Stefna ASÍ

Tillaga til þingsályktunar um afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu

Reykjavík, 21. apríl 2010

Tilvísun: 200910-0019

 

Efni: Tillaga til þingsályktunar um afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu, 11 mál.

Nýafstaðinn ársfundur ASÍ ályktaði um efnahags-, kjara- og atvinnumál þar sem m.a. var fjallað um ákvörðun umhverfisráðherra varðandi Suðvesturlínu og fleiri þætti sem áhrif geta haft á ákvarðanir um fjárfestingar og nýsköpun. Í ályktun ársfundarins um atvinnumál segir m.a.:

„Með Stöðugleikasáttmálanum skuldbundu stjórnvöld sig til að greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda s.s. álveranna í Straumsvík og í Helguvík. Með aðgerðum sínum á síðustu vikum hafa stjórnvöld hins vegar sett þessar framkvæmdir í uppnám. Slík framganga er óþolandi og er þess krafist að þau standi nú þegar við sitt.“

Í ályktun fundarins um efnahags- og kjaramál segir m.a.:

„Ársfundurinn krefst þess að ríkisstjórnin beiti sér af fullum þunga fyrir framgangi [Stöðugleika]sáttmálans og standi við gefin fyrirheit. Fundurinn lýsir yfir miklum vonbrigðum með vanefndir ríkisstjórnarinnar og telur það með öllu óásættanlegt að ráðherrar ríkisstjórnarinnar fari gegn sáttmálanum eins og umhverfisráðherra gerði með nýlegri ákvörðun sinni um Suðvestur-línu og komi þannig fjárfestingum og nýsköpun í frekara uppnám.“

Alþýðusamband Íslands tekur því undir efni tillögunnar og mælir með samþykkt hennar.

F.h. Alþýðusamband Íslands

Ólafur Darri Andrason

Hagfræðingur ASÍ