Stefna ASÍ

Tillaga til þingsályktunar um lýðháskóla

Reykjavík 19. október 2015

Efni: Tillaga til þingsályktunar um lýðháskóla, 17. mál

ASÍ hefur lagt mikla áherslu á að viðurkenna mikilvægi þess að fólk sem komið er út á vinnumarkaðinn hafi tækifæri til að auka þekkingu sína og færni, einkum að fólk með litla formlega viðurkennda menntun fái „annað tækifæri til náms“ og fái það metið.

Undanfarin ár hefur verið lögð meiri áhersla á að færa menntun og fræðslu nær atvinnulífinu. Mikil umræða hefur verið síðustu misseri um mikilvægi þess að efla og bæta verk- og listnám á framhaldsskólastigi og innleiða nýja kennsluhætti. Á vettvangi framhaldsfræðslunnar starfa símenntunarstöðvar og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Lög um framhaldsfræðslu, sem samþykkt voru 2010, ásamt heildarendurskoðun á lagaumhverfi íslensks menntakerfis var ætlað að styrkja heildstæða stefnu í menntamálum, þar sem horft er á menntakerfið sem eina heild frá leikskóla til háskóla, til framhaldsfræðslu og til óformlegrar menntunar sem fer fram utan skólakerfisins.

Hugmyndafræði lýðháskóla gengur m.a. út á að búa nemendur undir lífið, hvetja til lýðræðislegrar þátttöku og að áherslan sé á hið talaða orð, umræður og rökræður og er það vel. Mikil umræða hefur verið í gangi síðustu misseri með það að markmiði að efla og bæta verk- og listnám á framhaldsskólastigi og innleiða nýja kennsluhætti. Þær 11 símenntunarstöðvar sem eru starfandi um land allt, hafa fjölbreytnina að leiðarljósi í námsframboði, ásamt því að lögð hefur verið áhersla á fjölbreytta kennsluhætti og nálgun. Þá er skoðun ASÍ að beina eigi kröftum samfélagsins og fjármunum í að efla það menntaframboð sem fyrir er, með það að markmiði að allir finni sér nám við hæfi. Það gildir um ungt fólk sem er að afla sér grunnmenntunar og þá einstaklinga sem komnir eru út á vinnumarkaðinn og vilja sækja sér frekari menntun.

Eyrún Valsdóttir
deildarstjóri Fræðsludeildar ASÍ