASÍ, viðkomandi aðildarfélags eða landssambands mæla svo fyrir.

 

Ákvæði reglugerðar þessarar eiga eftir því sem við á, um almenna og leynilega afgreiðslu kjarasamninga sbr. 18. gr.

 

ll Kafli

Form og framkvæmd allsherjaratkvæðagreiðslu

 2. gr. 

Form atkvæðagreiðslu

Heimilt er að framkvæma allsherjaratkvæðagreiðslu með atkvæðagreiðslu á  kjörstað/kjörstöðum, með póstatkvæðagreiðslu eða rafrænt

3. gr.

Skipan kjörstjórnar, kærur o.fl.

Við skyldubundna allsherjaratkvæðagreiðslu skv. 1. gr. skal kjör­stjórn skipuð þremur mönnum. Fé­lags­stjórn og trúnaðar­ráð tilnefnir tvo menn en mið­stjórn ASÍ skipar þann þriðja og er hann for­maður kjörstjórnar. Jafn­margir skulu til­nefndir til vara á sama hátt.

Við aðrar allsherjaratkvæðagreiðslur þ.m.t. við afgreiðslu kjarasamninga skal kjörstjórn skipuð skv. ákvæðum laga viðkomandi félags eða sambands en ella skipar félagsstjórn og trúnaðarráð kjörstjórn.

Kjörstjórn ber ábyrgð á undirbúningi og framkvæmd atkvæðagreiðslu skv. reglugerð þessari.

Kjörstjórn skal bóka allar ákvarðanir sínar og niðurstöður. Fulltrúum framboða skv. 5. gr. skal tilkynnt með hæfilegum fyrirvara um fundi kjörstjórnar og skal þeim heimilt að sitja fundi hennar.

Allar kærur vegna undirbúnings og framkvæmdar skal kjör­stjórn úr­skurða að viðstöddum fulltrúum eða umboðsmönnum framboðslista eða frambjóðenda í einstaklingskjöri jafn­skjótt og þær koma fram. Kæru­frestur er til loka kjör­fundar og skal meðferð kærumála lokið áður en úrslit eru tilkynnt.

4. gr.

Trúnaðarmaður kjörstjórnar

Kjörstjórn er heimilt að skipa sérstakan trúnaðarmann sinn, einn eða fleiri, til þess að annast um og bera ábyrgð við undirbúning kosninga og til þess að vera viðstaddan alla framkvæmd kosninganna.

Trúnaðarmaður skal hvorki vera einn frambjóðenda eða meðmælenda ef um stjórnar eða fulltrúakjör er að ræða.

5.gr.

Fulltrúar framboða

Við stjórnar- eða fulltrúakjör er fulltrúum einstakra framboða heimilt að hafa umboðsmann sinn viðstaddan alla framkvæmd kosninga.

6.gr.

Meðmælendur

Til þess að bera fram lista eða tillögu við stjórnar- eða fulltrúakjör, þarf skrif­leg með­mæli eða stuðning ákveðins hluta full­gildra fé­lags­manna skv. reglum hverra aðildarsamtaka fyrir sig, þó ekki fleiri en sem nemur 1/10 hluta félagsmanna en þó aldrei fleiri en 300 né færri en 15.

Frambjóðandi getur verið meðmælandi á lista.

Tillögum stjórnar og trúnaðarráðs, þurfa engin með­mæli að fylgja. Sama á við ef allsherjaratkvæðagreiðsla byggir á e-lið 1. gr.

7. gr. 

Framboðsfrestur o.fl.

Fram­boðs­frestur við stjórnar eða fulltrúakjör skal minnst vera 7 sólar­hringar, og skal listum eða til­lögum skilað til kjör­stjórnar áður en sá frestur er liðinn. Kjörstjórn sér um, að öll kjör­gögn séu fyrir hendi þegar at­kvæða­greiðsla á að hefjast. Komi aðeins fram  einn listi eða ekki tillaga (upp­á­s­tunga) um fleiri en kjósa á, þarf kosning ekki að fara fram.

8. gr. 

Auglýsing atkvæðagreiðslu

 Þegar fram­boðs­frestur er út­runninn og til­lögum eða listum hefur verið skilað, þegar kjarasamningur er tilbúinn til afgreiðslu eða tillaga liggur fyrir um boðun vinnustöðvunar, skal kjör­stjórn auglýsa allsherjar­atkvæðagreiðsluna með upp­festum auglýsingum, auglýsingu í dag­blöðum og/eða í útvarpi, auglýsingu á heimasíðu aðildarsamtakanna eða á annan þann hátt að tryggt sé að fé­lags­menn fái nægi­lega snemma vit­neskju um atkvæðagreiðsluna.

Kjör­stjórn skal í auglýsingunni til­greina stað og stund og hve lengi kosningin stendur dag hvern séu atkvæði greidd á kjörfundi en ella hvenær kjörgögn hafi verið eða verði póstlögð og hvenær þau skuli hafa borist kjörstjórn í síðasta lagi, fari allsherjaratkvæðagreiðsla fram með póstatkvæðagreiðslu eða rafrænt.

9. gr.

Atkvæðagreiðsla á kjörstað

At­kvæ­ða­greiðsla á kjörstað ( kjörfundur ) skal standa yfir a.m.k. í 2 daga, minnst 8 klst. hvorn dag og skal þess gætt, að valinn sé sá tími dagsins er fé­lags­menn eiga hægast með að sækja kjörfund. Upphaf atkvæðagreiðslu á kjörstað skal auglýst með a.m.k. 7 sólarhringa fyrirvara áður en hún hefst.

Með samþykki ASÍ og samkomulagi við gagnaðila eigi kjarasamningur í hlut, er heimilt að ákveða að upphaf atkvæðagreiðslu megi auglýsa með skemmri fyrirvara, þó ekki skemmri en 2 sólarhringa.

Kjör­fundi skal þó lokið, þegar allir fé­lags­menn hafa kosið.

10. gr.

Póstatkvæðagreiðsla

Póstatkvæðagreiðsla skal fram­kvæmd þannig að kjör­stjórn sendir þeim er kosninga­rétt eiga kjörgögn. Þau eru:

 1. Kjörseðill.
 2. Umslag sem skal ómerkt eða merkt “Atkvæðaseðill” (umslag 1).
 3. Umslag foráritað með nafni, kennitölu og heimilisfangi kjósanda (umslag 2).
 4. Sendi­um­slag, þ.e. um­slag með utan­á­skrift kjörstjórnar (umslag 3 ).

Auk kjörgagna skulu fylgja leiðbeiningar um framkvæmd póstkosningar þar sem m.a. komi fram hvernig kjósandi tjáir vilja sinn, hvernig gengið skal frá kjörseðli og hvernig kjörgögnum skuli komið til skila. Taka skal skýrt fram hvaða atvik geti valdið ógildi kjörseðils sbr. m.a. nánari fyrirmæli í 12. gr. Þá skal taka skýrt fram fyrir hvaða tíma kjör­seðill skuli hafa borist kjör­stjórn, en miða skal við að kjósanda berist í hendur kjör­gögn það tíman­lega að ör­uggt sé að kjósandi geti komið kjör­gögnum til kjör­stjórnar innan tíma­marka. Kjörgögn skulu þó póstlögð þannig þegar um skyldubundna atkvæðagreiðslu skv. 1.gr. er að ræða, að a.m.k. 14 dagar líði frá því kjörgögn eru póstlögð og þar til þeim á að hafa verið komið í hendur kjörstjórnar í síðasta lagi.

Með kjörgögnum skal eftir atvikum fylgja kynning framboða, meginefni nýs kjarasamnings eða nákvæm tillaga um boðun vinnustöðvunar.  

Auglýsingar um póstatkvæðagreiðslu skulu birtar eigi síðar en sama dag og kjörgögn eru póstlögð. Kosning fer þannig fram að kjósandi tjáir vilja sinn eins og greinir í 12. gr. Að því loknu setur hann kjör­seðilinn í umslag 1, lokar því og setur í umslag 2. Hann setur umslag 2 þessu næst í umslag 3, sendi­um­slagið og sér um að koma því til skila til kjör­stjórnar innan tilskilins tíma­frests.

Kjörgögn sem kjósendur póstleggja til kjörstjórnar teljast afhent kjörstjórn ef þau eru tilbúin til afhendingar á póststöð (kjörstjórnar) í síðasta lagi við lokun póststöðvar þann dag sem kosningu líkur skv. 3. mgr. Kjósendum eða umboðsmönnum þeirra er heimilt að koma kjörgögnum sjálfir í hendur kjörstjórnar eða trúnaðarmanns kjörstjórnar með afhendingu þeirra á kjörstað. 

11. gr.

Rafræn atkvæðagreiðsla

Rafræn atkvæðagreiðsla skal fram­kvæmd þannig:

 1. að kjör­stjórn sendir þeim er kosninga­rétt eiga kjörgögn en þau eru aðgangslykill að rafrænum kjörseðli eða
 2. að kjörstjórn ákveður og auglýsir atkvæðagreiðslu þar sem aðgangur er veittur að kjörseðli með rafrænum skilríkjum og/eða Íslykli

Ef valin er leið 1, skulu auk aðgangslykils fylgja leiðbeiningar um framkvæmd rafrænnar kosningar þar sem m.a. komi fram hvernig kjósandi tjáir vilja sinn og hvernig atkvæði hans komist til skila og kynningarefni skv. 3.mgr. 10.gr. Taka skal skýrt fram fyrir hvaða tíma atkvæði skuli hafa borist kjör­stjórn, en miða skal við að kjósanda berist í hendur kjör­gögn það tíman­lega að ör­uggt sé að kjósandi geti greitt atkvæði sitt innan tíma­marka. Kjörgögn skulu þó póstlögð þannig, þegar um skyldubundna atkvæðagreiðslu skv. 1.gr. er að ræða, að a.m.k. 7. dagar líði frá því kjörgögn eru póstlögð og þar til atkvæðagreiðslu á að vera lokið.

Ef valin er leið 2, skal auglýsing um atkvæðagreiðslu birt a.m.k. 7 dögum áður en atkvæðagreiðslu líkur. Í henni skal að finna meginefni kynningar skv. 3.mgr. 10.gr. Jafnframt skal öllum atkvæðisbærum með skráð netfang í félagaskrá send tilkynning um atkvæðagreiðslu ásamt hlekk á vefsvæði atkvæðagreiðslunnar. Þá skal tryggja að á viðeigandi vefsvæði atkvæðagreiðslunnar sé að finna leiðbeiningar um framkvæmd hennar og kynningarefni skv. 3.mgr. 10.gr. At­kvæ­ða­greiðsla skal standa yfir a.m.k. í 3 sólarhringa.

Samhliða rafrænni atkvæðagreiðslu, skal kjósendum ætíð gert mögulegt að fá aðgang að viðeigandi tölvubúnaði á kjörstað og skal í því efni farið að ákvæðum 15. gr. reglugerðar þessarar. Þess skal gætt í hvívetna að ekki sé hægt að rekja greidd atkvæði til tiltekins eða tiltekinna kjósenda. 

Komi í ljós við atkvæðagreiðslu að kjósandi hafi þegar nýtt kosningarétt sinn er honum óheimilt að greiða atkvæði að nýju. Greiði kjósandi atkvæði bæði rafrænt og bréflega, hafi slík framkvæmd verið ákveðin, gildir það atkvæði sem greitt var rafrænt.

Verklagsreglur og útbúnaður hér að lútandi skal samþykktur af kjörstjórn hverju sinni. 

12. gr. 

Um kjörseðla

At­kvæ­ða­greiðsla skal vera bundin við þá lista eða þær tillögur (upp­á­s­t­ungur), sem fram koma samkvæmt 6. gr., þann kjarasamning sem í hlut á eða þá tillögu sem gerð er um vinnustöðvun.

Sé kosið listakosningu skal á kjör­s­eðli raða listum eftir þeirri röð, sem þeir berast til kjör­stjórnar. Á hverjum lista skulu vera nöfn jafn­margra og kjósa á. Kjósandi tjáir þá vilja sinn með því að krossa við bók­staf eins listans.

Sé kosið persónubundinni kosningu en þó þannig að einstaklingum er stillt upp undir tilteknum listum skal á kjörseðli raða listum eftir sömu reglu og greinir í 1.mgr. Kjósandi tjáir þá vilja sinn með því að krossa við þá einstaklinga, er hann vill kjósa á einum eða fleiri listum. Þó skal kjósandi aldrei krossa við fleiri nöfn einstaklinga en kjósa skal í hvert embætti.

Sé kosið hreinni persónubundinni kosningu skal á kjörseðli raða frambjóðendum til hvers embættis í stafrófsröð eða draga um röð þeirra. Kjósandi tjáir þá vilja sinn með því að krossa við þá einstaklinga, er hann vill kjósa. Þó skal kjósandi aldrei krossa við fleiri nöfn einstaklinga en kjósa skal í hvert embætti. 

13. gr.

Hverjir hafa atkvæðisrétt

Allir fullgildir félagsmenn njóta atkvæðisréttar. Geymi lög félags ekki sérstök ákvæði um hverjir teljast skuli fullgildir félagsmenn, skulu þeir fé­lags­menn hafa at­kvæðis­rétt, sem ekki skulda félagsgjald um áramót fyrir meira en eitt ár nema þrengri eða rýmri ákvæði séu þar um í lögum við­komandi fé­lags.

Við atkvæðagreiðslu um kjarasamninga og boðun vinnustöðvunar er félagsstjórn eða kjörstjórn að höfðu samráði við félagsstjórn heimilt að veita aukafélögum atkvæðisrétt. Við boðun vinnustöðvunar er félagsstjórn jafnframt heimilt að binda atkvæðisrétt við þá félagsmenn sem henni er ætlað að taka til.

Eftir að at­kvæða­greiðsla hefur verið auglýst, má ekki veita nýjum félagsmönnum viðtöku í fé­lagið með at­kvæðis­rétti, en þeir sem skulda geta öðlast at­kvæðis­rétt, ef þeir greiða skuld sína áður en at­kvæða­greiðsla hefst. Þá er auka­fé­lögum heimilt að gerast full­gildir fé­lagar á sama tíma­bili, enda upp­fylli þeir að öðru leyti inn­töku­skil­yrði  við­komandi fé­lags. 

14. gr. 

Kjörskrá, aðgangur og kærur

Kjör­stjórn skal sjá um, að kjör­s­krá ás­amt lista yfir þá fé­lags­menn, sem ekki eru á kjör­s­krá vegna skulda, sé til­búin þegar at­kvæða­greiðsla er auglýst, og skal hvoru tveggja liggja frammi frá þeim tíma og þar til at­kvæða­greiðslu er lokið, á einhverjum þeim stað, er fé­lags­menn hafa greiðan að­gang að.

Með­mælendur hvers lista eða tillögu (upp­á­s­t­ungu)  hafa rétt til að fá sameiginlega eitt af­rit af kjör­s­krá ás­amt skulda­lista, um leið og at­kvæða­greiðsla er auglýst. Óheimilt er að afrita kjörskrá og/eða dreifa með nokkrum hætti og kunna brot að sæta brottvikningu frambjóðanda úr kosningu eða ógildi kosningar lista eða einstaklings.

Allar kærur vegna  kjör­s­krár skal kjör­stjórn úr­skurða að viðstöddum fulltrúum eða umboðsmönnum framboðslista eða frambjóðenda í einstaklingskjöri jafn­skjótt og þær koma fram. Kæru­frestur er til loka kjör­fundar. 

15. gr.

Um kjörstaði

Kjörstaður skal vera starfsstöð eða aðsetur viðkomandi félags nema kjörstjórn ákveði annað. Hafi félagið fleiri en eina starfsstöð er heimilt að hafa kjörstað opinn í hverri þeirra.   

Óheimilt er að við­hafa nokkurn kosninga­áróður á kjör­s­tað eða við hann. 

16. gr. 

Um kjörkassa

Fyrir upphaf kjörfundar eða útsendingu kjörgagna innsiglar kjörstjórn kjörkassa með viðeigandi hætti og rífur sjálf þau innsigli við upphaf talningar atkvæða. 

17. gr. 

Talning atkvæða

Kjör­stjórn sér um talningu at­kvæða að kjör­fundi loknum. Um­boðs­menn hvers lista eða tillögu (upp­á­s­t­ungu) skulu hafa rétt til að hafa full­trúa sinn við talningu atkvæða.

Auðir seðlar og ógildir teljast með greiddum atkvæðum en við talningu atkvæða skulu auð og ógild atkvæði lögð til hliðar og ekki tekið tillit til þeirra við útreikning á vægi atkvæða.

Upplýst skal um fjölda auðra og ógildra atkvæða þegar niðurstaða atkvæðagreiðslu er kynnt.

 

III. Kafli

Almenn allsherjaratkvæðagreiðsla um kjarasamning og boðun vinnustöðvunar  

18.gr.

Hvað er “almenn leynileg póstatkvæðagreiðsla”

Við atkvæðagreiðslu um kjarasamning eða boðun vinnustöðvunar, telst “almenn leynileg póstatkvæðagreiðsla” í skilningi l. 80/1938 vera atkvæðagreiðsla framkvæmd í samræmi við ákvæði 10.gr. eða 11.gr. reglugerðar þessarar. 

IV. Kafli

Önnur ákvæði

19. gr. 

Lausn ágreiningsmála 

Rísi  ágreiningur út af skilningi á reglu­gerð þessari, úr­skurðar mið­stjórn ASÍ ágreininginn.

Ákvörðun kjörstjórnar um brottvikningu frambjóðanda úr kosningu eða ógildi kosningar lista eða einstaklings vegna brota gegn ákvæðum 2.mgr. 14.gr. eru kæranlegar til miðstjórnar ASÍ.   

20.gr.

Reglugerðarheimild 

Reglu­gerð þessi er sett sam­kvæmt 33. grein laga Al­þý­ðu­s­am­bands Ís­lands og gildir fyrir öll aðildarsamtök  ASÍ og deildir þeirra.

Þannig samþykkt með áorðnum breytingum  á fundi miðstjórnar Alþýðusambands Íslands 20. desember 2017

 

 

 

Kosningar á félagsfundum

1. grein

1.   Kosning á félagsfundum skal ávallt vera um einstaklinga og listakosning því óheimil.

2.   Kosning skal vera bundin við uppástungur.

3.   Komi aðeins fram ein uppástunga, telst viðkomandi einstaklingur sjálfkjörinn.

Viðmiðunarreglugerð fyrir sjúkrasjóði aðildarfélaga ASÍ

Viðmiðunarreglugerð þessi geymir annars vegar ákvæði sem skuldbindandi eru skv. lögum ASÍ og hins vegar almenna viðmiðun um hentuga og lýsandi reglugerð fyrir sjúkrasjóði. Þau ákvæði reglugerðarinnar sem byggjast á lögum ASÍ, en þar er fyrst og fremst um að ræða 42.gr. laga ASÍ sbr. 12.gr. reglugerðarinnar, að undanteknu ákvæði 12.11, eru skuldbindandi.


1. gr. Nafn sjóðsins og heimili

1.1Sjóðurinn heitir Sjúkra­sjóður NN, skamm­stafað Sjúkra­sjóður NN.

1.2Sjúkra­sjóður NN er stofnaður sam­kvæmt samningi NN og XX [eða] (Með til­vísun til laga nr. 19, 1. maí 1979 og sjóða félaga sem sameinaðir voru sjúkrasjóði.)

1.3 Sjúkra­sjóður NN er eign NN. Heimili hans og varnar­þing er í BB.

2. gr. Verk­efni sjóðsins

2.1Verk­efni sjóðsins er að veita sjóðs­fé­lögum Sjúkra­sjóðs NN fjár­hags­að­stoð í veikinda-, slysa- og dá­nar­t­il­vikum. Sjóðsfélagar eru þeir sem greitt hafa, eða fyrir þá hafa verið greidd, iðgjöld til sjóðsins.

2.2Verk­efni sjóðsins er ennfremur að vinna að fyrir­byggjandi að­gerðum sem snerta öryggi og heilsu­far.

3. gr. Tekjur

3.1Tekjur sjóðsins eru skv. kjarasamningi NN sbr. 7. gr. laga nr. 19/1979, samnings­bundin gjöld atvinnu­rek­enda til sjóðsins.

3.2.Vaxta­tekjur og annar arður.

3.3Gjafir, fram­lög og styrkir.

3.4Aðrar tekjur sem að­al­fundur fé­lagsins/sjóðsins kann að ákveða hverju sinni.

4. gr. Stjórn og rekstur

4.1Stjórn sjóðsins skal kosin með sama hætti og stjórn NN (eða á að­al­fundi NN eða á að­al­fundi sjóðsins) og ber stjórnin ábyrgð á öllum fjár­reiðum sjóðsins.

4.2Stjórnun sjóðsins skal vera í sam­ræmi við þau sjónar­mið sem gilda skv. almennum stjórn­sýslu­reglum.

4.3Heimilt er að fela skrif­stofu NN fjár­reiður og um­sjón með sjóðnum. Þó skal halda bók­haldi sjóðsins að­skildu frá öðrum fjár­reiðum NN.

4.4Ávallt skulu liggja fyrir gögn um rétt einstaklings til greiðslu úr sjóðnum.

5. gr. Bókhald, reikningar og endur­skoðun

5.1 Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram áritaðir af fé­lags­legum skoðunar­mönnum og lög­giltum endur­skoðanda fyrir að­al­fund NN (að­al­fund sjóðsins).

5.2Endurskoðun ber að framkvæma af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi í samræmi við góða endurskoðunarvenju sem í gildi er á hverjum tíma.

5.3Í ársreikningi eða skýringum með honum skal sundurliða sérstaklega kostnað vegna hvers og eins bótaflokks skv. 12.gr.

5.4Um bókhald, reikninga og endurskoðun fer að öðru leyti skv. viðmiðunarreglum um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda sbr. 2.mgr. 42.gr. laga ASÍ eins og þær reglur eru á hverjum tíma.

6. gr. Út­tekt óháðra eftir­lits­aðila

6.1 Ár hvert, eigi síðar en 31. maí, skulu endurskoðaðir ársreikningar sjóðsins sendir skrifstofu ASÍ.

6.2Fimmta hvert ár að minnsta kosti skal stjórn sjóðsins fá trygginga­fræðing eða lög­giltan endur­skoðanda til þess að meta fram­tíðar­stöðu sjóðsins og semja skýrslu til stjórnar um at­hugun sína. Stjórn sjóðsins skal senda mið­stjórn ASÍ út­tekt þessa með árs­reikningi sjóðsins.

6.3Við mat á fram­tíðar­stöðu sjóðsins skal til­greina rekstrar­kostnað, ávöxtun sjóðsins og hvort sjóðurinn geti staðið við skuld­bindingar sínar. Sér­staka grein skal gera fyrir áhrifum á af­komu sjóðsins vegna ákvarðana skv. greinum 12.8 og 12.9

6.4Geti sjóðurinn ekki staðið við skuld­bindingar sínar skv. niðurstöðu út­tektarinnar ber stjórn sjóðsins að leggja fyrir að­al­fund tillögu að breytingu á reglu­gerð sem tryggir að sjóðurinn geti staðið við skuld­bindingar sínar.

7. gr. Ávöxtun sjóðsins

7.1Heimilt er að ávaxta fé sjóðsins með eftir­far­andi hætti;

a)í ríkis­skulda­bréfum eða skulda­bréfum sem tryggð

eru með ábyrgð ríkis­sjóðs,

b)með kaupum á markaðs­skráðum verð­bréfum,

c)í bönkum eða spari­sjóðum,

d)í fas­t­eignum tengdum starf­semi sjóðsins,

e)á annan þann hátt er stjórn sjóðsins metur tryggan sbr. 11.gr. viðmiðunarreglna um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda eins og þær eru á hverjum tíma sbr. 41.gr. laga ASÍ.

8. gr. Ráð­stöfun fjár­muna

8.1a)Ávallt skal þess gætt að ráð­stöfun fjár­muna sjóðsins brjóti ekki í bága við til­gang hans eða verk­efni.

b)Þegar um er að ræða ráð­stöfun fjár­muna til verk­efna sem ekki falla undir megintil­gang sjóðsins með beinum hætti skal tryggt að um eðli­lega ávöxtun þess fjár­magns sé að ræða, sbr. a, b og c lið greinar 7.1.

9. gr. Grund­völlur styrk­veitinga úr sjúkra­sjóði

9.1Rétt til styrk­veitinga úr sjóðnum eiga þeir sem full­nægja eftir­töldum skil­yrðum, sbr. þó 10. gr.

9.2 Einungis þeir sem sannan­lega greiða eða er greitt af til sjóðsins og verið er að greiða fyrir til sjóðsins þegar réttur til að­stoðar myndast.

9.3 Þeir sem greidd hafa verið af til sjóðsins 1% iðgjöld í a.m.k. 6 mánuði.

9.4 Hafi um­sækjandi verið full­gildur aðili í sjúkra­sjóði annars fé­lags innan ASÍ þar til hann byrjar greiðslu til sjóðsins, sbr. 10. gr.

9.5Hafi iðgjöld til sjúkrasjóðs ekki verið greidd vegna sjóðfélaga, en hann getur fært sönnur á, að félagsgjöld til viðkomandi aðildarfélags hafi samkvæmt reglulega útgefnum launaseðlum verið dregin af launum hans síðustu 6 mánuði, skal hann njóta réttar eins og iðgjöld til sjúkrasjóðs hafi verið greidd.

10. gr. Sam­skipti sjúkra­sjóða

10.1Sá sem öðlast hefur rétt til greiðslu sjúkra- og slysa­dag­peninga úr sjúkra­sjóði eins verka­lýðs­fé­lags, öðlast þann rétt hjá nýjum sjóði skv. þeim reglum sem þar gilda eftir að hafa greitt í þann sjóð í einn mánuð, enda hafi hann fram að því átt rétt hjá fyrri sjóðnum.

10.2Vinni maður á fleiri en einum vinnu­stað og hafi verið greitt í fleiri en einn sjúkra­sjóð þegar sótt er um greiðslu, skal um­sækjandi greina frá því í hvaða sjóði hann hefur greitt og er heimilt að fresta greiðslu bóta þangað til fyrir liggur stað­festing annarra sjóða á því að um­sækjandi hafi ekki sótt um greiðslur þaðan. Sjúkra­sjóðurinn skal leita slíkrar stað­festingar og gefa síðan öðrum sjóðum yfir­lit yfir þær bætur sem greiddar eru vegna um­sækjandans, tegund og fjár­hæð bóta.

11. gr. Geymd réttindi

11. 1Heimilt er að veita þeim sem gengst undir starfs­þjálfun, sækir nám­skeið eða stundar nám í allt að 24 mánuði og hefur síðan aftur störf á samningssviði aðildarfélaga ASÍ, endur­nýjaðan bóta­rétt þegar greitt hefur verið til sjóðsins í einn mánuð, hafi um­sækjandi áður verið full­gildur sjóð­fé­lagi. Sama gildir um þá sem hverfa frá vinnu vegna veikinda eða af heimilis­á­st­æðum.

11.2Þeir sjóðfélagar sem fara í lögbundið fæðingarorlof halda áunnum réttindum sínum hefji þeir þegar að loknu fæðingarorlofi aftur störf á samningssviði aðildarfélaga ASÍ enda ákveði viðkomandi að viðhalda rétti sínum með greiðslu félagsgjalds í fæðingarorlofi.

12. gr. Styrk­veitingar

12.1Dagpeningar í veikinda- og slysaforföllum í 120 daga (4 mánuði), að loknum greiðslum skv. veikinda- og slysaréttarákvæðum kjarasamninga. Dagpeningar skulu að viðbættum bótum almannatrygginga, greiðslum úr slysatryggingu launafólks eða annarri lögbundinni tryggingu, ekki nema lægri fjárhæð en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.

12.2Dagpeninga í 90daga (3 mánuði), að loknum kjarasamningsbundnum greiðslum launagreiðanda vegna langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum. Með langveikum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlegan og/eða langvinnan sjúkdóm og þarfnast sérstakrar umönnunar. Með alvarlega fötluðum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlega greindarskerðingu, geðraskanir eða alvarlega líkamlega hömlun og þarfnast sérstakrar umönnunar.

12.3Dagpeninga í 90 daga (3 mánuði) vegna mjög alvarlegra veikinda maka. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.

12.4 d. Eingreiddar dánarbætur við andlát virks og greiðandi sjóðfélaga sem nemi 360.000.- krónum m.v. starfshlutfall hans. Rétthafar bóta eru maki sjóðfélaga og börn hans undir 18 ára aldri. Bótafjárhæð miðast við vísitölu neysluverðs pr. 1.1 2017 og tekur sömu breytingum og hún.

12.5 Daga fjölda greiddra dagpeninga skv. 12.1 lið, til þeirra sem greitt er hlutfallslega lægra iðgjald af en 1%, er heimilt að skerða í sama hlutfalli og iðgjaldið er lægra en 1%.

12.6 Dagpeninga skv. 12.1, 12.2 og 12.3 er heimilt að miða við meðaltal heildarlauna á síðustu 12 mánuðum í stað síðustu 6 mánaða, hafi tekjur sjóðfélaga breyst verulega til hækkunar eða lækkunar á viðmiðunartímabilinu. Jafnframt er heimilt að ákveða hámark dagpeninga skv. 12.1, 12.2 og 12.3 sem þó sé ekki lægra en 250.000.- á mánuði miðað við launavísitölu pr. 1.7 2006 og tekur fjárhæðin sömu breytingum og hún.

12.7 Réttur skv. 12.1, 12.2 og 12.3 endurnýjast á hverjum 12 mánuðum, hlutfallslega eftir því sem hann er nýttur, talið frá þeim degi sem dagpeningagreiðslum líkur hverju sinni og greiðslur iðgjalda hefjast að nýju.

12.8Heimilt er stjórn sjóðsins að veita styrki til sjóðs­fé­laga í formi for­varnar- og endur­hæfingar­styrkja og styrkja vegna sjúkra- og slysa­kostnaðar.

12.9Styrkir til stofnana og fé­laga­sam­taka skulu ákveðnir af stjórn sjóðsins hverju sinni skv. gr. 2.2.

12.10Við ráð­stöfun fjár­muna skv. 12.8 og 12.9 skal þess gætt að mögu­leiki sjóðsins til að standa við upp­haf­legar skuld­bindingar sínar vegna sjúk­dóma og slysa skerðist ekki. Í reglu­legri út­tekt á af­komu sjóðsins, skv. 6. gr., skal út­tektar­aðili skoða þennan þátt sér­stak­lega.

12.11Slysadagpeningar skv. grein þessari greiðast ekki vegna bótaskyldra slysa og atvinnusjúkdóma, þ.m.t. bifreiðaslysa, þar sem bætur greiðast skv. skaðabótalögum.

13. gr. Lausn frá greiðslu­skyldu

13.1Ef far­s­óttir geisa getur sjóðs­stjórn leyst sjóðinn frá greiðslu­skyldum sínum um stundar­sakir. Einnig getur sjóðs­stjórn ákveðið að lækka um stundar­sakir upp­hæð dag­peninga ef af­komu sjóðsins virðist hætta búin.

14. gr. Til­högun greiðslna úr sjóðnum

14.1Af­greiðsla sjóðsins skal vera á skrif­stofu (NN) og greiðir ­sjóðurinn allan kostnað sem af rekstri hans leiðir.

14.2 Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um fyrir­komu­lag á greiðslu dag­peninga og aðra starfs­til­högun.

14.3 Stjórn sjóðsins og starfs­menn hans skulu hafa að leiðar­ljósi almennar stjórn­sýslu­reglur um með­ferð upp­lýsinga um um­sóknir og af­greiðslu sjóðsins.

14.4 Um­sóknum skal skilað á því formi sem stjórn sjóðsins ákveður og þeim fylgi nauðsyn­leg vott­orð sem tryggja rétt­mæti greiðslna.

15. gr. Fyrning bótaréttar

15.1Réttur til dagpeninga í veikinda og slysaforföllum skv. gr.12.1 og 12.4 fellur niður sé þeirra ekki vitjað innan 12 mánaða frá því rétturinn stofnaðist.

15.2Réttur til styrkja skv. reglugerð þessari fellur að öðru leyti niður sé þeirra ekki vitjað innan (X) mánaða frá því rétturinn stofnaðist.

16. gr. Endur­greiðsla iðgjalda

16.1Iðgjöld til ­sjóðsins endur­greiðast ekki.

17. gr. Upp­lýsinga­skylda

17.1Stjórn sjóðsins er skylt að upp­lýsa sjóðs­fé­laga um rétt þeirra til að­stoðar sjóðsins á aðgengilegan hátt m.a. með út­gáfu bæklinga, dreifi­rita og/eða á heimasíðu félagsins.

18. gr. Breyting á fjár­hæðum og styrkjum

18.1 Stjórn sjóðsins skal leggja fyrir að­al­fund breytingar á al­mennum reglum um fjár­hæðir styrkja sem sjóðurinn greiðir.

19. gr. Breytingar á reglu­gerðinni

19.1Breytingar á reglu­gerðinni verða að­eins gerðar á að­al­fundi og þurfa þær að vera sam­þykktar með meirihluta greiddra at­kvæða fundarins. Slíkrar tillögu skal getið í fundar­boði.

19.2Breytingar á reglugerðinni skulu sendar skrifstofu ASÍ þegar og þær hafa verið samþykktar á aðalfundi.

 

Þannig samþykkt á fundi miðstjórnar ASÍ þann 8. febrúar 2006. Grein 12.6 breytt til samræmis við breytingar á f. lið 42.gr. laga ASÍ á ársfundi ASÍ 2008.

Starfsreglur vegna afgreiðslu á reglugerðum sjúkrasjóða og um mat á framtíðarstöðu 

I kafli.

Skil á reglugerðum og reglugerðarbreytingum

1. gr.

Aðildarfélögum ASÍ ber að senda miðstjórn ASÍ til staðfestingar, frumreglugerð fyrir sjúkrasjóði sína en síðari breytingar ber þeim að senda skrifstofu ASÍ.

2. gr.

Frumreglugerð skal lögð fyrir miðstjórn svo fljótt sem við verður komið ásamt umsögn Skipulags- og starfsháttanefndar og tillögu um afgreiðslu.

3. gr.

Breytingar á reglugerðum skulu lagðar fyrir Skipulags- og starfsháttanefnd svo fljótt sem við verður komið, ásamt umsögn skrifstofunnar. Séu breytingar ekki skýrt greindar skal reglugerðin í heild sinni skoðuð eins og um nýja reglugerð sé að ræða.

4. gr.

Tilkynna skal viðkomandi sjúkrasjóði um afgreiðslu Skipulags- og starfsháttanefndar og eftir atvikum um afgreiðslu miðstjórnar svo fljótt sem verða má.

5. gr.

Komi í ljós að einhver ákvæði sjúkrasjóðsreglugerðar aðildarfélags eru í andstöðu við lög ASÍ skal Skipulags- og starfsháttanefnd óska eftir nánari skýringum viðkomandi sjóðs, komi þær ekki fram í þeim gögnum sem þegar liggja fyrir.

Telji Skipulags- og starfsháttanefnd reglugerðina eða einstök ákvæði hennar ekki standast lágmarksákvæði laga ASÍ skal hún leggja málið fyrir miðstjórn ásamt umsögn sinni og tillögu um afgreiðslu.

Miðstjórn skal í afgreiðslu sinni taka afstöðu til þess hvort reglugerðin eða einstök ákvæði hennar standist lög ASÍ eða ekki.

Séu einhver ákvæði reglugerðarinnar ekki staðfest skal miðstjórn tilkynna viðkomandi sjúkrasjóði og öllum stjórnarmönnum viðkomandi aðildarfélags, að um þau tilteknu atriði gildi lög ASÍ þar til úr hafi verið bætt. Afrit slíkrar tilkynningar skal jafnframt send viðkomandi landssambandi.

II kafli.

Skil á mati á framtíðarstöðu  

6. gr.

Samkvæmt 3.mgr. 49.gr. laga ASÍ ber aðildarfélögum ASÍ reglulega að skila til skrifstofu ASÍ mati á framtíðarstöðu sjúkrasjóða sinna, í fyrsta sinn 2007 vegna reikningsársins 2006 og síðan á fimm ára fresti.

7. gr.

Skrifstofa ASÍ gerir Skipulags- og starfsháttanefnd grein fyrir innsendum matsniðurstöðum ásamt tillögu sinni um afgreiðslu.

8. gr.

Verði veruleg vanhöld á skilum aðildarfélags eða beri mat á framtíðarstöðu með sér, að sjúkrasjóður geti ekki staðið við skuldbindingar sínar skv. 49.gr. laga ASÍ eða verulegar athugasemdir eru við stöðu og/eða reikningshald sjóðsins skal Skipulags- og starfsháttanefnd þegar í stað gera miðstjórn aðvart. Um málsmeðferð eftir það fer skv. starfsreglum um framkvæmd 11.gr. laga ASÍ.

Þannig samþykkt í miðstjórn ASÍ 9.1 2013.

Samhliða falla úr gildi „Starfsreglur vegna umsagna og afgreiðslu á reglugerðum sjúkrasjóða“ frá 24.5 2006.

Starfsreglur vegna umsagna Laganefndar ASÍ

 

1. gr.

Aðildarsamtökum ASÍ (landssamböndum og öllum einstökum aðildarfélögum) ber senda miðstjórn ASÍ til staðfestingar allar breytingar sem gerðar eru á lögum þeirra.

2. gr.

Breytingarnar skulu lagðar fyrir miðstjórn svo fljótt sem við verður komið ásamt umsögn Laganefndar ASÍ og tillögu um hvort staðfesta beri breytinguna alveg, að hluta, að engu leyti eða með tilmælum um lagfæringar.

 

3. gr.

Aðildarsamtökin skulu sérgreina sérstaklega þær breytingar sem gerðar er þannig að skýrt komi fram hvernig viðkomandi ákvæði hljóðaði áður og hvernig það hljóðar nú ef um breytingu á eldra ákvæði er að ræða. Jafnframt skulu fylgja lög aðildarsamtakanna í heild eins og þau eru eftir breytingar.

 

4. gr.

Komi ekki fram hvaða ákvæðum laganna er breytt eða ef um ný lög í stað eldri er að ræða án þess að getið sé um hvaða efnisbreytingar gerðar séu, skal Laganefnd þegar í stað óska eftir því að breytingarnar séu sérgreindar í samræmi við 3.gr.

 

5. gr.

Sé einhverjum þeim lagaákvæðum breytt er varða samningssvið eða samningssvæði viðkomandi samtaka skal laganefnd senda öllum Landssamböndum innan ASÍ og félögum með beina aðild eftir því sem við á, afrit breytinganna með tilkynningu um að viðkomandi samtök hyggist breyta lögum sínum. Komi fram athugasemdir í kjölfarið skal þess getið í umsögn Laganefndar að viðkomandi lagaákvæði geti skarað samnings- eða félagssvæði annarra aðildarsamtaka ASÍ.

 

6. gr.

Að lokinni afgreiðslu í miðstjórn ASÍ skal tilkynna viðkomandi samtökum niðurstöðu miðstjórnarinnar.

 

Þannig samþykkt í miðstjórn ASÍ 2001.

 

Reglur um boðun varamanna á fundi miðstjórnar ASÍ

Við boðun varamanna á miðstjórnarfundi skulu eftirfarandi reglur viðhafðar:

1. Miðstjórnarmenn tilkynni forföll á miðstjórnarfundum til skrifstofu Alþýðusambandsins eins fljótt og kostur er. Slíkt auðveldar mjög boðun varamanna.

2. Megin reglan er sú að miðstjórnarmaður sem forfallast láti skrifstofu ASÍ vita þegar hún/hann tilkynnir forföll, hvaða varamann skuli boða í staðinn. Þetta fyrirkomulag er einfaldast og skilvirkast í framkvæmd.

3. Óski miðstjórnarmaður sem forfallast ekki eftir að neinn sérstakur sé boðaður í hans stað, verða varamenn boðaðir eftir þeirri röð sem þeir eru skráðir skv. tillögu kjörnefndar eða kosnir ef um kosningu er að ræða. Byrjað er að boða þann sem er fremstur á listanum og síðan haldið niður listann. Þessi aðferð er framkvæmd þannig að farið er alla leið niður listann áður en sá fremsti er boðaður öðru sinni. Reglan sbr. tölulið 2 hér að framan hefur ekki áhrif á framkvæmdina hér.

 Samþykkt í miðstjórn ASÍ 5. september 2001 (uppfært í október 2014)

Reglugerð fyrir starfsemi skrifstofu ASÍ

Reglugerð fyrir starfsemi skrifstofu ASÍ

1. gr.

Skrifstofa Alþýðusambands Íslands skal undirbúa og hrinda í framkvæmd ákvörðunum sambandsþinga ASÍ og kjörinnar forystu sambandsins, miðstjórnar og forseta.

2. gr.

Miðstjórn samþykkir starfs- og fjárhagsáætlun fyrir skrifstofu ASÍ fyrir hvert starfsár.

Miðstjórn skipar starfsnefndir sem vinna með skrifstofunni að undirbúningi og framkvæmd stefnu Alþýðusambands Íslands á milli sambandsþinga. Miðstjórn skipar fulltrúa úr sínum hópi til starfa með nefndunum í samræmi við nánari reglur sem miðstjórn setur.

Við skipan í nefndir og ráðningu starfsmanna á skrifstofu skal leitast við að hlutdeild karla og kvenna verði sem jöfnust.

3. gr.

Forseti er fulltrúi miðstjórnar á skrifstofu ASÍ og starfar í umboði hennar.

Varaforseti er staðgengill forseta.

4. gr.

Stjórnun á daglegri starfsemi skrifstofu ASÍ skal vera í höndum forseta og framkvæmda­stjóra í umboði miðstjórnar.

Forseti kemur fram fyrir hönd Alþýðusambandsins innan og utan hreyfingarinnar í stærri málum.

Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegri starfsemi skrifstofunnar sem byggir á starfs- og fjárhagsáætlun sem samþykkt er af miðstjórn.

5. gr.

Ramminn fyrir skipulag starfsemi skrifstofu ASÍ skal vera með þeim hætti sem sýnt er á eftirfarandi skipuriti.

 

aa

 

6. gr.

Miðstjórn setur nánari reglur um skipulag og starfsemi skrifstofu ASÍ.

Fastanefndir ASÍ og skipun þeirra

Fastanefndir ASÍ og skipun þeirra

Nefndirnar undirbúa stefnumótun og ákvarðanatöku á vettvangi miðstjórnar ASÍ og þinga sambandsins og fylgja eftir samþykktum miðstjórnar og þinga.

 

Málefnanefndir:

Alþjóðanefnd

Norrænt samstarf, samstarf á Evrópuvísu og alþjóðasamstarf, þ.m.t. Alþjóða vinnumálastofnunin (ILO). Upplýsingamiðlun/upplýsingaskipti og samráð við aðildarsamtök ASÍ um alþjóðasamstarf.


Efnahags-, skatta- og atvinnumálanefnd 

Umfjöllun um efnahags- og skattamálin með sérstakri áherslu á jöfnuð og útfærslu skattkerfisins. Stefnumótun og starf að atvinnumálum almennt og stefnumótun í byggðamálum sérstaklega.


Húsnæðisnefnd

Umfjöllun um húsnæðismál og fjármögnun; félagslega húsnæðiskerfið, almenna húsnæðiskerfið og séreignarfyrirkomulag.


Jafnréttis- og vinnumarkaðsnefnd

Stefnumótun og starf að jafnréttis- og fjölskyldumálum. Málefni útlendinga. Frumkvæði og eftirlit með setningu laga og reglna á sviði vinnuréttar þ.m.t. vinnuverndar, vinnulöggjöfin og leikreglur á vinnumarkaði.


Lífeyris-, heilbriðis og trygginganefnd

Stefnumótun í lífeyris- og heilbrigðismálum og almannatryggingum.


Mennta- og kynningarnefnd

Stefnumótun um menntamál, félagslega fræðslu og kynningarmál ASÍ og starf að mennta- og fræðslumálum almennt.


Umhverfis- og neytendanefnd

Stefnumótun og starf að umhverfis- og loftslagsmálum almennt og með sérstöku tilliti til þróunar atvinnumála, auðlindanýtingar, atvinnuuppbyggingar og neytendamála.

 

Nefndir fyrir innri málefni:

Laganefnd

Nefndin undirbýr umsagnir miðstjórnar vegna laga aðildarfélaganna og reglugerðir sjúkrasjóða.

Nefndin starfar í nánu samstarfi við skipulags- og starfsháttanefnd og skal að jafnaði skipuð 3 miðstjórnarmönnum sem jafnframt eigi sæti í skipulags- og starfsháttanefnd.

Skipaður starfsmaður nefndarinnar er lögmaður ASÍ.

Starfs- og fjárhagsnefnd

Skipuð þremur miðstjórnarmönnum. Verkefni nefndarinnar er að starfa með forsetum ASÍ og framkvæmdastjóra við undirbúning að gerð og kynningu á starfs- og fjárhagsáætlun sambandsins fyrir næstkomandi ár. Fulltrúar miðstjórnar í starfs- og fjárhagsnefnd skipa jafnframt launanefnd ASÍ sem heyrir beint undir forseta.

Skipulags- og starfsháttanefnd

Fylgja eftir lögum ASÍ og móta starfsreglur og framkvæmd vegna þeirra. Vettvangur umfjöllunar um gerð og þróun samstarfssamningsins.

 

Skipun í nefndir:

Miðstjórn skipar einn fulltrúa í hverja nefnd og tvo kjörna starfsmenn. Landssamböndin innan ASÍ skipa hvert um sig einn fulltrúa og annan til vara í hverja nefnd og félög með beina aðild einn fulltrúa sameiginlega og annan til vara.

Þá á  ASÍ-UNG rétt til að tilnefna fulltrúa í allar málefnanefndir. Fulltrúar ASÍ-UNG skulu fá send fundarboð og fundargerðir viðkomandi málefnanefndar, sem og önnur gögn er varða starfsemi nefndarinnar til jafns við nefndarmenn.

 

Starfsreglur:

Nefndunum eru settar starfsreglur sem samþykktar eru af miðstjórn.

 

 

Starfsreglur fyrir fastanefndir hjá ASÍ

Hlutverk málefnanefnda ASÍ,

samsetning og starfsreglur

Samþykkt í miðstjórn ASÍ 7. nóvember 2018

 

Hlutverk málefnanefnda ASÍ

Nefndirnar undirbúa stefnumótun og ákvarðanatöku á vettvangi miðstjórnar ASÍ og þinga sambandsins og fylgja eftir samþykktum miðstjórnar og þinga.

Málefnanefndirnar eru mikilvægur og formlegur vettvangur samráðs milli landssambandanna, félaga með beina aðild og ASÍ-UNG um stefnumótun á vettvangi ASÍ. Þannig skipa landssamböndin, félögin með beina aðild sameiginlega, og ASÍ-UNG fulltrúa sína beint (en tilnefna t.d. ekki einstaklinga gagnvart miðstjórn) í málefnanefndirnar og miðstjórn skipar á móti einn fulltrúa úr sínum röðum auk kjörinna starfsmanna.

Málefnanefndir skulu gera tillögu til miðstjórnar um helstu áherslur og verkefni í þeim málaflokki/málaflokkum sem heyra undir viðkomandi nefnd. Þau málefni sem miðstjórn ASÍ ákveður að leggja fyrir þing sambandsins skulu að jafnaði undirbúin af viðkomandi málefnanefndum í samráði við miðstjórn.

Miðstjórn ASÍ ákveður hvaða málefnanefndir starfa á vettvangi ASÍ, skilgreinir verksvið þeirra og setur þeim starfsreglur.

Málefnanefndir gegna ráðgefandi hlutverki gagnvart miðstjórn og hafa því ekki umboð til að álykta sjálfstætt um einstaka málefni.

 

Skipun í málefnanefndir ASÍ.

Miðstjórn skipar einn fulltrúa í hverja nefnd og kjörinn starfsmann. Landssamböndin innan ASÍ skipa hvert um sig einn fulltrúa og annan til vara í hverja nefnd og félög með beina aðild einn fulltrúa sameiginlega og annan til vara. Þá á  ASÍ-UNG rétt til að tilnefna fulltrúa í allar málefnanefndir.

Landssamböndum, félögum með beina aðild sameiginlega og ASÍ-UNG er heimilt að skipta um fulltrúa í nefndum hvenær sem er á starftímanum og skal þá tilkynna breytinguna til skrifstofu ASÍ. Breytingin tekur gildi þegar tilkynning hefur borist.

 

Um hlutverk og umboð nefndarmanna

Fulltrúi miðstjórnar er tengiliður á milli miðstjórnar og viðkomandi nefndar og skal hann tryggja að sjónarmið og áherslur miðstjórnar komi fram í starfi nefndarinnar eftir því sem við á. Þá er hlutverk hans að tryggja að upplýsingar um starf nefndarinnar og tillögur  séu kynntar í miðstjórn ASÍ.  

Fulltrúar landssambanda, fulltrúi félaga með beina aðild og ASÍ-UNG eru tengiliðir á milli viðkomandi nefndar og þess aðila sem þeir eru fulltrúar fyrir og starfa í umboði þeirra. Það er á ábyrgð þessara fulltrúa að tryggja að þau sjónarmið og áherslur sem uppi eru í landssamböndunum, félögum með beina aðild og ASÍ-UNG komi fram í starfi nefndarinnar. Þá er hlutverk þeirra að tryggja að upplýsingar um starf viðkomandi nefndar og tillögur séu kynntar gagnvart þeim aðilum sem þeir fara með umboð fyrir. Þessi þáttur í starfi málefnanefndanna er afar mikilvægur til að tryggja sem víðtækast samráð og upplýsingar um stefnumörkun og ákvarðanir á vettvangi ASÍ. Ekki hefur verið gerð krafa um það af hálfu ASÍ að aðildarsamtökin komi sér upp sambærilegum málefnanefndum sem virki sem formlegt bakland viðkomandi fulltrúa, heldur hefur hverju sambandi og félögum með beina aðild sameiginlega verið falið að ákvarða hvaða form henti.

 

Starfsreglur fyrir málefnanefndir ASÍ

 1. Fulltrúi miðstjórnar skal vera formaður málefnanefndar. Formaður ákveður fundi nefndarinnar og stýrir þeim. Forfallist formaður um lengri tíma eða hættir störfum í nefndinni skal nefndin kjósa sér nýjan formann í hans stað.

Starfsmaður -skal boða fyrsta fund nefndar í samráði við fulltrúa miðstjórnar ASÍ. Á fundinum skal í upphafi fara yfir hlutverk málefnanefnda ASÍ og starfsreglur.

 1. Starfsmenn nefndanna hafa full réttindi í nefndinni og aðstoða nefndirnar í störfum þeirra, m.a. við undirbúning funda, ritun fundargerða og við að framfylgja ákvörðunum nefndanna í samráði við formann.
 2. Nefndarfundi skal boða með tölvupósti með minnst einnar viku fyrirvara ef kostur er. Fundina skal boða með dagskrá.

Formenn nefnda ákveða hverju sinni hvort fundir verði haldnir í gegnum fjarfundarbúnað, alveg eða að hluta. Skal sá kostur nýttur nema sérstakar ástæður hamli og fyrirkomulag funda tilgreint í dagskrá hverju sinni. Fulltrúar í málefnanefndum geta jafnframt óskað eftir því að taka þátt í nefndafundum í gegnum fjarfundarbúnað.

 1. Málefnanefndir halda fundargerðir. Í fundagerð skal koma fram: Hvar fundurinn var haldinn; hvaða dag; upphaf fundar og fundarlok; hverjir sóttu fundinn; hvaða mál voru til umfjöllunar, hvaða gögn voru lögð fram á fundinum og; hverjar voru niðurstöður fundarins/hvaða ákvarðanir voru teknar. Starfsmenn nefndanna gera drög að fundargerðum sem send skulu formanni nefndar til staðfestingar. Að því búnu eru aðal- og varamönnum sent afrit fundargerðar og hún birt á vefsvæði nefndarinnar. Afrit staðfestra fundargerða skulu lögð fram til kynningar í miðstjórn.
 2. Málefnanefndir ASÍ hafa hver sitt vefsvæði á innri-vef ASÍ. Þegar fundur hefur verið ákveðinn skal setja dagskrá fundarins á vefsvæðið ásamt þeim gögnum sem leggja á fyrir fundinn. Gögn sem taka á afstöðu til skulu sett á vefinn það tímanlega að nefndarmenn geti kynnt sér þau fyrir fundinn.
 3. Fundargerðir ásamt öllum gögnum vegna viðkomandi funda og vegna starfa nefndanna skulu vera aðgengilegar á vefsvæði þeirra.

Nefndarmenn fá úthlutað notendanafni og lykilorði á skrifstofu ASÍ (sjá nánar leiðbeiningar um innri-vef ASÍ).

 1. Málefnanefndir vinna störf sín í umboði miðstjórnar og gera miðstjórn grein fyrir störfum sínum eftir því sem nefndirnar telja nauðsynlegt og/eða miðstjórn óskar eftir.
 2. ASÍ leggur málefnanefndum til nauðsynlega aðstöðu og búnað vegna starfa þeirra. Telji málefnanefndir nauðsynlegt að leggja í kostnað umfram hefðbundinn fundakostnað skal ósk um slíkt koma fram við gerð starfs- og fjárhagsáætlunar ef kostur er. Að öðrum kosti skal ákvörðun um slíkt tekin í samráði við framkvæmdastjóra ASÍ.
 3. Alþýðusambandið greiðir eðlilegan ferða- og uppihaldskostnað vegna nefndarmanna sem koma utan af landi vegna nefndarstarfa. Þá greiðir Alþýðusambandið nefndarmönnum vegna launataps sem þeir kunna að verða fyrir vegna nefndarstarfa.

Við greiðslu ferðakostnaðar skal miðað við reglugerð um greiðslu ferðakostnaðar þingfulltrúa og vegna formannafunda. Hvað varðar uppihaldskostnað og launatap skal miðað við sannanlega útlagðan kostnað nefndarmanna og tekjutap.

Samþykkt í miðstjórn ASÍ 7. nóvember 2018. Samhliða falla úr gildi eldri reglur um sama efni sem samþykktar voru í miðstjórn 21. Janúar 2015.

Title here

Body
GoesHere

Reglugerð um greiðslu ferðakostnaðar þingfulltrúa og vegna formannafunda

1. grein

Alþýðusamband Íslands endurgreiðir aðildarfélögum sínum ferðakostnað vegna atkvæðisbærra fulltrúa þeirra á sambandsþingi sbr. 2.mgr. 26.gr. laga ASÍ. Sama gildir um fulltrúa á formannafundi sem haldinn er skv. 35. gr. og 2.mgr. 42.gr. laga ASÍ.
 

2. grein

Réttur til endurgreiðslu skv. 1. grein skapast einungis vegna fulltrúa aðildarfélaga sem búsettir eru utan Reykjavíkurkjördæmanna og Suð-Vestur kjördæmisins. Sé sambandsþing haldið utan þeirra kjördæma skal miðstjórn leggja fyrir sambandsþing tillögu um rétt til endurgreiðslu.
 

3. grein

Endurgreiðsla miðast kílómetragjald skv. viðmiðunarreglum Ríkisskattstjóra eða flugfargjald skv. samningum ASÍ við flugrekstraraðila eins og þeir eru á hverjum tíma.
 

4. grein

Þingfulltrúar, eða aðildarfélög vegna fulltrúa sinna, sem leggja út fyrir ferðakostnaði sínum skulu fylla út eyðublað sem ASÍ leggur til og liggja skal frammi á sambandsþinginu. ASÍ skal ganga frá greiðslu innan 30 daga frá því að krafa um greiðslu berst. Sama regla gildir varðandi formannafundi.
 

5. grein 

Ferðakostnaður vegna formannafunda sem haldnir eru í tengslum við gerð eða endurskoðun kjarasamninga á grundvelli 1.mgr. 42.gr. laga ASÍ er ekki endurgreiddur. 
 

Reglugerð þessi er sett skv. 2. mgr. 26. gr. og hvað formannafundi varðar skv. 36. gr. laga ASÍ af miðstjórn þann 12.12 2012.

Skipulagsskrá fyrir minningarsjóð Eðvarðs Sigurðssonar

Sjóðurinn er stofnaður skv. ákvörðun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands á fundi 21. júlí 1983 til minningar um Eðvarð Sigurðsson. Skipulagsskrá hans er samþykkt á fundi sambandsstjórnar ASÍ í desember 1983. Staðfesting forsetans á skipulagsskrá fyrir minningarsjóð Eðvarðs Sigurðssonar, útgefin á venjulegan hátt ad mandatum af dómsmálaráðherra 11. desember 1984. Skipulagsskráin er þannig:

 

1. grein

Sjóðurinn heitir Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar.

 

2. grein

Stofnfé sjóðsins er kr. 1 000 000,00 — ein milljón krónur 00/100 — Stofnfé sjóðsins má aldrei skerða.

Sjóðinn skal ávaxta ef unnt er í vísitölutryggðum ríkisskuldabréfum eða á annan jafntryggan hátt.


3. grein

Tekjur sjóðsins eru vaxtatekjur af stofnfé og öðru fé sem sjóðnum kann að áskotnast, gjafir og áheit sem sjóðnum kunna að berast, og tekjur sem stjórn sjóðsins kann að afla honum á annan hátt.

 

4. grein

Tilgangur sjóðsins er m. a. að styrkja verkafólk til að afla sér fræðslu um málefni og starf verkalýðshreyfingarinnar.

Meðal hlutverka sjóðsins skal vera að stuðla að því að saga Dagsbrúnar verði skrifuð og gefin út.

 

5. grein

Stjórn sjóðsins skipa þrír menn skipaðir af miðstjórn ASÍ. Stjórn sjóðsins skiptir með sér verkum.

Kjörtímabil stjórnar minningarsjóðsins er það sama og kjörtímabil miðstjórnar ASÍ og skal miðstjórn ASI skipa sjóðsstjórn í upphafi kjörtímabils síns.

Einfaldur meirihluti ræður ákvörðunum innan sjóðsstjórnar. Þó má sjóðsstjórnin aldrei ráðstafa árlega meiru en 1/5 hluta sjóðsins án sérstakrar samþykktar miðstjórnar ASÍ.

 

6. grein

Sjóðsstjórnin semur reikninga sjóðsins árlega og skulu þeir endurskoðaðir af endurskoðendum Alþýðusambandsins. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið.

 

7. grein

Skipulagsskrá þessari verður ekki breytt nema með samþykki sambandsstjórnarfundar ASÍ.

 

8. grein

Leita skal staðfestingar forseta Íslands á skipulagsskrá þessari.

 

Þannig birt í Stjórnartíðindum B 52-53, nr. 467-498. Útgáfudagur 31. desember 1984.

Reglugerð fyrir Listasafn ASÍ

Reglugerð fyrir Listasafn ASÍ

1. grein

Safnið heitir Listasafn Alþýðusambands Íslands (Listasafn ASÍ). Safnið er eign Alþýðusambands Íslands og fer miðstjórn ASÍ með yfirstjórn þess.

2. grein

Safnið er eign Alþýðusambands Íslands. Safnið er stofnað samkvæmt ósk og að frumkvæði Ragnars Jónssonar forstjóra til minningar um Erlend Guðmundsson í Unuhúsi.

3. grein

Aðalhlutverk safnsins skal vera

a)     að varðveita og hafa til sýnis fyrir almenning listaverk þau, sem Ragnar Jónsson gaf ASÍ til eignar hinn 17. júní 1961 svo og önnur listaverk, safnið á og kann að eignast

b)     koma íslenskri myndlist á framfæri við almenning

c)      reka sýningarsal og skylda starfsemi.

Safnið skal í hvívetna stuðla að því að íslensk myndlist nái til almennings með sýningum sem víðast og er heimilt að eiga samvinnu við aðra aðila í því sambandi.

Safnið starfar samkvæmt gildandi safnalögum og fylgir siðareglum ICOM, Alþjóðaráðs safna, International Council of Museums.

4. grein

Starfsfé safnsins eru skatttekjur frá verkalýðsfélögum innan ASÍ eins og þær eru ákveðnar í lögum ASÍ, framlög til safnsins af hálfu hins opinbera og eigin sjálfsafla­tekjur.

Allur arður af starfseminni rennur til safnsins sjálfs.

Reikningar safnsins skulu gerðir upp árlega miðað við almanaksárið og endurskoðaðir af kjörnum endurskoðendum ASÍ og löggiltum endurskoðanda þess.

Þeir skulu ásamt fjárhagsáætlun næsta árs lagðir fyrir miðstjórn ASÍ. Ársreikningarnir skulu lagðir fyrir sambandsþing ASÍ til fullnaðarafgreiðslu.

 

5. grein

Daglega stjórn safnsins í umboði miðstjórnar annast rekstrarstjórn. Hún skal skipuð þrem mönnum, sem miðstjórn kýs til tveggja ára í senn.

Miðstjórn ræður forstöðumann safnsins. Rekstrarstjórn hefur umsjón með daglegum rekstri og ber ábyrgð á fjármálum þess gagnvart miðstjórn og tekur endanlegar ákvarðanir í umboði hennar um allan rekstur safnsins. Fyrir lok nóvember ár hvert skal rekstrarstjórn leggja nákvæma rekstraráætlun fyrir miðstjórn sem hún skal afgreiða.

Allar ákvarðanir, sem fela í sér miklar breytingar á starfsemi safnsins, skulu þó bornar undir miðstjórn til samþykktar eða synjunar.

6. grein

Við safnið skal starfa þriggja manna listráð. Forstöðumaður safnsins skal eiga sæti í ráðinu og vera formaður þess. Auk þess skipar miðstjórn tvo listfræðinga til setu í ráðinu til tveggja ára í senn.

Miðstjórn ASÍ skal ákveða þóknun listfræðinganna fyrir setu í ráðinu.

Listráðið skal vera rekstrarstjórn og miðstjórn til ráðuneytis um allt sem lýtur að listfræðilegum málum. Allar umsóknir um afnot af sýningarsal safnsins skulu lagðar fyrir listráðið. Þá skal listráðið fjalla um sýningar, sem efnt er til á vegum safnsins hvort sem er í sýningarsal þess eða annars staðar. Ef til greina kemur að safnið þiggi listaverk að gjöf eða kaupi listaverk skal slíkt lagt fyrir listráðið.

7. grein

Safnið skal starfrækja fræðslu- og kynningarsýningar um íslenska myndlist utan safnsins, á vinnustöðum, í húsakynnum verkalýðsfélaga eða opinberra stofnana.

Rekstrarstjórn skal ákveða gjaldskrá fyrir þessa þjónustu.

8. grein

Komi til þess að safnið verði lagt niður skal safnkosturinn renna til sambærilegrar stofnunar.

9. grein

Breytingar á reglugerð þessari verða aðeins gerðar af þingi Alþýðusambands Íslands og taka þær gildi þegar við samþykkt.

Þannig samþykkt með áorðnum breytingum á 41. þingi ASÍ 2014. 

Verklag við rafrænar atkvæðagreiðslur

Rafrænar atkvæðagreiðslur stéttarfélaganna byggja á ákvæðum um leynilegar atkvæðagreiðslur í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 og reglugerð ASÍ um leynilegar allsherjaratkvæðagreiðslur meðal félagsmanna aðildarsamtaka ASÍ.

Í ofangreindri reglugerð er tekið fram að heimilt sé að framkvæma allsherjaratkvæðagreiðslu með atkvæðagreiðslu á kjörstað/kjörstöðum, með póstatkvæðagreiðslu eða rafrænt.

Til að tryggja að rafræn atkvæðagreiðsla sé leynileg og uppfylli skilyrði laga og reglugerða skal viðhafa eftirfarandi verklag. Um framkvæmdina fer að öðru leyti skv. reglugerð ASÍ þ.m.t. hvað varðar framlagningu kjörskrár.

Kjörskrá

1. Kjörstjórn útbýr kjörskrá.

2. Kjörstjórn sendir þjónustufyrirtæki sem annast vistun kosningar kjörskrána í excel-skrá eða á öðru því formi sem nauðsynlegt er þar sem fram kemur a.m.k. kennitala kjósenda.

3. Þjónustufyrirtækið útbýr lykilorð fyrir hvern kjósanda og vistar með öruggum hætti.

4. Kjörskrá ásamt lykilorðum skal einungis vistuð hjá þjónustufyrirtækin þar sem hún er varin fyrir aðgangi annarra en þeirra sem setja upp aðgang fyrir kjósendur á vefnum.

5. Í stað þess að lykilorð sé útbúið er getur kjörstjórn ákveðið að heimilt sé kjósa með rafrænum skilríkjum.

Kjörgögn

6. Kjörstjórn samþykkir kynningarefni og útbýr önnur kjörgögn sem send verða kjósendum.

7. Kjörstjórn prentar eða sendir kjörgögn til prentunar. Samkvæmt gögnum frá þjónustufyrirtækinu eru gögnin prentuð og merkt nafni. Lykilorð komi fram í texta.

8. Kjörgögn send út eða til prentsmiðju sem hefur milligöngu um útsendingu kjörgagna.

9. Þess skal gætt að kjörseðill sé stuttur og skýrt orðaður þannig að engum dyljist til hvers tekin er afstaða. Gefinn skal möguleiki á að taka ekki afstöðu en jafnframt upplýst að slík atkvæði teljist með greiddum atkvæðum. Í leiðbeiningum vegna afgreiðslu kjarasamninga eða vegna verkfalla skal taka fram hver áhrif það hefur ef ekki er tekin afstaða.

Vefaðgangur

10. Kjörstjórn sendir þjónustufyrirtækinu upplýsingar um uppsetningu, kynningu, spurningu á „kjörseðli“ og valkosti fyrir rafræna kosningu á heimasíðu stéttarfélagsins.

11. Þjónustufyrirtækið útbýr vefaðgang inni á vef stéttarfélagsins. Enginn hefur aðgang að upplýsingum um notendur/kjósendur nema þeir starfsmenn þjónustufyrirtækisins sem vinna við uppsetninguna og tæknilega útfærslu kosninganna.

12. Þess skal gætt að ekki fleiri en tveir starfsmenn þjónustufyrirtækisins hafi slíkan aðgang og skal aðgengi takmarkað með lykilorðum.

13. Tryggja verður að ekki sé hægt að rekja greidd atkvæði til tiltekins eða tiltekinna kjósenda þ.e. skilja ber að notendanafn og greitt atkvæði þannig að ekki sé hægt að rekja saman.

14. Rafræn atkvæði skulu ekki sett í sameiginlegt safn til talningar fyrr en kosningu og afgreiðslu kjörskrárkæra er lokið.

15. Atkvæði greidd á pappír utan kjörfundar verði geymd þar til talning fer fram. Komi í ljós að atkvæði hafi áður verið greitt rafrænt þá gildir það.

16. Kjörstjórn tekur við kærum inn á kjörskrá og úrskurðar þær. Sé félagsmaður úrskurðaður inn á kjörskrá, setur þjónustufyrirtækið viðkomandi inn á kjörskrá, útbýr lykilorð fyrir kjósanda eða gerir aðrar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að hann geti kosið.

17. Kjörstjórn eða starfsfólk stéttarfélagsins sem alla jafna hafa aðgang að stýrikerfi félagsins skulu ekki hafa aðgang að notendaupplýsingum eða öðrum upplýsingum sem varða kosninguna beint inni á vef félagsins eða í stýrikerfi heimasíðunnar fyrr en að aflokinni kosningu.

18. Þegar uppgefinn tími kosningarinnar er liðinn skal þjónustufyrirtækið loka fyrir möguleika á kosningu. Þeim sem hafið hafa rafræna kosningu fyrir lokun skal gefinn 10 mínútna frestur til þess að klára hana.

19. Þjónustufyrirtækið veitir kjörstjórn eða tilnefndum starfsmanni þess aðgang að niðurstöðum kosninganna í gegnum stjórnborð heimasíðu félagsins þegar kosningu er lokið eða kemur niðurstöðu til þeirra með öðrum hætti.

20. Gögnum vegna kosningar skal ekki eytt fyrr en að liðnum a.m.k. 6 mánuðum frá kosningu.

Kosning í gegnum þjónustusíður stéttarfélaganna

21. Þau stéttarfélög sem bjóða uppá þjónustusíður geta nýtt sér eftirfarandi verklag við framkvæmd kosninga rafrænna kosninga að breyttu breytanda. Aðgangur að þjónustusíðunni skal vera bundinn við notendanafn og lykilorð, rafræn skilríki, auðkennislykil skattstjóra eða sambærilega auðkenningu. Þegar kjörskrá er útbúin skal einnig útbúa einkvæman aðgangslykil að kjörseðli fyrir þá sem eru á kjörskrá. Aðgangur að kjörseðlinum skal þá vera í gegnum þjónustusíðurnar og skal þess gætt að hvert auðkenni/kennitala geti aðeins kosið einu sinni og aðeins þeir sem eru á kjörskrá. Valkvætt er hvort kjörseðill er hýstur á sjálfum þjónustusíðum stéttarfélaganna eða hjá þjónustuaðila aðgangur að honum skal þó vera bundin við innskráningu á þjónustusíðu félagsins.

 

Samþykkt í Skipulags- og starfsháttanefnd 28.1 2016 sbr. 5.mgr. 11.gr. reglugerðar um framkvæmd allsherjaratkvæðagreiðslu sbr. og 11.mgr. 33.gr. laga ASÍ.

 

Reglur um greiðslur úr Vinnudeilusjóði ASÍ

 

Reglur þessar eiga við um umsóknir um greiðslur úr Vinnudeilusjóði ASÍ.    

Megintilgangur Vinnudeilusjóðs ASÍ er að styrkja stöðu ASÍ sem heildarsamtaka í deilum og hugsanlega átökum við atvinnurekendur og eftir atvikum í átökum við stjórnvöld vegna stórra sameiginlegra hagsmuna allra aðildarsamtakanna. Þetta getur einnig átt við þegar einstök aðildarsamtök ASÍ fara í verkfallsaðgerðir fyrir hönd aðildarsamtakanna til þess að ná fram sameiginlegum hagsmunum hreyfingarinnar allrar. Við þær aðstæður er heimilt að deila kostnaði einstakra aðildarsamtaka með öðrum aðildarsamtökum í gegnum Vinnudeilusjóð ASÍ. 

Í sérstökum tilfellum er heimilt að veita úr Vinnudeilusjóði ASÍ minni styrki til aðildarsamtaka ASÍ, þegar sérstaklega standur á. 

Til þess að taka afstöðu til umsóknar þarf eftirfarandi að koma fram og eftir atvikum fylgja henni: 

 • Umsækjandi veiti miðstjórn ASÍ heimild til þess að nota innsenda ársreikninga félagsins síðast liðin ár til þess að meta stöðu og starfsemi vinnudeilusjóðs félagsins.
 • Upplýsingar um hvernig innheimtu og ráðstöfun félagsgjalda sé háttað þannig að sem best sé búið að fjárhagslegri stöðu félagsins og vinnudeilusjóði þess þ.a. félagið sé undirbúið undir átök og félagsmenn upplýstir um getu félagsins til stuðnings við þá. ( Hlutfall félagsgjalda af launum eða upphæð þeirra, hámark gjalda, endurgreiðslur o.fl.)  
 • Upplýsingar um hvaða reglur eru í gildi hjá umsækjanda, m.a. hvernig úthlutað er úr vinnudeilusjóði félagsins eða félagssjóði eftir atvikum, hverjir eigi rétt til bóta og að ekki sé mismunað, hvenær greiðslur skuli hefjast og hver skuli vera fjárhæð bóta eða viðmiðunarreglur þar um.
 • Hefur verið óskað eftir eða fenginn stuðningur frá félögum innan eða utan ASÍ vegna yfirstandandi átaka.

Miðstjórn ASÍ úthlutar styrkjum úr Vinnudeilusjóði ASÍ.

 

Greinagerð

Engin bein ákvæði er að finna í lögum ASÍ um Vinnudeilusjóð ASÍ eftir að 2. mgr. 45. gr. var felld úr lögum þess um miðjan síðasta áratug þegar stöðu sjóðsins í samstæðureikningi Alþýðusambandsins var breytt. 

Þar sagði:

„Vinnudeilusjóði skal varið til að styðja aðildarsamtökin í vinnudeilum, eftir reglum sem miðstjórn setur, eða nánari fyrirmælum hennar hvert sinn. Miðstjórn getur sett þau skilyrði fyrir beinni fjárhagslegri hjálp úr sjóðnum í vinnudeilum, að félag hafi sjálft komið sér upp vinnudeilusjóði og verji honum til styrkja á þann hátt, er miðstjórn fellst á.“ 

Ekki hafa áður verið settar formlega reglur um greiðslur úr sjóðnum, en miðstjórn telur eðlilegt að slíkar reglur taki annars vegar mið af fyrrnefndu ákvæði, að því virtu að reglur sambandsins gera ekki sjálfstæða kröfu til þess að aðildarfélögin ASÍ séu með sjálfstæða vinnudeilusjóði. Því beri að túlka þetta ákvæði með þeim hætti, að aðildarfélögin hafi á að skipa fjármunum til þess að geta staðið að baki sínum félagsmönnum í vinnudeilum. Hins vegar verði slíkar reglur að taka mið af hlutverki og ábyrgð ASÍ, hlutverki og ábyrgð aðildarsamtakanna og stöðu ASÍ gagnvart þeim, enda er starfsemi ASÍ og framlög til Vinnudeilusjóðs ASÍ fjármögnuð með sköttum landssambanda og félaga með beina aðild.  Þessum fjármunum er ASÍ heimilt að ráðstafa í þágu hlutverks og markmiða sambandsins eins og þau koma fram í lögum þess sbr. m.a. 3. gr. laga ASÍ þar sem segir:  

„Hlutverk sambandsins er:

Að hafa forystu í stéttarbaráttu launafólks, koma fram fyrir hönd aðildarfélaga í sameiginlegum málum gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum, innanlands og á alþjóðavettvangi. Móta og samræma heildarstefnu samtakanna í atvinnu-, mennta-, umhverfis- og kjaramálum.

Að samræma og tryggja framkvæmd þjónustu aðildarfélaganna við félagsmenn þeirra.

Að standa að gerð kjarasamninga um sameiginleg mál sem aðildarsamtökin fela sambandinu skv. 9. gr. …. „ 

Þannig samþykkt í miðstjórn ASÍ 15.2 2017

 

Var efnið hjálplegt?