Stefna ASÍ

  • Forsíða
  • Stefna ASÍ
  • Umsagnir um þingmál
  • Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum

Reykjavík 29.apríl 2010

Tilvísun: 201004-0012

 

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, 591. mál.

Alþýðusamband Íslands hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingar á lögum nr.129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, 591.mál.

Með frumvarpinu er lögfest greiðsluskylda atvinnurekenda til greiðslu iðgjalds til Starfsendurhæfingarsjóðs sem og lögfest framlag til sjóðsins frá lífeyrissjóðum og ríkissjóði.

Aðilar vinnumarkaðarins sömdu í almennum kjarasamningum í febrúar 2008 um að hefja uppbyggingu á nýju fyrirkomulagi starfsendurhæfingar fyrir þá starfsmenn sem slasast eða veikjast til lengir tíma þannig að vinnugeta þeirra skerðist. Markmið samningsaðila var að tryggja að komið sé að málum eins snemma og kostur er til að stuðla að því að hver einstaklingur verði eins virkur á vinnumarkaði og kostur er. Samið var um að launagreiðendur hæfu greiðslu 0,13% iðgjald til nýstofnaðs Endurhæfingarsjóðs um mitt ár 2008 og jafnframt mundu ASÍ og SA beita sér fyrir því að lífeyrissjóðir á samningssviði þeirra greiði samsvarandi iðgjald til sjóðsins. Þessu til viðbótar var gert samkomulag við þáverandi ríkisstjórn, sem undirritaði yfirlýsingu þess efnis í tenglum við gerð kjarasamninganna í febrúar 2008, um að ríkissjóður leggi Endurhæfingarsjóði til sömu fjárhæð og launagreiðendur frá og með ársbyrjun 2009.

Í stöðugleikasáttmála stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins frá því í júní 2009 var framkvæmd yfirlýsingarinnar frá febrúar 2008 ítrekuð og segir þar:

„Lögfest verði gjald í Starfsendurhæfingarsjóð frá atvinnulífinu á árinu 2009. Sjóðurinn fái úr ríkissjóði 150 milljóna kr. framlag á árinu 2010. Svo fremi að áfram verði unnið á grundvelli sáttmála þessa mun framlag ríkisins í sjóðinn hækka í 250 milljónir 2011 og 350 milljónir 2012. Lögfesta skal framlög til sjóðsins frá lífeyrissjóðum þannig að greiðsla hefjist 1. júlí 2010. Lögfesta skal fyrir 1. júlí 2010 að frá og með 1. júlí 2013 greiði ríkið 0,13% af tryggingargjaldsstofni til sjóðsins og verður þá framlag ríkisins að fullu komið til greiðslu. Komið verði á samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að meta jafn óðum árangur og framhald verkefnisins.“

Alþýðusamband Íslands bindur miklar vonir við að sú áhersla, sem með stofnun Starfsendurhæfingarsjóðs, var lögð á að auka möguleika fólks til endurhæfingar í kjölfar áfalla muni skila sér í aukinni virkni þeirra á vinnumarkaði og draga markvert úr örorkutíðni á næstu árum. Til þess að svo megi verða er brýnt að tryggja með framgöngu þessa frumvarps fjármögnun sjóðsins eins og gert var ráð fyrir í upphaflegu samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda og tryggja jafnframt aðkomu alls launafólks að þeim úrræðum sem sjóðurinn veitir.

F.h. Alþýðusambands Íslands

_______________________________

Henný Hinz

hagfræðingur