Upplýsingar

Æðsta vald í málefnum ASÍ er í höndum þinga Alþýðusambandsins sem haldin eru á tveggja ára fresti. Hvert aðildarfélag á rétt á að senda a.m.k. einn fulltrúa á þing sambandsins. Á þingin mæta þrjú hundruð fulltrúar launafólks af öllu landinu til að móta heildarsamtökunum stefnu og starfsáætlun og velja þeim forystu.

Grundvöllur tilvistar og starfs verkalýðshreyfingarinnar er auk hefðbundinnar kjarabaráttu að berjast fyrir samfélagi jafnréttis og jafnra tækifæra.
Ísland hefur eins og hin Norðurlöndin byggt upp hagkerfi þar sem áherslan er lögð á frjáls og opin viðskipti jafnframt því sem öflugt velferðarkerfi og kjarasamningar draga úr áhættu einstaklinga á því
að þeir verði undir í lífsbaráttunni og styðja við þróun hagkerfisins. Þetta hefur m.a. leitt til þess að atvinnuþátttaka kvenna er mikil í löndunum, mannauður mikill og aðstæður fyrir nýsköpun og vöxt
góðar. Þannig hefur okkur á Norðurlöndunum tekist að nýta opin og frjáls viðskipti til að komast í hóp auðugustu ríkja veraldar og á sama tíma og við höfum nýtt öflug velferðarkerfi og kjarasamninga til
þess að tryggja framþróun hagkerfa okkar og meiri jöfnuð en víðast annars staðar í veröldinni.

En þó staða Íslands í alþjóðlegum samanburði sé almennt góð þá eru blikur á lofti. Misskipting hefur farið vaxandi í þjóðfélaginu á mörgum sviðum. Þessi þróun birtist með ýmsum hætti.
Kostnaður almennings vegna lyfja og læknisþjónustu er kominn út fyrir öll þolmörk. Tækifæri ungs fólks til að sækja sér menntun við hæfi er mikilvæg forsenda virkrar þátttöku á vinnumarkaði og starfstækifæra í framtíðinni. Menntakerfið er í dag ekki að svara kröfum um möguleika til náms sem svara þörfum einstaklinga og atvinnulífs. Þá eru sterkar vísbendingar um að hópur fólks hafi ekki lengur efni á að senda börn sín í skóla eftir að skyldunámi líkur vegna kostnaðar. Tryggt og mannsæmandi húsnæði er sjálfsögð krafa. Mikill og vaxandi fjöldi fjölskyldna og einstaklinga er á hrakhólum vegna húsnæðisskorts eða þarf að sætta sig við óásættanlegar aðstæður í húsnæðismálum af fjárhagslegum ástæðum. Þá er öllum almenningi og sérstaklega ungu fólki ómögulegt að kaupa húsnæði við núverandi aðstæður. Við þessu hefur ASÍ brugðist með því að kynna tillögur um nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd og nákvæmlega útfærðar tillögur og kostnaðarmat á nýju félagslegu húsnæðiskerfi fyrir tekjulág heimili.

Virkni og almenn atvinnuþátttaka er mikilvæg forsenda velferðarsamfélagsins. Þúsundir einstaklinga eru atvinnulausar. Þetta á ekki síst við um mikinn fjölda ungmenna sem aldrei hafa náð að festa sig í sessi á vinnumarkaði. Þá er fátækt og félagsleg einangrun í samfélaginu vaxandi vandamál sem ekki verður þolað. Við viljum ekki þessa þróun. Við viljum ekki svona samfélag. Verkalýðshreyfingin vill byggja upp réttlátt þjóðfélag. Samfélag þar sem allir fá að njóta sín og tækifæri til að blómstra, óháð efnahag.