Réttindi og félagsleg vernd

Íslenskt atvinnulíf og vinnumarkaður standa frammi fyrir miklum breytingum á næstu misserum og árum. Breytingum sem þegar eru hafnar sem afleiðingar af nýjum áherslum í umhverfismálum og tæknibreytingum með gervigreind og aukinni sjálfvirkni.

Þróunin á vinnumarkaði felst í að fjöldi starfa hverfur eða taka miklum breytingum og ný störf verða til. Jafnframt eru að verða miklar breytingar á skipulagi vinnunnar og sambandi þeirra sem selja vinnuafl sitt og vinnu og þeirra sem hana kaupa. Þessar breytingar fela m.a. í sér minna starfsöryggi og ótryggt vinnusamband í stað hefðbundins ráðningarsambands á milli launafólks og atvinnurekenda sem hvílir á grunni hefðbundinna kjarasamninga.

Til að takast á við þróunina á vinnumarkaði og þær breytingar sem þar eru í gangi er mikilvægt að styrkja stoðir vinnumarkaðskerfis sem byggir á öflugum samtökum launafólks, kjarasamningum sem ná til vinnumarkaðarins alls, reglum um vinnusamband og öryggisnet sem tryggja öllum afkomuöryggi. Samhliða þarf að vera til staðar öflugt eftirlit sem tryggir að kjör og réttindi launafólks séu virt og hörð viðurlög við launaþjófnaði og öðrum brotum.

Áherslur ASÍ

Skipulag vinnumarkaðar og hagsmunir launafólks[1]

Tryggja þarf löggjöf sem rammar inn stóru línurnar varðandi réttindi og skyldur launafólks og atvinnurekenda á vinnumarkaði og samskipti stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins við að verja og þróa frekar heilbrigðan vinnumarkað.  Rammi sem byggir á norræna vinnumarkaðsmódelinu og þjónar réttlátum umskiptum á vinnumarkaði. Þar sem:

 • Kjarasamningar eru grundvallarregla við ákvörðum launa og annarra starfskjara.
 • Vinnustaðaeftirlit og heimildir stjórnvalda í samstarfi við stéttarfélögin til upplýsinga frá atvinnurekendum um framkvæmd kjarasamninga eru skýrar og viðurlög við brotum svo sem sektir og févíti lögfest.
 • Lögfestur er formlegur vettvangur ríkisstjórnar, stjórnvaldsstofnana og aðila vinnumarkaðarins til að fjalla um og greina stöðu og þróun á vinnumarkaði (þ.m.t. brotastarfsemi) og hvaða eftirfylgni og aðgerða er þörf.


Sjálfbærni, tækniþróun og skipulag vinnunnar[2]

Krafa verkalýðshreyfingarinnar er að ný tækni og breytingar á atvinnuháttum verði á forsendum launafólks en ekki fyrirtækjanna og að vinnumarkaður framtíðar feli í sér tækifæri til bættra lífskjara, styttingar vinnutíma, samræmingu atvinnuþátttöku og einkalífs og afkomuöryggis:

 • Setja verður skýrar skyldur á fyrirtæki gagnvart starfsmönnum vegna tæknibreytinga og breytinga á skipulagi vinnunnar. Í því skyni er nauðsynlegt að innleiða reglur um að starfsfólk skuli eiga fulltrúa í stjórnum fyrirtækja. Einnig að styrkja reglur um rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs um allar veigameiri ákvarðanir fyrirtækja.
 • Tryggja réttarstöðu og stuðning við launafólk sem missir vinnuna vegna tæknibreytinga, nýrra áherslna í umhverfisvernd og breytts skipulags vinnunnar.
 • Tryggja að breytingar á vinnumarkaði skili sér í bættum réttindum launafólks og styðji við aukna sjálfbærni.


Vinnusamband sem byggir á afkomuöryggi og réttindum
[3]

Setja verður löggjöf sem rammar sérstaklega inn „vinnusamband“ - réttindi og skyldur starfsmanna og atvinnurekenda með það að markmiði að:

 • Ná til sem flestra tegunda af vinnusambandi þeirra sem framkvæma verkefnin og þeirra sem kaupa vinnuframlagið.
 • Ramma inn í ráðningarsamninga/samninga um vinnusamband og réttindi og skyldur aðila eins nákvæmlega og kostur er, þar sem ákveðnir grundvallarþættir eru virtir.
 • Skyldur atvinnurekenda til að gera slíka samninga séu skýrar og ótvíræðar að viðlögðum sektum sem ganga til starfsmanna.


Vinnumarkaðsaðgerðir og velferð á vinnumarkaði[4]

 • Treysta verður öryggisnetið/velferðarkerfið á vinnumarkaði til styðja launafólk við að takast á við breytingar á vinnumarkaði og styrkja stöðu sína.
 • Endurskoða lög um atvinnuleysistryggingar til að tryggja afkomuöryggi allra sem missa vinnuna. Tryggja að fólk í atvinnuleit geti nýtt tímann til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði með því að sækja sér menntun eða auka hæfni sína með öðrum hætti.
 • Auka möguleika launafólks til menntunar og efla endur- og eftirmenntun.
 • Vinna gegn neikvæðum áhrifum á vinnumarkaðstengd réttindi sem byggja á uppsöfnun og tengjast að jafnaði föstu ráðningarsambandi, s.s. lífeyrisréttindi, veikindaréttur og orlofsréttur.
 • Styrkja stoðir starfsendurhæfingar.


Staða og hlutverk stéttarfélaga[5]

Stéttarfélögin gegna lykilhlutverki við að gæta hagsmuna vinnandi fólks er varðar kaup og kjör og önnur réttindi. Til að geta sem best sinnt þessu hlutverki þurfa stéttarfélögin og heildarsamtök þeirra að þróa starfsemi sína og skipulag í samræmi við nýjar og breyttar aðstæður. Áskoranir sem verkalýðshreyfingin stendur frammi fyrir eru m.a.:

 • Gera kjarasamninga fyrir öll störf – þróa atvinnugreinasamninga.
 • Skipuleggja og gæta hagsmuna launafólks í hefðbundnu ráðningarsambandi og öðrum vinnusamböndum þ.m.t. í „harkhagkerfinu“.
 • Styrkja réttarstöðu og vernd trúnaðarmanna í samskiptum við atvinnurekendur svo þeir geti sinnt hlutverki sínu án ótta um stöðu sína og afkomu.
 • Tryggja auðveldan og áfallalausan flutning réttinda innan velferðarkerfis verkalýðshreyfingarinnar við atvinnu- eða búsetubreytingar.
 • Auka samstarf stéttarfélaga og heildarsamtaka þeirra hér á landi og á alþjóðavettvangi.
 • Tryggja að stéttarfélög geti sinnt bæði grundvallarhlutverki sínu við gerð kjarasamninga og þjónustuhlutverki sínu gagnvart félagsmönnum.

Viðauki til umræðu í málefnavinnu 44. Þings ASÍ

Umbætur á stöðu atvinnuleitenda [6]
Ein alvarlegasta samfélagslega afleiðing COVID-19 faraldursins á Íslandi er það fjöldaatvinnuleysi sem skapaðist vegna samdráttar í atvinnulífinu frá því að sóttvarnaðgerðir hófust og gróf um sig eftir því sem þær drógust á langinn. Merki um viðsnúning í atvinnulífi á vormánuðum 2021 gefa tilefni til væntinga um að atvinnuleysi fari nokkuð hratt dvínandi en þó eru horfur á að stig atvinnuleysis verði áfram talsvert hærra en almennt hefur þekkst á íslenskum vinnumarkaði. Atvinnuleysið hefur aukið á ójöfnuð í samfélaginu þar sem atvinnumissir í kjölfar faraldursins hefur komið harðar niður á hópum sem þegar stóðu höllum fæti, einkum tekjulágum og innflytjendum. Til viðbótar við nauðsynlegar skammtímaaðgerðir, s.s. opinberar styrkveitingar til fyrirtækja til ráðningar atvinnuleitenda, framlengingu hlutabótaleiðar og lengingu tekjutengds tímabils atvinnuleysisbóta, er nauðsynlegt að efla þjónustu og ráðgjöf við atvinnuleitendur til framtíðar. Tryggt afkomuöryggi atvinnuleitenda minnkar samfélagslegan skaða vegna atvinnuleysis og er forsenda þess að atvinnuleitendur geti náð fótfestu á ný og styrkt stöðu sína á vinnumarkaði, einkum á tímum langtímaatvinnuleysis. Umbóta er þörf við að tryggja fjölbreyttum hópi atvinnuleitenda viðeigandi stuðning og úrræði.

Heildarendurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar hófst á vormánuðum 2021 og á að ljúka við upphaf árs 2022. Það er verkefni verkalýðshreyfingarinnar að þrýsta á að sú vinna skili raunverulegum umbótum á stöðu atvinnuleitenda. Núverandi löggjöf gengur hart að atvinnuleitendum hvað varðar kröfur og skilyrði á hendur þeim og veitir Vinnumálastofnun ríkar heimildir til að beita viðurlögum, s.s. sviptingu bótaréttar, án þess að gagnsæi og réttmæti slíkra ákvarðana sé tryggt. Mannúð og virðing gagnvart atvinnuleitendum á að liggja til grundvallar kerfi sem hefur það að meginmarkmiði að veita stuðning í atvinnuleit, stuðla að ráðningum á forsendum reynslu og færni og veita tækifæri til eflingar færni á meðan á atvinnuleit stendur.

Gul stéttarfélög [7]
Í tengslum við umræðu um stöðu og hlutverk stéttarfélaga er nauðsynlegt að beina sjónum að þeirri ógn sem stafar af starfsemi gulra stéttarfélaga á íslenskum vinnumarkaði. Gul stéttarfélög standa almennt utan heildarsamtaka launafólks og eru undir áhrifum frá eða ganga erinda atvinnurekenda. Þau eru afætur á því réttindaumhverfi sem barátta raunverulegra stéttarfélaga skilar í formi samtryggingar og ávinnslu vinnumarkaðstengdra réttinda um leið og þau hafa tilhneigingu til að gera lakari kjarasamninga og grafa undan samtakamætti launafólks.

Á síðustu misserum hefur borið á uppgangi gulra stéttarfélaga á íslenskum vinnumarkaði. Ýmist hafa þau félög sótt á hóp erlends verkfólks, eins og í tilviki Kóps stéttarfélags, eða gengið erinda atvinnurekenda í flugrekstri sem leitast við að skapa sér samkeppnisstöðu með því að bjóða kjör undir lágmarkskjörum almennra kjarasamninga og án raunverulegrar aðkomu fulltrúa launafólks að samningum, líkt og í tilviki Play og ÍFF. Starfsemi slíkra félaga hefur rutt sér til rúms víða erlendis og er það stöðugt verkefni verkalýðshreyfingarinnar að hamla slíkri þróun á íslenskum vinnumarkaði.

[1] Lög um starfskjör launafólk….. nr. 55/1980 eru grunnur sem byggja má á og þróa frekar bæði í ljósi þeirra takmarkana sem er að finna í lögunum og til að takast á við þær breytingar sem nú eru að verða á vinnumarkaði og skipulagi vinnunnar í tengslum við umhverfismálin og tækniþróun.

Sjá einnig skýrslu samstarfshóps félagsmálaráðherra frá janúar 2019 og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 3. apríl 2019.

[2] Stefna ASÍ um tækniþróun og skipulag vinnunnar frá þingi ASÍ 2018 er góður grunnur að byggja á og þróa frekar.

[3] Tilskipun um „gagnsæ og fyrirsjáanleg starfsskilyrði“

[4] Rétta leiðin - Frá kreppu til lífsgæða fyrir okkur öll

[5] Rétta leiðin - Frá kreppu til lífsgæða fyrir okkur öll

[6] Vinnumarkaðsskýrsla ASÍ 2021

[7] Ályktun formannafundar ASÍ frá 15. júní 2021