Jafnvægi atvinnuþátttöku og einkalífs

43. þing ASÍ krefst samfélags þar sem ríkir jafnvægi á milli atvinnuþátttöku, fjölskylduábyrgðar og einkalífs. Samþætting atvinnuþátttöku og einkalífs er nauðsynleg forsenda ásættanlegra starfsskilyrða og þeirra lífsgæða sem allt launafólk á kröfur til.

Vaxandi fjöldi launafólks stendur ekki undir álagi, hraða og kröfum nútímavinnumarkaðar. Samhliða glímir það við krefjandi verkefni við umönnun barna, maka og foreldra. Þetta á við um ungt fólk sem tekst á við krefjandi störf og fjölskylduábyrgð og þau sem eldri eru og mæta breytingum í starfi og nýjum kröfum. Einnig býr fólk við skerta möguleika til að njóta frístunda til hvíldar og lífsfyllingar. Afleiðingarnar eru aukin streita og kulnun í starfi sem þegar verst lætur leiðir til alvarlegra veikinda og örorku. Við þessari þróun þarf að bregðast áður en í algert óefni er komið. Það eru sameiginlegir hagsmunir launafólks, atvinnulífsins og samfélagsins alls.

Þau tvö hlutverk sem alla jafna eiga stærstan þátt í lífi fólks eru vinnan og fjölskyldan. Það er staðreynd að konur vinna fleiri ólaunaðar stundir við heimilisstörf og umönnun barna en karlar, þrátt fyrir að atvinnuþátttaka kvenna sé hvergi meiri en hér á landi. Konur sækja sífellt meira í aukna menntun og fjölbreyttari störf. Þetta hefur mikla efnahagslega þýðingu fyrir samfélagið og á stóran þátt í þeirri hagsæld sem hér ríkir. Þetta fyrirkomulag kallar á breytta verkaskiptingu kynjanna og nýjar leiðir til þess að samræma vinnu og fjölskyldulíf.

Mikilvæg forsenda fyrir jafnvægi atvinnuþátttöku og einkalífs og fyrir jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði er að efla fæðingarorlofskerfið. Mikilvægt er að markmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof, sem ætlað er að tryggja barni samvistir við báða foreldra sína, verði sem best náð. Einnig þarf að standa vörð um rétt einstæðra foreldra og brúa umönnunargjána sem er milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar. Þá er mikilvægt að skipulag skólastarfs, framboð á íþrótta- og tómstundastarfi og atvinnulífið mæti þörfum fjölskyldna með börn á leik- og grunnskólaaldri.

Endurskoða þarf rétt foreldra til frítöku vegna umönnunar og veikinda barna. Jafnframt þarf að útvíkka þennan rétt þannig að hann nái einnig til umönnunar annarra fjölskyldumeðlima svo sem maka og foreldra.

Þátttaka á vinnumarkaði gerir sífellt meiri kröfur um að launafólk bæti við sig menntun og hæfni til að takast á við breytingar og nýjar áskoranir. Til að mæta þessum kröfum verður að auka sveigjanleika og gera launafólki kleift að sækja nám og endurmenntun á vinnutíma án launaskerðingar.

Lífaldur hefur lengst og almennt er fólk við betri heilsu en áður. Á móti kemur að taka verður tillit til að störf gera mismunandi kröfur og einstaklingarnir eru ólíkir. Mikilvægt er að mæta þessum ólíku aðstæðum með sveigjanleika varðandi starfslok launafólks. Það felur m.a. í sér möguleika á minnkandi starfshlutfalli og að starfslok séu ekki tengd tilteknum lífaldri.

Stefna ASÍ  

  • Tryggja þarf að áhrif nýrrar tækni og breytinga á störfum raski ekki frekar jafnvægi atvinnuþátttöku og einkalífs vegna óljósra marka vinnu og frítíma.
  • Fæðingarorlof verði lengt á næstu 3 árum og greiðslur úr fæðingarorlofssjóði hækkaðar með sérstöku tilliti til hagsmuna lág- og millitekjufólks.
  • Tryggja þarf öllum börnum rétt til leikskóladvalar og brúa umönnunargjána milli fæðingarorlofs og leikskóla.
  • Skipulag skólastarfs, framboð á íþrótta- og tómstundastarfi og réttur foreldra á vinnumarkaði taki mið af þörfum þeirra og barna á leik- og grunnskólaaldri. Mikilvægt er að skapa jafnvægi á milli sveigjanlegs vinnutíma og dagvistunarúrræða barna á leik- og grunnskólaaldri. Jafnframt verður að tryggja að öll börn geti notið þess tómstundastarfs sem í boði er án tillits til efnahags foreldra.
  • Endurskoða þarf rétt foreldra til frítöku vegna veikinda barna. Einnig þarf að útvíkka þennan rétt þannig að hann nái einnig til umönnunar annarra fjölskyldumeðlima svo sem maka og foreldra.
  • Gefa þarf fólki tækifæri á að stunda frekara nám og endurmenntun á vinnutíma og nauðsynlegur sveigjanleiki þarf að vera fyrir hendi án launaskerðingar.
  • Auka þarf sveigjanleika á vinnumarkaði og tryggja rétt launafólks til að taka starfshlé vegna endurmenntunar, hlutastarfs eða vegna persónulegra aðstæðna.
  • Auka þarf raunverulega möguleika launafólks til sveigjanlegra starfsloka, þar sem tekið er tillit til ólíkra aðstæðna á vinnumarkaði.

Verkefni ASÍ

  • Beita sér fyrir því að vinnuskylda og skilgreining á vinnutíma sé þannig að skýr mörk séu á milli atvinnuþátttöku og einkalífs.
  • Krefjast endurskoðunar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof á grunni þeirra markmiða sem ASÍ hefur sett fram.
  • Krefjast þess að öllum börnum verði tryggður réttur til öruggrar dagvistunar.
  • Beita sér fyrir því að skipulag skólastarfs, dagvistunarúrræða, frístundastarfsemi og réttindi á vinnumarkaði mæti betur þörfum foreldra og leik- og grunnskólabarna.
  • Beita sér fyrir því í samstarfi við aðildarfélögin að reglur um rétt foreldra til frítöku vegna veikinda barna verði endurskoðaðar og útvíkkaðar þannig að hann nái einnig til umönnunar annarra fjölskyldumeðlima svo sem maka og foreldra.
  • Beita sér fyrir því í samstarfi við aðildarfélögin að viðurkenndur verði réttur launafólks til að sækja sér menntun í vinnutíma án skerðingar á launum.
  • Beita sér fyrir því að hafnar verði viðræður við stjórnvöld og samtök atvinnurekenda um rammasamkomulag um sveigjanleg starfslok sem taki tillit til ólíkra aðstæðna á vinnumarkaði.

Jafnvægi atvinnuþátttöku og einkalífs - ítarefni