Stefna ASÍ

Tillaga til þingsályktunar um bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum

Reykjavík 21.október 2015
Tilvísun: 201510-0003

Efni: Tillaga til þingsályktunar um bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum, 15. mál.

Alþýðusambandið tekur undir það sjónarmið sem fram kemur í tillögunni að nauðsynlegt sé að stjórnvöld grípi nú þegar til aðgerða til að bregðast við þeim mikla vanda sem við blasir á húsnæðismarkaði þar sem stórir hópar fólks búa við viðvarandi óöryggi í húsnæðismálum og húsnæðiskostnað sem er svo hátt hlutfall tekna að af hlýst verulegur fjárhagslegur og félagslegur vandi.

Í ályktun 41. Þings Alþýðusambands Íslands um húsnæðismál segir:

Efndir ekki nefndir
Aðgangur að öruggu húsnæði á viðráðanlegum kjörum eru mannréttindi – ekki forréttindi. Stórir hópar í okkar samfélagi eru utanveltu á húsnæðismarkaði, hafa ekki bolmagn til kaupa á húsnæði, ráða ekki við að greiða markaðsleigu og fá ekki aðgang að félagslegu húsnæði. Þingfulltrúar krefjast því tafarlausra aðgerða í húsnæðismálum.

Nú þegar þarf að koma á húsnæðisbótakerfi í stað vaxta- og húsaleigubóta sem taki mið af fjölskyldustærð og tekjum og tryggi sambærilegan stuðning við leigjendur og kaupendur húsnæðis. 41. þing ASÍ telur að um þetta hafi verið rætt nógu lengi og krefst athafna nú þegar.

Þingið krefst þess að ríki og sveitarfélög skapi nú þegar hagstæðari umgjörð fyrir uppbyggingu almennra húsaleigufélaga sem boðið geta öruggt framtíðarhúsnæði.

Þingfulltrúar krefjast þess að stjórnvöld setji þegar í stað verulegt fjármagn í uppbyggingu á félagslegu leiguhúsnæði sem geri lágtekjufólki kleift að búa við húsnæðisöryggi á viðráðanlegum kjörum.

Koma þarf á nýju húsnæðislánakerfi sem tryggir heimilum hagstæðari fjármögnun íbúðarhúsnæðis og dreifir áhættu við efnahagsáföll með réttlátari hætti milli lántakenda og lánveitenda. Leita þarf leiða til að auðvelda ungu fólki að eignast húsnæði. Þetta má m.a. gera með því að hvetja til sérstaks húsnæðissparnaðar með skattaívilnun.
Verkalýðshreyfingin hefur löngum haft forgöngu um lausnir í húsnæðismálum. Alþýðusamband Íslands hefur þegar lagt fram ítarlegar tillögur í húsnæðismálum og bent á leiðir til úrbóta.

Stjórnvöld bera ábyrgð á því ófremdarástandi sem nú ríkir í húsnæðismálum og ber félags- og húsnæðismálaráðherra ekki bara skylda til að veita málaflokknum forystu og finna lausnir heldur einnig að veita nauðsynlegum fjármunum til málaflokksins. Til þess eru stjórnmálamenn kosnir.
Fulltrúar á 41. þingi Alþýðusambands Íslands krefjast úrbóta nú þegar því margir félaga okkar eru í húsnæðiserfiðleikum og geta ekki beðið lengur. Ekki fleiri nefndarfundi, nú er kominn tími á efndir.

Alþýðusambandið hefur á undanförum árum ítrekað bent á þann mikla vanda sem steðjar að á húsnæðismarkaði og nauðsyn þess móta heildstæða langtímastefnu í húsnæðismálum. Mikil vinna hefur verið lögð í hugmyndavinnu og stefnumótun í húsnæðismálum á vegum stjórnvalda sem ASÍ hefur átt aðkomu að ásamt breiðum hópi hagsmunaaðila. Þá hefur ASÍ lagt fram útfærðar tillögur að uppbyggingu og fjármögnun á félagslegu húsnæðiskerfi með aðkomu ríkis og sveitarfélaga sem tryggir tekjulægri heimilum og ungu fólki viðráðanlegan húsnæðiskostnað og húsnæðisöryggi. Húsnæðismál skipuðu einnig veigamikinn þátt við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði sl. vor og lagði verkalýðshreyfingin ríka áherslu á að stjórnvöld gerðu tafarlaust úrbætur í brýnum húsnæðismálum. Lýstu stjórnvöld því þá m.a. yfir að lagður yrði grunnur að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi með aðkomu ríkis og sveitarfélaga og ráðist í byggingu 2.300 nýrra íbúða innan þess, stuðningur við leigjendur yrði aukinn með nýjum húsnæðisbótum, skattlagning leigutekna af einni íbúð endurskoðuð og stutt við þá sem kaupa sína fyrstu íbúð. Nauðsynlegar lagabreytingar vegna þessa skyldi afgreiða eigi síðar en á haustþingi 2015.
Alþýðusambandið skorðar því á Alþingi að beita sér fyrir því að þær nauðsynlegu aðgerðir í húsnæðismálum, sem fyrir liggur að ráðast þurfi í og samið hefur verið um, verði tafarlaust hrint í framkvæmd. Hér um eitt brýnasta velferðar- og lífskjaramál launafólks að ræða sem ekki þolir lengri bið.

F.h. Alþýðusambands Íslands
Henný Hinz
hagfræðingur