Stefna ASÍ

þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins, 88. mál

Reykjavík, 28. nóvember 2010

Tilvísun: 201011-0035

 

Efni: Tillaga til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins, 88. mál.

Á ársfundi Alþýðusambands Íslands sem haldinn var 23. og 24. október 2008 var samþykkt ályktun þar sem segir m.a.:

„Það er skoðun ASÍ að yfirlýsing um að sótt verði um aðild Íslands að ESB og upptöku evru sé eina færa leiðin. Þannig verði látið á það reyna í aðildarviðræðum hvaða samningur Íslandi standi til boða og hann lagður fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu.“

Þessi afstaða var síðan áréttuð á aukaársfundi ASÍ í mars 2009.

Á grunni framangreindrar afstöðu taka fulltrúar Alþýðusambandsins virkan þátt í starfi þeirra samningahópa sem undirbúið hafa aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið og taka munu þátt í að móta samningsmarkmið Íslands í aðildarviðræðunum á grundvelli samþykktar Alþingis frá því 19. júlí 2009 og nefndarálits meirihluta utanríkismálanefndar sem henni fylgdi. Það er markmið Alþýðusambandsins með þátttöku í starfi samningahópanna og annars staðar þar sem aðildarviðræðurnar við ESB eru á dagskrá að ná sem bestum samningi fyrir Ísland og íslenskt launafólk. Það verður síðan íslensku þjóðarinnar að ákveða í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hún vill ganga í Evrópusambandið á grundvelli þess samnings sem gerður verður.

Í ljósi framanritaðs leggur Alþýðusamband Íslands til að þingsályktunartillagan verði felld.

Virðingarfyllst,

F.h. Alþýðusambands Íslands


Halldór Grönvold,

aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ