Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um vernd og orkunýtingu landsvæða

Reykjavík, 07.05.2012
Tilvísun: 201204-0017

Efni: Þingsályktunartillaga um vernd og orkunýtingu landsvæða, 727. mál

Sjálfbær nýting auðlinda landsins er þjóðhagslega mikilvæg og er grunnur að samfélagslegri velferð og bættum lífsskilyrðum landsmanna sem verkalýðshreyfingin berst fyrir. Í ljósi þessa lýsir ASÍ yfir ánægju með að ráðist hafi verið í gerð áætlunar um vernd og orkunýtingu landssvæða. Það er mat sambandsins að þau drög að þingsályktunartillögu sem send voru til umsagnar síðastliðið haust hafi verið faglega unnin og vel rökstudd. ASÍ studdi að drögin yrðu lögð óbreytt fyrir þingið.

ASÍ gerir alvarlegar athugasemdir við þá tillögu til þingsályktunar sem hér er til umfjöllunar. Veigamiklar breytingar hafa verið gerðar á tillögunni frá þeim drögum sem kynnt voru sl. haust. Sex virkjanakostir; Hvammsvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Skrokkalda, Hágönguvirkjun I og Hágönguvirkjun II, sem skv. drögum að þingsályktunartillögu flokkuðust í nýtingarflokk eru nú flokkaðir í biðflokk. Í biðflokk er einungis gert ráð fyrir að setja þá virkjanakosti þar sem upplýsingar skortir til að hægt sé að ákvarða hvort setja eigi viðkomandi virkjunarkost í verndarflokk eða nýtingu.

Til að tryggja faglega umfjöllun lögðu faghópar mat á gæði þeirra gagna sem þeir byggðu mat sitt á. Var gæðamatinu skipt í fjóra flokka:
A. Mjög góð gögn sem að mestu nægja fyrir umhverfisáhrifum.
B. Góð gögn sem nægja fyrir mat rammaáætlunar.
C. Sæmileg gögn sem tæpast nægja fyrri mat rammaáætlunar.
D. Ónóg gögn fyrir mat.
Gögn þriggja virkjanakosta, þ.e. Hvammsvirkjunar, Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar, sem nú er lagt til að fari í biðflokk fengu fullt hús stiga (A) hjá öllum faghópunum. Þau rök sem færð eru fyrir tilflutningi þessara virkjanakosta úr nýtingarflokki í biðflokk eru því ótrúverðug og ekki byggð á faglegum vinnubrögðum.
Rökin fyrir því að færa Skrokköldu, Hágönguvirkjun I og Hágönguvirkjun II úr virkjanaflokki í biðflokk eru að í faglegri vinnu við undirbúning rammaáætlunar hafi ekki verið tekið tillit til þeirra viðmiða sem stuðst var við þegar Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður. Það er sérkennilegt að breyta forsendum fyrir faglegu mati þegar það liggur fyrir og er að mati ASÍ ekki ásættanleg vinnubrögð.

ASÍ telur mikilvægt að Alþingi standi vörð um þau faglegu vinnubrögð sem einkennt hafa þá miklu og löngu undirbúningsvinnu sem að baki Rammaáætlunar liggur. Þá telur ASÍ mikilvægt að sú breiða sátt um fagleg vinnubrögð sem einkennt hefur allt undirbúningsferlið verði ekki rofin á loka metrum vinnunnar við áætlunina.
ASÍ mælist því til að umræddir sex virkjanakostir verði færðir úr biðflokki í nýtingarflokk í meðförum Alþingis.

F.h. Alþýðusambands Íslands
Ólafur Darri Andrason,
hagfræðingur ASÍ