Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði

Reykjavík 9. nóvember 2011

           Tilvísun:201110-001

 

Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði, 12. mál

Alþýðusambandið fagnar framlagningu þessarar þingsályktunar og telur það vera tímabært að gerð verði heildstæð úttekt á réttarstöðu neytenda á fjármálamarkaði og skilgreint hvernig neytendavernd verði best fyrir komið.

Frá hruni þriggja stærstu bankanna haustið 2008 hafa komið í ljós ýmsir ágallar á neytendavernd á fjármálamarkaði sem endurspeglast í fjölda dómsmála í kjölfar bankahrunsins. Þrátt fyrir að nokkrar bætur hafi verið gerðar á löggjöf sem lúta að neytendavernd á fjármálamarkaði á umliðnum árum hafa þær að mestu beinst að því að bregðast við vandamálum sem komið hafa upp í kjölfar falls bankanna. Það er því rétt að staldra við og skoða núverandi lagaumhverfi með það í huga að styrkja stöðu neytenda.

Í greinargerðinni sem fylgir með þingsályktunartillögunni er lagt til að forsætisráðherra skipi formann nefndarinnar, en efnahags- og viðskiptaráðherra, innanríkisráðherra og velferðarráðherra skipi hver sinn fulltrúar í nefndina. Auk þess tilnefni Neytendasamtökin og samtök fjármálafyrirtækja fulltrúa í nefndina. Í greinargerðinni er ekki gert ráð fyrir að ASÍ eigi fulltrúa í nefndinni, en í stað þess er lagt til að nefndin eigi gott samstarf við hagsmunasamtök á borð við ASÍ, BSRB, BHM og Hagsmunasamtök heimilanna.

Alþýðusambandið hefur um árabil látið neytendamál og neytendavernd til sín taka og gott dæmi um það er öflugt starf á sviði verðlagseftirlits. Auk þessa er Alþýðusambandið fjölmennustu heildarsamtök launafólks á landinu. Alþýðusambandið leggur því til að sambandinu verði gefinn kostur á að tilnefna fulltrúa í nefndina. Að öðru leyti tekur ASÍ undir þingsályktunartillöguna og hvetur til þess að hún verði samþykkt.

Virðingarfyllst,
Ingunn S. Þorsteinsdóttir,
hagfræðingur hjá ASÍ