Kjaramál og vinnumarkaður

45. þing ASÍ
Áherslur ASÍ 2022 – 2024

Kjaramál og vinnumarkaður

Áherslur ASÍ

• Tryggja þarf grundvallarlöggjöf um réttindi og skyldur launafólks og atvinnurekenda á vinnumarkaði og samskipti stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins við að verja og þróa frekar heilbrigðan vinnumarkað.
• Tryggja þarf öflugt eftirlit á vinnumarkaði til að sporna við brotum á lögum og kjarasamningum og misneytingu launafólks. Launaþjófnaður sæti refsingum.
• Krafa verkalýðshreyfingarinnar er að tæknibreytingar og breytingar á atvinnuháttum leiði til bætts vinnuumhverfis og lífskjara launafólks.
• Tryggja þarf að uppbrot ráðningarsambanda, óregluleg vinna og óhefðbundin ráðningarsambönd, leiði ekki til kjaraskerðingar vinnandi fólks.

Verkefni ASÍ

• Vinna að og þrýsta á um umbætur á grundvallarlöggjöf, í samræmi við loforð ríkisstjórnar tengd lífskjarasamningunum, sem tryggir umgjörð um samskipti stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar sem og viðurlög gegn brotum á vinnumarkaði út frá hagsmunum launafólks. Önnur atriði sem falla þar undir eru aðgerðir gegn kennitöluflakki, keðjuábyrgð, fastur samráðsvettvangur yfirvalda og aðila vinnumarkaðarins um baráttuna gegn brotastarfsemi auk skipulagðs samstarfs stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um eftirlit á vinnumarkaði.
• Efla frekar vinnustaðaeftirlit verkalýðshreyfingarinnar og þrýsta á um útvíkkun eftirlits með atvinnugreinum.
• Skoða hvernig hreyfingin getur aðstoðað þolendur misneytingar og mansals sem standa utan stéttarfélaga.
• Standa vörð um „rétt launafólks til að aftengjast“ og þau kjarasamningsbundnu réttindi sem viðhalda skilum milli vinnu og einkalífs, þ.m.t. réttindi til bakvaktar- og útkallsgreiðslna vegna tilfallandi vinnu utan hefðbundins vinnutíma skv. ákvæðum kjarasamninga. Ekki síður er rík þörf á að verja réttinn til að aftengjast í þeim tilvikum þegar launafólk er frá vinnu vegna veikinda.
• Fylgja eftir réttindum starfsmanna sem sinna fjarvinnu skv. samkomulagi ASÍ og SA frá 2006 og reglum Vinnueftirlitsins um vinnuvernd í fjarvinnu. Í því tilliti vakta þróun fjarvinnu á vinnumarkaði og greina þörf úrbóta á því sviði.
• Fylgja eftir breytingum á tilhögun og styttingu vinnutíma á íslenskum vinnumarkaði og knýja á um frekari breytingar með það að markmiði að allir hópar launafólks njóti góðs af þeim.
• Standa vörð um kerfi atvinnuleysistrygginga sem byggir á mannúð og virðingu gagnvart atvinnuleitendum. Þrýsta á um að kerfið tryggi afkomu atvinnuleitenda, feli í sér tækifæri til eflingar færni, veiti skilvirkan stuðning í atvinnuleit og leiði til góðra ráðningarsambanda.

Greinargerð

Miklar breytingar eru að verða á íslensku atvinnulífi og vinnumarkaði vegna fólksflutninga, tæknibreytinga og áskorana í umhverfismálum. Jafnframt geta sviptingar og áföll á alþjóðavettvangi haft mikil áhrif á íslenskan vinnumarkað líkt og nýafstaðinn faraldur COVID-19 bar með sér, einkum í formi þess fjöldaatvinnuleysis sem honum fylgdi.

Samfara þessu eru breytingar að verða á atvinnuháttum - skipulagi vinnunnar og sambandi þeirra sem selja vinnuafl sitt og þeirra sem það kaupa. Þessar breytingar fela m.a. í sér minna starfsöryggi og ótryggari ráðningarsambönd í stað þeirra hefðbundnu sem hvíla á grunni hefðbundinna kjarasamninga.
Til að takast á við þessar breytingar er mikilvægt að styrkja stoðir vinnumarkaðskerfis sem byggir á öflugum samtökum launafólks, kjarasamningum sem ná til vinnumarkaðarins alls, reglum um vinnusamband og öryggisnet sem tryggja öllum afkomuöryggi. Samhliða þarf að vera til staðar öflugt eftirlit sem tryggir að kjör og réttindi launafólks séu virt og að hörð viðurlög séu við launaþjófnaði og öðrum brotum atvinnurekenda gagnvart launafólki.

Ítarefni

1 Stjórnarráðið. Yfirlýsing ríkisstjórnar í tengslum við lífskjarasamninga

2 ASÍ. Fjarvinna: https://www.asi.is/vinnurettarvefur/vinnurettur/rettindi-og-skyldur/radningarsambond-stofnun-og-edli/fjarvinna/

3 Vinnueftirlitið (2022) Vinnuvernd í fjarvinnu: https://vinnueftirlitid.is/vinnuumhverfi/oryggi-heilbrigdi/vinnuvernd-i-fjarvinnu

4 ASÍ (2021) Íslenskur vinnumarkaður: https://www.asi.is/media/317291/vinnumarkadsskyrsla_2021.pdf

Málefni launafólks af erlendum uppruna

Áherslur ASÍ

• Verkalýðshreyfingin þjónusti allt félagsfólk jafnt, burtséð frá tungumáli eða bakgrunni. Til þess þarf sértækar aðgerðir. Í þjónustu sé ávallt haft í huga og tekið tillit til þess að hluti launafólks er ekki íslenskumælandi og býr ekki yfir þekkingu á íslenskum vinnumarkaði og samfélagi.
• Starfsfólk verkalýðshreyfingarinnar og félagslega kjörnir fulltrúar hennar, þar á meðal trúnaðarmenn, endurspegli fjölbreytta samsetningu launafólks. Í allri fræðslu á vegum hreyfingarinnar sé sérstaklega hugað að jöfnu aðgengi allra, einnig þeirra sem ekki eru íslenskumælandi eða hafa ekki þekkingu á íslenskum vinnumarkaði. Fólk af erlendum uppruna eigi rödd í hreyfingunni og sjónarmið og hagsmunir þeirra séu sjálfsagður hluti í baráttu hreyfingarinnar fyrir bættum kjörum. Hagsmunir þeirra eru hagsmunir okkar allra.
• Skoða þarf stöðu berskjaldaða hópa á vinnumarkaði á borð við umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttafólk. Um aðgerðir gegn brotastarfsemi vísast að öðru leyti í
þingskjal um vinnumarkað og kjaramál.
• Stuðlað sé að fjölmenningarlegri vitund meðal starfsfólks og félagslega kjörinna fulltrúa hreyfingarinnar gegnum fræðslu.
• Vönduðum og skýrum upplýsingum um réttindi og skyldur á vinnumarkaði sé miðlað á mörgum tungumálum til launafólks.
• Stuðlað sé að því að íslenskukennsla verði efld og að launafólk geti stundað íslenskunám á vinnutíma, sér að kostnaðarlausu.
• Innflytjendur fái störf sem hæfa menntun og færni þeirra. Hreyfingin tali fyrir því að innflytjendur fái aðgengi að störfum við hæfi.
• Stuðlað verði að frekari rannsóknum á lífskjörum launafólks af erlendum uppruna. Sá galli er á mörgum opinberum rannsóknum og könnunum hér á landi að þær ná illa til innflytjenda. Efla þarf greiningar á stöðu þessa fólks sem byggja á gögnum frá stéttarfélögunum.

Verkefni ASÍ

• Móta leiðarljós um samræmda þjónustu stéttarfélaganna við aðflutt launafólk í samráði við félagsfólk af erlendum uppruna og stéttarfélögin.
• Regluleg fræðsla um túlkaþjónustu fyrir starfsfólk hreyfingarinnar.
• Hvetja stéttarfélögin til að nýta fjölbreyttar lausnir í túlka- og þýðingamálum.
• Stuðla að því að fólk með fjölbreytta tungumálaþekkingu sé ráðið til starfa í verkalýðshreyfingunni.
• Útbúa leiðarljós um túlkun, þýðingar og auðlæsileika á útgefnu efni og viðburðum á vegum ASÍ.
• Skilgreina þær áskoranir sem koma í veg fyrir að trúnaðarmannakerfið endurspegli fjölbreytta samsetningu á vinnustöðum.
• Kynna starfsemi stéttarfélaganna og eiga samtal við launafólk og trúnaðarmenn af erlendum uppruna, með vinnustaðaheimsóknum í samvinnu við stéttarfélögin.
• Kalla eftir endurskoðun á atvinnuréttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd.
• Staða flóttafólks sem hlotið hefur alþjóðlega vernd verði könnuð á vinnumarkaði í ljósi lítillar atvinnuþátttöku þess þrátt fyrir hindrunarlausan aðgang. Í framhaldi verði metið hvort ráðast eigi í sérstakt atvinnuátak fyrir flóttafólk.
• Bjóða starfsfólki stéttarfélaga upp á námskeið um fjölmenningu og menningarlæsi.
• Útbúa miðlægt upplýsingaefni um réttindi og skyldur á mörgum tungumálum sem stéttarfélög geta nýtt sér.
• Setja á fót miðlæga upplýsingasíðu um réttindi og skyldur á mörgum tungumálum (labour.is).
• Hvetja stéttarfélög til fara í sérstakt upplýsingaátak til að kynna starfsemi sína fyrir launafólki af erlendum uppruna.
• Kalla eftir samtali við yfirvöld og heildarsamtök atvinnurekenda um aðgengi að íslenskukennslu og mat á gæðum hennar.
• Efla samstarf við Vörðu, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, um fjölbreyttari og dýpri rannsóknir á stöðu og velferð launafólks af erlendum uppruna.
• Kanna leiðir í samvinnu við stéttarfélögin til að afla upplýsinga um hlutfall félagsfólks af erlendum uppruna í félögunum.

Greinargerð

Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Þessi vísun í einkennismerki ASÍ, um samtakamátt heildarinnar, á einkar vel við Fólk af erlendum uppruna er nú fimmtungur launafólks og rúm 15% íbúa landsins. Á tveimur áratugum hefur fjöldi þeirra sexfaldast. Verkalýðshreyfingin hefur fylgst grannt með þessari þróun um árabil. Samfara innstreymi aðflutts launafólks hefur hreyfingin orðið vitni að og þurft að bregðast við sívaxandi brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði.

Stéttarfélögin fá til sín æ fleiri og alvarlegri mál en áður tengd launaþjófnaði og kjarasamningsbrotum. Þetta kemur fram í skýrslu ASÍ frá 2019 og segir að brotin beinist að þeim sem þekkja síður réttindi sín, þar á meðal erlendu launafólki. Það er einnig líklegra til að búa við óöryggi og óstöðugleika á vinnumarkaði og er fjölmennara í hópi láglaunafólks. Það vinnur lengri vinnudag og á erfitt með að fá menntun sína og starfsreynslu metna.

Verkalýðshreyfingin þarf að róa að því öllum árum að styrkja viðkvæmustu hópana, veikustu hlekkina, því öðruvísi er hætta á að keðjan slitni. Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES), árið 1994, lagði grunninn að breyttum vinnumarkaði og fjölgun innflytjenda á Íslandi, með tilheyrandi frjálsri för launafólks. Búferlaflutningar hingað til lands fóru þó hægt af stað og voru innflytjendur um 2% íbúa fram að aldamótum. Schengen-samstarfið (2001) gerði flutninga hingað til lands auðveldari en
fjölgunin hófst fyrir alvöru við inngöngu nýrra aðildarríkja Evrópusambandsins árið 2006, þar með talið Lettlands, Litháen, Eistlands og ekki síst Póllands. Þá þurftu ríkisborgarar þeirra landa ekki lengur sérstakt atvinnuleyfi til að starfa hér á landi. Í dag eru Pólverjar langfjölmennasti hópur innflytjenda á Íslandi eða tæp 40% af heildarfjölda. Næst koma Litháar, Rúmenar og Lettar.

Á hinum alþjóðavædda og þensludrifna samevrópska vinnumarkaði er flæði vinnuafls fyrst og fremst drifið áfram af þörf atvinnurekenda fyrir ódýrt og tímabundið vinnuafl á uppsveiflutímum og er Ísland engin undantekning þar á. Launafólk leitar oftast þangað sem kaup og kjör eru betri en í heimalandinu og fólk frá láglaunasvæðum fær tækifæri til að starfa í löndum þar sem laun eru hærri og starfskjör geta verið betri. Því miður festist þetta sama fólk oft í láglaunastörfum og jafnvel í fátæktargildru sem það á litla möguleika á að vinna sig upp úr.

Þó að flestir innflytjendur komi hingað til lands á grundvelli frjáls flæðis launafólks frá ríkjum Evrópusambandsins má ekki gleyma að hingað kemur einnig fólk af öðrum ástæðum, á öðrum forsendum og frá öðrum heimshlutum. Fólk kemur til Íslands til að mennta sig, vegna fjölskyldutengsla eða eru einstaklingar á flótta, svo eitthvað sé nefnt. Allt er þetta fólk sem er hluti af samfélaginu og oft og tíðum vinnumarkaði. Hvort sem fólk er hér til skemmri eða lengri tíma er verkalýðshreyfingin málsvari þeirra enda hafa rannsóknir sýnt að fólk ílengist gjarnan. Því er æskilegt að ganga út frá því að aðflutt launafólk sé komið til að vera og miða þjónustu við það.

Á hinn bóginn þarf að hafa hugfast að flæði evrópsks launafólks, sem kemur hingað í stuttan tíma og fer aftur, er komið til að vera enda er það ein meginstoða Evrópusamstarfsins. Verkalýðshreyfingin þarf að vera vakandi yfir þeirri öfugþróun að sístækkandi hópur fólks standi utan löglegs vinnumarkaðar. Sérstaklega þarf að horfa til fólks á flótta sem má skipta í þrjá eftirfarandi hópa:

  1. Flóttafólk sem fær sjálfkrafa atvinnuleyfi með alþjóðlegri vernd. Vísbendingar liggja
    fyrir um að atvinnuþátttaka þess sé afar lág í samanburði við aðra hópa, þó ekki sé
    hægt að styðja þær með gögnum því þau liggja ekki fyrir.
  2. Flóttafólk sem fær vernd af mannúðarástæðum og þarf að sækja sérstaklega um
    atvinnuleyfi sem er bundið við tiltekinn atvinnurekanda.
  3. Og síðast en ekki síst umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem geta sótt um
    bráðabirgðaatvinnuleyfi, einnig bundið við tiltekinn atvinnurekanda, að uppfylltum
    ströngum skilyrðum sem oft eru illyfirstíganleg.

Þegar slíkar skorður eru settar við atvinnuþátttöku skapar það kjörlendi fyrir svarta atvinnustarfsemi og misneytingu og hætta skapast á tvöföldum vinnumarkaði.
Vinnustaðir og stéttarfélög eru oft og tíðum fyrsta snerting innflytjenda við samfélagið og brýnt að sú snerting einkennist af fagmennsku og þjónustulund fyrir áframhaldandi samskipti, samvinnu og framtíðarsamfélag. Vægi vinnumarkaðarins og verkalýðshreyfingarinnar er lykill að frekari jákvæðum breytingum.
Verkalýðshreyfingin hlýtur að leitast við að styrkja enn frekar veikustu hlekki sína og taka skref í að útvíkka keðjuna svo að hún nái utan um allt launafólk og endurspegli þannig nýja samsetningu íslensks vinnumarkaðar.