Stefna ASÍ

Tillaga til þingsályktunar um hagnýtingu internetsins og réttarvernd netnotenda

Reykjavík: 15.10.2014
Tilvísun: 201409-0025

Efni: Tillaga til þingsályktunar um hagnýtingu internetsins og réttarvernd netnotenda, 16. mál

Almennt er Alþýðusamband Íslands hlynnt þeim markmiðum sem ályktuninni er ætlað að stuðla að náist. Hins vegar hvað varðar framkvæmdina og einstaka þætti tillögunnar vill Alþýðusamband Íslands koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum:

Tillagan fjallar að hluta til um vinnumarkaðsmál, réttindi og skyldur þeirra sem koma hingað til starfa sem jafnframt snerta þá einstaklinga sem fyrir eru á vinnumarkaði. Alþýðusamband Íslands gagnrýnir því að í tillögunni sé ekki gert ráð fyrir að Alþýðusamband Íslands eigi fulltrúa í fyrirhuguðum starfshóp sem vinna á að markmiðum tillögunnar. Forsenda þess að ná víðtækri sátt um málið og samstilla aðgerðir sem allir hlutaðeigandi geti sæst á er sú að ekki sé fjallað um málið út frá einangruðum markmiðum t.d. þeirra fyrirtækja sem eiga beinna hagsmuna að gæta. Með vísan í framangreint krefst Alþýðusamband Íslands þess að fá að skipa sinn fulltrúa í viðkomandi starfshóp. Jafnframt bendir ASÍ á að nauðsynlegt er að velferðarráðuneytið eigi fulltrúa í starfshópnum, enda fer það ráðuneyti með málefni vinnumarkaðarins og atvinnuréttindi útlendinga.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni, nánar tiltekið greinargerð starfshóps iðnaðar- og viðskiptaráðherra um hagnýtingu internetsins í þágu nýsköpunar og atvinnuþróunar, segir m.a. undir liðnum „tillögur“ annars vegar að beint skuli til innanríkisráðuneytisins að settur verði sérstakur lagarammi um atvinnuréttindi „sérhæfðra erlendra starfsmanna“, og hins vegar að skoða þurfi möguleikann á því að „erlendir sérfræðingar“ geti fengið skattaívilnun. Framangreindu sé ætlað að auka samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja þegar kemur að því að laða til sín erlenda sérfræðinga. Hvað þetta varðar skal því haldið til haga að Alþýðusamband Íslands er að sjálfsögðu hlynnt því markmiði að íslenskt atvinnulíf eigi greiðan aðgang að mannauð sem sé nauðsynlegur til að styrkja íslenskt atvinnulíf. Hins vegar skal því haldið til haga að mikilvægt er að ræða hugsanlegar sérmeðferðir af yfirvegun:

1. Í greinargerð starfshóps iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem fylgir með frumvarpinu er hvoru tveggja talað um „sérhæfða“ erlenda starfsmenn og „sérfræðinga“ án þess að þessi hugtök séu skilgreind nánar. Nauðsynlegt er að taka á þessu álitaefni þannig að engum vafa sé undirorpið hvað átt er við. Mikilvægt að er það verði gert og nauðsynlegt að velferðarráðuneytið og Alþýðusambandið komi að þeirri vinnu.

2. Hvað varðar reglur um mögulega flýtimeðferð vegna afgreiðslu atvinnuleyfa til útlendinga er mikilvægt að leggja mat á núverandi fyrirkomulag, hvaða hindranir eru í veginum og hvernig best sé að taka á þeim. Komið hafa fram athugasemdir við núverandi fyrirkomulag sem sannanlega standast ekki samkvæmt þeim upplýsingum sem komið hafa fram af hálfu Útlendingastofnunar og Vinnumálastofnunar.

Hvað varðar skattaívilnanir þá er um frávik frá grundvallarreglunni um jafnræði að ræða og því mikilvægt að ræða almennt séð um hvort og þá hvenær skattaívilnanir geti átt rétt á sér m.a. vegna mögulegra áhrifa þeirra fyrir vinnumarkaðinn. Jafnframt verður sú umræða að vera miklu víðtækari en einungis hvað varðar hagsmuni ákveðins þáttar íslensks atvinnulífs. Alþýðusamband Íslands lýsir sig að sjálfsögðu reiðubúið að taka þátt í slíkri umræðu.


Virðingarfyllst,
Halldór Oddsson,
lögfræðingur hjá ASÍ