Frumvarp til laga um framhaldsfræðslu

Reykjavík 16. desember 2009

 

Umsögn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um frumvarp til laga um framhaldsfræðslu.

Inngangur

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) vill í upphafi árétta að það hefur lengi verið skoðun sambandsins að mikilvægt væri að setja sérstaka rammalöggjöf um framhaldsfræðslu (fullorðinsfræðslu). Nægir í því sambandi að benda á tillögur Verkefnisstjórnar um símenntun frá árinu 2004 sem ASÍ átti aðild að og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði 17. febrúar 2008.

Frumvarpið felur í sér viðurkenningu á mikilvægi þess að fólk sem komið er út á vinnumarkaðinn hafi tækifæri til að auka þekkingu sína og færni, einkum að fólk með litla formlega viðurkennda menntun fái „annað tækifæri til náms“. Jafnframt felst í frumvarpinu viðurkenning á þörf launafólks og fyrirtækja fyrir eftir- og endurmenntun og nýsköpun til að mæta breyttum kröfum atvinnulífsins.

Frumvarp var unnið í ágætu samráði við aðila vinnumarkaðarins.

Í frumvarpinu og athugasemdunum sem með því fylgja felst mikilvæg viðurkenning á því samstarfi sem aðila vinnumarkaðarins hafa þróað með sér á sviði menntamála, á vettvangi heildarsamtakanna, í einstaka starfs- og atvinnugreinum og í samstarfi við fleiri aðila í símenntamiðstöðvunum. Þar segir m.a. (bls.6):

Við samningu frumvarpsins hefur m.a. verið leitast við að styðja við náið og árangursríkt samstarf Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) í fræðslumálum sem hafa, í samstarfi við stjórnvöld, staðið fyrir rekstri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem hefur að mati aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda reynst vel. Þá munu starfsmenntamál opinberra starfsmanna verða meðal verkefna Fræðslusjóðs. Jafnframt hefur verið litið til þess hvernig starfsemi símenntunarmiðstöðva hefur þróast á liðnum árum, en æskilegt er að tryggðar verði stöðugri undirstöður fyrir það mikilvæga starf sem fram fer á þeirra vegum. Með starfsemi símenntunarmiðstöðvanna hefur áunnist mikilvæg reynsla sem er um margt undirstaða framhaldsfræðslustarfs í landinu og stefnumótunar á því sviði, sem birtist m.a. í frumvarpi þessu.

Þá segir síðar í athugasemdunum (bls. 9):

Fræðslumiðstöðvar iðngreina hafa einnig gegnt mikilvægu hlutverki við þróun framhaldsfræðslu og raunfærnimats.

Almennt má segja að í athugasemdum með frumvarpinu sé gerð ágæt grein fyrir þróun framhaldsfræðslunnar á umliðnum árum og áratugum og því lykilhlutverki sem aðilar vinnumarkaðarins hafa gegnt í því sambandi. Hér má þó árétta enn frekar en gert er í athugasemdunum mikilvægi raunfærnimatsins sem úrræðis fyrir þá einstaklinga sem þess njóta og atvinnulífsins í heild. Með raunfærnimatinu er jafnframt byggð mikilvæg brú á milli starfsreynslu og menntunar sem sótt er í hinu óformlega skólakerfi/ framhaldsfræðslunni og skráðrar og skilgreindrar menntunar og einingarmats í formlega skólakerfinu.

Alþýðusamband Íslands leggur ríka áherslu á að með lögum um framhaldsfræðslu verði réttur og möguleikar launafólks til menntunar efldir og treystir frekar en nú er. Jafnframt verði mikilvægt hlutverk aðila vinnumarkaðarins staðfest og styrkt í þeim mikilvæga málaflokki sem framhaldsfræðslan, og þ.m.t. grunn-, endur- og eftirmenntun á vinnumarkaði er fyrir einstaklingana, atvinnulífið og samfélagið allt.

Þegar fyrra frumvarp um framhaldsfræðslu var lagt fram á Alþingi í desember 2008 lagði ASÍ sérstaklega áherslu á tvennt:

1.Tryggt yrði að fjármunir til uppbyggingar og reksturs framhaldsfræðslu á almennum vinnumarkaði, eins og hún var skilgreind í frumvarpinu, yrðu ekki skertir með nýjum lögum frá því sem nú er. Var þar vísað til þess að lögin ættu að tryggja félagsmönnum í BSRB sambærilegan rétt og gilti um launafólk á almennum vinnumarkaði.

Með viðbótarframlagi til framhaldsfræðslu sem koma á inn á næstu þremur árum er komið til móts við þessi sjónarmið með ásættanlegum hætti

2.Full sátt er um að aðild að Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) verði útvíkkuð þannig að Fræðslumiðstöðin þjóni einnig opinbera vinnumarkaðinum. Í því fellst að BSRB, fjármálaráðuneytið og sveitarfélögin verði aðilar að FA og að stofnunin þjóni markhópi laganna jafnt á opinbera sem almenna vinnumarkaðinum.

Vinna við þess breytingu er þegar hafin og er ekki ástæða til að ætla annað en að það mál verði til lykta leitt á næstunni í ágætu samkomulagi þeirra aðila sem málið varðar.

Jafnframt leggur ASÍ ríka áherslu á að samhliða afgreiðslu frumvarpsins á alþingi verði gengið frá 5 ára þjónustusamningi við breytta Fræðslumiðstöð. Með því verða best tryggð þau markmið sem getið er um hér að framan og að sú reynsla og þekking sem byggð hefur verið upp af hálfu aðila vinnumarkaðarins nýtist í áframhaldandi uppbyggingu og þróun framhaldsfræðslu á vinnumarkaði.

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu frá því frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi fyrir ári síðan. Helstu breytinguna er að finna í 5. og 12. gr. frumvarpsins. Í 5. gr. er setningu í upphafi greinarinnar breytt frá fyrri útgáfu frumvarpsins. Nú segir:

Framhaldsfræðslu skal miða við þarfir einstaklinga til virkrar þátttöku í samfélaginu, fyrirtækja og atvinnulífs.

Upphafssetningin í fyrra frumvarpi hljóðaði svo:

Framhaldsfræðslu skal miða við þarfir einstaklinga, fyrirtækja og atvinnulífs.

Jafnframt er hnykkt á þessari áherslubreytingu með því að flytja stafalið d) í 2. gr. fram þannig að hann er nú stafaliður a), en þar segir:

að veita einstaklingum með stutta skólagöngu að baki aukin tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu,

Þessar breytingar eru í samræmi við þau sjónarmið sem núverandi menntamálaráðherra setti fram í umræðum um upphaflega frumvarpið. Ekki eru gerðar athugasemdir við þau sjónarmið sem þar búa að baki. Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að breytingin felur í sér nokkra áherslubreytingu varðandi texta frumvarpsins. Af hálfu menntamálaráðuneytisins hefur verið áréttað að ekki gert ráð fyrir að breytingin hafi áhrif á eða breyti fjármögnun og áherslum sem lagðar verða til grundvallar við úthlutun fjármuna til vinnumarkaðstengdrar framhaldsfræðslu frá fyrra frumvarpi. Þannig verði rekstur og fjármögnun framhaldsfræðslu fyrir hópa sem standa utan vinnumarkaðar áfram sérgreind.

Með nýrri 12. gr. er tekið upp hliðstætt ákvæði og er að finna í löggjöf um önnur menntunarstig um markmið mats og eftirlits með gæðum fræðslustarfseminnar. Það er að mati ASÍ bæði eðlilegt og sjálfsagt.

Athugasemdir og ábendingar við nokkur efnisatriði frumvarpsins

Um leið og Alþýðusambandið tekur undir markmið og meginefni frumvarpsins og útfærslu í öllum aðalatriðum viljum við koma eftirfarandi athugasemdum og ábendingum á framfæri:

2.gr.

Í d. lið segir:

... að skapa svigrúm og úrræði til að mæta þörfum atvinnulífsins fyrir aukna þekkingu og hæfni starfsmanna,

Það er ótvírætt skilningur ASÍ að hér sé verið að vísa til „annars tækifæris“ fólks á vinnumarkaði til að sækja sér frekari þekkingu, en jafnframt möguleika einstaklinga á vinnumarkaði með formlega menntun á framhaldsskólastigi og fyrirtækja til að skipuleggja menntunarúrræði og þekkingaruppbyggingu sem ætlað er að mæta nýjum kröfum í atvinnulífinu.

 

3.gr.

Til að árétta þann skilning sem fram kemur varðandi d. lið 2. gr. hér að framan er lagt til að a. liður 3. gr. verði svohljóðandi:

  1. Framhaldsfræðsla: hvers konar nám, úrræði og ráðgjöf sem ætlað er að mæta þörfum einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki og þörfum atvinnulífsins fyrir aukna þekkingu og færni og skipulögð er með hliðsjón af þessum þörfum.

Óbreytt nær greinin ekki alveg utan um það sem framhaldsfræðsla ætti að vera,þ.e. mæta þörfum einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki og þörfum atvinnulífsins fyrir aukna þekkingu og færni. Þá er síðari hluti setningarinnar of takmarkandi.

Eftir framhaldsfræðsluleið stendur fólki á vinnumarkaði til boða leikskólaliðabrú og félagsliðabrú. Það nám er skipulagt á grundvelli laga um framhaldsskóla en hægt er að stunda það með námi í símenntunarmiðstöðvum og hefur það reynst mjög vel.

Einnig er lögð áhersla á mikilvægi þess að stuðningur við endurmenntun iðnaðarmanna og annarra starfsmenntaðra verði ekki lakari eftir en áður. Bent skal á varðandi 10. gr. að gert er ráð fyrir því að við setningu laga um framhaldsfræðslu falli úr gildi lög um starfsmenntun í atvinnulífinu nr. 19/1992. Starfsmenntasjóður hefur reynst öflugur bakhjarl við þróun margra iðn- og starfsgreina.

 

5.gr.

Alþýðusamband Íslands áréttar þar sem segir í 5. gr. og á alveg sérstaklega við þar sem segir:

Haft skal samráð við heildarsamtök launafólks og atvinnurekenda um framkvæmd laga þessara og er ráðherra heimilt að fela stofnunum eða félögum á þeirra vegum verkefni er tengjast framkvæmd þeirra, sbr. 15. gr.

Í því sambandi skal áréttað það sem segir hér að framan um þjónustusamning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

7.gr.

Vakin er sérstök athygli á e. lið 7. gr. þar sem fjallað er um viðurkenningu til fræðsluaðila í framhaldsfræðslu, að mat verði lagt á eftirtalda þætti. Þar segir:

e. tilvist gæðakerfis með áherslu á nám fullorðinna.

Áréttað er mikilvægi þeirrar hugsunar sem þarna býr að baki um að framhaldsfræðslu beri að skipuleggja og framkvæma með það í huga að verið sé að þjónusta fullorðið fólk og að slíkt krefjist sérþekkingar og sérstakrar nálgunar.

 

8.gr.

Alþýðusambandið vekur sérstaka athygli á mikilvægi 8. gr. frumvarpsins. Reynslan hefur sýnt að náms- og starfsráðgjöf hefur mikið og vaxandi gildi fyrir einstaklinga á vinnumarkaði við að ákveða frekara nám. Þá er raunfærnimatið mikilvægt verkfæri til að efla og styrkja sjálfsmynd einstaklinga, ekki síst þá sem ekki hafa lokið formlegu námi á framhaldsskólastigi.

Til samans eru náms- og starfsráðgjöfin og raunfærnimatið mikilvæg til að byggja brýr á milli framhaldsfræðslukerfisins og formlega skólakerfisins, bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi.

Jafnframt hefur reynslan kennt að mikilvægt er að byggja raunfærnimatið og hvernig unnið er með það gagnvart einstaklingunum, eins og kostur er í samvinnu við fræðslustofnanir iðngreina/atvinnulífsins, þar sem þær eru til staðar.

10. gr.

Í samhengi við það sem áður hefur komið fram í athugasemdum við 2. og 3. gr. frumvarpsins áréttar ASÍ mikilvægi c. liðar 10. gr. um mikilvægi styrkja til nýsköpunar- og þróunarverkefna sem nýtist launafólki og fyrirtækjum ýmissa starfsgreina eins og Starfsmenntasjóður hefur gert.

18. gr.

Mikilvægt er að hægt verði að undirbúa framkvæmd laganna sem best, þannig að ekki komi til þess að rof eða seinkun verði á framkvæmd og stuðningi við framhaldsfræðslu. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar nk. Ljóst er að ef sú tímasetning á að halda reynir mikið á samráð og samstarf þeirra sem málið varðar til að yfirfærsla samkvæmt nýjum lögum geti gengið vel og áfallalaust fyrir sig. Það kallar m.a. á að undirbúningur varðandi verklag við úthlutun úr Fræðslusjóði geti hafist sem fyrst á nýju ári enda mikilvægt að þar verði vandað til verka um leið og byggt verði á þeirri reynslu sem fengist hefur m.a. með samningum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og menntamálaráðuneytisins og frá Starfsmenntaráði vegna úthlutana úr starfsmenntasjóði.

Virðingarfyllst,

Halldór Grönvold,

aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ

Var efnið hjálplegt?