Tekjuskipting og jöfnuður

43. þing ASÍ krefst samfélags réttlátrar tekjuskiptingar, jafnra tækifæra og jafnaðar. Samfélags þar sem launafólk nýtur mannsæmandi kjara og réttinda á vinnumarkaði og allur almenningur býr við húsnæðisöryggi og traust velferðarkerfi sem fjármagnað er með réttlátu skattkerfi.

Ójöfnuður fer vaxandi á Vesturlöndum og hér á landi. Þessi þróun er óásættanleg. Ójöfnuður dregur úr félagslegum hreyfanleika, efnahagslegum og pólitískum stöðugleika og hefur neikvæð áhrif á hagvöxt, efnahag og lífskjör til framtíðar. Það er viðvarandi áskorun verkalýðshreyfingarinnar að stuðla að jöfnu samfélagi, jöfnum tækifærum og réttlátri tekjuskiptingu. Allir eiga að búa við atvinnu- og afkomuöryggi.

Skattbyrði launafólks hefur aukist á undanförnum áratugum. Sú þróun hefur lagst þyngst á hina tekjulægstu. Persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun og barna- og húsnæðisbætur hafa verið skertar. Í ríkisfjármálaáætlun birtist sú stefna stjórnvalda að veikja þessi kerfi enn frekar á sama tíma og hinir tekjuhæstu hafa notið góðs af fækkun þrepa í skattkerfinu, lágum sköttum á fjármagnstekjur og afnámi auðlegðarskatts. Tæknibreytingar, aukin sjálfvirkni, fjármálavæðing atvinnulífsins og nýting sameiginlegra auðlinda kalla á endurskoðun á skattkerfinu og fjármögnun samfélagslegra verkefna.

Ný tækifæri til náms eru afar mikilvægur þáttur í jöfnun lífskjara, sérstaklega þeirra sem litla formlega menntun hafa. Verkalýðshreyfingin hefur á undanförnum árum og áratugum samið um uppbyggingu starfsmenntasjóðanna og mótframlög úr ríkissjóði. Eftir hrun hafa stjórnvöld dregið úr framlögum til þeirra sem minnsta menntun hafa um þriðjung að raungildi og ef marka má ríkisfjármálaáætlunina er lítilla breytinga að vænta. Einnig er mikilvægt að þróa raunfærnimat á móti störfum í atvinnulífinu og að sú hæfni sem launafólk hefur aflað sér í námi og starfi verði metin til launa.

Stækkandi hópur býr við erfiðar aðstæður og íþyngjandi húsnæðiskostnað á leigumarkaði en þar eru tekjulágir, ungt fólk og erlent launafólk í meirihluta. Leiguverð hefur hækkað verulega á undanförnum árum og leigjendur festast í þessu kerfi. Stöðugt fleiri treysta á langa vinnudaga og yfirvinnu til að ná endum saman. Hætta er á því að þessar aðstæður festi ójöfnuð frekar í sessi og læsi fólk í gildrum fátæktar.

Sá hópur fer stækkandi sem er berskjaldaður gagnvart brotum atvinnurekenda á réttindum og stéttarfélög glíma í auknum mæli við brotastarfsemi af ólíkum toga, kerfisbundin launaþjófnað, vinnumansal, undirboð á vinnumarkaði, kennitöluflakk og svarta atvinnustarfsemi. Slík brotastarfsemi grefur undan heilbrigðum vinnumarkaði og grunnstoðum samfélagsins. Hún felur í sér kúgun sem leiðir til fátæktar og aukinnar misskiptingar.

Þrátt fyrir baráttu verkalýðshreyfingarinnar ríkir enn kynbundinn launamunur á íslenskum vinnumarkaði. Lög um jafnlaunavottun gera kröfu um að launasetning í fyrirtækjum og stofnunum byggi á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun. Greiða á jöfn laun fyrir sömu vinnu og jafnverðmæt störf.  Kynbundinn launamunur er óásættanlegur.

Stefna ASÍ

 • Skattkerfið verði nýtt sem raunverulegt jöfnunartæki:
  • Að skattar á lágtekjufólk verði lækkaðir, persónuafsláttur fylgi launaþróun og komið verði í veg fyrir sjálfvirkar skattahækkanir hinna tekjulægstu.
  • Að húsnæðis- og barnabótakerfin verði endurreist og horfið verði frá þeirri stefnu að sá stuðningur renni einungis til hinna allra tekjulægstu.
  • Að hæstu tekjur samfélagsins verði skattlagðar með sérstöku hátekjuþrepi.
  • Að lagðir verði á auðlegðarskattar og fjármagnstekjuskattur hækkaður til að stuðla að samfélagssátt og bregðast við auknum ójöfnuði.
  • Brugðist sé við skattaundanskotum með auknu skatteftirliti.
  • Að notendur sameiginlegra auðlinda greiði fyrir það eðlilegt gjald.
 • Auka þarf fjárveitingar hins opinbera og auka möguleika fólks með litla formlega menntun til að fá hæfni sína viðurkennda, sækja sér frekari menntun og bæta þannig stöðu sína á vinnumarkaði. Móta þarf aðferðafræði varðandi launasetningu á grundvelli raunfærnimats á móti störfum í atvinnulífinu.
 • Brugðist verði nú þegar við þeim bráðavanda sem ríkir á húsnæðismarkaði þannig að allir hafa öruggt og gott húsnæði.[1]
 • Brotastarfsemi á vinnumarkaði verði mætt með úrbótum á löggjöf um réttindi launafólks og að stjórnvöld axli sína ábyrgð með öflugum aðgerðum og hörðum viðurlögum gagnvart brotafyrirtækjum í samstarfi við verkalýðshreyfinguna.
 • Sett verði löggjöf til að stöðva kennitöluflakk sem er skjótvirk og hafi raunverulega þýðingu.
 • Unnið verði gegn launamun kynjanna með öllum tiltækum ráðum. Jafnlaunavottun og rétt innleiðing jafnlaunastaðalsins eru mikilvæg skref í þátt átt.

Verkefni ASÍ

 • Hafa forystu um að móta og útfæra sýn verkalýðshreyfingarinnar til uppbyggingar og þróunar skattkerfisins á grundvelli hagsmuna launafólks.
 • Berjast fyrir auknum fjárframlögum til menntunar launafólks með litla formlega menntun og að þróað verði kerfi raunfærnimats í atvinnulífinu sem meti störf og hæfni til launa.
 • Opinber fjárframlög til leigufélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni verði stóraukin.[2]
 • Hafa forystu um að veita stjórnvöldum og atvinnurekendum aðhald í að fylgja eftir lögum um jafnlaunavottun.
 • Hafa frumkvæði að því að vinna leiðbeinandi verklagsreglur fyrir aðildarfélög og trúnaðarmenn í samræmi við lög um jafnlaunavottun með það að markmiði að tryggja áhrif þeirra á framkvæmdina.


Tekjuskipting og jöfnuður - ítarefni

[1] Sérstaklega er fjallað um húsnæðismál í öðru stefnuskjali/ályktun.

[2] Sérstaklega er fjallað um húsnæðismál í öðru stefnuskjali/ályktun.