Stefna ASÍ

Tillaga til þingsályktunar um stefnu og aðgerðir í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára

Reykjavík 2.12.2015
Tilvísun: 201511-0023

Efni: Tillaga til þingsályktunar um stefnu og aðgerðir í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára, 338. mál.
Alþýðusamband Íslands hefur fengið til umsagnar tillögu til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára, 338. mál.
Alþýðusambandið tekur undir meginmarkmið tillögunnar um bætta geðheilsu og virkari samfélagsþátttöku einstaklinga sem glíma við geðraskanir. Tillögunni fylgir metnaðarfull aðgerðaráætlun til næstu fjögurra ár þar sem tekið er á mörgum brýnum verkefnum. Í henni er hins vegar ekki að finna langtíma stefnumörkun í geðheilbrigðismálum sem mikilvægt er að marka.

Í lið A.9. í aðgerðaráætluninni er fjallað um að unnið verð að því að mæta uppsafnaðri þörf geðfatlaðs fólks fyrir húsnæði og þjónustu. Markmið áætlunarinnar varðandi þennan þátt er að bjóða geðfötluðum sem útskrifaðir eru af geðsviði Landspítala en dvelja enn á spítalanum vegna skorts á búsetuúrræðum húsnæði. Hér er vissulega um brýnan bráðavanda að ræða sem nauðsynlegt er að ráða bót á nú þegar. Hins vegar ber að horfa til þess að viðvarandi skortur er á viðeigandi húsnæðisúrræðum fyrir einstaklinga með geðraskanir. Biðlistar eftir húsnæði í búsetukjörnum Reykjavíkurborgar og eftir félagslegu húsnæði á vegum sveitarfélaganna og annarra sem reka húsnæðisúrræði ss. Brynja hússjóður eru langir og húsnæðisaðstæður margra ótryggar og ófullnægjandi. Aðkallandi er að móta langtímastefnu í húsnæðismálum geðfatlaðra og tryggja nægilegt framboð á hentugu húsnæði fyrir þennan hóp. Alþýðusambandið ítrekar í þessu sambandi mikilvægi þess gera gangskör í uppbyggingu á nýju félagslegu íbúðakerfi og tryggja að allir landsmenn búi við þá grundvallarvelferð að hafa húsnæðisöryggi í samræmi við þarfir.

F.h. Alþýðusambands Íslands
Henný Hinz
hagfræðingur