Stefna ASÍ

Tillaga til þingsályktunar um mótun efnahagsáætlunar sem tryggi velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, 287. mál

Reykjavík 6. apríl 2010

Tilvísun: 201003-0013

Efni: 

Alþýðusamband Íslands hefur fengið til umsagnar tillögu til þingsályktunar um mótun efnahagsáætlunar sem tryggi velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, 287. mál.

Ísland er að takast á við mikla efnahagserfiðleika sem að stórum hluta eiga rætur sínar í óskynsamlegum ákvörðunum og/eða andvaraleysi aðila í íslensku efnahagslífi, íslenskra stjórnvalda og hjá íslenskum eftirlitsstofnunum. Orðspor Íslands hefur því beðið hnekki og við sem þjóð höfum glatað trausti. Íslensk heimili líða fyrir þessa stöðu og ekki eru neinar auðveldar leiðir út úr vandanum. Krónan hefur glatað trausti og sama má segja um mat erlendra aðila á getu ríkissjóðs til að standa við erlendar skuldbindingar sínar. Þetta eru vandamál sem erfitt er að takast á við nema með utanaðkomandi aðstoð og því var leitað eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

ASÍ var því fylgjandi því að leitað yrði eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða eins og sagði í ályktun ársfundar ASÍ frá október 2008: „...ASÍ [styður] umsókn stjórnvalda um aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í formi lánafyrirgreiðslu og ráðgjafar um mótun nýrrar efnahagsstefnu til næstu ára, enda verði skilmálar sjóðsins ásættanlegir fyrir þjóðina. Slík aðgerð legði grunn að auknum trúverðugleika Ísland ...“

Alþingi samþykkti síðan í desember 2008 tillögu til þingsályktunar um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Í athugasemdum með þingsályktuninni segir m.a.: Í kjölfar bankahrunsins í byrjun október 2008 ákvað ríkisstjórnin eins og kunnugt er að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fjárhagslega fyrirgreiðslu. Viðræður fulltrúa Íslands og sjóðsins um fyrirkomulag samstarfsins hafa staðið yfir um nokkurt skeið og unnin hefur verið ítarleg efnahagsáætlun með það að markmiði að koma á efnahagslegum stöðugleika að nýju...

Meginmarkmið efnahagsáætlunar ríkisstjórnarinnar eru í fyrsta lagi að endurvekja traust á íslenskum efnahag og ná stöðugu gengi krónunnar með markvissum og öflugum aðgerðum, í öðru lagi að styrkja stöðu ríkissjóðs og í þriðja lagi að endurreisa íslenskt bankakerfi.“


Við erum enn að takast á við mikinn efnahagsvanda. Til að vinna bug á honum þurfum við m.a. að:

- Koma jafnvægi á ríkisfjármálin þannig að standa megi vörð um velferðar- og menntakerfið til framtíðar.

- Tryggja opinberum aðilum aðgang að erlendum lánum til þess að endurfjármagna lán og koma þannig í veg fyrir að gjaldeyrisvaraforðinn klárist á næstu tveimur árum.

- Tryggja aðgang að erlendum lánamörkuðum til að geta fjárfest í frekari verðmætasköpun til framtíðar.

- Efla gjaldeyrisvaraforðann til þess að stuðla að sterkara gengi krónunnar og leggja þannig grunn að því að unnt verði að slaka á gjaldeyrishöftunum og lækka vexti.

Að mati ASÍ verður mun erfiðara að vinna að öllum þessum punktum án aðstoðar AGS. Hætt er við að komi til slita á samstarfinu kalli það á:

- Enn frekari niðurskurð hjá hinu opinbera.

- Opinberir aðilar gætu lent í því að geta ekki staðið við erlendar skuldbindingar sínar.

- Ekkert verði af fjárfestingum í stóriðju eða öðrum orkufrekari iðnaði þar sem ekki verður unnt að fjármagna nauðsynleg orkumannvirki.

- Krónan verði veikari en ella og því verði erfiðara að lækka vexti og slaka á gjaldeyrishöftunum.

Alþýðusamband Íslands telur því að þörfin fyrir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé síst minni í dag en þegar óskað var eftir henni og þau rök sem þá voru færð fyrir fram séu enn í fullu gildi. ASÍ mælir því gegn samþykkt þingsályktunartillögunnar.

F.h. Alþýðusambands Íslands

Ólafur Darri Andrason

Hagfræðingur ASÍ