Stefna ASÍ

Þingsályktunartillaga um úttekt á hækkun rafmagnsverðs

Þingsályktunartillaga um úttekt á hækkun rafmagnsverðs, 5. mál

Alþýðusambandið telur að orkan sé ein af mikilvægustu forsendum lífskjara hér á landi og að framtíðar uppbygging í atvinnumálum byggist að miklu leyti á hagkvæmri orku. Í því ljósi er mikilvægt að fylgjast með þróun raforkuverðs.

 Þegar breytingar voru gerðar á skipulagi raforkumarkaðar árið 2004 varaði Alþýðusambandið við því, í svo kallaðri 19 manna nefnd, sem iðnaðarráðherra skipaði til að fjalla um fyrirkomulag flutnings og dreifingu á raforku, að breytingarnar myndu leiða til tugprósenta hækkunar á raforkuverði til heimila og fyrirtækja. Þetta virðist hafa gengið eftir. Athuganir verðlagseftirlits Alþýðusambandsins hafa leitt í ljós að kostnaður heimilanna við raforkukaup hefur hækkað mismunandi eftir landssvæðum. Sumstaðar hefur kostnaðurinn lækkað lítillega en annars staðar hefur hann hækkað um allt að 48%. Engar haldbærar skýringar hafa fengist á verðlagsbreytingunum, einkum miklum hækkunum á fastagjöldum. Því telur Alþýðusambandið mikilvægt að fram fari ítarleg úttekt á verðmyndun raforku.

 Í þessu sambandi er einnig vert að benda á að langt er í land að skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku. En það var eitt af meginmarkmiðum skipulagsbreytinga á raforkumarkaði. Þvert á móti hefur dregið úr samkeppni vegna aukinnar samþjöppunar í framleiðslu á raforku. Auk þess hefur enn ekki náðst að skapa grundvöll fyrir samkeppni í raforkusölu til heimila og fyrritækja. Verðmunur á milli hæsta og lægsta verðs er mjög lítill og ávinningur heimilanna af því að skipta um raforkusala verður minni en enginn þegar búið er að taka tillit til kostnaðar við skiptin.

 Alþýðusambandi tekur því undir þingsályktunartillöguna og leggur til að hún verði samþykkt.

 

F. h. Alþýðusambands Íslands,

 Ingunn S. Þorsteinsdóttir,

hagfræðingur hjá ASÍ