Stefna ASÍ

Stefna ASÍ í vinnuverndarmálum

Réttindi launafólks á íslenskum vinnumarkaði eru óðum að verða sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndum okkar í Evrópu. Það helgast af baráttu verkalýðs­hreyf­ing­ar­innar, nánu norrænu samstarfi, samningnum um EES og alþjóðlegum mann­rétt­inda­sáttmálum. Aðild Íslands að EES og þær skyldur stjórnvalda sem henni fylgja hafa frá gildistöku samningsins fært íslensku launafólki talsverðar réttarbætur. Þess sér bæði stað í kjarasamningum og í löggjöf. Réttindi íslenskrar verkalýðshreyfingar lúta svipuðum lögmálum og annars staðar gerist en þó virðist sem samhliða auknum einstaklingsbundnum réttindum launafólks sé harðar sótt að sjálfstæðum réttindum verkalýðs­hreyfingarinnar. Gegn því verður að hamla.

Starfsöryggi, góðar vinnuaðstæður öryggi, líkamleg og andleg vellíðan á vinnustað eru með mikilvægustu hagsmuna- og réttindamálum launafólks.

Hér á landi hefur mikilvægum alþjóðlegum samþykktum og tilskipunum ESB er varða ráðningarvernd, vernd gegn órökstuddum uppsögnum, hlutastörf, tíma­bundna ráðningarsamninga, útsenda starfsmenn, upplýsingagjöf, samráð og jafnrétti ekki verið hrint í framkvæmd enn sem komið er. Að því vinnur ASÍ sjálfstætt og í samvinnu við stjórnvöld og samtök atvinnurekenda.

Við skipulagningu vinnunnar á að taka ríkt tillit til hagsmuna starfsmanna og vinnuverndarsjónarmiða. Hóflegur vinnutími, álag og góð hvíld eru mikilvægir þættir í fyrirbyggjandi vinnuvernd og velferð launafólks. Koma verður í veg fyrir að tæknibreytingar og nýr búnaður auki álag og skapi hættu á slysum og atvinnusjúkdómum.

Alhliða heilsuvernd starfsmanna er mikilvægt tæki til að stuðla að vinnuvernd og vellíðan starfsmanna. Í heilsuvernd starfsmanna ber að leggja áherslu á fyrir­byggjandi aðgerðir og hagnýtar upplýsingar til þeirra og stjórnenda.

Það er á ábyrgð atvinnurekenda að tryggja að öryggi og vinnuaðstæður starfs­manna séu í samræmi við lög og reglur og á ábyrgð starfsmanna að gæta heilsu sinnar og öryggis á vinnustað. Það er á ábyrgð stjórnvalda að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar og setja reglur um atvinnustarfsemi sem vernda launafólk og fylgja því eftir að vinnuverndarreglum sé framfylgt. Það er hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að sjá til þess að og við þessar skyldur og ábyrgð sé staðið. Það er einnig hlutverk hennar að eiga frumkvæði að úrbótum og miðla upplýsingum til félagsmanna sinna.

 

Áherslur ASÍ:

·Öryggi, góðar vinnuaðstæður, líkamleg og andleg vellíðan á vinnustað eru meðal mikilvægustu hagsmunamála launafólks.

·Heilsuvernd starfsmanna á að felast í fyrirbyggjandi aðgerðum og miðlun upplýsinga til starfsmanna og stjórnenda.

·Ný tækni og búnaður eiga að uppfylla kröfur um vinnuvernd, auðvelda störf og bæta vinnuaðstæður.

·Taka verður tillit til hagsmuna starfsmanna og vinnuverndarsjónarmiða við skipulag vinnunnar.

·Virða verður lög og samningsbundnar reglur um vinnu- og hvíldartíma.

·ASÍ vinni að því í samvinnu við stjórnvöld og forystu sjómannasamtakanna að endurskoða reglur um aðbúnað og hollustuhætti um borð í fiskiskipum.

·Efla verður rannsóknir á vinnuvernd til að draga úr vinnuslysum og atvinnusjúkdómum.

·Efla ber alþjóðlega upplýsingamiðlun og samstarf.

·Ábyrgð á öryggi og vinnuaðstæðum er á herðum atvinnurekenda.

·Stjórnvöldum ber að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar og framfylgja settum lögum og reglum.

·Mikilvægt er að starfsmenn afli sér þekkingar á vinnuverndarreglum og gangi eftir að þeim sé framfylgt.

Helstu verkefni ASÍ eru að:

·Hvetja til og taka virkan þátt í umræðu um vinnuvernd og mikilvægi hennar í samfélaginu og úti á vinnustöðunum.

·Vera vettvangur þar sem stefna verkalýðshreyfingarinnar í vinnuverndarmálum er mótuð og fylgja henni eftir gagnvart stjórnvöldum og samtökum atvinnurekenda.

·Afla upplýsinga um stöðu og þróun vinnuverndarmála á alþjóðavettvangi í gegnum alþjóðahreyfingu launafólks og miðla þeim til aðildarfélaganna og almennings.

·Að knýja á um að heilsuvernd starfsmanna verði komið á í samræmi við samþykkt stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.

·Að beita sér fyrir auknu samstarfi við Vinnueftirlitið og samtök launafólks um vinnuvernd.

·Að byggja upp sérfræðiþekkingu á sviði vinnuverndar og miðla henni til aðildarfélaganna og ráða til þess sérstakan starfsmann.