Íslenskur vinnumarkaður

- styrkleikar og áskoranir

Frá upphafi hefur helsta verkefni verkalýðshreyfingarinnar verið að tryggja öllu launafólki mannsæmandi laun og önnur starfskjör og skapa hér á landi samfélag jafnréttis og jafnra tækifæra þar sem allir búa við góð og eftirsóknarverð lífsgæði. Þetta hlutverk verkalýðshreyfingarinnar hefur ekkert breyst í grunninn, þótt samfélagið hafi tekið stórstígum framförum og kjör og allar aðstæður alþýðufólks þar með. Verkalýðshreyfingin hefur gengt lykilhlutverki í þessari uppbyggingu og hefur náð mikilsverðum árangri á mörgum sviðum. Jafnframt er ljóst að launafólk og samtök þess standa í dag frammi fyrir nýjum áleitnum áskorunum, þar sem niðurstaðan mun hafa mikil áhrif á hagi og velferð launafólks.