Efnahagur, kjör og skattar

45. þing ASÍ
Áherslur ASÍ 2022 – 2024

Efnahagur, kjör og skattar

Áherslur ASÍ

• Skattkerfið stuðli að samfélagssátt, tryggi jöfnuð og standi undir traustum velferðarstoðum samfélagsins.
• Tekjuskattkerfið sé raunverulegt jöfnunartæki og hæstu tekjur samfélagsins verði skattlagðar með sérstöku hátekjuþrepi.
• Persónuafsláttur þróist í takt við launaþróun til þess að koma í veg fyrir sjálfvirka skattahækkun lægstu launa.
• Umbætur verði gerðar á skattlagningu fjármagns og fjármagnstekna með það að markmiði að jafna skattbyrði milli launatekna og fjármagnstekna.
• Mótuð verði stefna um auðlindagjöld sem tekur mið af þeirri rentu sem til verður við nýtingu auðlinda. Notendur sameiginlegra auðlinda greiði eðlilegt gjald fyrir nýtingu hvort sem er í fiskveiðum, fiskeldi eða orkunýtingu.
• Ráðist verði í markvissar aðgerðir gegn skattsvikum og undanskotum.
• Skattkerfinu verði beitt til að draga úr neikvæðum ytri áhrifum af efnahagsstarfsemi og vinna að markmiðum í loftlagsmálum.
• Skattlagning á útlosun gróðurhúsalofttegunda nái til allrar uppsprettu útlosunar í atvinnustarfsemi.
• Kanna ber forsendur þess að settir verði tíðniskattar á stórnotendur flugþjónustu (e. frequent flyer tax).
• Loftslagsaðgerðir dragi úr félagslegu óréttlæti, stuðli að auknum jöfnuði og feli í sér bætt lífskjör og tækifæri fyrir launafólk og almenning.
• Gagnsæi ríki um þær forsendur sem liggja að baki stefnumótun hins opinbera í loftslagsmálum, um beitingu stjórntækja hins opinbera í loftslagsmálum og þær fjármagnstilfærslur sem af þeim leiða.
• Launafólk búi við stöðugt efnahagslíf og hóflegt vaxtaumhverfi.
• Stjórnvöld beiti inngripum í ríkari mæli til að bregðast við markaðsbrestum. Strangar kröfur séu á fjárfestingu í eign umfram fyrstu eign til að draga úr ásókn fjárfesta í íbúðarhúsnæði sem ýtir undir verðhækkanir á markaði.
• Enn frekar verði þrengt að verðtryggingu lána og stuðlað að óverðtryggðu lánaumhverfi. Núverandi fyrirkomulag vinnur gegn peningastefnunni þar sem vextir verðtryggðra lána fara lækkandi á sama tíma og vextir hækka.
• Landsbankinn verði gerður að samfélagsbanka með lágri arðsemiskröfu.
• Dregið verði úr háum kostnaði við greiðslumiðlun á Íslandi.
• Komið verði í veg fyrir starfsemi okur- og rányrkjulána sem viðgangast í formi smálána og annarra skammtímalána.
• Áhrif lagasetninga Alþingis verði ávallt greind með tilliti til jöfnuðar.
• Opinber gögn um eignir einstaklinga verði bætt til að gefa nákvæmari mynd af ójöfnuði.
• Alþýðusamband Íslands hafnar ofurbónusum og óhóflegum arðgreiðslum til eigenda.
• Undirliggjandi halla á ríkissjóði og fyrirséðri útgjaldaþörf verði mætt með eflingu tekjustofna en ekki einungis niðurskurði.
• Velferðarkerfið og nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum verði ekki notað sem hagstjórnartæki.
• Stórauka þarf uppbyggingu innviða um land með það að markmiði að stuðla að blómlegum byggðum, traustri velferð og sterkri atvinnu.
• Tryggt verði afkomuöryggi launafólks, aldraðra, öryrkja og atvinnulausra.
• Tryggja þarf að bætur almanna- og atvinnuleysistrygginga þróist í takt við launaþróun.
• Barnabótakerfið sé notað til að jafna stöðu barnafjölskyldna við barnlausa. Þar þarf að draga úr tekjutengingum og endurskoða fjárhæðir m.t.t. aldurs, sambúðarforms og fjölda barna.
• Atvinnuleysistryggingakerfið veiti vernd gegn tekjufalli og stuðli að því efla einstaklinga í atvinnuleit. Atvinnuleysistímabil verði ekki stytt og bætur séu 95% af lægstu launum á vinnumarkaði. Tekjutengdar bætur greiðist strax í kjölfar atvinnumissis og í sex mánuði.
• Húsnæðisstuðningur miði að því að tryggja viðráðanlegan húsnæðiskostnað.
• Framúrskarandi heilbrigðisþjónusta óháð búsetu, aldri eða efnahag. Efla ber grunnstoðir opinbera heilbrigðiskerfisins og tryggja að allir hafi aðgang að öflugri heilsugæslu í heimabyggð og nauðsynlegum lyfjum.
• Komið verði í veg fyrir einkarekstur í heilbrigðis- og velferðarþjónustu í hagnaðarskyni og sett skýr mörk á milli opinberrar og einkarekinnar heilbrigðisþjónustu.
• Tryggja þarf öllum landsmönnum aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu m.a. með verulega aukinni greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna ferða, dvalarkostnaðar og vinnutaps.

Verkefni ASÍ

• Alþýðusambandið stuðli að auknum jöfnuði og berjist fyrir því að koma áherslum og stefnu sambandsins í skattamálum á framfæri.

  • ASÍ beiti sér fyrir því að reglur um reiknað endurgjald verði endurskoðaðar til að koma í veg fyrir tekjutilflutning og hvata til stofnunar einkahlutafélaga.
  • Breytingar á fjármagnstekjuskatti, auðlegðarskatti og erfðafjárskatti miði að því að jafna skattbyrði milli fjármagns og launa. Skattbyrði þeirra allra tekjuhæstu lækkar eftir því sem tekjur aukast vegna þess að fjármagnstekjur bera lægri skattbyrði en launatekjur
  • Auðlindagjöld renni að hluta til þeirra byggða þar sem verðmætasköpunin á sér stað.
  • Skatteftirlit verði stóreflt og skattyfirvöldum tryggðir fjármunir, mannafli og þekking til að rannsaka og vinna úr flóknum málum.
  • Tryggja þarf að skattayfirvöld hafi getu til að framfylgja reglum um CFC félög, milliverðlagningu og þunna eiginfjármögnun.
  • Tekin verði upp komugjöld á ferðamenn sem koma til landsins.
  • ASÍ leggi í öllum málflutningi sínum áherslu á nauðsyn þess að grænum sköttum verði beitt til að ná megi markmiðum í loftslagsmálum með því að draga úr neikvæðum áhrifum efnahagslegrar starfsemi á umhverfið.
  • ASÍ framkvæmi sjálfstæðar greiningar á áhrifum mismunandi loftslagsaðgerða á launafólk og kortleggi með hvaða hætti loftslagsaðgerðir geti stuðlað að bættum lífskjörum og auknum jöfnuði.

• Opinber fjármál standi undir traustri velferð, sterku efnahagslífi og stuðli að jöfnuði.

  • Beita sér í samstarfi við aðildarfélögin fyrir því að stjórnvöld efli heilbrigðisþjónustu um land allt.
  • Beita sér fyrir eflingu tilfærslukerfa hins opinbera og eflingu húsnæðisstuðnings.
  • ASÍ beiti sér fyrir því að fjárhæðir almanna- og atvinnuleysistrygginga og tilfærslukerfa rýrni ekki að raunvirði í núverandi verðbólgu ástandi.
  • Dregið sé úr tekjutengingum í almannatryggingakerfinu og krónu á móti krónu skerðingar afnumdar.
  • Auka þarf möguleika fólks með skerta starfsgetu til atvinnuþátttöku.
  • Auka þarf möguleika eldra fólks sem hefur vilja og getu til þátttöku á vinnumarkaði og skapa nauðsynlegan sveigjanleika við starfslok.

• Jöfnuður sem grundvöllur sterks efnahagslífs

  • ASÍ framkvæmi greiningar á ójöfnuði á Íslandi og með hvaða hætti stefnumótun hins opinbera hefur áhrif á jöfnuð í samfélaginu.
  • Stuðlað verði að því að draga úr launabili innan fyrirtækja og stofnana, t.d. með því að launabil komi fram í ársreikningum.
  • ASÍ þrýsti á um að hið opinbera framkvæmi greiningar á áhrifum loftslagsaðgerða á mismunandi hópa samfélagsins og að þær greiningar liggi til grundvallar stefnumótun og ákvörðunum.

Greinargerð

Skattar, samfélagssátt og jöfnuður

Hlutverk skattkerfisins er að stuðla að samfélagssátt, tryggja jöfnuð og leggja grunn að velferð þjóðarinnar. Alþjóðastofnanir telja sterk rök fyrir því að skattkerfinu sé beitt til að draga úr ójöfnuði. Ójöfnuður er ógn við lífsgæði, lífslíkur og heilsu fólks. Ójöfnuði er viðhaldið af óréttlátu skattkerfi sem skattleggur tekjur fjármagnseigenda og fjölþjóðafyrirtækja með öðrum hætti en launatekjur almennings. Óréttlátt skattkerfi, fjársveltar eftirlitsstofnanir og aðgerðarleysi stjórnvalda hafa búið til leiðir fyrir einstaklinga og fjölþjóðafyrirtæki að komast hjá þátttöku í fjármögnun samfélagsins. Alþýðusambandið hefur metið að hið opinbera verði fyrir 3-8 milljarða króna skatttekjum á ári vegna tekjutilflutnings þar sem launatekjur eru taldar fram sem fjármagnstekjur. Til viðbótar hefur starfshópur fjármálaráðuneytisins metið að skattaundanskot geti numið hundruðum milljarða eða á bilinu 3-7% af vergri landsframleiðslu ár hvert.

Opinber fjármál og traust velferð grundvöllur stöðugs efnahagslífs

Í dag er kerfislægur halli á afkomu hins opinbera ásamt því að samfélagsinnviðir eru vanfjármagnaðir. Á sama tíma hafa skattar verið lækkaðir á hina tekjuhæstu í samfélaginu með lækkun bankaskatts, litlum veiðigjöldum, afnámi auðlegðarskatts og hækkun frítekjumarks fjármagnstekna. Þannig hafa aðgerðir stjórnvalda veikt þann grunn sem traust velferðarsamfélag stendur á.
Afleiðingar Covid-19 hafa dregið fram mikilvægi öruggs heilbrigðiskerfis, traustra velferðarstoða, tryggrar afkomu og félagslegs öryggisnets. Það veikir þessar grunnstoðir að skattar hafa verið lækkaðir á þá sem mest hafa milli handanna og að samfélagið verði af hundruðum milljarða ár hvert vegna undanskota og skattasniðgöngu.

Réttlátt skattkerfi mun einnig leika lykilhlutverk í að fjármagna velferðarkerfi sem getur mætt afleiðingum Covid-19 og þeim gríðarlegu áskorunum sem felast í loftslags- og tæknibreytingum. Tvö meginskilyrði þess að stöðugleiki ríki í efnahagsmálum þjóðarinnar eru traust staða opinberra fjármála og vel fjármagnað velferðarkerfi.

Græn skattlagning

Skattlagning þarf að endurspegla í auknum mæli ábyrgð atvinnuvega og atvinnulífs á útlosun gróðurhúsalofttegunda. Hún þarf að virka sem hvati um leið og hún undirstrikar þá ríku skyldu atvinnuvega og atvinnulífs að draga úr útlosun. Greiningar hins opinbera á áhrifum loftslagsaðgerða á hina ýmsu samfélagshópa þurfa að liggja til grundvallar stefnumótun, ákvörðunum og aðgerðum.

Kostnaðar- og ábatagreining loftslagsaðgerða þarf að taka til samfélagslegra áhrifa en ekki eingöngu efnahagslegra þátta.

Í þeim tilvikum sem íþyngjandi aðgerðum, svo sem gjaldtöku og skattlagningu, er beitt til að áhrif á hegðun, þarf jafnan að tryggja að almenningur hafi raunhæfa möguleika á að breyta hegðun sinni. Hinu opinbera ber að tryggja að nauðsynlegir innviðir séu til staðar sem styðja við breytta hegðun.
Gagnsæi þarf að ríkja um þær forsendur sem liggja að baki stefnumótun hins opinbera í loftslagsmálum, um beitingu stjórntækja hins opinbera í loftslagsmálum og þær fjármagnstilfærslur sem af þeim leiða.

Mikilvægt er að kröfu um opinberar greiningar áhrifa loftslagsaðgerða á hina ýmsu samfélagshópa verði fylgt eftir af þunga. Um leið þarf að leggja áherslu á að loftslagsaðgerðir reynist fallnar til að draga úr félagslegu óréttlæti, stuðli að auknum jöfnuði og bæti lífskjör fólksins í landinu.