Stefna ASÍ

Tillaga til þingsályktunar um sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt

Reykjavík, 22. mars 2010
Tilvísun: 201003-0001

 

Efni: Tillaga til þingsályktunar um sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt, 332. mál

Á ársfundi Alþýðusambandsins í október 2009 var samþykkt ályktun um atvinnumál undir heitinu Öflugt atvinnulíf á sjálfbærum grunni. Í ályktuninni segir m.a.:

„Ísland býr yfir miklum framtíðarmöguleikum og verðmætum við atvinnuuppbyggingu sem grundvallast á sjálfbærri nýtingu auðlinda okkar; afurða til lands og sjávar, hreinnar orku og náttúrunnar. Sama gildir um þann mannauð sem í þjóðinni býr.

Með því að leggja áherslu á framangreinda þætti getum við byggt upp öflugt atvinnulíf til framtíðar á sjálfbærum grunni. Um leið erum við að bregðast með ábyrgum hætti við þeim ógnum sem steðja að náttúrunni og lífríkinu, hér á landi og hnattrænt m.a. vegna loftslagsbreytinga. Ísland hefur möguleika á að verða grænt hagkerfi sem byggir á grænum störfum. Framtíðarsýn okkar í atvinnumálum byggð á grænum gildum verður að hvíla á traustum grunni. Þar skipta eftirtaldir þættir miklu:

·Styrkja verður grunngerð samfélagsins; samgöngur, upplýsingaveitur og flutningskerfi raforku til að tryggja hagkvæma nýtingu hennar.

·Verð á orku á eftir að hækka umtalsvert á næstu árum og eftirspurn eftir endurnýjanlegri raforku margfaldast. Þrýstingur á aukna virkjun bæði fallvatna og jarðvarma mun aukast. Það er því mikilvægt að mótuð verði markviss stefna í auðlinda- og umhverfismálum, á sjálfbærum grunni. Þannig má skapa skilyrði til að íslenskt samfélag verði á næstu áratugum að mestu sjálfbært á sviði orkunýtingar með því að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir hreina orkugjafa.

·Laða þarf fram meira samstarf á sviði rannsókna og tækniþróunar þvert á fræða og fagsvið svo og yfir landamæri. Horfa þarf meira til skapandi greina s.s. á sviði lista, hönnunar og margmiðlunar.

·Auka verður fjárfestingar í framleiðslutækni sem leiðir til minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda. Fyrir liggur að áhugi og vilji á alþjóðavísu til að fjárfesta í græna geiranum fer ört vaxandi. Ef rétt er að málum staðið mun þetta leiða til nýsköpunar á mörgum sviðum. Tækifærin eru nánast óþrjótandi s.s. í orkuiðnaði, efna- og lífefnaiðnaði og endurvinnslu.

·Nýta verður möguleika sem hefðbundnar greinar íslensks atvinnulífs, sjávarútvegur og landbúnaður þ.m.t. garðyrkja og fullvinnslu afurða, eiga til að sækja fram á erlendum markaði á grundvelli hreinnar framleiðslutækni og grænna gilda. Sama gildir um ferðaþjónustuna sem býður upp á fjölbreytta þróunarmöguleika.

·Mikilvægt er að atvinnuuppbygging til framtíðar taki mið af þeim margbreytilegu kostum sem er að finna um land allt. Þar sem styrkleikar og möguleikar hvers svæðis og sköpunarkraftur íbúanna eru virkjaðir.

·Uppbygging atvinnulífs á sjálfbærum grunni og aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum þýða margháttaðar breytingar í atvinnulífinu. Störf munu tapast en í staðinn munu skapast fjölbreytt og áhugaverð störf á fjölmörgum sviðum. Setja verður fram skýra áætlun sem miðar að því að aðstoða fólk við að takast á við þessar breytingar með jákvæðum hætti. Aðlaga þarf menntakerfið að nýrri atvinnustefnu og skapa þannig ungu fólki tækifæri til að taka öflugan þátt í uppbyggingunni sem framundan er. Um leið þarf að vinna markvisst að því að skapa tækifæri og hvata til menntunar og endurmenntunar fyrir fólk á vinnumarkaði þannig að það geti nýtt þau nýju tækifæri sem bjóðast. Mikilvægur liður í þessu er áætlunin um að eigi fleiri en 10% fólks á vinnumarkaði verði án viðurkenndrar starfs- eða framhaldsskólamenntunar árið 2020.

·Við þær aðstæður sem nú ríkja í samfélaginu er afar mikilvægt að skapa ungu fólki trúverðug tækifæri í samræmi við menntun þess og framtíðarsýn sem eykur tiltrú og vilja til áframhaldandi búsetu á Íslandi. Markmiðið er að atvinnustarfsemin skapi góð störf á traustum grunni, atvinnu og hagsæld, og geti staðið undir öflugu velferðarsamfélagi að norrænni fyrirmynd.“

Markmið þingsályktunartillögunnar falla vel að framangreindum áherslum ASÍ og mælir ASÍ því með samþykkt hennar.

F.h. Alþýðusambands Íslands

Ólafur Darri Andrason

Hagfræðingur ASÍ