Heilbrigðisþjónusta og velferðarkerfið

43. þing ASÍ krefst samfélags velferðar fyrir alla. Samfélags þar sem launafólk og allur almenningur nýtur öruggrar og góðrar heilbrigðisþjónustu og býr að traustu velferðarkerfi óháð efnahag, búsetu eða aldri.

Opinber framlög til heilbrigðismála hér á landi hafa hvergi nærri fylgt fólksfjölguninni og vaxandi þörf fyrir þjónustu á mörgum sviðum. Grundvallarstoðir opinbera heilbrigðiskerfisins hafa um árabil verið fjársveltar og undirmannaðar á sama tíma og vægi einkarekinnar heilbrigðisstarfsemi hefur vaxið hratt og aukin framlög renna til fyrirtækja sem rekin eru í hagnaðarskyni. Þá eru mörkin á milli opinberrar og einkarekinnar heilbrigðisþjónustu oft óljós þar sem sömu heilbrigðisstarfsmenn eru á báðum stöðum samtímis. Afleiðingar þessara þróunar sjást hvarvetna:

- Fjöldi fólks býður óhóflega lengi eftir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu

- Víða um land hefur dregið úr þjónustu og sjúklingar þurfa að ferðast um langan veg með tilheyrandi kostnaði og tekjutapi.

- Kostnaður sjúklinga, vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja, getur verið mjög íþyngjandi fjárhagslega eða jafnvel óyfirstíganleg, auk þess sem mikilvægir þættir heilbrigðisþjónustunnar njóta ekki greiðsluþátttöku hins opinbera.

- Vaxandi dæmi eru um að einstaklingar með alvarlega sjúkdóma fái ekki nauðsynleg lyf.

- Afleiðingin er að á Íslandi neitar fjöldi fólks sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

Vaxandi fjöldi fólks hverfur af vinnumarkaði, vegna veikinda sem oft tengjast auknu álagi og kulnun í starfi, kallar á að starfsendurhæfing verði efld til muna um leið og unnið er að koma í veg fyrir slíkt með forvörnum og úrræðum áður en í óefni er komið.

Lífaldur fer hækkandi og öldruðum mun fjölga hratt á næstu árum. Þessar breytingar kalla á aðgerðir. Staðan í málefnum aldraðra er grafalvarleg og mun fara versnandi að óbreyttu. Það á við um heimahjúkrun og þjónustu. Vandinn er enn meiri þegar kemur að dvalar- og hjúkrunarheimilum, þar sem verulega skortir á framboð á búsetuúrræðum og annarri þjónustu. Þetta veldur auknu álagi á maka og öðrum aðstandendum. Þar við bætist rekstrarvandi stofnana í öldrunarþjónustu og hvernig hann birtist starfsmönnum í ófullnægjandi starfsaðstöðu, undir mönnunar og bágum kjörum.

Í lífeyrissjóðunum hefur launafólk byggt upp verðmæt réttindi sem tryggja á að þær fjölmennu kynslóðir sem fara á eftirlaun á næstu árum verði að mestu sjálfbærar um sín eftirlaun. Enn er þó stór hópur fólks sem á ekki nægileg réttindi í sjóðunum þegar eftirlaunaaldri er náð. Þar kemur til kasta almanntrygginga sem eiga að tryggja öllum afkomuöryggi á efri árum.

Bæta þarf afkomu tekjulágra lífeyrisþega og draga frekar úr tekjutengingum í almannatryggingarkerfinu til að tryggja launafólki aukinn ávinning af lífeyrissparnaði sínum og hvetja þau sem hafa getu og vilja til þátttöku á vinnumarkaði. Þá skortir lífeyriskerfið sveigjanleika til að launafólk sem er í erfiðari störfum geti dregið úr vinnu og flýtt starfslokum, auk þess sem kerfið felur í sér kynjahalli þar sem konur hafa almennt lægri laun og styttri starfsævi.

Örorkulífeyriskerfið þarfnast víðtækrar endurskoðunar. Innleiða þarf hugmyndafræði starfsgetumats með áherslu á endurhæfingu og virkni á forsendum fólks með skerta starfsgetu. Samhliða þarf að endurskoða greiðslukerfi almannatrygginga þannig að það hvetji til virkni og atvinnuþátttöku, einfalda það og afnema krónu á móti krónu skerðingar.

Grundvallarþættir velferðarsamfélagsins s.s. aðgengi að góðri og gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu og húsnæðisöryggi eru sérstaklega mikilvægir öldruðum og öryrkjum.

Breytingar á vinnumarkaði og skipulagi vinnunnar geta haft víðtæk neikvæð áhrif á vinnumarkaðstengd  réttindi sem byggja á uppsöfnun og tengd eru föstu ráðningarsambandi við atvinnurekanda, s.s. veikindarétt, lífeyrisréttindi og orlofsrétt. Þá er ljóst að aukin tækniþróun og sjálfvirknivæðing, þar sem störf breytast og hverfa og önnur verði til, kallar á öflugri atvinnuleysistryggingar, aukin tækifæri til endurmenntunar og aðstoð til einstaklinga að finna ný störf.

Stefna ASÍ

  • Allir eiga að njóta jafns aðgengis að góðri og öflugri heilbrigðisþjónustu án tillits til búsetu og efnahags.
    • Efla verður grunnstoðir opinbera heilbrigðiskerfisins og tryggja að allir hafi aðgang að öflugri heilsugæslu í heimabyggð og nauðsynlegum lyfjum.
    • Komið verði í veg fyrir einkarekstur í heilbrigðis- og velferðarþjónustu í hagnaðarskyni og setja skýr mörk á milli opinberrar og einkarekinnar heilbrigðisþjónustu.
    • Tryggja þarf öllum landsmönnum aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu m.a. með aukinni niðurgreiðslu á ferðakostnaði.
    • Dregið verði úr kostnaðarþátttöku sjúklinga fyrir hverskonar heilbrigðisþjónustu og lyf, þannig að tryggt sé að enginn þurfi að neita sér um nauðsynlega aðstoð.
  • Stórefla þarf forvarnir og stuðning við einstaklinga sem þarfnast starfsendurhæfingar.
  • Setja þarf fram stefnu og aðgerðaráætlun í málefnum aldraðra sem tryggir þeim þjónustu og búsetuúrræði við hæfi.
  • Treysta verður afkomuöryggi aldraðra og öryrkja og auka möguleika til virkrar samfélagsþátttöku.
    • Draga verður úr tekjutengingum og afnema krónu á móti krónu skerðingar.
    • Auka möguleika fólks með skerta starfsgetu til atvinnuþátttöku.
    • Styðja eldra fólk sem hefur vilja og getu til þátttöku á vinnumarkaði og skapa nauðsynlegan sveigjanleika við starfslok.
  • Breytingar á skipulagi vinnunnar og ótryggari ráðningarform kalla á að ávinnsla og uppbygging ýmissa mikilvægra vinnumarkaðstengdra réttinda launafólks s.s. veikindaréttar, orlofsréttar og lífeyrisréttinda séu áfram tryggð.

Verkefni ASÍ

  • Beita sér í samstarfi við aðildarfélögin fyrir því að stjórnvöld móti markvissa stefnu um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins sem hafi að markmiði að allir njóti öflugrar heilbrigðisþjónustu án tillits til búsetu og efnahags með því að:
    • Efla grunnstoðir opinbera heilbrigðiskerfisins og tryggja að allir hafi aðgang að öflugri heilsugæslu í heimabyggð.
    • Tryggja öllum landsmönnum aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu.
    • Draga úr kostnaðarþátttöku sjúklinga fyrir hverskonar heilbrigðisþjónustu og lyf.
  • Beita sér fyrir samstarfi Vinnueftirlitsins, VIRK og annarra hagaðila með það að markmiði að stórefla vinnuvernd og forvarnir á vinnustöðum og stuðning til starfsendurhæfingar.
  • Krefjast aðgerðaráætlunar í málefnum aldraðra sem tryggir þeim þjónustu og búsetuúrræði við hæfi.
  • Beita sér fyrir víðtæku samstarfi aðila vinnumarkaðar, samtaka aldraðra og öryrkja og stjórnvalda um nauðsynlegar breytingum á lögum um almannatryggingar með það að markmiði að treysta afkomuöryggi aldraðra og öryrkja og auka möguleika til virkrar samfélagsþátttöku:
    • Stefnt verði að því að lækka skerðingarhlutfall í almannatryggingum í 30% og afnema með öllu króna á móti krónu skerðingum.
    • Áhersla verði lögð á af efla atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu og að eldra fólki verði skapaður nauðsynlegur sveigjanleiki við starfslok.
  • Beita sér fyrir endurskoðun á uppbyggingu og ávinnslu réttinda á vinnumarkaði í ljós breytinga á skipulagi vinnunnar.