Stefna ASÍ

Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda

Reykjavík, 14. maí 2008

Tilvísun: 200804-0046

 

 

Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda, 535. mál

Umsögn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjanda. Lögð fyrir 135. löggjafarþing 2007-2008.

Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) hefur borist framangreint tillaga að þingsályktun til umsagnar. Það er skoðun ASÍ að hér sé um markvert framtak að ræða sem er til þess fallið að treysta og bæta stöðu innflytjenda í íslensku samfélagi. Mikilvægt er að áætlunin verði endurskoðuð og endurbætt í ljósi breyttra aðstæðna og þeirrar reynslu sem fæst af framkvæmd áætlunarinnar að tveim árum liðnum, eins og fram kemur í samþykkt ríkisstjórnarinnar sem fylgir sem athugasemd með tillögunni.

Alþýðusambandið væntir mikils af samstarfi við stjórnvöld og aðra aðila sem málið varðar í málefnum innflytjenda, enda ljóst að verkalýðshreyfingin hefur á undangengnum árum aflað sér mikillar reynslu og þekkingar í málaflokknum sem áfram verður byggt ofan á. ASÍ telur mikilvægt að stjórnvöld nýti sem best þessa þekkingu og reynslu í verkum sínum. Þá vill ASÍ árétta þá skoðun sína að mjög mikilvægt sé að samræma og skapa sem besta heildaryfirsýn yfir upplýsingagjöf til innflytjenda um íslenskt samfélag, réttindi þeirra og skyldur.

Á bls. 24 í athugasemdunum er vísað til Fræðsluskrifsstofu atvinnulífsins. Þar á væntanlega að standa Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Í ljósi framanritaðs leggur Alþýðusamband Íslands til að þingsályktunartillagan verði samþykkt.

Virðingarfyllst

Halldór Grönvold

aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ