Þingsályktunartillaga um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og um eflingu samstarfs við Evrópusambandið og Evrópuríki

Reykjavík, 7. apríl 2014.
Tilvísun: 201403-0016

Efni: Þingsályktunartillaga um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og um eflingu samstarfs við Evrópusambandið og Evrópuríki, 340. mál.

Á fundi miðstjórnar Alþýðusambands Íslands 26. febrúar sl. var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða:
"Á þingi ASÍ í október 2012 var samþykkt svohljóðandi ályktun um Evrópumál með öllum greiddum atkvæðum gegn tveimur:
„40. þing Alþýðusambands Íslands telur mikilvægt að ljúka viðræðum Íslands og ESB svo fljótt sem kostur er með það að markmiði að ná eins hagstæðum samningum og unnt er. Það verði síðan íslenska þjóðin sem taki afstöðu til samningsniðurstöðunnar og aðildar að ESB í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.
ASÍ hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort hagsmunum Íslands og íslensks launafólks sé best borgið með aðild að ESB, en hefur skýra sýn á hvaða markmiðum þurfi að ná í aðildarviðræðunum til þess að hægt verði að leggja endanlegt mat á kosti og galla fullrar aðildar.“
Þingsályktunartillaga utanríkisráðherra sem nú liggur fyrir Alþingi gengur þvert á vilja fulltrúa þorra félagsmanna aðildarsamtaka á þingi ASÍ. Um leið er með þingsályktuninni, yrði hún samþykkt, tekinn út eini raunhæfi kosturinn til að taka hér upp gjaldmiðil á næstu árum sem komið getur landinu úr viðjum gjaldeyrishafta og lagt grunninn að stöðugleika og nýsköpun í atvinnulífinu til hagsbótar fyrir launafólk og allan almenning. Málið er sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að ekki liggur fyrir nein sú áætlun eða stefnumörkun af hálfu ríkisstjórnarinnar í gengis- og peningamálum sem lagt geti slíkan grunn að stöðugleika. Það er mat miðstjórnar ASÍ að með þessu sé ríkisstjórnin að setja markmið aðila vinnumarkaðarins um nýjan grunn að gerð kjarasamninga í uppnám.
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands skorar á ríkisstjórnina að draga þingsályktunartillöguna til baka og efna þess í stað til málefnalegrar umræðu um raunverulega valkosti til framtíðar í gengis- og peningamálum. Stutt er í að Alþjóðamálastofnun skili aðilum vinnumarkaðarins skýrslu um stöðu aðildarviðræðnanna við ESB sem væntanlega leggur mikilvægar upplýsingar og sjónarmið inn í þessa umræðu. Verði ríkisstjórnin ekki við áskorun ASÍ um að draga þingsályktunartillöguna til baka þá hvetur miðstjórn ASÍ þingmenn til að hafna þingsályktunartillögu utanríkisráðherra og leyfa þjóðinni þess í stað að taka afstöðu til áframhaldandi viðræðna við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu."
Ályktun miðstjórnar er í fullu samræmi við málflutning og þá afstöðu sem Alþýðusamband Íslands mótaði á ársfundi sambandsins í október 2008. Síðan þá hefur sú afstaða verið áréttuð ítrekað á ársfundum og þingum þess, síðast í október 2012, þar sem hátt í þrjú hundruð þingfulltrúar greiddu ályktun 40. þings ASÍ atkvæði sitt, en tveir voru á móti.
Í ljósi framanritaðs skorar ASÍ á utanríkisráðherra að draga þingsályktunartillöguna til baka og efna þess í stað til málefnalegrar umræðu um raunverulega valkosti varðandi stöðu Íslands í Evrópu til framtíðar og þar með í gengis- og peningamálum. Mikilvægt framlag til slíkrar umræðu er úttekt Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið, ásamt viðaukum, sem kynnt var fyrr í dag. Markmið úttektar Alþjóðamálastofnunar var að leggja mat á stöðu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið, að greina þau álitaefni sem eru til staðar og þá kosti sem eru í stöðunni. Í úttektinni er fjallað um þróun Evrópusambandsins síðan aðildarviðræðurnar hófust með sérstakri áherslu á gjaldmiðilssamstarfið. Sérstakt mat er lagt á hvernig hefja mætti aðildarviðræður við ESB að nýju ef vilji stendur til þess. Þá er lagt mat á EES samninginn og þá möguleika og takmarkanir sem í honum felast. Í niðurstöðu úttektar Alþjóðastofnunar kemur ekkert fram sem rökstyður að hætta beri viðræðum við Evrópusambandið og draga aðildarumsóknina til baka. Þvert á móti kemur fram að „ef rýnt er í stöðu einstakra kafla er ljóst að Ísland hafði þegar náð fram sérlausnum, undanþágum og/eða aðlögunarfrestum í mörgum málum“.
Einnig má nefna sem innlegg skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um úttekt á stöðu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið og þróun sambandsins, ásamt viðaukum sem kynnt var í febrúar sl.
Verði þingsályktunartillaga utanríkisráðherra ekki dregin til baka hvetur ASÍ alþingi til að hafna þingsályktunartillögunni og leyfa þjóðinni þess í stað hið allra fyrsta að taka afstöðu til áframhaldandi viðræðna við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu.


Greinargerð
Á ársfundi Alþýðusambands Íslands í október 2008 voru Evrópumálin og þá sérstaklega peninga- og gjaldmiðlamál ítarlega rædd í ljósi þeirrar stöðu sem þá var uppi í samfélaginu í kjölfar hrunsins. Að því tilefni samþykkti ársfundurinn sérstaka ályktun um aðgerðir til að endurheimta fjármálastöðugleika og auka trúverðugleika. Þar segir m.a.:
„Það er skoðun ASÍ að yfirlýsing um að sótt verði um aðild Íslands að ESB og upptöku evru sé eina færa leiðin. Þannig verði látið á það reyna í aðildarviðræðum hvaða samningur Íslandi standi til boða og hann lagður fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu. ASÍ telur að yfirlýsing um að stefnt verði að aðild að evrópska myntsamstarfinu (ERM II) á næstu 2 árum myndi leggja mikilvægan grunn að því að hægt yrði í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að skapa nauðsynlegan trúverðugleika fyrir meiri festu í skráningu krónunnar á næstu árum þangað til full aðild að Evrópska peningamálasamstarfinu (EMU) og upptaka evrunnar næðist.“ Á aukaársfundi ASÍ sem haldinn var í mars 2009 var staða launafólks, efnahags- og atvinnumálin og afstaðan til Evrópusambandsins til sérstakrar umræðu. Á fundinum var lögð fram greinargerð hagdeildar ASÍ: STÖÐUGLEIKI OG UPPTAKA EVRU, þar sem áréttað er mikilvægi efnahagslegs stöðugleika fyrir launafólk og samfélagið allt. Þar segir m.a.:
„Verkalýðshreyfingin hefur lengi reynt að stuðla að stöðugleika með því að gera langtímasamninga um launahækkanir sem skiluðu auknum kaupmætti ef verðbólga yrði hófleg. Samningarnir hafa oftar en ekki gengið þvert á væntingar almennings, fyrirtækja og fjármálamarkaðarins um verðbólgu. Með samningunum hefur því verið reynt að stuðla að stöðugleika með því að hafa áhrif á verðbólguvæntingar til lækkunar. Þegar sagan er skoðuð kemur í ljós að þetta hefur ekki gengið eftir og því hefur nær undantekningarlaust reynt á endurskoðunarákvæði samninganna.
Þessi leið er því fullreynd. Við óbreyttar aðstæður er hvorki hægt að stuðla að eða ganga út frá stöðugleika í kjarasamningum. Þá eru tveir kostir í stöðunni, að aðlaga kjarasamninga að óstöðugleika en slíkt var reynt með hörmulegum afleiðingum á árunum frá 1970 – 1990, eða að leggja grunn að sambærilegum stöðugleika og ríkin í kringum okkur búa við.“
Síðan er vitnað í ályktun ársfundarins í október 2008. Þá segir:
„Aðild að myntbandalagi Evrópu felur ekki aðeins í sér upptöku evru sem gjaldmiðils heldur einnig samræmd peninga‐ og gengismála aðildarríkjanna og samstarf um efnahagsstefnu. Efnahagsstefnan felur einkum í sér samræmda sýn á aðhald í ríkisfjármálum og sameiginlegt markmið um stöðugt verðlag. Aðildarríkin hafa gert með sér samkomulag um stöðugleika og vöxt sem leggur áherslur á að draga úr skuldum hins opinbera og hallarekstri ríkissjóðs og halda verðbólgu í skefjum. Skilyrðin sem sett eru fyrir inngöngu í myntbandalagið eru Maastricht‐skilyrði. Megin tilgangur þeirra er að tryggja að ekki sé of mikill munur á efnahagslífi aðildarríkjanna og að stefna í ríkisfjármálum sé í takt við aðhaldssama peningamálastefnu.
Ákvörðun um upptökur evru hefur áhrif strax
Umsókn um aðild að Evrópusambandinu og innganga í myntsamstarfið í kjölfarið er stefnumarkandi ákvörðun og yfirlýsing um að við ætlum að beita þekktum aðferðum Evrópusambandsins við að ná stöðugleika í hagkerfinu. Á sama tíma eyðum við óvissu um það hvernig við ætlum að haga efnahags‐ og peningamálastjórn í framtíðinni. Það eykur traust alþjóðaumhverfisins á endurreisnaraðgerðunum. Gangi þetta eftir skapast betri skilyrði til að lækka vexti hratt og afnema gjaldeyrishöft en hættan á annarri gengiskollsteypu verður til staðar þar til við getum afnumið gjaldeyrishöftin og komið á eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum.
Reynsla annarra þjóða er sú að strax í kjölfar aðildarumsóknar, verður gengið stöðugra og vextir færast í átt að vöxtum annarra evrulanda. Þetta stafar m.a. af þeim stuðningi sem Evrópska gengiskerfið (ERM II) veitir við að halda genginu innan ákveðinna marka á meðan löndin vinna að því að uppfylla Maastricht‐skilyrðin. Á sama tíma stuðla skilyrðin að hagstjórn sem leiðir til stöðugleika og jafnvægis í þjóðarbúskapnum.“
Þá var á sama fundi lögð fram sérstök greinargerð atvinnumálanefndar ASÍ: ESB AÐILD ÚT FRÁ SJÓNARHÓLI LAUNAFÓLKS. Þar er leitast við að kortleggja vandlega þýðingu fullrar aðildar að ESB fyrir íslenskt atvinnulíf, greina helstu álitamálin og á grundvelli þess leggja fram samningsmarkmið gagnvart Evrópusambandinu. Auk almennrar umfjöllunar um atvinnumál er í greinargerðinni sérstök umræða um sjávarútvegs-, landbúnaðar- og byggðamál.
Þriðja greinargerðin sem lögð var fram á aukaársfundinum var greinargerð um Evrópusamvinnu á sviði VINNUMARKAÐS-, FÉLAGS- OG MENNTAMÁLA, um þýðingu Evrópusamvinnunnar og tækifæri fyrir íslenskt launafólk.
Niðurstöður aukaársfundar ASÍ í mars 2009 voru gefnar út í sérstöku riti með yfirskriftinni „Sýn ASÍ á Evrópusamvinnuna og samningsmarkmið í aðildarviðræðum við ESB“ þar sem skilgreind eru helstu samningsmarkmið að mati ASÍ. Í inngangi segir m.a.:
„Alþýðusamband Íslands hefur litið á það sem sitt hlutverk að fjalla sérstaklega um og taka afstöðu til þeirra þátta Evrópusamvinnunnar sem varða launafólk og hagsmuni þess með beinum hætti. Um leið má ekki líta fram hjá því að ýmis mál önnur geta haft mikil áhrif á hag launafólks og samfélagsins í heild sinni. Þar má nefna sem dæmi málefni neytenda og neytendavernd. Sama máli gegnir um spurningar er varða aðkomu að ákvarðanatöku á vettvangi Evrópusamvinnunnar og möguleika til að hafa áhrif á það sem þar fer fram.
Þá er ljóst að sjávarútvegs- og landbúnaðarmál og byggðamál í víðasta skilningi eru mikilvægir þættir þegar kemur að því hagsmunamati sem fara þarf fram vegna mögulegrar aðildar að ESB. Sama máli gegnir um efnahags- og myntsamstarfið, eins og áður hefur komið fram.
ASÍ leggur ríka áherslu á mikilvægi þess að skilgreina með skýrum hætti samningsmarkmið fyrir væntanlegar aðildarviðræður við Evrópusambandið, þar sem gæta þarf sérstakra hagsmuna Íslendinga og íslensks launafólks. Á aukaársfund ASÍ 25. mars 2009 var stigið mikilvægt skref í þá átt. . Hér á eftir eru dregnar saman helstu niðurstöður aukaársfundarins varðandi Evrópusamvinnuna og samningsmarkmið Íslendinga í aðildarviðræðum við ESB.“
Sett er fram sýn og helstu áherslur ASÍ í eftirfarandi málaflokkum: Efnahagsmálum; atvinnumálum, með sérstakri áherslu á sjávarútvegs-, landbúnaðar- og byggðamál; vinnumarkaðsmál og menntamál.
Sú sýn og sú afstaða sem kemur fram í niðurstöðum aukaársfundar ASÍ í mars 2009, er sá grunnur sem Alþýðusambandið hefur byggt sína aðkomu að Evrópumálunum og í samningahópunum sem sambandið átti aðild að vegna aðildarviðræðnanna við Evrópusambandið.
Alþýðusambandið lagði ríka áherslu á virka þátttöku í samningahópunum sem unnu að mótun samningsafstöðu Íslands í aðildarviðræðunum og að fylgja henni eftir. ASÍ átti fulltrúa í öllum hópunum og fleiri en einn í sumum, s.s. eins og um sjávarútvegs-, landbúnaðar- og byggðamál, þar sem hagsmunum launafólks var komið á framfæri og þeim fylgt eftir af festu. Ekkert í því ferli gefur tilefni til að slíta viðræðunum við Evrópusambandið eins og nú er lagt til.

Virðingarfyllst,
f.h. Alþýðusambands Íslands
Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ

Var efnið hjálplegt?