Um ASÍ

Aðildarfélög Alþýðusambands Íslands

Aðildarfélög ASÍ sinna margs konar þjónustu fyrir félagsmenn sína. Þau gera kjarasamninga þar sem kveðið er á um laun og önnur starfskjör félagsmanna. Þau leiðbeina um túlkun kjarasamninga og aðstoða launafólk við að sækja rétt sinn gagnvart atvinnurekendum, s.s. við innheimtu launa, viðurkenningu á áunnum réttindum og varðandi öryggis- og aðbúnaðarmál. Þau leiðbeina og aðstoða félagsmenn sína í samskiptum við opinberar stofnanir á sviði vinnumarkaðsmála, s.s. Atvinnuleysistryggingasjóð, Fæðingarorlofssjóð og Ábyrgðasjóð launa.

Á vegum stéttarfélaganna eru reknir sjúkrasjóðir sem veita margháttuð réttindi, m.a. með greiðslu dagpeninga þegar félagsmenn veikjast eða lenda í slysum. Stéttarfélög reka í samstarfi við samtök atvinnurekenda fræðslustofnanir og fræðslusjóði og leiðbeina félagsmönnum sínum varðandi réttindi þeirra til endur- og eftirmenntunar og stuðning vegna símenntunar. Þá reka stéttarfélögin orlofshús og íbúðir víða um land og erlendis.

Alþýðusamband Íslands hvetur launafólk til að kynna sér starfsemi síns stéttarfélags og þá þjónustu sem það veitir félagsmönnum sínum. Jafnframt hvetur ASÍ launafólk til að taka virkan þátt í starfi stéttarfélaganna.

Aðildarfélögin innan Alþýðusambands Íslands eru 47 talsins. Flest eiga þau aðild að ASÍ í gegnum eitthvert fimm landssambanda ASÍ. Þó eiga sex félög beina aðild að ASÍ.