Öflugt atvinnulíf á sjálfbærum grunni - Góð græn störf

Loftlagsbreytingar af mannavöldum er ein stærsta áskorun samtímans og hefur þegar haft víðtæk áhrif á efnahags- og atvinnulíf, lífskjör og afkomu almennings um allan heim. Ísland hefur skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að minnka hnattræna hlýnun. Ísland þarf að uppfylla alþjóðaskuldbindingar sem óhjákvæmilega munu hafa áhrif á vinnumarkaðinn. Skuldbindingarnar verða ekki uppfylltar án kostnaðar en fórnarkostnaður aðgerðarleysis er þó langtum meiri. Umbreytingar þessu tengdar fela í sér tækifæri til jákvæðra samfélagsbreytinga en ef ekkert verður aðhafst munu breytingarnar hafa afar neikvæð áhrif á samfélagið. Sterk verkalýðshreyfing er forsenda réttlátra umskipta.

Ísland er ríkt af náttúruauðlindum, hagkvæm og sjálfbær nýting og verndun þeirra er hornsteinn að öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi. Til að Ísland geti uppfyllt skuldbindingar sínar í loftslagsmálum verður að leggja aukna áherslu á sjálfbærni þar sem auðlindir landsins eru í forgrunni. Okkur ber skylda til að byggja upp sjálfbært samfélag þar sem velferð okkar í dag rýrir ekki velferð komandi kynslóða né kjör annarra þjóða.

Aðrar áskoranir sem atvinnulífið um heim allan stendur frammi fyrir eru breytingar á skipulagi vinnunnar vegna nýrrar tækni og tækniþróunar. Þessar breytingar setja frekari þrýsting á samfélög á að nýta tæknina til að auka hagsæld og velferð samfélagsins og að aðlagast örum breytingum. Samfélagsþróun og sjálfvirknivæðing kemur til með að breyta samsetningu starfa á vinnumarkaði og mun störfum fækka í sumum greinum en fjölga í öðrum. Þau lönd sem bregðast hratt við verða í betri stöðu til að nýta breytingar til bættra lífskjara almennings og samkeppnishæfni. Til þess að svo megi verða þarf öflugt og sveigjanlegt menntakerfi sem mætir nýjum þörfum atvinnulífsins, sterka félagslega innviði og afkomutryggingu.

Í kjölfarið gefst tækifæri til að skapa græn og sjálfbær störf sem standa undir góðum lífskjörum um land allt.

  • Störf sem bjóða upp á öruggar, heilbrigðar og mannsæmandi vinnuaðstæður.
  • Störf sem leggja sitt af mörkum til að vernda umhverfið.
  • Störf sem styrkja velferð og jafnrétti.
  • Störf sem efla nýsköpun þar sem hagnýting hugvits verður grundvöllur samkeppnishæfni landsins.
  • Störf sem byggja á þeirri þekkingu sem þegar er til staðar og sterkum innviðum landsins.

Slík tækifæri verða ekki nýtt nema með skýrri stefnumótun og hnitmiðuðum aðgerðum hins opinbera í samstarfi við verkalýðshreyfinguna.

Áherslur ASÍ

Áhrif loftslags- og tæknibreytinga á skipulag vinnumarkaðarins

Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar er að móta skýra stefnu um viðbrögð við breytingum á vinnumarkaði þannig að réttlát umskipti verði leiðarljós í allri stefnumótun.

  • Verkalýðshreyfingin þarf að koma að ákvarðanatöku og stefnumótun sem varðar aðgerðir tengdum loftslagsbreytingum.
  • Tryggja þarf að allir hópar og hagaðilar taki þátt í að þróa samfélagið í átt að sjálfbærni og að þær byrðar og þau tækifæri sem í breytingunum felast dreifist með réttlátum og sanngjörnum hætti.
  • Framkvæma þarf þjóðhagslega greiningu á áhrifum loftslags- og tæknibreytinga á vinnumarkaðinn.
    • Greina þarf áhrif á ólík svæði, atvinnugreinar, störf og hópa þannig að hægt sé að bregðast við fyrirséðum breytingum með aðgerðum í vinnumarkaðs-, atvinnu-, mennta- og velferðarmálum.
    • Greint sé með hvaða hætti megi þróa vinnumarkaðinn og hagkerfið í átt að sjálfbærni og kolefnishlutleysi.
  • Ráðast þarf í langtíma stefnumótun um uppbyggingu atvinnulífs framtíðar með tilliti til samfélags-, loftslags- og tæknibreytinga.


Breytingar á atvinnulífi og þróun starfa

Mörg störf sem við þekkjum í dag munu hverfa en á móti skapast ný tækifæri þegar ný störf verða til en til þess þarf atvinnulífið að búa við innviði í fremstu röð og skýra stefnu í atvinnumálum.

  • Innviðafjárfesting verði stórefld og innviðir samfélagsþjónustu, samgangna, fjarskipta og raforku verði í fremstu röð um land allt og styðji við atvinnusköpun.
  • Áhersla verði lögð á að hraða orkuskiptum:
    • Stjórnvöld setji aukið fjármagn í uppbyggingu innviða vegna orkuskipta í samgöngum og flýti uppbyggingunni.
    • Vistvænar almenningssamgöngur verði bættar til muna þannig að þær verði raunhæfur og hagkvæmur valkostur fyrir almenning og endurbótum og uppbyggingu á þeim flýtt.
  • Nýsköpun verði stórefld með það að markmiði að stuðla að fjölbreyttu sjálfbæru atvinnulífi, fjölga verðmætum grænum störfum um land allt og stytta virðiskeðjur.
  • Hringrásarhagkerfi verði byggt upp og hagkerfið þróað í þá átt að verðmætasköpun byggi á endurnýtingu, endurvinnslu og fullnýtingu á verðmætum og auðlindum og dregið verði úr álagi á vistkerfi.
  • Skapaðir verði hvatar sem ýta undir og styðja við þróun núverandi fyrirtækja í átt að sjálfbærni og stuðla að sköpun nýrra fyrirtækja með starfsemi sem byggir á markmiðum um sjálfbærni.
  • Hvötum verði komið á sem stuðla að því að fyrirtæki staðsetji starfsemi, nýsköpun og framleiðslu á landsbyggðinni.
  • Erlend fjárfesting verði aukin í atvinnugreinum og störfum sem samræmast atvinnu- og umhverfisstefnu Íslands.
  • Lýðræði í atvinnulífinu verði aukið og mismunun á ólíkum rekstrarformum verði útrýmt. Lagaumhverfi í kringum samvinnufélög verði bætt þannig að samvinnurekstur verði jafn eftirsóknarverður og hagstæður og annars konar rekstrarform.


Góð græn störf og fjölbreytt atvinnulíf

Móta þarf atvinnustefnu fyrir Ísland þannig að hér verði til góð græn störf sem standa undir góðum lífskjörum um land allt. Störf sem bjóða upp á öruggar, heilbrigðar og mannsæmandi vinnuaðstæður.

  • Atvinnulíf sem byggir bæði á sterkum grunni starfa í almannaþjónustu og framsæknum störfum á almenna vinnumarkaðinum.
  • Lögð verði áhersla á að fjölga störfum þar sem verðmætasköpun felst í tækni, hugviti og þekkingu.
  • Ráðist verði í átak til að fjölga störfum í iðn- og tæknigreinum.
  • Lögð verði áhersla á að verðmætasköpun og fullnýting afurða leggi grunn að góðum störfum í sjávarútvegi og matvælaiðnaði.
  • Á Íslandi sé sjálfbær ferðaþjónusta sem byggir ekki á hömlulausri fjölgun ferðamanna heldur aukinni verðmætasköpun.
  • Störfum við skapandi greinar, menningu, listir og afþreyingu verði gert hærra undir höfði og stuðningur við þau aukinn.