Framtíð vinnumarkaðarins

45. þing ASÍ
Áherslur ASÍ 2022 – 2024


Framtíð vinnumarkaðarins

Áherslur ASÍ


• Réttlát umskipti verði leiðarljós í allri stefnumótun og ákvarðanatöku í yfirstandandi samfélagsbreytingum.
• Verkalýðshreyfingin komi að ákvarðanatöku og stefnumótun sem varðar aðgerðir tengdar loftslagsbreytingum og launafólk og almenningur sé haft með í ráðum.
• Lýðræði í atvinnulífinu verði aukið og umbætur gerðar á lagaumhverfi samvinnufélaga.
• Þjóðhagslegar greiningar á áhrifum loftslags- og tæknibreytinga á mismunandi hópa samfélagsins, svæði og atvinnugreinar liggi til grundvallar opinberri stefnumótun.
• Ráðist verði í gerð atvinnu- og fjárfestingarstefnu um uppbyggingu atvinnulífs og sköpun fjölbreyttra, góðra, grænna starfa sem standa undir góðum lífskjörum.
• Fjárfesting og nýsköpun verði stórefld og skapaðir verði hvatar til að fjölga störfum þar sem verðmætasköpun felst í tækni, hugviti og þekkingu og byggi á endurnýtingu, endurvinnslu og fullnýtingu hráefna.
• Ný tækni og breytingar á atvinnuháttum verði á forsendum launafólks og tækifæri sem í þeim felast verði nýtt til að bæta lífskjör, stytta vinnutíma og til að samræma betur atvinnuþátttöku og einkalíf.
• Fjárfesting í innviðum í almannaeigu verði stórefld og innviðir samfélagsþjónustu, samgangna, fjarskipta og raforku verði í fremstu röð um allt land. Innviðauppbygging styðji við græna atvinnusköpun, velferð og lífsgæði.
• Orkuskiptum, uppbyggingu almenningssamgangna og innviða fyrir virka ferðamáta verði hraðað. Almenningssamgöngur verði bættar til muna þannig að þær verði raunhæfur og hagkvæmur valkostur fyrir almenning.

Verkefni ASÍ

• Beita sér fyrir því að ráðist verði í markvissa stefnumótun og hnitmiðaðar aðgerðir til að tryggja að þau tækifæri sem felast í yfirstandandi breytingum á efnahag, atvinnulífi og vinnumarkaði verði nýtt, samfélaginu öllu í hag.
• Tryggja að verkalýðshreyfingin komi að stefnumótun, áætlanagerð og ákvarðanatöku sem tengist yfirstandandi samfélagsbreytingum og að almenningur sé hafður með í ráðum.
• Vinna að því að framkvæmd verði þjóðhagsleg greining á áhrifum loftslags- og tæknibreytinga á vinnumarkaðinn sem tekur tillit til áhrifa á ólík svæði, atvinnugreinar, störf og hópa og slík greining sé leiðarljós í stefnumótun og ákvarðanatöku.
• Standa vörð um að tækifærum og byrðum sem felast í yfirstandandi breytingum á hagkerfinu og uppbyggingu á atvinnulífi og vinnumarkaði sé dreift með jöfnum og sanngjörnum hætti.
• Knýja á um að fjárfesting og notkun á stjórntækjum hins opinbera stuðli að réttlátum umskiptum og sköpun fjölbreyttra góðra, grænna starfa.
• Greina og kortleggja með hvaða hætti breytingar á skipulagi vinnunnar og réttindi á vinnumarkaði styðja við bætt kjör, meiri lífsgæði og sjálfbærni og vinna tillögur í samstarfi við aðildarfélög ASÍ um hvernig megi samtvinna þessa þætti.
• Beita sér fyrir að uppbygging innviða verði efld og að innviðauppbygging stuðli að bættum kjörum, auknum lífsgæðum og sjálfbærni.
• Beita sér fyrir að almenningssamgöngur verði bættar til muna þannig að þær verði raunhæfur og hagkvæmur valkostur fyrir almenning.
• Efla vitund almennings og samfélagsins um réttlát umskipti og mikilvægi þeirra.
• Vinna að því að lagaumhverfi í kringum samvinnufélög verði bætt þannig að samvinnurekstur standi jafnfætis annarskonar rekstraformum.

Greinargerð

Loftlagsbreytingar af mannavöldum er ein stærsta áskorun samtímans og hefur þegar haft víðtæk áhrif á efnahags- og atvinnulíf, lífskjör og afkomu almennings um allan heim. Ísland hefur skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að minnka hnattræna hlýnun. Ísland þarf að uppfylla alþjóðaskuldbindingar sem óhjákvæmilega munu hafa áhrif á vinnumarkaðinn. Skuldbindingarnar verða ekki uppfylltar án kostnaðar en fórnarkostnaður aðgerðarleysis er þó langtum meiri. Umbreytingar þessu tengdar fela í sér tækifæri til jákvæðra samfélagsbreytinga en ef ekkert verður aðhafst munu breytingarnar hafa afar neikvæð áhrif á samfélagið.

Sterk verkalýðshreyfing er forsenda réttlátra umskipta.

Ísland er ríkt af náttúruauðlindum, hagkvæm og sjálfbær nýting og verndun þeirra er hornsteinn að öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi. Til að Ísland geti uppfyllt skuldbindingar sínar í loftslagsmálum verður að leggja aukna áherslu á sjálfbærni þar sem auðlindir landsins eru í forgrunni. Okkur ber skylda til að byggja upp sjálfbært samfélag þar sem velferð okkar í dag rýrir ekki velferð komandi kynslóða né kjör annarra þjóða. Nauðsynlegt er að takast samtímis á við efnahagslegar, félagslegar og umhverfislegar áskoranir samtímans og snúa vörn í sókn. Sjálfbær samfélagsuppbygging þar sem lífsgæði, jöfnuður og velsæld eru í forgrunni hefur í för með sér mikinn þjóðhagslegan ávinning

Aðrar áskoranir sem atvinnulífið um heim allan stendur frammi fyrir eru breytingar á skipulagi vinnunnar vegna nýrrar tækni og tækniþróunar. Þessar breytingar setja frekari þrýsting á samfélög á að nýta tæknina til að auka hagsæld og velferð samfélagsins og að aðlagast örum breytingum. Það er grundvallaratriði að ný tækni og breyttir atvinnuhættir þjóni hagsmunum alls launafólks. Samfélagsþróun, loftslagsbreytingar, tækniþróun og sjálfvirknivæðing kemur til með að breyta samsetningu starfa á vinnumarkaði og mun störfum fækka í sumum greinum en fjölga í öðrum. Þau lönd sem bregðast hratt við verða í betri stöðu til að nýta breytingar til bættra lífskjara almennings og samkeppnishæfni.


Í kjölfarið gefst tækifæri til að skapa græn og sjálfbær störf sem standa undir góðum lífskjörum um land allt:
• Störf sem bjóða upp á öruggar, heilbrigðar og mannsæmandi vinnuaðstæður.
• Störf sem leggja sitt af mörkum til að vernda umhverfið.
• Störf sem styrkja velferð og jafnrétti.
• Störf sem efla nýsköpun þar sem hagnýting hugvits verður grundvöllur samkeppnishæfni landsins.
• Störf sem byggja á þeirri þekkingu sem þegar er til staðar og sterkum innviðum landsins.

Slík tækifæri verða ekki nýtt nema með skýrri stefnumótun og hnitmiðuðum aðgerðum hins opinbera í samstarfi við verkalýðshreyfinguna.