Stefna ASÍ

Tillaga til þingsályktunar um fjármálastefnu og fjármálaáætlun fyrir árin 2017-2021

Reykjavík 20.maí 2016
Tilvísun: 201605-0006/7


Efni: Tillaga til þingsályktunar um fjármálastefnu og fjármálaáætlun fyrir árin 2017-2021, 740. og 741. mál

Í ályktun miðstjórnar ASÍ um ríkisfjármálaáætlun 2017-2021 frá 18. maí sl. segir:

Miðstjórn Alþýðusambandsins gagnrýnir harðlega forgangsröðun í ríkisfjármálum sem fram kemur í þingsályktun um fjármálaáætlun fyrir árin 2017-2021. Í áætluninni er hvorki að finna merki þess að efnahagsstefna stjórnvalda til næstu ára muni treysta efnahagslegan stöðugleika né undirbyggja félagslega velferð og aukinn jöfnuð í samfélaginu.
Slaki í ríkisfjármálum samhliða vaxandi spennu í hagkerfinu og uppgangi á vinnumarkaði mun ýta undir ofþenslu og óstöðugleika og vinna gegn peningamálastefnunni. Það mun auka verðbólguþrýsting og hækka vexti.

Samhliða þessu er misskipting aukin og dregið úr félagslegum stöðugleika með því að veikja mikilvæg stuðningskerfi á borð við barna- og húsnæðisbótakerfin. Brýnar velferðarumbætur eins og uppbygging félagslegs húsnæðiskerfis, innleiðing nýs húsnæðisbótakerfis og endurskoðun almannatrygginga eru án fullnægjandi fjármögnunar í áætluninni.
Ekki er tryggð nauðsynleg fjármögnun á þjónustu heilbrigðiskerfisins og lækkun á sjúklinga. Í allt of ríkum mæli byggir framtíðarsýn stjórnvalda í velferðarmálum á þeirri forsendu, að jöfnun byrða eigi að afmarkast við viðkomandi hópa. Þannig á að fjármagna þak á útgjöld til heilbrigðismála með hækkun á almenna þjónustu, fjármagna á félagslegt húsnæðiskerfi og húsnæðisbótakerfi með skerðingum á öðrum þáttum velferðarkerfisins og breytingar á almannatryggingakerfinu eiga í of ríkum mæli að fjármagnast með auknum tekjutengingum.

Þessi stefnumörkun stjórnvalda styður á engan hátt við þau markmið sem sett voru fram í rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins, um bætt og breytt vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Rammasamkomulag þessara aðila byggir á sameiginlegri ábyrgð á eflingu kaupmáttar byggðum á efnahagslegum og félagslegum stöðugleika. Verkalýðshreyfingin mun ekki sætta sig við að stjórnvöld skili auðu og leggi enn og aftur byrðarnar á herðar launafólks.

Alþýðusambandið fagnar þeim breyttu vinnubrögðum sem nýleg lög um opinber fjármál kveða á um varðandi framlagningu fjármálaáætlunar um markmið í opinberum fjármál til næstu fimm ára. Að setja slíkan ramma er mikilvægur liður í að skapa aga og yfirsýn um rekstur hins opinbera og móta stefnu á langtímagrundvelli. Sú forgangsröðun sem birtist í áætluninni veldur hins vegar verulegum vonbrigðum einkum í ljósi þeirrar samræðu og vinnu sem staðið hefur yfir undanfarin misseri við innleiðingu á nýju samningalíkani á íslenskum vinnumarkaði.
Seðlabankinn bendir á í Peningamálum á að nokkur slaki sé nú þegar til staðar í ríkisfjármálunum sem er samdóma mati hagdeildar ASÍ. Áætlunin gerir ráð fyrir áframhaldandi slaka samhliða vaxandi spennu í hagkerfinu og uppgangi á vinnumarkaði sem ýtir undir ofþenslu og óstöðugleika og vinnur gegn peningamálastefnunni. Afleiðingarnar og viðbrögð Seðlabankans eru fyrirsjáanleg. Verðbólguþrýstingur eykst, vextir hækka og þrýstingur á gengi krónunnar eykst.

Í fjármálaáætluninni birtast vísbendingar um hvernig stjórnvöld hyggjast nýta opinber fjármál til að forgangsraða verkefnum og skipta byrðum í samfélaginu næstu árin. Það er mat ASÍ að sú stefna sem sett er fram í áætluninni viðhaldi þeirri vegferð sem stjórnvöld hafa verið á við að auka misskiptingu og veikja innviði velferðarsamfélagsins. Frá byrjun kjörtímabilsins hafa skattkerfisbreytingar einkum miðað að því að lækka skatta á tekjuhærri heimili og eignafólk en þar er skemmst að minnast afnáms auðlegðarskatts og lækkun veiðigjalda auk þess sem fyrir liggur að 80 milljarða króna framlag sem varið var til lækkun verðtryggðra húsnæðislána féll tekjuhærri heimilum í skaut í mun meira mæli en þeim tekjulægri. Samhliða þessu hafa jöfnunartæki á borð við barnabætur, vaxtabætur og húsaleigubætur markvisst verið veikt sem dregur úr vægi og jöfnunarhlutverki stuðningskerfana. Ekki er annað að sjá en að þessari meginstefnu sé áfram fylgt í nýrri fjármálaáætlun og gert sé ráð fyrir að veikja stuðningskerfin enn frekar og þrengja þann hóp sem þau ná til. Þetta eykur ójöfnuð og grefur undan félagslegum stöðugleika.

Velferðarumbætur á borð við uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis og innleiðingu nýs húsnæðisbótakerfis eru ófjármagnaðar í áætluninni og ekki annað að sjá en að gert sé ráð fyrir að draga úr öðrum húsnæðisstuðningi til að fjármagna þær. Stefnan er þannig að jafna innan þess hóps sem þarf húsnæðisstuðning en ekki milli hans og annarra hópa. Þetta er svipuð stefna og mörkuð er gagnvart gjaldtöku af sjúklingum í heilbrigðiskerfinu þar sem ekki er lagt fram neitt viðbótarfjármagn heldur einungis gert ráð fyrir að jafna kostnaði innan þess hóps sem þarf heilbrigðisþjónustu. Óljóst er sömuleiðis hvernig fjármagna á brýnar umbætur í almannatryggingakerfinu sem samstaða er um að nauðsynlegt sé að ráðast í. Þessi hugmyndafræði er ekki til þess falinn að dreifa byrðum og auka jöfnuð.

Ekki grundvöllur að nýju samningamódeli á vinnumarkaði
Síðastliðið haust undirrituðu aðilar vinnumarkaðarins rammasamkomulag um bætt og breytt vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Samkomulagið byggir á að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld axli sameiginlega ábyrgð á því að auka kaupmátt byggðan á efnahagslegum og félagslegum stöðugleika. Í því sambandi hefur verið horft til hinna Norðurlandanna um fyrirmyndir. Afstaða Alþýðusambandsins til nýs samningalíkans hefur ávallt byggt á því að eining um trausta félagslega velferð sé órjúfanleg forsenda þess að launafólk axli ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika í kjarasamningum. Ljóst er að sú stefnumörkun stjórnvalda í opinberum fjármálum sem birtist í fjármálaáætluninni er ekki sá nauðsynlegi grundvöllur að nýju samningamódeli á íslenskum vinnumarkaði sem til þarf.

Til að treysta efnahagslegan stöðugleika og félagslega velferð sem skapar grundvöll fyrir nýtt samningamódel á vinnumarkaði leggur ASÍ til að:
• Skattkerfisbreytingar verði endurskoðaðar og m.a. horft til þess að:
o Tekinn verði að nýju upp auðlegðarskattur
o Veiðigjöld verði hækkuð
o Lagður verði alvöru hátekjuskattur á ofurlaun
• Barna- og húsnæðisbótakerfin verði efld sem mikilvæg tekjujöfnunartæki ekki síst fyrir ungt fólk
• Nægilegu fjármagni verði varið í myndarlega uppbyggingu á nýju leiguíbúðakerfi til að leysa húsnæðisvanda tekjulágra heimila
• Heilbrigðiskerfinu og öldrunarþjónustunni verði tryggt nægilegt rekstrarfé og dregið verði úr greiðsluþátttöku sjúklinga
• Fjármagn verði tryggt til nauðsynlegra umbóta á almannatryggingakerfinu sem bæta samspil við lífeyrissjóðina og auka áherslu á starfsendurhæfingu
• Fæðingarorlofsgreiðslur verði hækkaðar og fæðingarorlof lengt til samræmis við niðurstöður starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum


Henný Hinz,
hagfræðingur ASÍ