Stefna ASÍ

Tillaga til þingsályktunar um fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamning Íslands og Kólumbíu

Nefndarsvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík 29. nóvember 2010
Tilvísun: 201011-0024

Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamning Íslands og Kólumbíu, 81. mál.

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar tillaga til þingsályktunar um fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamning Íslands og Kólumbíu, 81. mál.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Lýðveldisins Kólumbíu sem undirritaður var í Genf 25. nóvember 2008.

Alþýðusamband Íslands telur mikilvægt að benda á að ágreiningur var um gerð fríverslunarsamningsins á vettvangi EFTA meðan hann var í vinnslu og eftir að hann lá fyrir. Málið var ítrekað til umræðu, m.a. á vettvangi Ráðgjafarnefndar EFTA sem setti fram sérstakar tillögur um félagsleg ákvæði í viðskipta-samningum. Af hálfu verkalýðshreyfingarinnar í Noregi og á Íslandi var hvatt til þess að slíkur samningur við Kólumbíu yrði ekki gerður nema þá ef tekin væru af öll tvímæli um skyldur Kólumbíu til að virða mannréttindi íbúa landsins og réttindi launafólks til að stofna og starfrækja verkalýðsfélög.

Sú umræða sem varð á vettvangi EFTA um mannréttindamál og félagsleg réttindi í tengslum við fríverslunarsamninginn við Kólumbíu byggði á þeirri staðreynd að Kólumbía er illræmd meðal þjóða heims fyrir að þar líðast gróf mannréttindabrot og ofbeldi gagnvart verkalýðsfélögum og þeim sem þar eru í forsvari. Nægir í því sambandi að benda á könnun Alþjóðasambands verkalýðsfélaga (ITUC) á mannréttindabrotum og ofbeldi gegn verkalýðsfélögum sem kom út fyrr á þessu ári. Þar kemur m.a. fram að ástandið í Kólumbíu fer síst batnandi. Þannig voru á árinu 2009 voru 48 félagar í verkalýðshreyfingunni myrtir vegna þátttöku sinnar og starfa fyrir hana. Þar af 22 forystumenn. Sjá nánar: http://survey.ituc-csi.org/+-Colombia-+.html.

Umræðan um gerð fríverslunarsamningsins við Kólumbíu varð til þess að á ráðherrafundi EFTA í Reykjavík í júní á þessu ári var samþykkt fyrirmynd af ákvæðum í fríverslunarsamningum um sjálfbæra þróun (e. model provisions on sustainable development), þar sem bæði er tekið á umhverfismálum og réttindum launafólks.

Fyrir liggur að fríverslunarsamningurinn við Kólumbíu hefur þegar verið undirritaður og staðfestur af einhverjum þeirra ríkja sem að honum standa. Jafnframt liggur fyrir að samningurinn hefur ekki ennþá verið lagður fyrir Norska Stórþingið til staðfestingar. Ástæða þess er að ríkisstjórn Noregs hefur ekki enn tekið ákvörðun um með hvaða hætti samningurinn verður lagður fyrir þingið. Þar hafa bæði komið til álita að reyna að fá samningnum breytt þannig að inn í hann verði sett ákvæði í samræmi við fyrirmyndina sem samþykkt var af ráðherrum EFTA ríkjanna í júní sl. eða að samningnum fylgi af hálfu Norðmanna einhvers konar yfirlýsing er taki á mannréttindamálum í Kólumbíu.

Alþýðusamband Íslands hvetur Alþingi og stjórnvöld hér á landi til þess að taka upp samstarf við Norðmenn um afgreiðslu málsins og eftirfylgni.

Virðingarfyllst,
Stefán Úlfarsson
Hagdeild ASÍ