Tillaga til þingsályktunar um styrkingu leikskóla og fæðingarorlofs

Reykjavík, 19.10 2015
Tilvísun: 201509-0020

Efni: Tillaga til þingsályktunar um styrkingu leikskóla og fæðingarorlofs, 16. mál

Eitt af baráttumálum verkalýðshreyfingarinnar hefur verið að stuðla að samræmingu fjölskyldulífs og vinnu. Óvissa um dagvistun ungbarna eftir að fæðingarorlofi lýkur getur haft áhrif á gæði fjölskyldulífs. Það er einnig mikilvægt fyrir einstaklinga á vinnumarkaði að búa við það öryggi að vistunarmöguleikar ungbarna eftir að fæðingarorlofi lýkur séu traustir.
Alþýðusamband Íslands hefur ætíð stutt allar þær aðgerðir sem stuðla að eflingu og styrkingu réttar foreldra til fæðingarorlofs og eflingu aðgengis að traustri vistun ungbarna á leikskólaaldri. Frá því í febrúar sl. hefur á vegum félags- og húsnæðismálaráðherra starfað starfshópur sem ASÍ á fulltrúa í ásamt öðrum aðilum vinnumarkaðarins, þ.m.t. fjármálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og Vinnumálastofnunar.

Verkefni starfshópsins er meðal annars að móta tillögu um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum þar sem sérstaklega er hugað að því hvernig unnt sé að tryggja þeim markmiðum laganna um fæðingar- og foreldraorlof þar sem áhersla er á að tryggja barni samvistir við báða foreldra sína verði best náð á sama tíma og foreldrunum verði gert kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.
Einnig á starfshópurinn að koma með tillögu að því að tryggja samfellu milli fæðingarorlofs og þeirra dagvistunarúrræða sem eru fyrir hendi þegar fæðingarorlofi lýkur. Í því starfi hefur starfshópurinn til hliðsjónar skýrslu starfshóps sem skilaði skýrslu í maí sl.: Skýrsla starfshóps vegna þingsályktunar um leikskóla að loknu fæðingarorlofi.

ASÍ tekur undir það sem fram kemur í greinargerðinni sem fylgir tillögunni til þingsályktunar, að mikilvægt sé að tryggja örugga leikskólavistun fyrir öll börn og að treysta hag barna í menntunarlegu og félagslegu tilliti. ASÍ telur að áður en nýr starfshópur verður myndaður, að það eigi að bíða eftir niðurstöðum starfshópsins sem þegar er starfandi og er að fjalla um styrkingu og framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum og dagvistunarúrræðum.

Virðingarfyllst,
Maríanna Traustadóttir
Sérfræðingur ASÍ

Var efnið hjálplegt?