Tækniþróun og skipulag vinnunnar

43. þing ASÍ gerir kröfu um að ný tækni og breytingar á atvinnuháttum verði á forsendum launafólks en ekki stórra fyrirtækja og að vinnumarkaður framtíðar feli í sér tækifæri til bættra lífskjara, styttingar vinnutíma og afkomuöryggis.

Vinnumarkaðurinn og samfélagið allt standa frammi fyrir miklum áskorunum. Hnattvæðingin þýðir að samfélög verða stöðugt alþjóðlegri. Á sama tíma hafa hraðar tæknibreytingar, vöxtur tengihagkerfisins, sjálfvirkni- og gervigreindarvæðing og aukin fjármálavæðing eignarhalds fyrirtækja vaxandi áhrif á stöðu launafólks og störf stéttarfélaga um heim allan. Samhliða því að treysta stöðu launafólks í þessum breytingum þarf að tryggja að sá ábati sem verður til af tækniframförum og aukinni framleiðni renni til launafólks og samfélagsins alls en ekki bara fyrirtækjanna.

Áhrif tækniþróunar á vinnumarkað eru ekki ný af nálinni en aukinn hraði breytinga kallar á að verkalýðshreyfingin þurfi að vera vakandi fyrir þessari þróun. Störf munu hverfa, önnur breytast og ný störf verða til. Það er grundvallaratriði að ný tækni og breyttir atvinnuhættir þjóni hagsmunum alls launafólks. Þannig er nauðsynlegt að tryggja að verkefnunum sé deilt þannig að allir sem hafa getu til fái góð störf við hæfi.

Mikilvægt er að gerð verði reglulega mannafla- og færnispá og móta þarf hæfnistefnu fyrir Ísland. Þar verði sett fram markmið um það hvernig atvinnulíf og vinnumarkaður á að þróast bæði til lengri og skemmri tíma og hvernig þeim verður best náð. Það er sameiginlegt verkefni stjórnvalda, atvinnulífs og verkalýðshreyfingar að móta slíka sýn og að mennta-, atvinnu- og vinnumarkaðsstefna á hverjum tíma stuðli að framgangi hennar.

Hraðar breytinga á störfum og starfsumhverfi setja aukinn þrýsting á að einstaklingar uppfæri og þrói færni sína yfir starfsævina. Menntun, símenntun og endurmenntun mun leika stóran þátt í að tryggja stöðu launafólks á vinnumarkaði í síbreytilegum heimi. Grunn-, sí – og endurmenntun er á sameiginlega ábyrgð samfélagsins, fyrirtækjanna, einstaklinganna, samtaka launafólks og atvinnurekenda. Mæta þarf þörfum launafólks og atvinnulífs með því að efla verk- og starfsmenntun á öllum stigum ásamt því tryggja samfellu í iðn- og verknámi með auknum framlögum til vinnustaðanámssjóðs. Mikilvægur þáttur í þessum efnum er öflugt fagháskólanám og þróun raunfærnimats á framhalds- og háskólastigi.

Hækkun menntunarstigs á íslenskum vinnumarkaði á að vera í forgangi, sérstaklega á landsbyggðinni.  Sérstaklega þarf að huga að þeim sem hafa litla grunnmenntun, fólki sem ekki hefur lokið framhaldsskóla, fólki af erlendu bergi brotnu og einstaklingum með skerta starfsgetu. Tryggja þarf að hæfni sé metin til launa og þannig skapist hvatning fyrir launafólk að sækja sér nýja þekkingu og auka hæfni sína í starfi.

Fjarvinna, netvinna, íhlaupastörf, aukin verktakavæðing, tímabundin störf og óskýrara ráðningarsamband og lakari réttindi eru áskoranir sem stéttarfélög um allan heim standa frammi fyrir. Þó vandamálin séu ekki ný þá hafa þau aukist og breytt um eðli með nýrri tækni og tilkomu tengihagkerfisins (t.d. Uber, Deliveroo, Airbnb). Reynslan sýnir að það er raunveruleg hætta á því að þessari þróun fylgi minna atvinnu- og afkomuöryggi.

Launafólk gerir kröfur um styttingu dagvinnutíma og minni yfirvinnu án skerðingar á launum. Tækniframfarir, aukin framleiðni og skipulagning vinnunnar gera vinnutímastyttingu og sveigjanlegri  vinnutíma að raunverulegum kosti. Launafólk á heimtingu á mannsæmandi launum fyrir hóflega dagvinnu. Að dagvinnulaun dugi launafólki til að framfleyta sér og fjölskyldum sínum.

Stefna ASÍ

  • Ný tækni, aukin framleiðni og breyttir atvinnuhættir á að þjóna hagsmunum launafólks og alls almennings.
  • Strax verði hafin vinna við að gerð mannafla- og færnispár og mótun hæfnistefnu fyrir Ísland. Þar verði sett fram stefna um það hvernig atvinnulíf og vinnumarkaður á að þróast bæði til lengri og skemmri tíma og hvernig henni verður best náð.
  • Mæta þarf þörfum launafólks og atvinnulífs með því að stórefla sérstaklega iðn-, verk- og starfsmenntun á öllum stigum, þ.m.t. fagháskólanám og raunfærnimat.
  • Hækkun menntunarstigs á íslenskum vinnumarkaði á að vera í forgangi, sérstaklega á landsbyggðinni og gagnvart þeim sem hafa litla grunnmenntun. Fólki af erlendu bergi brotnu og einstaklingum með skerta starfsgetu.
  • Tryggja þarf að hæfni sé metin til launa og þannig skapist hvatning fyrir launafólk að sækja sér nýja þekkingu og auka hæfni sína í starfi.
  • ASÍ krefst sanngjarns tengihagkerfis sem viðurkennir rétt alls vinnandi fólks til mannsæmandi launa.
  • Sporna þarf við þróun á ráðningarsambandi sem skapar óvissu og skerðir réttindi launafólks. Jafnframt þarf að setja lög sem treysta réttarstöðu þeirra sem stunda fjarvinnu, netvinnu, íhlaupastörf og verktöku.
  • Stytta á reglulegan vinnutíma og draga úr yfirvinnu án skerðingar á launum.

 

Verkefni ASÍ

  • Vera leiðandi og móta stefnu og áherslur verkalýðshreyfingar þegar kemur að innleiðingu nýrrar tækni og breyttum atvinnuháttum.
  • Beita sér fyrir því að unnin verði mannafla- og færnispá og mótuð hæfnistefnu fyrir Ísland og vera leiðandi í þeirri vinnu.
  • Leiða umræðu og stefnumótun aðildarfélaganna um menntamál og vinnumarkaðinn í ljósi tækniþróunar og breyttra atvinnuhátta með sérstakri áherslu á verk- og tæknimenntun.
    • Gæta í samstarfi við aðildarfélögin sérstaklega hagsmuna fólks á landsbyggðinni og þeirra sem hafa litla grunnmenntun, fólks af erlendum uppruna og einstaklinga með skerta starfsgetu.
  • Knýja á um eflingu fagháskólastigsins og þróun raunfærnimats á framhalds- og háskólastigi.
  • Móta í samstarfi við aðildarfélögin tillögur að fyrirkomulagi og verklagi varðandi mat á hæfni til launa út frá viðmiðum atvinnulífsins.
  • Leiða umræðu og áherslu innan verkalýðshreyfingarinnar hvernig sporna má við óhefðbundnum ráðningarformum og beita sér fyrir löggjöf sem treystir réttarstöðu launafólks við slíka ráðningu.
  • Vinna tillögur í samstarfi við aðildarfélögin um það hvernig tryggja má þátttöku fólks í óhefðbundnu ráðningarsambandi í stéttarfélögunum.
  • Leiða umræðu og stefnumótun innan verkalýðshreyfingarinnar um aðgerðir og útfærslu á styttingu vinnutíma sem tekur mið að ólíkum aðstæðum og væntingum á vinnumarkaði.
  • Kortleggja þarf árangur sem hefur náðst í sumum löndum varðandi skipulagningu fólks sem vinnur í tengihagkerfinu í stéttarfélög.

Efla þarf vitund notenda tengihagkerfisins um að sanngjarnt tengihagkerfi geti verið í þágu bæði notenda og vinnandi fólks.

Tækniþróun og skipulag vinnunnar - ítarefni