Stefna ASÍ

Tillaga til þingsályktunar um orkuskipti í samgöngum

Reykjavík

Tilvísun: 201101-0029

 

Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um orkuskipti í samgöngum, 403. mál.

Samkvæmt tillögunni felur Alþingi iðnaðarráðherra að móta stefnu til 2020 um minni hlut jarðefnaeldsneytis í samgöngum. Stefnan á að liggja fyrir í maí á þessu ári. Bent er á ýmsar leiðir til að ná þessu markmiði: Átak í orkusparnaði, hagrænir hvatar, rannsóknir, þróun og menntun. Einnig er lagt til að um ýmsar lykilaðgerðir verði haft öflugt samstarf atvinnulífs, sveitarfélaga og ríkis.

ASÍ hefur tekið þátt í að móta sameiginlega afstöðu hinnar norrænu verkalýðshreyfingar (NFS) í loftslagsmálum. Þar er kallað eftir víðtæku hnattrænu samkomulagi um aðgerðir til að sporna gegn losun gróðurhúsalofttegunda. Lögð er áhersla á samvinnu ríkisvalds og aðila vinnumarkaðar. Þá er talið mikilvægt að jafnræðissjónarmiða sé gætt þannig að kostnaði vegna loftslagsmála sé skipt með réttlátum hætti í samfélaginu.

Almennt má halda því fram að aðgerðir til að sporna gegn loftslagsbreytingum munu á næstu árum hafa í för með sér margháttaðar breytingar í atvinnulífinu og jafnvel á búsetu fólks. Það er því afar mikilvægt að allar slíkar aðgerðir séu grundvallaðar í skýrri, heildstæðri og samþættriumhverfis-, atvinnu- og menntastefnu – sem miðar að því að gera sem flestum fært að takast á við þessar breytingar á jákvæðan og réttlátan hátt.

ASÍ styður meginmarkmiðið í þingsályktunartillögunni um minni hlut jarðefnaeldsneytis í samgöngum. Það má hins vegar gagnrýna að þær leiðir sem boðaðar eru til að ná markmiðinu eru ekki settar fram með mjög skýrum eða heildstæðum hætti. Hvernig tengjast þær t.d. atvinnustefnu stjórnvalda, byggðaáætlun, samgönguáætlun, eða drögum að orkustefnu sem nú liggja fyrir?Hvernig tengjast þær menntastefnunni?

 

Virðingarfyllst,

Stefán Úlfarsson
Hagdeild ASÍ