Stefna ASÍ

Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010-2013

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 4. nóvember 2010
Tilvísun: 201010-0027

Efni: Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010-2013, 42. mál.

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010-2013, 42. mál.

Samkvæmt tillögunni er markmið byggðaáætlunar 2010-13 „að bæta skilyrði til búsetu, nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar í öllum landshlutum og efla menntun, menningu, samfélög og samkeppnishæfni byggða og bæja landsins...“. Til þess að ná markmiðum áætlunarinnar er lagt til að gripið verði til um þrjátíu aðgerða er falla undir átta lykilsvið.

Það er skoðun ASÍ að uppbygging grunnstoða atvinnulífsins eigi að taka mið af eðlilegum breytingum og samræmast þróun nútíma atvinnuhátta og sköpun starfa sem standa undir góðum lífskjörum í landinu. Þessi skoðun felur í sér að styrkja beri stöðu landshlutakjarna, þ.e. þess kjarna innan landshluta sem hefur mest aðdráttarafl fyrir fólk, bestu möguleika til uppbyggingar atvinnulífs, skóla, menningarlífs og opinberrar þjónustu og sem er best sett til að þjónusta nærliggjandi héruð. Sumar aðgerðirnar í tillögunni að byggðaáætlun falla vel að þessari skoðun ASÍ. Þetta á einkum við aðgerðir eins og þær sem snúa að því að auka samkeppnishæfni landshluta, hlúa að klasasamstarfi og samræma stoðþjónustu.

ASÍ fagnar sérstaklega þeirri áherslu í tillögunni sem lögð er á sjálfbæra þróun, bætt aðgengi að menntun og útrýmingu kynbundins launamunar. Á sama tíma hvetur ASÍ til að þessar áherslur verði fléttaðar betur saman – t.d. í þeirri aðgerð byggðaáætlunarinnar sem ber heitið „bætt aðgengi að menntun“. Mikilvægi þessa er augljóst þegar horft er til þess að uppbygging atvinnulífs á sjálfbærum grunni og aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum munu með margvíslegum hætti breyta forsendum atvinnu og búsetu á næstu árum.

Setja verður fram skýra áætlun sem miðar að því að aðstoða fólk að takast á við þessar breytingar með jákvæðum hætti. Aðlaga þarf menntakerfið að nýrri atvinnustefnu og gera með því ungu fólki mögulegt að taka öflugan þátt í uppbyggingunni sem framundan er. Um leið þarf að vinna markvisst að því að skapa tækifæri og hvata til menntunar og endurmenntunar fyrir fólk á vinnumarkaði þannig að það geti nýtt þau nýju tækifæri sem bjóðast. Mikilvægur liður í þessu er áætlunin um að eigi fleiri en 10% fólks á vinnumarkaði verði án viðurkenndrar starfs- eða framhaldsskólamenntunar árið 2020.

Að öðru leyti gerir ASÍ eftirfarandi athugasemdir við tillögu að byggðaáætlun:

·Heildarmyndin af aðgerðunum er ekki mjög skýr. Um er að ræða meira eða minna sjálfstæðar aðgerðir. Flokkun þeirra í átta lykilsvið virðist nokkuð handahófskennd og gerir lítið til að skýra málið. Af hverju er t.d. fiskeldi hluti af „atvinnustefnu“ en orkugeirinn undir „nýsköpun og sprotafyrirtæki“? Tengsl aðgerða við markmið áætlunarinnar liggja heldur ekki alltaf í augum uppi. Það þyrfti t.d. að útskýra betur í hverju tengsl aðgerða á sviði efnaverkfræði, líftækni, skapandi greina o.s.frv. við byggðamálin liggja. Almennt má ætla að meiri skýrleiki fengist ef árangursmat á aðgerðum tengdist með beinum hætti markmiði áætlunarinnar fremur en almennum og lítt skilgreindum þáttum eins og „árlegu mati á framþróun“ og „virkni ráðuneyta“.

·Samræming einstakra aðgerða gæti verið meiri. Þetta á m.a. við um verkefni er falla undir lykilsviðin „atvinnustefna“, og „efling stoðkerfis atvinnulífsins“. Það hlýtur t.d. að vera hagræði af því að vinna sameiginlega að verkefnunum „samkeppnishæfni og klasar“, „efling landshluta- og héraðskjarna“, „skilvirkara stoðkerfi“, „þróun og styrking vaxtarsamninga“ og „efling þekkingarsetra“. Þetta á einnig við um aðgerðir sem beinast að einstökum atvinnugreinum. Af hverju er t.d. ekki unnið að öllum orkurannsóknunum innan einnar samræmdrar aðgerðar eða þær tengdar við klasasamstarf sem þegar er fyrir hendi? Af hverju er ekki hlúð að klasasamstarfi í ferðaþjónustunni í stað þess að dreifa kröftunum í fjöldann allan af sjálfstæðum verkefnum?

·Sumar aðgerðirnar væri e.t.v. betra að halda utan við byggðaáætlunina, eða að halda þeim aðskildum frá meginaðgerðunum. Ástæðan liggur ekki í því að þetta séu óþörf verkefni. Þvert á móti mörg þeirra eru mjög mikilvæg. Hún liggur frekar í því að stundum virðist vera um að ræða vinnu sem líta má á sem eðlilega þjónustu starfandi stofnana. Það að telja þessar aðgerðir upp í byggðaáætlun gæti komið niður á skýrleika hennar. Þetta á t.d. við um aðgerðirnar „öflun tölfræðilegra gagna um byggðaþróun“ (verkefni Hagstofu Íslands), „ívilnanir vegna fjárfestinga“ (verkefni iðnaðarráðuneytis), „Impra“ (hjá Nýsköpunarmiðstöð á Akureyri), „markviss kynning á tækifærum fyrir erlendar fjárfestingar“ (verkefni Íslandsstofu), „rannsóknir og þekkingar uppbygging í ferðaþjónustu“ (verkefni Ferðamálastofu) og „rannsókn á orsökum búferlaflutninga“ (verkefni Byggðastofnunar).

·Það er ástæða til að endurskoða aðgerðina „samræming opinberra áætlana“ í ljósi þess að nú í haust voru samþykkt ný lög á alþingi um skipulagsmál þar sem einmitt er tekið á samræmingu opinberra áætlana.

·Tillögu að byggðaáætlun fylgir hvorki kostnaðarmat né áætlun um fjármögnun einstakra aðgerða. Fyrir vikið verður hún ekki eins trúverðug og ella auk þess sem hætt er við að gagnrýni og aðhald með framkvæmd hennar verði fálmkennd.

Virðingarfyllst,
Stefán Úlfarsson
Hagdeild ASÍ