Réttlátt skattkerfi

Ójöfnuður er ógn við lífsgæði, lífslíkur og heilsu fólks. Ójöfnuði er viðhaldið af óréttlátu skattkerfi sem skattleggur tekjur fjármagnseigenda og fjölþjóðafyrirtækja með öðrum hætti en launatekjur. Óréttlátt skattkerfi, fjársveltar eftirlitsstofnanir og aðgerðarleysi stjórnvalda hafa búið til leiðir fyrir einstaklinga og fjölþjóðafyrirtæki að komast hjá þátttöku í fjármögnun samfélagsins. Starfshópur fjármálaráðuneytisins mat að þessi skattaundanskot geti numið hundruðum milljarða eða á bilinu 3-7% af vergri landsframleiðslu ár hvert.[1]

Nýlega benti sérfræðingahópur um endurskoðun tekjuskatts- og bótakerfa á að sterkar vísbendingar væru um að reglur um reiknað endurgjald og skattlagningu lítilla fyrirtækja væru misnotaðar og að tilflutningur eigi sér stað milli launa og fjármagnstekna í félögum.[2] Áður hafði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bent á svipaða bresti í reiknuðu endurgjaldi árið 2010.[3]  Yfirvöld á Íslandi hafa hins vegar brugðist illa og seint við vísbendingum um skattasniðgöngu og skattaundanskot.

Afleiðingar Covid-19 hafa dregið fram mikilvægi öruggs heilbrigðiskerfis, traustra velferðarstoða, tryggrar afkomu og félagslegs öryggisnets. Það veikir þessar grunnstoðir að samfélagið verði af hundruðum milljarða ár hvert vegna undanskota og skattasniðgöngu þeirra sem mest hafa.

Hlutverk skattkerfisins er að stuðla að samfélagssátt, tryggja jöfnuð og leggja grunn að velferð þjóðarinnar. Alþjóðastofnanir telja sterk rök fyrir því að skattkerfinu sé beitt til að draga úr ójöfnuði. Réttlátt skattkerfi mun einnig leika lykilhlutverk í að fjármagna velferðarkerfi sem getur mætt afleiðingum Covid-19 og þeim gríðarlegu áskorunum sem felast í loftslags- og tæknibreytingum. Slíkt skattkerfi þarf m.a. að fjármagna með fullnægjandi hætti félagslega innviði á borð við:

 • Gjaldfrjálsra heilbrigðisþjónusta með öruggu aðgengi fyrir alla landsmenn.
 • Umönnun og þjónustu við aldraða, fatlaða og börn.
 • Aðgengi að fjölbreyttri menntun á öllum skólastigum og að sí- og endurmenntun sem veitir aðgang að góðum störfum.
 • Öruggt íbúðarhúsnæði fyrir alla með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði.
 • Þjónustu og stuðning við atvinnuleitendur og þá sem takast á við umbreytingar á vinnumarkaði
 • Almannatryggingar, fæðingarorlof, atvinnuleysistryggingar og fjárhagsaðstoð sem tryggja mannsæmandi lífskjör.
 • Afkomuöryggi þeirra sem falla utan kerfa á íslenskum vinnumarkaði, t.d. innflytjendur og einstaklinga í harkvinnu.

Þeim áskorunum verður því ekki mætt nema með skattkerfi þar sem þeir best stæðu taka sinn þátt í fjármögnun samfélagsins.

Áherslur ASÍ

Að skattkerfið stuðli að samfélagssátt, tryggi jöfnuð og standi undir velferðarstoðum samfélagsins

ASÍ kallar eftir því að brugðist sé við því óréttlæti sem innbyggt er í núverandi skattkerfi. Breyta þarf skattkerfinu þannig að fjármögnun grunnstoða velferðar sé traust og allir taki þátt í fjármögnun samfélagsins.

 • Að hæstu tekjur samfélagsins verði skattlagðar með sérstöku hátekjuþrepi.
 • Umbætur verði gerðar á skattlagningu fjármagns og fjármagnstekna með jöfnuð og sanngirni að leiðarljósi.
 • Fjármagnstekjur einstaklinga, yfir ákveðnu frítekjumarki, verði skattlagðar með sama hætti og launatekjur og af þeim greitt útsvar.
 • Tekinn verði upp auðlegðarskattur til að sporna gegn vaxandi ójöfnuði.
 • Breytingar verði gerðar á erfðafjárskatti og honum þrepaskipt þar sem efsta þrep er hátt en frítekjumark einnig stillt þannig að lág- og millitekjuhópar þurfi ekki að greiða íþyngjandi erfðafjárskatt.
 • Innleidd verði frítekjumörk fyrir fjármagnstekju-, auðlegðar- og erfðafjárskatta þannig að skattlagning stuðli að auknum jöfnuði.
 • Gerðar verði umbætur á kerfi reiknaðs endurgjalds og skattlagningu lítilla fyrirtækja og komið verði í veg fyrir skattaundanskot sem viðgangast í núverandi kerfi.
 • Að notendur sameiginlegra auðlinda greiði fyrir það eðlilegt gjald og mótuð verði stefna um auðlindagjöld sem verða til vegna nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar.
 • Auðlindagjöld renni að hluta til þeirra byggða þar sem verðmætasköpunin fer fram.
 • Veiðigjöld verði hækkuð og tryggt að þjóðin fái réttan hlut í þeim umframarði sem til verður í sjávarútvegi og fiskeldi.
 • Tryggt sé að arður af hvers kyns orkunýtingu renni til þjóðarinnar.
 • Tekin verði upp komugjöld á ferðamenn.
 • Grænum sköttum verði beitt til að draga úr neikvæðum ytri áhrifum af efnahagslegri starfsemi og vinna að markmiðum í loftslagsmálum. Fjármunir nýttir til að tryggja réttláta aðlögun og stuðla að jákvæðum umskiptum. Skoðaðir verði möguleikar á að setja á tíðniskatta á stórnotendur flugþjónustu (e. frequent flyer tax).
 • Skatteftirlit stóreflt og skattyfirvöldum tryggðir fjármunir, mannskapur og þekking til að rannsaka og vinna úr flóknum málum.
 • Tryggja þarf að skattayfirvöld hafi getu til að framfylgja reglum um CFC félög, milliverðlagningu og þunna eiginfjármögnun.
 • Ráðist verði í sérstakt átak til að vinna gegn notkun skattaskjóla, ólöglegri milliverðlagningu og koma í veg fyrir skattasniðgöngu og skattaundanskot.
 • Stuðningur hins opinbera til fyrirtækja verði skilyrtur við fyrirtæki sem veita skattayfirvöldum fullar upplýsingar eða hafi engin tengsl við skattaskjól.