Lífeyrismál

45. þing ASÍ
Áherslur ASÍ 2022 – 2024

Lífeyrismál

Áherslur ASÍ

• Almannatryggingar og lífeyrissjóðir eiga saman að mynda grunnstoðir lífeyriskerfisins á Íslandi. Mikilvægt er að samspil þessara kerfa sé skilvirkt og sanngjarnt og skerðingar og tekjutengingar taki mið af því svo að tryggt sé að launafólk hafi óumdeildan hag af því að greiða í lífeyrissjóð og að allir njóti mannsæmandi grunnlífeyris.
• Eftirlaunaaldur þarf að haldast í hendur við lífaldursþróun til að sjálfbærni og kynslóðasátt sé tryggð. Sveigjanleiki kerfisins og fyrirsjáanleiki er mikilvægur fyrir launafólk og forðast skal stórar breytingar á stuttum tíma þegar kemur að lífeyrisaldri.
• Ævilengd fólks er á heildina litið misjöfn m.a. eftir störfum og menntunarstigi. Mikilvægt er að lífeyriskerfið taki mið af þessu og komi til móts við þá staðreynd að í ljósi eðlis og erfiðleika starfa verður starfsævi fólks misjafnlega löng.
• Lífeyriskerfið er gríðarlega mikilvægt afkomutryggingakerfi fyrir launafólk sem lendir í örorku. Ríkið þarf markvisst með fjárframlögum að tryggja jafna örorkubyrði lífeyrissjóða.
• Lífeyrissjóðir skulu viðhafa ábyrga og siðferðislega eigenda- og fjárfestingarstefnu með tilliti til réttinda launafólks, sjálfbærni kynslóðanna og umhverfisverndar.


Verkefni ASÍ

• ASÍ skal vakta samspil afkomutryggingakerfa og koma með trúverðugar og sanngjarnar tillögur um hvernig megi tryggja ásættanlegan grunnlífeyri sem og hagsmuni launafólks af því að greiða í lífeyrissjóð.
• ASÍ gæti þess að aðlögun lífeyrissjóða að breyttum lífaldri sé sanngjörn og markviss.
• Hugtakið erfiðisvinna verði skilgreint og ASÍ beiti sér fyrir því að lífeyriskerfið taki upp þá skilgreiningu og mæti þeim hópum sem eiga takmarkaða möguleika á því að lengja starfsævi sína.
• ASÍ kalli eftir því að hið opinbera viðurkenni ábyrgð sína í að jafna örorkubyrði. Sérstök úttekt um misjafna örorkubyrði stétta verði unnin og niðurstöður hennar verði þáttur í sanngjarnara og betra afkomutryggingakerfi.
• ASÍ veiti lífeyrissjóðum aðhald þegar kemur að eftirfylgni á því að eigenda- fjárfestingarstefnum sé fylgt. Eins safni ASÍ og miðli upplýsingum um með hvaða hætti fjármagnseigendur geti stuðlað að heilbrigðara efnahagslífi.

Greinargerð

Um skerðingar og samspil almennra lífeyrissjóða og almannatrygginga

Talsvert er um skerðingar í almannatryggingakerfinu. Ekki er hægt að segja að almenn sátt hafi náðst um hvort eða hversu mikið eðlilegt er að tekjur úr lífeyrissjóðum skerði rétt einstaklinga í almannatryggingakerfinu. ASÍ telur að núverandi kerfi feli í sér of miklar skerðingar í ljósi þess að lífeyriskerfið er í raun ekki fullþroskað. Stærstur hluti einstaklinga sem hefur hafið úttekt á lífeyri er, vegna þróunar kerfisins og/eða verðbólgu, talsvert langt frá því að fá mánaðarlegan ellilífeyri sem nemur 76% af meðaltals mánaðartekjum sem viðkomandi hafði á starfsævinni en býr engu að síður við töluverðar skerðingar. ASÍ telur nauðsynlegt að skapa meiri og betri sátt um samspil kerfanna.

Um lífaldur og sjálfbærni lífeyrissjóða

Lífeyrissjóðir sem njóta ekki bakábyrgðar frá ríkinu verða að gæta sjálfbærni þegar kemur að skuldbindingum og þróun lífaldurs. Ekki má verða til spenna eða ágreiningur á milli kynslóða vegna þess að kerfið gæti ekki að jafnvægi á milli inn- og útgreiðslna. ASÍ skorar á lífeyrissjóði að reka ábyrga stefnu hvað þetta varðar og tryggja sjálfbærni með því að bregðast við ef til þarf. Hvað það varðar er sérstaklega mikilvægt að allar breytingar á útgreiðslum og ávinnslu séu unnar í sem mestri sátt við sjóðfélaga. Jafnframt þarf að gæta vel að upplýsingamiðlun og að gætt sé sérstaklega að því að áhrifin séu milduð eins og unnt er með aðlögunartíma og slíku.

Um misjafna lengd starfsævi og skilgreiningu á hugtakinu erfiðisvinnu

Ætla má t.d. að einstaklingur sem unnið hefur líkamlega erfiðisvinnu stærstan hluta starfsævinnar eigi erfiðara með að lengja starfsævi sína. Í því sambandi má benda á að ævilengd fólks er misjöfn eftir störfum og menntunarstigi og lifir fólk með grunnskólamenntun að meðaltali skemur en einstaklingar með framhalds- og háskólamenntun. Í öðrum löndum (t.d. Danmörku) hefur sérstaklega verið komið til móts við erfiðisvinnufólk þegar kemur til hækkunar lífeyristökualdurs, til dæmis með sérstökum ívilnunum í almannatryggingum (förtidspension). Þetta er einnig mikið til umræðu innan ESB. Á Íslandi á t.d. háskólamenntaður einstaklingur um þrítugt tæplega 55 ár eftir af ævinni en grunnskólamenntaður rétt rúmlega 51 ár.

Um misjafna örorkubyrði lífeyrissjóða

Misjöfn örorkubyrði getur dregið úr getu einstakra lífeyrissjóða til að standa undir skuldbindingum varðandi greiðslur ellilífeyris til sjóðfélaga. Þannig getur örorkubyrðin skapað misvægi innan lífeyriskerfisins og jafnvel orðið til þess að skerða þurfi réttindi sjóðfélaga í ákveðnum sjóðum. Hins vegar eru lífslíkur öryrkja minni en annarra sjóðfélaga og vegur minni langlífisbyrði því að nokkru leyti á móti byrði lífeyrissjóðanna vegna örorkunnar. Í tengslum við kjarasamninga árið 2005 samþykkti þáverandi ríkisstjórn að jafna þessa misjöfnu byrði sjóðanna með jöfnunarframlagi til þeirra sjóða sem mikið á reynir. Umræddar greiðslur hafa hvorki verið markvissar né haldið verðgildi undanfarin ár og einhver brögð á að frá þeim verði
horfið. ASÍ telur það réttlætismál að byrði þessi sé jöfnuð og skorar á ríkið að axla sína ábyrgð í þeim efnum.

Um eigenda- og fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða

Allir lífeyrissjóðir á samningssviði ASÍ a.m.k. hafa á undanförnum árum gert sig í auknum mæli gildandi þegar kemur að samfélagslega ábyrgri eigenda- og fjárfestingarstefnu. Svokallaðar UFS leiðbeiningar (umhverfi; félagslegir þættir; sjálfbærni) eru ráðandi í þeim efnum. Eins hefur umræða um umhverfisvænar (grænar) fjárfestingar verið mjög fyrirferðarmikil undanfarin misseri. Umræða um samfélagslega ábyrgð lífeyrissjóða sem fjárfesta á sér ekki upphaf og endapunkt heldur er lifandi umræða sem þarf að mati ASÍ að viðhalda stöðugt. Lífeyrissjóðir verða að gæta að því að vera ekki einhvers konar „óvirkt fjármagn“ sem áhættusæknir og óábyrgir fjárfestar geti teymt með sér í vafasamar vegferðir í rekstri og fjárfestingum. ASÍ skorar á lífeyrissjóði að sofna ekki á verðinum í þessari umræðu og setja sér metnaðarfull markmið og stefnu sem er staðið við. Umrædd mál eru líka kjörin til að bæta og virkja tengsl lífeyrissjóða við fulltrúaráð og að mati ASÍ er það öllum til bóta að sá vettvangur sé heppilegur í þróun þessara mála.